Árið 1936 - Álit og tillögur um nýjar þrær við síldarverksmiðjur ríkisins.

Einherji, 13. ágúst 1936 ---- Grein: Þorkell Clementz

Það er ekki að ófyrirsynju að byrjað er að tala um hvernig ráða megi bót á þeirri eyðileggingu síldar og tíma sem árlega á sér stað við síldarbryggjurnar á Siglufirði í júlímánuði.

Eyðileggingin er, í því fólgin að skipin geta ekki losað við sig síldina, en verða dögum saman að liggja með hann og bíða eftir að pláss losni í þróm verksmiðjanna.

Í skipunum skemmist síldin svo að dæmi eru til að hún sé alveg orðin verðmætislaus þegar loksins er hægt að taka við henni, og skipið hefir þá orðið að fara, út á fjörðinn með aflann og moka honum í sjóinn aftur.

Þessu vandræðaástandi hefir þegar oft verið lýst fyrir þjóðinni í blöðunum og nú síðast af Jóni Sigurðssyni í Alþýðublaðinu og Neista, ennfremur Sveini Benediktssyni og Jóni Fannberg í Morgunblaðinu, og máski fleirum, þó mér sé það ekki kunnugt.

Þorkell Clementz verkfræðingur

Þorkell Clementz verkfræðingur

Allir þessir menn hafa svo lagt til að þrær verksmiðjanna verði stækkaðar, og er það mjög eðlilegt, því væru til fleiri þrær mætti auðvitað losa skipin jafn óðum og þau kæmu inn og pláss entist í hinum nýju þróm.

Veiðiafköst flotans og bræðslusíld verksmiðjanna ykist þá að málatölu eftir stærð nýju þrónna.

Verðmæti veiðinnar ykist þar á móti ekki í beinu hlutfalli við stækkunina, veldur því sú breyting sem síldin tekur við geymsluna, jafnvel í góðum síldarþróm.

Ef þrærnar eru stækkaðar svo að verksmiðjurnar geta ekki unnið úr þeim á 8 til 10 dögum, verður að salta það sem fram yfir er í hlutfalli við biðina sem síldinni ætluð, þar til hún verður brædd.

Það er því óhjákvæmilegi, ef þrærnar verða stækkaðar til muna, að salta síldina það mikið að hún verður að verðmæti til bræðslu nokkuð minni en vanaleg saltsíld.

Nú er það svo að saltsíld úr þró er meira virði til bræðslu, en morkin síld úr skipi eða þró, þess vegna er sjálfsagt að salta síldina þegar í skipunum, þegar mikið berst að, eða síldin er langt sótt.

Sú síld sem sett er á land til bræðslu og er yfir visst hámark í hlutfalli við afköst verksmiðjanna, verður í öllum tilfellum að saltast og þeim mun meira sem síldin á að geymast lengur.

Þegar það nú er vitað að salta verður síldina ef á að geyma hana lengi til bræðslu, er rétt að athuga hvort ekki er hægt að sameina þörfina á að tryggja saltsíld til útflutnings af júlíveiddri síld, - ef síldveiði bregst í ágúst - og þörfina fyrir meiri síldargeymslur svo fiski flotinn geti notið sín betur en átt hefir sér stað síðustu sumur.

Þar sem ég álit þetta framkvæmanlegt vil ég skýra frá þeirri aðferð sem mér hefir hugkvæmst, svo hún verði athuguð og rannsóknir geti farið fram undir framkvæmdir nú þegar.

Ég fæ ekki betur séð en málið sé svo mikilsvert, að skjótra aðgerða þurfi með, til þess að síldveiðin geti orðið að þeim fasta tekjustofni fyrir þjóðina sem hún hefir skilyrði til og full þörf er fyrir.

Hugmyndin er í fæstum orðum þessi:

Í stað venjulegra bræðslusíldargeymslu, séu byggðar saltpækilsþrær, þannig að geyma megi síldina óskemmda í saltpækli.

Ef pæklinum þar að auki er haldið kældum með kæliútbúnaði, sem er mjög einfalt, má geyma síldina minna saltaða svo hún jafnvel verði eftirsótt sem matjesíld ef síldveiði bregst síðari hluta sumars.

Hvílík trygging það er fyrir Ísland sem saltsíldarframleiðanda, að hafa ráð á 50-100 þúsund tunnum af bestu júlíveiddu síldinni, til þess að setja á saltsíldarmarkaðinn ef síldveiði bregst síðari hluta sumars þarf ég ekki að vera margorður um, það sjá allir.

Ég vil því minnasat á þær tryggingar sem þessi ráðstöfun veitti okkur, en ekki eru eins auðsæar í fyrstu.

Skal ég þar fyrst nefna þá staðreynd frá í sumar, að fiskiflotinn utan landhelgi, hefir saltað svo tugum þúsunda tunna skiptir af júlíveiddri síld.

Þessa síld hafa svo síldarkaupendur úti um lönd keypt í hræðslu um veiðibrest í ágúst.

Það sem ekki er þegar selt og notað af þessari júlíveiddu síld liggur nú og þrýstir niður verðinu á ágústveiddu síldinni.

Ef hér hefði verið til næg júlíveidd síld í góðri geymslu, hygg ég að þeir sem stjórna fiskiflotum utan landhelgi, hefðu hugsað sig um tvisvar, áður en þeir létu fylla tunnur sínar með júlíveiddri síld og þar með leggja sig í þá hættu að verða að keppa við landverkaða júlíveidda síld.

Þannig geta saltpækilþrærnar tryggt rétt verðmæti ágústveiddu síldarinnar hér norðanlands og verð fyrir sunnlensku síldina að haustinu ef veiðin við norðurland bregst að einhverju leyti.

Fyrir þessa tryggingu er vissulega eitthvað leggjandi í sölurnar of þörf gerist. Ég segi: "ef þörf gerist". Það er sem sé ekki víst að kostnaður sá sem fellur á þessa geymdu júlíveiddu síld, verði að leggjast á síldveiðina í heild, þó ágúst og septemberveidda síldin fullnægi saltsíldarmarkaði vorum.

Ég álít að hægt sé að selja Rússum þessa velgeymdu síld fyrir framleiðslukostnað.

Síld veidd við Norðurland í júlímánuði síðast og í fyrra, jafngildir bestu norskri síld til söltunar.

Rússar kaupa árlega norska síld, en fá hana ódýrari en Íslensku síldina og er tunnuverðið meðal annars orsök í því.

Rússar gætu sjálfir lagt til tunnur undir Þessa síld, eða efni í tunnur, sem auðvitað væri hið ákjósanlegasta.

Að haustinu og fyrripart vetrar mætti þá smíða þessar tunnur hér heima og pakka síldina í þær eftir hendinni uns Rússar sæktu síldina eða við kæmum henni til þeirra.

Þannig má telja upp marga möguleika á því, að saltpækilsgeymslan veiti okkur tryggingar án þess að við þyrftum að greiða fyrir þær iðgjöld sem allir mundu greiða jafn viljanlega og aðrar tryggingar ef tryggingarfélög fengjust til að veita sömu tryggingu og saltpækilsþrærnar.

Síðan mér komu þessar saltpækilsþrær til hugar, hefi ég sannfrétt að Norðmenn selja árlega mikið ef saltsíld sem er geymd ókverkuð í ófullkomnum pækilþróm, auðvitað verður sú síld ekki fyrsta flokks vara, en þeir hafa einhversstaðar markað fyrir hana samt.

Ég minnist líka þess að Ingeniör Schrezenmeier, sem áreiðanlega er manna fróðastur um síldarbræðsluverksmiðjur, minntist á það við mig að saltpækilsþrær mundu vera heppilegar hér við verksmiðjurnar, vegna þess hve síldin berst ójafnt að verksmiðjunum og vegna þess hve langt þarf að sækja síldina og því nauðsynlegt að salta hana í skipunum jafn óðum og veiðist.

Ég gæti því vel trúað að saltpækilþrær borguðu sig betur við verksmiðjurnar en vanalegar þrær fyrir síld, sem salta þarf á annað borð að nokkru ráði.

Hvernig tilhögun ég hefi hugsað mér á þessum saltpækilþróm ætla ég ekki að fara út í hér.

Það þarf að gera ýmsar athuganir viðvíkjandi gerð þeirra og stærð, svo og viðvíkjandi útbúnaði til þess fljótlega og sem kostnaðarminnst að koma síldinni í þrærnar, ókverkaðri, kverkaðri og magadreginni allt eins og við á vegna þeirrar vöru sem á að gera úr síldinni.

Heppilegast mun að fela tveim eða þremur mönnum að undirbúa málið, og hefjast handa nú þegar.

Best er að landstjórnin skipi mennina svo enginn reipdráttur verði um skipun þeirra.

Pláss fyrir saltpækilsþrær fyrir útflutningssíld er upplagt í fjörunni ofan við bryggjur síldarverksmiðjanna á Siglufirði.

Löndun á síldinni yrði þá einnig mjög auðveld.

P.Þ.C.

ES sk 2018:

Til gamans má geta þess að nefndur Þorkell Clementz, pípulagningarmaður, vélstjóri og verkfræðingur setti upp fyrsta vatnssalerni á Íslandi, í Vestmannaeyjum árið 1908,

En athafnamaðurinn Gísli Johnsen síðar stórkaupmaður í Rvk. Var að byggja sér hús í Vestmanaeyjum og hafði flutt inn þann forláta grip klósett. --

Stuttu síðar kom Þorkell Clementz, nú (1941) forstjóri Tunnuverksmiðju Siglufjarðar, til Gísla að leggja fyrir hann miðstöð í húsið. Setti hann þá einnig mjög fúslega upp salernið þar sem Gísli vildi hafa það. Þessi athafnamaður á því heiðurinn af því, að hafa „innleitt" þennan ágæta og ómissandi hlut — vatnssalernið — hér á landi og Þorkell sómann af því að hafa sett það upp.

Heimild: Tímarit iðnaðarmanna 1. XIV. 1941