Árið 1936 - Brenndu skeytin !

Einherji, 10. janúar 1936 -- Grein: Þormóður Eyjólfsson

Eitt hið allra lúalegasta og heimskulegasta í árásum þeirra félaga. Sveins Benediktssonar og Co. á mig, út af því að ég lét Jón Gunnarsson njóta sannmælis, þegar honum var sagt upp framkvæmdastjórastarfinu við ríkisverksmiðjurnar, var sá áburður Páls Þorbjarnarsonar í Alþýðublaðinu, með feitletruðu fyrirsögnunum, að ég hafi brennt skeytum til verksmiðjanna.

Það var lúalegt af því, að þetta var auðsjáanlega gert í þeim tilgangi, eð læða inn þeirri hugmynd, að í skeytunum hefði eitthvað það verið, sem mér hefði verið annt um að leyna, en heimskulegt um leið, vegna þess að flestum mun það kunnugt, að afrit af símskeytum er með dómsúrskurði alltaf hægt að fá frá símanum og því gagnslaust að brenna skeytum, sem eitthvað saknæmt hefðu inni að halda.

Ég hefi í svargrein til Páls Þorbjarnarsonar gert grein fyrir því, að skeytin sem Páll á við voru til mín, en ekki verksmiðjanna, að ég hafði sýnt honum og Jóni Sigurðssyni sömu umrædd skeyti, þegar við hittumst í Vestmannaeyjum, er ég var að koma heim með e.s, Gullfoss frá Danmörku, og að innihald þeirra var þannig, að ég gat ekki séð að nokkra minnstu þýðingu hefði að geyma þau og því hafði ég kastað þeim í pappírskörfuna og þeim svo sjálfsagt verið brennt, en að, ég mundi strax gera ráðstafanir til þess að fá afrit af þeim.

Þormóður Eyjólfsson - Ljósmynd Kristfinnur

Þormóður Eyjólfsson - Ljósmynd Kristfinnur

Skeytin voru frá tveimur umboðsmönnum verksmiðjanna í Danmörku og Noregi. Strax og mér barst í hendur Alþýðublaðagrein Páls Þorbjarnarsonar, sendi ég þeim báðum svohljóðandi skeyti:

"Godhedsfuldt tilsend forste Lejlighed bekræftet Avskrift ud. vekslede Telegrammer under min Hjemrejse med Damper Gullfoss 18. til 24. Januar dette Aar".

(Á Íslensku: Góðfúslega sendið hingað með fyrstu ferð, afrit af símskeytum sem fóru milli mín og yðar meðan ég var á heimleið með Gullfoss 18. til 24. janúar síðastliðinn).

Hefi ég nú fengið staðfest afrit þessum skeytum og fara þau hér á eftir.

Frá Kaupmannahöfn móttók ég svohljóðandi þ. 19. jan. 1935.

"Thormóður Eyólfsson s.s. Gullfoss Adr. Eimskip Leith. Mener chance Soyakagen venligst fastofferer 2-3000 forudsat Fangst.

'Simmelholm."

Lausleg þýðing:

"Álít möguleika selja Soyakagefabriken, vinsamlegast gefið fast tilboð á 2- 3000 smálestum ef veiðist. Simmelholm."

Svarskeyti mitt 21. jan. svohljóðandi:

"Simmelholm, Kobenhavn. Vanskelig fastofferere til nogen for Konference Hjemkomst.

Eyólfsson."

Lausleg þýðing:

"Erfitt gefa nokkrum fast tilboð fyrr en á stjórnarfundi eftir heimkomu mína.

Eyjólfsson".

Frá Simmelholm annað skeyti 21. jan.

"Thormóður Eyólfsson s.s. Gullfoss Eimskip Leith.

Soyakagen meddeler kobt ydertigsra 6-8000 Hvalolie derfor mulig ikke Intresse Sildeolie forsog dog tilbyd snarest.

Simmelholm".

Lausleg þýðing:

"Soyakagefabriken fráskýrir hafa keypt 6-8000 smálestir hvalolíu í viðbót. Þess vegna mögulegt verksmiðjan hafi ekki áhuga kaupa síldarlýsi, reynið þó tilboð eins fljótt og unnt er.

Simmelholm".

Þetta skeyti gaf ekki tilefni til svara frá mér fyrr en ég kom til Reykjavikur og hafði haft tal af meðstjórnendum mínum.

Frá umboðsmanninum í Osló móttók ég svohljóðandi símaskeyti þ. 22. jan. 1935:

"Konosul Eyólfason s.s. Gullfoss via Thorehavn radio.

Venligst forsøk fremskaffe fastanstilling omtalte firetusen oljetons tipund Denofa ved Deres ankomst Reykjavik salgsudgifter forhanden telgrafer.

Midnatsol

Lausleg þýðing:

"Vinsamlegast reynið útvega fast tilboð umtöluðum fjögur þúsund smálestum olíu á tíupund per smálest til Denofa eftir heimkomu yðar til Reykjavikur. Sölumöguleikar til staðar símið.

Midnatsol".

Annað skeyti dags. 25, janúar beið mín frá sama firma er ég kom til Reykjavíkur, svohljóðandi :

"Eyólfsson, Hótel Borg, Reykjavík.

Referende vort telegram Gullfoss utber umtelegraferte fastanstilling 4000 oljetons tipund levering denofa salgamulighet til stede som formentlig bor utnyttes.

Midnatsol".

Lausleg þýðing.

"Með tilvísun í símskeyti vort sent yður til Gullfoss bið um umsímað fast tilboð 4000 smálestum síldarolíu 10 pund sterling per smálest afhent til Denofa, sölumöguleikar til staðar sem að líkindum ber að nota.

Midnatsol".

Þessum skeytum svaraði ég frá Reykjavik með föstu- tilboði með samþykki meðstjórnenda minna.

Síðasta skeytið er birt hér - þó það hafi ekki glatast - vegna þess að í skýrslu minni til lögjafnaðarnefndar get ég þess að ég hafi tvívegis fengið tilmæli um tilboð frá Noregi meðan ég var á leiðinni heim.

Hvað hefði mér nú átt að geta gengið til að leyna þessum skeytum?

Nú geta menn sjálfir athugað og dæmt um, þvílíkur fádæma ódrengskapur felst í svona löguðum vopnaburði.

Ærumeiðandi dylgjur og vísvitandi ósannindi eru hiklaust notuð, en ekki verða þeir félagarnir við þeirri áskorun minni að krefjast rannsóknar á störfum mínum í þágu verksmiðjanna.

Auðvitað ekki. - Þeim er ekki og hefir aldrei verið nein alvara með að óska rannsóknar. Þeir vilja hana ekki því að þá mundi þeim ekki lengur gagna dylgjurnar neitt. Þá mundi það koma í ljós, að ég hefi engu leynt og engu að leyna af því, sem farið hefir milli mín og umboðsmanna verksmiðjanna.

Og þá mundi það ef til vill líka koma í ljós að milli Sveins Ben. og hins nýa umboðsmanns verksmiðjanna í Noregi hafi farið bæði samtöl og skeyti (með vitund Páls og Jóns Sig.) sem ég að yfirlögðu ráði hefi verið leyndur. Hvað á sú leynd að þýða?

Því kemur Páll Þorbjarnarson með rakalausar og ósannar ásakanir i minn garð en lítur eigi fyrst í sinn eigin barm, eða þann barm sem hann hreiðrar sig nú upp að - barm Sveins Benediktssonar?

Þormóður Eyjólfsson.