Árið 1936 - Karfaveiðarnar

Neisti, 26. ágúst 1936

Karfaveiðarnar

Það mun nú vera ákveðið að 17 togarar með 450 manna áhöfn stundi karfaveiðar í haust.

Munu þessir togarar leggja afla sinn upp á eftirtöldum stöðum:

Karfi

Karfi

Siglufirði, Sólbakka, Hesteyri, Djúpuvík, Patreksfirði og Norðfirði.

Áætlað er að um 1.200 manns fái vinnu við karfavinnsluna á þessum stöðum. Hér á Siglufirði munu 6 togarar leggja upp afla sinn í S.R.N.

Samkomulag hefir nú verið gjört við Verkamannafélag "Þróttur" um að greitt verði jafnaðarkaup kr. 1,55 um tímann og að unnið verði á þrískiptum vöktum (8 tímar) úti og inni.

Samið hefir einnig verið við Verkakvennafélag Siglufjarðar um jafnaðarkaup kr. 1,25 pr. tímann.

Ráðgert er að þeir menn, sem unnið hafa við verksmiðjurnar í sumar, fái vinnu við karfavinnsluna og auk þess, að teknir verði frá Vinnumiðlunarskrifstofu Siglufjarðar 40 karlmenn og 100 stúlkur.

Hér er um stórfelda atvinnu að ræða og mikla framför, frá því sem áður var, er togararnir voru bundnir eftir síldveiðitímann og sjómenn og verksmiðjumenn urðu atvinnulausir. Það er heldur ekki langt síðan að þeim karfa sem fiskaðist á skipum var mokað jafnóðum í sjóinn.

Í næsta blaði verður skýrt nánar frá karfaveiðunum og vinnslunni.

----------------------------------------------------------------

Neisti, 9. september 1936

Karfa vinnslan

Nú þegar eru komnir hingað til Siglufjarðar 7 togsrafarmar af karfa og hefir verið unnið af fullum krafti í Nýju verksmiðjunni (SRN*) að því að hirða lifrina og vinna verðmæti úr karfanum bæði mjöl og lýsi.

Við þennan atvinnuveg hér á Siglufirði skapast atvinna meira og minna fyrir um 270 manns í landi, fyrir utan þá 150 menn sem á skipunum eru sem hingað veiða.

Um hefir samist milli verksmiðjanna og verklýðsfélaganna að jafnaðarkaup verði greitt við vinnsluna, kr. 1,55 á klukkustund fyrir karlmenn, en kr. 1,25 fyrir kvenfólk.

Unnið er inni í verksmiðjunni á þremur 8 stunda vöktum, en við útivinnu er fólkinu skipt í 6 fokka og eru 18 stúlkur og 18 karlar í hverjum flokk.

Fyrir kemur að 3 togarar landa samtímis og eru þá 3 vinnuflokkar úti í einu við lifrartökuna.

Það var eigi fyrir allöngu minnst á það hér í blaðinu hversu knýjandi nauðsyn væri á því að byggja yfir pallana þar sem unnið er að innanúrtöku svo fólkinu gæti liðið sæmilega við vinnu sína.

Nú þegar hefir verið úr þessu bætt með því að syðsti saltakúrinn hefir verið lagaður þannig, að borð hafa verið sett eftir endilöngum skúrnum til þess að vinna við.

Standa stúlkurnar öðru megin við borðin en karlar hinumegin. Á norðurhlið skúrsins hafa verið gerð göt, til þess að láta karfann inn um, og er það til stórra þæginda og vinnuléttis fyrir þá sem láta karfann upp á borðin, vegna þess að nú er gangur ekki neinn.

Í lofti hefir verið komið fyrir mörgum ljósum, svo þegar kveikt hefir verið er bjartara en um hádag, og ennfremur til þess að gera vinnustaðinn ennþá vistlegri, hefir verið komið fyrir hitaleiðslum eftir endilöngum skúrnum.

Þarna inni geta unnið unið 100 manns samtímis.

Framkvæmdarstjórinn Gísli Halldórsson á þökk skilið fyrir þessar framkvæmdir sínar. Þarna er verið á réttri leið, því ábyggilegt er, að eftir því sem fólkið við verksmiðjuna hefir betri kjör, aðhlynning öll við vinnuna betri, þeim mun meiri hagur verksmiðjanna.

Sé maður sem vinnur ánægður, afkastar miklu meira heldur en sá sem er með ólund við verkið, og sá sem ánægður er, finnur minna til þreytu að dagsverki loknu en hinn.

Það er ekki vafi á því, að það er einlægur vilji allra Siglfirðinga að karfavinnslan geti orðið framtíðaratvinna hér, þess vegna verða allir, bæði verkafólk og aðrir að vinna saman að því að svo geti orðið.

----------------------------------------------------------

 Karfaveiðarnar

Neisti, 23. september 1936

Eins og frá var skýrt í blaðinu um daginn, var afli frekar tregur hjá þeim togurum sem karfaveiðar stunda, og mátti það, um mikið kenna óstilltri tíð.

Þegar togararnir fóru héðan út síðast, voru þeir sumir við leit eftir þeim bátum, sem ekki voru inn komnir úr rokinu mikla, en fóru síðan á veiðar vestur á Hala.

Afli var mikið betri hjá þeim nú heldur en næsta túr þar á undan. Hingað komu þeir í gær: Ólafur með ca. 170 smálestir karfa, Þórólfur með 180 smálestir, Gulltoppur með 210 og Snorri goði með 220.230 smálestir.

Togarinn Garðar var lengst að leita bátanna, en er nú kominn með ca. 200 smálestir.

Hingað til Siglufjarðar hafa komið í haust, fyrir utan þann afla sem skipin komu núna með og skýrt er frá hér að framan, 15.510 mál (1 mál= 135 kg.) af karfa, fyrir utan þann ufsa og annan úrgangsfisk, sem skipin hafa komið með.

í vor komu hingað 6.127 mál, svo í allt er komið hingað yfir 120 þúsund mál eða um 30 þúsund, með því sem skipin eru nú með.

Til Sólbakka hafa komið í allt og allt um 91.500 mál af karfa.

Afli togaranna til ríkisverksmiðjanna er sem hér segir:

 • Sindri.................. 27.831 mál
 • Hávarður Ísfirðingur 29.323 mál
 • Þorfinnur.............. 25.495 mál
 • Hafsteinn............. 13.569 mál
 • Skallagrímur.......... 4.804 mál
 • Ólafur................. 2.921 mál
 • Garðar................. 2.854 mál
 • Snorri goði............ 1.508 mál
 • Gultoppur............. 1.282 mál
 • Arinbjörn hersir...... 1.205 mál
 • Egill Skallagrímsson. 1.129 mál
 • Þórólfur............... 1.081 mál

Þeir togarar sem fiskað hafa karfa fyrir Djúpuvíkurverksmiðjuna eru nú hættir karfaveiðum og munu nú fara að fiska í ís fyrir Þýskaland.

Vonandi er að afli glæðist á Halamiðum og tíð verði góð, til þess að karfavinnsla geti orðið hér sem lengst fram á haustið, ekki mun af veita atvinnunnar vegna