Árið 1936 - Níðskrif og svar- Hvers á Siglufjörður að gjalda ?

Einherji, 28. ágúst 1936

Þessi grein á ef til vill ekki erindi hingað, - en þar sem í upphafi hennar er minnst á óhollustu varðandi síldariðnaðinn, -- þó svo að ekki komi beint fram hér, þá lét greinina alla koma hér. S.K

OPIÐ BRÉF, til Páls V. G. Kolka, héraðslæknis.

Þér hafið, herra héraðslæknir, skrifað i Morgunblaðið 181. tbl. frá 8. ágúst sl. alllanga grein, ef grein skyldi kalla, er þér nefnið:

Síldarvinna og heilsuhættir.

Það þurfti auðvitað enginn að gera ráð fyrir því, að það yrði nein guðleg speki, sem drypi úr pennanum yðar við þetta tækifæri frekar en endranær, en það var aftur á móti ekki nema réttmætt og sjálfsagt að gera þá kröfu til yðar sem manns, að þér ekki opinberið yður sem illvígan ósannindamann gagnvart þeim mönnum eða málefnum, sem ekki eiga þá framkomu skilið. -

Valdimar Hólm Hallstað - ókunnur ljósmyndari

Valdimar Hólm Hallstað - ókunnur ljósmyndari

En nú hafið þér brugðið út af ríkjandi venju allra siðaðra manna í þessu efni. Í áður nefndri grein hafið hér á svívirðilegan hátt ráðist á Siglufjörð og Siglfirðinga með órökstuddum þvættingi um mál sem þér áreiðanlega ekki berið skynbragð á.

Þér reynið að skáka í því skjólinu, að þér séuð að vinna heilbrigðismálunum í landinu gagn. Þarna skjátlast yður hrapalega. Það er líka ákaflega leiðinlegt, að þér, sem komnir eru til vits og ára og ættuð að vera orðinn sæmilega þroskaður, þó ekki sé að vísu hægt að koma auga á neinn andlegan þroska í skrifum yðar, skulið ennþá ganga þess dulinn, að þér hafið aldrei verið sérstaklega áberandi skörungur á sviði þjóðfélagslegra umbótamála og ekki virðist neitt benda til þess, að yður sé að fara fram í því efni.

Þess vegna er það líka í fyllsta máta ósanngjarnt, að þér leggið nokkuð skynsamlegt af mörkum til þessara mála og fyrst þér gátuð það ekki, þá áttuð þér að nota læknislega þekkingu yðar- eftir því sem hún hrökk til, til þess að koma í veg fyrir þennan óstjórnlega skrifkrampa, sem þér virðist hafa fengið í þessu tilfelli, en ekki að sletta á pappírinn innantómu þvaðri, sem aðeins heimskum krakka gæti verið fyrirgefandi.

Það sem þér, herra héraðslæknir kallið "rök" í grein yðar, eru byggð á því, að síldarverksmiðjur og síldarstöðvar yfirleitt séu reistar á þeim stöðum, þar sem heilsuspillandi sé fyrir fólk að dvelja og þér komist að þeirri niðurstóðu, að Siglufjörður sé úrhrakið úr öllum þessum slæmu stöðum.

Það sem þér finnið honum helst til foráttu er að hann sé á útkjálka, eins og þér kallið það og hann sé snjóabæli, þar sem allt sé á kafi í fönn mestan hlutann úr árinu.

Þér segið einnig að fjörðurinn sé umkringdur háum fjöllum og erfiðar samgöngur geri það að verkum að ekki sé hægt að fá nema bæði ónóga og rándýra mjólk, en ekki nóg með það.

Þér fullyrðið líka, gagnvart mataræði fólksins, að það borði því nær eingöngu fisk og skemmdar kartöflur, sem því miður fáist þó ekki nema stundum. - Svo mörg voru þessi orð og er þarflaust að týna fleira af slíku góðgæti úr grein yðar.

Þetta sem þegar er talið ætti út af fyrir sig að vera nóg til að hverjum meðalgreindum manni verði ljóst, hvers konar rök það eru, sem þér leggið til málanna.

Nú mætti ætla að þér bendið á einhverja leið til þess að bæta kjör fólksins í þessu jarðneska víti, sem Þér álítið að Siglufjörður sé og það vantar svo sem ekki að sú leið sé yður augljós, þér komist umsvifalaust að þeirri niðurstöðu að heppilegast verði að flytja ¾ allra Siglfirðinga nokkurskonar hreppaflutningi eitthvað út á land og þá helst til Skagastrandar og láta þá þræla þar.

Það er nokkuð hæpið, að maður geti gert ráð fyrir því, að slík tillaga sem þessi geti komið frá manni með óbrjálaða skynsemi, enda virðist margt benda til þess, að svo muni ekki vera.

Nei, herra héraðslæknir. Það er áreiðanlega víst og um það getið Þér verið full vissir, að hvað ítarlegar tilraunir sem Þér gerið til að svívirða Siglufjörð og Siglfirðinga yfirleitt, mun hið illgirnislega glamur yðar ekki ná annarra eyrum en þeirra, sem lægst standa í menningarlegu tilliti.

Og eitt er líka áreiðanlegt, að þó Siglfirðingar eigi við margskonar örðugleika að stríða kvað samgöngum og öðru slíku viðvíkur og fjöllin í kring um fjörðinn þeirra séu há og ískyggileg, þá munu þeir ekkert láta standa í vegi fyrir því að fremja stórvirki til menningarauka fyrir bæjarfélag sitt. Vegurinn sem nú er verið að leggja yfir Siglufjarðarskarð sýnir gleggst þá afstöðu sem þeir hafa tekið til slíkra mála í framtíðinni, auk margs annars sem óþarft er að telja.

Vegna þess nú að Morgunblaðið hefir akki einungis lagst svo lágt, að taka grein yðar til birtingar, heldur einnig í sérslakri ritstjórnargrein vakið athygli á málefni því sem þér berið fram og hælir yður á hvert reipi fyrir hugkvæmni og réttsýni, hlýtur manni að verða það nokkurn vegin ljóst, að þegar aðalmálgagn Sjálfstæðislokksins tekur þessa afstöðu, hlýtur vilji þessa flokks að einhverju leyti að standa að baki þessara árása sem þér nú hafið gert á hendur Siglfirðingum.

Ekkert Sjálfstæðisblað hefir á neinn hátt birt andmæli gegn þessum rógburði, að undanteknu blaði Sjálfstæðismanna hér "Siglfirðingi", sem hefir birt svargrein og vítt harðlega og að makleikum yðar lubbalegu framkomu í þessu máli.

Það er eftirtektarvert, að á sama tíma sem þér eruð með andlegum erfiðismunum og meðfæddri illgirni, að hnoða saman þessum svívirðingum um Siglufjörð, er Jónas Jónsson alþingismaður að skrifa greinarflokk í Nýja Dagblaðið, er nefnist Síldarborgin við Íshafið.

Í þeirri grein eru á snilldarlegan hátt leidd rök að því hvaða þýðingu Siglufjörður hefir haft fyrir atvinnulíf þjóðarinnar á liðnum tíma og einnig hvað menningarlegum stakkaskiptum bærinn hefir tekið á undanförnum árum.

Ég ætla nú, til þess að afhjúpa enn betur ósannsögli yðar um Siglufjörð, að taka upp nokkur atriði úr grein Jónasar Jónssonar, og einnig líka vil ég gera það, í þeim tilgangi að sýna hug Framsóknarflokksins og forvígismanna hans til Siglufjarðar og Siglfirskra málefna og er hugur þeirra í beinni andstöðu við hug yðar og Sjálfstæðisflokksins, sem þér heyrið til.

Í upphafi á áðurnefndum greinaflokki segir Jónas Jónsson í Nýja Dagblaðinu frá 7. ágúst sl..:

"Það er eiginlega ekki ýkjalangt síðan að þjóðin uppgötvaði Siglufjörð sem þýðingarmikinn bæ. Á fyrstu árum kaupstaðarins töluðu menn um bæinn eins og heimili slarkgefinna manna innlendra og útlendra þar sem allt menningarlíf væri á lágu stígi og öll framleiðslan gengi í loftköstum. - En smátt og smátt lærðu menn að skilja að þessi mynd var röng.

Siglufjörður er nú orðinn framleiðslubær, og tökin á framleiðslunni eru á margan hátt mjög þróttmikil.

Viðreisn landsins hefur í sumum tilfellum fyrst gerst á Siglufirði

Og í tölublaði frá 11. ágúst sl. segir höfundur er hann minnist á veginn yfir Siglufjarðarskarð:

"Héðan af er fullséð að eftir nokkur misseri verður kominn akvegur yfir Siglufjarðarskarð, þá mun straumur bifvagna streyma dag og nótt víða að meðfram Skagafirði austanverðum og yfir fjallaskarðið norður í síldarbæinn mikla sem vill ekki láta sér nægja að vera mikil gullnáma, heldur vill líka vera mikill menningarbær." -

Finnst yður nú ekki hr. héraðslæknir, þegar þér hafið til samanburðar öll skrif yðar, ummæli þessa merka manns um Siglufjörð, að Þér munduð ekki hafa gott af því að ganga ofurlítið afsíðis og fyrirverða yður fyrir framkomu yðar í þessu máli?

Þér hafið auðsjáanlega ætlað að bera frumlegar nýjungar á borð fyrir alþjóð með þessum skrifum yðar, en sú tilraun hefir áreiðanlega mistekist eins og vera bar. -

Ég hefi ekki ástæðu til að hafa þessi skrif öllu lengri, en mig langar samt að lokum til þess að minnast á eitt atriði sem enn er ótalið, en sem vera kynni að brygði einhverju ofurlitlu ljósi yfir þær ástæður sem liggja til þess að Þér ráðist á Siglufjörð með jafn miklu offorsi sem raun hefir á orðið. -

Munið þér ekki eftir því herra héraðslæknir, þegar þér gerðust umferðaprédikari og flökkuðuð um landið? Jú, Þér hljótið að muna eftir því það var um það leiti er stéttarbróðir yðar, dr. Helgi Tómasson, gerði sig að veraldarundri fyrir þær sakir að bera það út að þáverandi dómsmálaráðherra Jónas Jónsson, væri ekki heill á geðsmunum. Þá hlupuð þér af stað eins og illa siðaður rakki og tölduð yður sjálfkjörinn til þess að bera þá lygafregn út um landið.

Þér flökkuðuð um, og fluttuð "fyrirlestur" um þetta "hugþekka" efni. Þessi "fyrirlestur" yðar var svo síðar gefin út af einhverju auðvirðulegasta stjórnmálafélagi landsins, "Heimdalli" og síðar var bæklingnum dreift út um landið, en auðvitað gefins, því enginn kærði sig um að fleygja peningum út fyrir slíkan óþverra. -

Munið þér ekki eftir því þegar, þér komuð hingað til Siglufjarðar? Ef minni yðar er farið að bila, þá skal ég hjálpa yður til að rifja þetta upp. -

Þér auglýstuð "fyrirlestur" yðar, en ekki komu nema 3 eða 4 hræður. En sama kvöldið hafði flokksbróðir yðar, Ólafur Thors, stjórnmálafund, þangað tróðuð þér yður.

Og þegar Ólafur Thors hafði lokið inngangsræðu sinni tilkynnti hann að þér tækjuð næst til máls.

Svo komuð þér fram í eigin "göfugu" persónu. Þér byrjuðuð á því að segja frá hversu óheppilega hefði tekist til með "fyrirlesturinn" fyrr um daginn.

Svo hélduð þér áfram. Munið þér ekki hvað þér sögðuð? Það hefir sjálfsagt verið það frumlegasta sem þér nokkurn tíma hafið sagt á æfi yður.

Þér sögðuð nefnilega að þér hefðuð ekki kært yður um að láta borga aðgangseyrir um leið og fólk fór inn, en það væri alveg eins hægt að borga hann þegar menn færu út. Þá varð kurr mikill meðal áheyrenda og fyrirspurnir komu fram um það, hvort menn væru boðaðir á stjórnmálafund til þess að þurfa að kaupa sig út aftur.

Munið þér hvað þér gerðuð þá? Þér snéruð yður að fundarstjóranum og spurðuð hvort hér væri ekki Ekknasjóður eða einhver stofnun sem væri í þörf fyrir peninga, því þér hefðuð eiginlega ekki ætlað að stinga þessum peningum í eigin vasa. -

Svar við þessari spurningu fenguð þér ekki þá, en rétt í því gengur einn gáfaður en fátækur verkamaður upp á ræðupallinn til yður, leggur 1 krónu á borðið og segir:

"Ég gef yður þessa krónu, þér megið eiga hana og fara með hana eins og yður sýnist". Þá hrópaði einn af skoðanabræðrum yðar:

"Þetta er dónaskapur". En verkamaðurinn svaraði:

"Nei, ég gef manninum þessa krónu, því ég álít að hann hljóti að vera mjög fátækur, fyrst hann getur lagt það á sig, að ferðast um til að útbreiða ávirðingar stéttabróður síns".

Ekki veit ég hvað um krónuna varð, en mér þykir líklegt að þér hafið stungið henni í vasann með innilegri velþóknun. -

Endir þessa fundar varð sá, eins og þér eflaust munið, að allir fóru út þegar þér byrjuðuð að tala, aðeins örfáar hrelldar íhaldssálir sátu eftir á bekkjunum.

Já, svona fór um sjóferð þá, herra læknir, þér farið í þetta skipti einhverja þá örgustu fýluferð, sem nokkur maður hefir hingað farið.

Það er þess vegna ákaflega skiljanlegt, að þér þykist eiga Siglfirðingum grátt að gjalda. En þeir sýndu í þetta skipti á hve háu þroskastigi þeir stóðu andlega og það munu þeir líka eiga eftir að sýna betur í framtíðinni. -

Nú læt ég staðar numið að sinni en geymi mér réttinn til að athuga framkomu yðar nánar ef þér skylduð svara þessu bréfi mínu.

En eitt þó endingu, þegar þér fáið næst löngun til að gera yður að viðundri frammi fyrir allri þjóðinni, þá látið þér Siglufjörð og Siglfirsk málefni liggja fyrir utan verkahring yðar. -

Þau málefni þarfnast ekki túlkunar þeirra manna eða stjórnmálaflokka sem eru og verða aldrei annað en þjóðarskömm.

26. ágúst 1936.

Valdimar Hólm Hallstað