Síldarverksmiðjur ríkisins, ný stjórn.

Einherji, 22. maí 1936

Sú breyting hefir verið gjörð á stjórn síldarverksmiðja ríkisins, að nú skipa stjórnina þrír menn í stað fimm áður var.

Er sú breyting gerð með bráðabirgðalögum, er gefin voru út 12. þ.m. Stjórn verksmiðjanna skipa nú þessir menn:

  • Finnur Jónsson, alþingismaður, formaður,
  • Þorsteinn M. Jónsson, bóksali.
  • Þórarinn Egilsson, forstjóri.

Í fyrstu var Sigurður Kristjánsson, kaupmaður á Siglufirði, skipaður í stjórnina, en hann neitaði að taka þar sæti. Var þá í stað hans skipaður Þórarinn Egilsson.

Þessi breyting á stjórn síldarverksmiðjanna er að því leiti heppileg, að nægilegt má virðast að þrír menn séu í stjórninni, var og stjórn sú, er áður var, óstarfhæf vegna ósamkomulags. Enda sögðu tveir úr stjórninni af sér störfum, þeir Jón Sigurðsson og Páll Þorbjarnarson, eru bráðabirgðalögin byggð á þeirri úrsögn þeirra, en úrsögnin kom ekki fram fyrr en eflir þingslit.

Hitt getur aftur á móti orkað tvímælis, hvort heppilegt er að taka í stjórnina algjörlega óvana menn þessum rekstri, þegar þá framkvæmdastjórinn einnig er ókunnugar þeim störfum er hann hefir tekið að sér.

Þar við bætist að formaður stjórnarinnar, Finnur Jónsson, er mörgum og ábyrgðarmiklum störfum hlaðinn, er hljóta að krefjast mikils tíma og starfsorku.

Út á þá menn, sem nú skipa stjórnina, er ekkert sérstakt að setja, þeir eru allir kunnir dugnaðarmenn, á þeim sviðum er þeir hafa starfað á áður-

En þó munu þeir margir frekar hefðu kosið, að Þormóður Eyjólfsson hefði haldið áfram að hafa formennsku í stjórninni.

Hefir hann þar sýnt sinn alkunna dugnað, er allra manna kunnugastur störfum verksmiðjanna og samböndum, og þrátt fyrir árásir andstæðinga sinna, fer hann nú frá formennskustarfi sínu með sæmd og algjörlega hreinan skjöld.

Samkvæmt hinum nýju lögum eru varamenn skipaðir í ríkisverksmiðju stjórnina og eru það þessir:

Óskar Jónsson, forstjóri, Hafnarfirði,
  • fyrir Finn Jónsson,
Hannes Jónasson, kaupmaður, Siglufirði,
  • fyrir Þorstein M. Jónsson,
Þórarinn Egilsson,
  • fyrir Þórarinn ókunnugt.

Það er eftirtektarvert, að nú er enginn í stjórn ríkisverksmiðjanna úr Siglufirði. Virðist það óréttlátt, þegar litið er til þess, hve mikið fé er frá bænum er komið til fyrirtækisins.

Að vísu var Siglfirskur maður í fyrstu skipaður í stjórnina, sem áður er sagt, en þótt hann ekki vildi taka við því starfi, mundi hafa verið auðvelt að fá hæfan mann héðan í hans stað. Að vísu má ætla að bæjarstjórn hefði ekki getað haft mikil áhrif í þessum efnum, en það er heldur ekki vitað, að hún hafi gert neitt í þá átt.