Árið 1936 - Síldarborgin -Siglufjörður sem athafna- og menningarbær.

Einherji, 10. september 1936

  • ............ í síldarbæinn mikla,
  • sem vill ekki láta sér nægja
  • að vera mikil gullnáma,
  • heldur vill líka vera mikill
  • menningarbær.

(Jónas Jónasson: Síldarborgin við Íshafið. Mbl. 11. ágúst sl. 181 tbl.)

Varla mun nokkur kaupstaður hér á landi hafa verið jafn mikið umræddur bæði til hins betra og verra, að undanförnu enn einmitt Siglufjörður,

Liggja að sjálfsögðu til þess margar ástæður. Það fyrsta sem rétt er að benda á í því sambandi, er það, að hingað til Siglufjarðar hefir ávallt streymt fjöldi fólks á hverju sumri, víðsvegar af landinu, - sem allt hefir slæðst hingað í atvinnuleit.

Peningalygt = peningar, peningar

Peningalygt = peningar, peningar

Það er óhætt að fullyrða, að Siglufjörður hefir oft og tíðum orðið hið eina athvarf fjölda margra þegar um atvinnuspursmálin hefir verið að ræða Og því verður aldrei á móti mælt, að hann hefir verið sá eini kaupstaður hér á landi sem hægt er að segja að borið hafi uppi lífsafkomu Íslensku þjóðarinnar í atvinnulegu tilliti á undanförnum áratugum.

Hitt er aftur á móti ekki nema það sem gera má stöðugt ráð fyrir, að um jafn fjölsóttan stað eins og Siglufjörður er, hljóti að verða dálítið skiptar skoðanir og víst er um það, að hann hefir heldur ekki farið varhluta af þeim skiptu skoðunum á liðnum tímum.

Það hefir yfirleitt af mörgum verið litið á Siglufjörð eins og hvern annan vandræðastað, þar sem fólk hefir neyðst til að dvelja vegna atvinnunnar.

Stað, þar sem flestu því versta er samansafn að, drykkjuskapur, slark og yfirleitt óreglu á flestum sviðum og auðvitað hár, svo sökinni verið skellt á Siglfirðinga sjálfa, þó aðkomufólkið eigi þar marg oft drýgstan hlut að máli.

Það hefir líka verið sagt að hér í Siglufirði væri ekki talað um annað en síld, - ekki hugsað um annað en síld. Og einnig það að hér sé fólk á mjög lágu þroskastigi andlega, og yfirleitt bærinn sjálfur eigi mjög takmarkaða framtíð fyrir höndum, sérstaklega vegna sinnar erfiðu aðstöðu með landsamgöngur við nærliggjandi staði, sem gerir það að verkum að aðdrættir allir til bæjarins verði erfiðari og dýrari en ella hefði orðið, og jafnvel ókleifi að fá margt það, sem nauðsyn getur kallast, svo sem mjólk og annað slíkt, sem ekki er hægt að framleiða hér í bænum svo nægilegt sé.

Og út af þessu er síðan dregin sú ályktun að hér sé yfirleitt meira heilsuspillandi að lifa en víðast hvar annarsstaðar.

Slíkar staðhæfingar, sem þessar hafa oft og tíðum heyrst um Siglufjörð. Og það er ekki nema stutt síðan einn þekktur héraðslæknir, Páll V. G. Kolka á Blönduósi hefur slegið þessum fullyrðingum fram í grein er hann hefir skrifað í Morgunblaðið og hefir áður verið gerð að umræðuefni hér í blaðinu.

Ásökunum þessum mun fátt hægt að finna til gildis og mun flestum vera fleygt fram án þess að hirt sé um að rökstyðja þær að neinu leyti, enda þau rök ekki að finna þegar litið er yfir þróunarsögu Siglufjarðar á síðustu árum. -

Í eftirfarandi greinarköflum munu þessi atriði veða tekin til rækilegrar athugunar og rædd eftir því sem heilmildir liggja fyrir og rúm leyfir.

Þegar litið er til baka til löngu liðinna tíma þegar Siglufjörður var að vaxa upp til að verða stór verksmiðjubær, þá verður manni það ljóst að sá orðrómur, sem loðað hefir við um bæinn og bæjarlífið yfirleitt, á grunntón sinn í viðburðarrás þeirra horfnu daga.

Á þeim tíma er Norðmenn höfðu hér aðal bækistöð sína og stunduðu hér atvinnurekstur í stórum stíl, má með sanni segja að ekki hafi verið fráleitt að líta á Siglufjörð að miklu leyti sem Norska nýlendu, þar sem erlendir siðir og hættir voru mest áberandi.

Á þeim dögum sköpuðust svörtustu skuggarnir, sem hvílt hafa yfir fortíð bæjarins, skuggar sem nú, því betur, eru að eyðast og hverfa. -

Nú eru viðhorfin orðin breytt og þær breytingar sem orðið hafa eru bæði stórfenglegar og víðtækar. Þær birtast ekki einungis á hinu verklega sviði, heldur og ekki síður í andlegum efnum.

Það er ekki laust við að manni finnist þessi öra þróun og þessi stóru umskipti líkjast fallegu ævintýri um konungsson, sem frelsaður er úr álögum og aftur að njóta sinnar mannlegu tilveru-

Siglufjörður hefir vaxið til þess að verða sjálfum sér nógur. Atvinnufyrirtæki hafa risið hér upp með tilstyrk ríkis og einstaklinga, og þessi atvinnufyrirtæki hafa máð burtu að miklu leyti hið erlenda vald sem áður hafði hér mikil ítök, og sett þjóðlegan svip á bæinn. -

Í upphafi þessarar greinar vitnaði ég lítillega í greinafokk Jónasar Jónssonar, alþingismanns, "Síldarborgin við Íshafið" sem birtist í Nýja dagblaðinu fyrir nokkru síðan. Ég ætla nú að leyfa mér að taka upp ofurlítinn kafa úr þeirri grein, kafla, sem bregður skýru ljósi yfir skoðanir sem þeir menn hafa, sem hleypidómalaust vilja láta Siglufjörð njóta þess hve mikla þýðingu hann hefir haft fyrir atvinnulíf þjóðarinnar á liðnum áratugum.

- J. J. segir á þessi leið:

"Það er eiginlega ekki ýkja langt síðan þjóðin uppgötvaði Siglufjörð, sem þýðingarmikinn bæ. Á fyrstu árum kaupstaðarins töluðu menn um bæinn eins og heimkynni slarkgefinna manna innlendra og útlendra, þar sem allt menningarlíf væri á lágu stigi, og sjálf framleiðslan gengi í lofköstum. -

En smátt og smátt lærðu menn að skilja að þessi mynd var röng. Siglufjörður er nú orðinn mikill framleiðslubær og tökin á framleiðslunni eru á margan hátt mjög þróttmikil. Viðreisn landsins hefir í sumum efnum fyrst gerst á Siglufirði. -

Ég hafði heyrt áður en ég fór að koma við og við á Siglufjörð að bærinn væri drykkjubæli mesta. En fyrstu kynni mín sannfærðu mig um annað.

Heimamenn á Siglufirði eru í reglusamasta lagi og þar hefir verið gert mikið til varnar óhóflegri nautn áfengra drykkja." (N.dbl 178. tbl. 7. ágúst sl.)

Hér er hið rétta og sanna sagt um Siglufjörð að vísu í lausum dráttum, en þó nægilega ljóst til þess að almenningur fái skilið að Siglufjörður og yfirleitt Siglfirðingar eiga ekki þá þungu sök í siðferðilegu tilliti, sem þeim er á herðar lögð með hinum slæma orðrómi sem á lofti hefur verið haldið að þessu.

Það er áreiðanlegt að ef allstaðar á landinu væri unnið eins kappsamlega að því að útrýma ofnautn áfengra drykkja eins og gert er hér á Siglufirði.

Og ef allstaðar væru eins áhugasamir og ósérhlífnir menn í þeim efnum, eins og hér eru, þá mundi ástandið í áfengismálunum vera öðru vísi og verra en það er nú. -

En Því er ver og miður að aðrir staðir, hvort sem það eru nú, bæir eða sveitir skjóta sér alltof oft og kæruleysislega undan þessari nauðsynlegu skyldu, og það gerir gæfumuninn.