Árið 1936 - Ólík viðhorf - Síldarverksmiðjumálið - Grein E.H.

Siglfirðingur, 23. maí 1936

Kröfur útgerðarmanna og sjómanna eru:

Fast kaupverð kr. 6.00 er greiðist allt til útgerðar- og sjómanna.

Fyrir þessum kröfum berst Sjálfstæðisflokkurinn.

Krafa Framsóknaflokksins er:

Síldin sé “tekin” af framleiðendum, þeim greitt mest 75%, og uppbót einhvern tíma, eða aldrei.

Sósíalistar virðast styðja kröfur Sjálfstæðismanna.

Síðustu dagana hefir margt upplýst um hina nýju verksmiðjudeilu og meðal annars það, að Framsóknarklíkan, eða ráðamenn hennar í þinginu, hafi ráðið mestu um þingræðisbrotið, til þess:

1. Að bola Sveini Benediktssyni burtu úr stjórn verksmiðjanna

2. Að freista þess að koma verksmiðjurekstrinum yfir á “samvinnugrundvöll" Framsóknar.

Fyrra atriðið hefir heppnast: Sveinn var hrakinn burtu úr stjórn verksmiðjanna og það til unnið, að traðka á þingræðinu og brjóta stjórnarskrá ríkisins, en getspakir menn hafa það fyrir satt að þarna verði Framsóknarhöndin skamma stund höggi fegin, og stutt muni þess að bíða, að Sveinn komist enn í stjórnina þó ekki væri fyrir annað en háværar og alvarlegar kröfur framleiðenda.

Síðara atriðið, um “samvinnugrundvöllinn" hefir misheppnast fyrir Framsókn, Jafnvel mun óhætt að fullyrða, að fyrrverandi formaður Ríkisverksmiðjustjórnar, framsóknarmaðurinn Þormóður Eyjólfsson, hafi verið og sé andvígur því, að framleiðendur fái ekki fast verð og fulla samningsgreiðslu.

Verður eigi öðru trúað fyrr en skýr og afdráttarlaus yfirlýsing hans sjálfs sannar hið gagnstæða.

Tvö fyrstu starfsár Ríkisverksmiðjanna var Framsóknarskipulagið gildandi og framleiðendum greitt aðeins 70 % af lágmarkssamningsverði fersksíldarinnar og upp bót heitið. Það heit varð þó að engu og framleiðendur vonsviknir um því nær þriðjungsverð framleiðslu sinnar, því uppbótin kom aldrei.

Annars munu síldarframleiðendur flestir þykjast hafa næga reynslu fyrir því, hve “samvinnugrundvöllur" Framsóknar reynist traustur í síldarútvegsmálum.

Mun flestum enn í fersku minni útreiðin, er þeir fengu af “Einkasölunni" alræmdu, sem lofaði 10 kr. útborgun á tunnu en greiddi einum tvær og öðrum þrjár krónur á tunnu. Hitt lenti í “samvinnusúginn", og samt varð miljónagjaldþrot ofan á allt saman.

Sama útreið biði óumflýjanlega Ríkisverksmiðjanna, ef rekstur þeirra ætti að byggjast á þessum sama “samvinnugrundvelli". Og ekki nóg með það, Síldarútvegurinn væri þar með lagður í rústir og afkoma framleiðenda og verkafólksins gereyðilögð.

Þessi “samvinnustefna" Framsóknarflokksins verður að kveðast niður við rekstur Ríkisverksmiðjanna. Að öðrum kosti stöðvast síldarveiðin af sjálfu sér.

Útgerðarmenn og framleiðendur eru nú svo aðþrengdir fjárhagslega, að þeirra einasta bjargræði er það, að verksmiðjurnar gangi að kröfum þeirra og greiði að fullu 6 krónur á mál.

Og hin nýja verksmiðjustjórn má ekki, allra hluta vegna, láta dragast, úr þessu að gefa framleiðendum skýr og ákveðin svör við kröfum þeirra. Á þeim byggist afkoma útgerðarinnar, verkafólksins, - þjóðarinnar í heild.

Alþýðuflokkurinn virðist, ef marka má höfuðmálgagn þess, Alþýðublaðið, fordæma “samvinnugrundvöll" Framsóknar í þessu máli. Þeirra krafa hlýtur að vera:

Fast verð á bræðslusíldina, vegna þess að það er krafa framleiðendanna og verkafólksins. Þeir vita það, foringjarnir, að bregðist þeir nú kröfum fólksins og Sjálfstæðisflokksins, og láti Framsókn kúga sig, er úti um þeirra litlu völd í þessum bæ og allstaðar á landi hér.

Í raun og veru er þessi “samvinnupólitík” Framsóknar grímuklædd tilraun til þess að draga ríkissjóði því nær þriðjung verðs af framleiðsluvöru síldar-útvegsmanna og sjómanna.

Skattpíningastefnan nægir ekki til að fylla í skuldahít ríkissjóðsins. Framleiðendur stynja nú svo undir skattaokrinu, að við sjálft liggur að útgerðin sé að falla saman undir þessu oki. Og ofan á þetta allt saman á svo að bæta því, að seilast i framleiðsluhagnaðinn er verða kynni á þessu sumri, ef vel árar.

Skattpíningin er nú reynd til hins ýtrasta. Þar verður engu á bætt.

Takist það í viðbót, að svipta framleiðendur hagnaði síldarframleiðslunnar, væri það sannnefnt eignarán, engu betra en eignaránsaðferð útlenda konungavaldsins á svartasta kúgunartímabili Íslandssögunnar.

Sjálfstæðismenn hafa sannað það með óhrekjandi rökum, að framleiðsluvörur verksmiðjanna hafa hækkað í verði svo að nema mun um 1-1 miljón króna, miðað við meðal síldarmagn (c: 430 þúsund mál).

Með stefnu Framsóknarflokksins er tilraun gerð til þess að svipta framleiðendur (sjómenn og út gerðarmenn) þessum mikla hagnaði.

Þá stefnu verða framleiðendur að brjóta á bak aftur með öflugum samtökum og óbilugri forystu Sjálfstæðismanna.

Eins og vænta mátti, hefir úrsögn Jafnaðarmanna úr stjórn Síldarverksmiðja Ríkisins, svona rétt eftir þinglokin, og bráðabirgðalög atvinnumálaráðherra vakið allan þorra sjómanna til umhugsunar um þessi mál. Mest hefir þó verið rætt og ritað um þetta í Reykjavík eins og við er að búast.

Skipstjórafélagið "Ægir" hérna, hélt tvo fundi um þessi mál þ. 18-19. þ.m.

Á seinni fundinn voru boðaðir framkvæmdastjóri og þeir sem hér eru á staðnum af fráfarandi verksmiðjustjórn. Einnig var sjómönnum hér boðið á fundinn. Sjómenn fjölmenntu, en svo óheppilega vildi til, að aðeins Jón Sigurðsson er mætti þarna sem stjórnarmeðlimur fyrrverandi verksmiðjustjórnar. Það skal tekið fram, að Þormóður Eyjólfsson þurfti að æfa “Vísir” og gat þess vegna ekki komið.

Tilgangur þessa fundar var sá, að fá sem gleggst yfirlit um þau atriði, sem væntanlegt bræðslusíldarverð byggðist á á komandi starfstímabili, að svo miklu leyti sem heimilt væri að gefa upplýsingar um það opinberlega og hvort kaupa ætti síldina ákveðnu verði eða greiða allt að 75 %. og væntanlega uppbót.

Ennfremur að fá skýrðar ástæðurnar fyrir því, að skipt væri um verksmiðjustjórn og hvort fráfarandi stjórn teldi ekki varhugavert að skipta um alla stjórnina og framkvæmdarstjóra á sama ári o.fl.

Það þarf engan að undra, þó sjómenn standi vel á verði um allt það, sem gerist í síldarverksmiðjumálunum. Það er svo mikill fjöldi landsmanna sem á að miklu leyti afkomu sína undir því að vel takist um framkvæmd þeirra mála. Það ætti því að vera mikil hjálp í því fyrir forráðamenn þessa atvinnutækis, að heyra álit og vilja sjómannanna, sem strita við að vinna gullið úr greipum Ægis, til hagsbóta landi og lýð, og sem í rauninni eiga fyrirtækið.

Jón Sigurðsson upplýsti margt á þessum fundi sem öllum sjómönnum var nauðsyn á að vita, ekki síst ef lagt verður út á þá braut, eins og sjálfsagt virðist, að krefjast þess af stjórn verksmiðjanna, að síldin verði keypt ákveðnu verði, því án efa er það vilji flestra sjómanna, því þeir eru trúlitlir á uppbætur. -

Það er vitanlegt að vilji Framsóknarmanna, er sá að reka verksmiðjurnar á "samvinnugrundvelli" (samanber skrif J. J. i Nýja Dagblaðinu) eins og gert var fyrstu tvö árin.

Jafnaðarmenn segjast ekki vilja þann grundvöll, heldur borga ákveðið verð. Í sambandi við það, verður að taka tillit til þess, að aðrar verksmiðjur, sem notaðar eru til síldarvinnslu láta Ríkisverksmiðjurnar ráða verðinu. Þær ákveða því verðið á bræðslusíldinni yfirleitt.

Það er því betra að vel takist með stjórn verksmiðjanna, ef ekki á að hlaupa á snæri þeirra, er við þær keppa sakir öfugþráða er spunnir yrðu af ráðamönnum þessa mikla fyrirtækis.

Sem betur fer, þá er betra útlit fyrir verð nú en í fyrra. Það er búið að selja talsvert af meðalársframleiðslu fyrir gott verð og að fengnum þeim upplýsingum, þá var samþykkt eftirfarandi tillaga á fundi skipstjórafélagsins:

“Sameiginlegur fundur skipstjórafélagsins “Ægir" og sjómannafélaginu “Víkingur” lýsir sig andvígan því, að ríkisverksmiðjurnar verði reknar á þann hátt, að greitt verði hluti af hrásíldarverðinu við móttöku, með uppbótarvon við rekstursuppgjör, en skorar hinsvegar stjórn verksmiðjanna og atvinnumálaráðherra, að ákveða nú þegar verð fyrir síldina, er nemi minnst kr. 6,00 fyrir hvert mál".

Samskonar tillögur hafa verið samþykktar í skipstjórafélögunum fyrir sunnan.

Jón Sigurðsson gerði enga athugasemd við þetta verð, og vonandi sér stjórn hinna vinnandi stétta sér hag i því, að greiða sem mest fyrir bræðslusíldina, því þörfin fyrir hækkandi síldarverð er allataðar.

Jón Sigurðsson upplýsti á þessum fundi, að ástæðan til þess að hann hefði sagt sig úr stjórn verksmiðjanna, væri ómöguleg samvinna við Þormóð og að hann hefði ekki gert það fyrr en eftir þing, væri vegna þess, að þetta mál myndi hafa tafið þingið í lengri tíma, en þinghald væri dýrt, bæði fyrir sjómenn og aðra og því hefði hann viljað afstýra þeim kostnaði. Hefði hann fórnað völdum og tekjum til að fá starfhæfa stjórn fyrir verksmiðjurnar og það kom ákveðið fram frá jafnaðarmönnum þarna á þessum fundi, að ef verksmiðjurnar ekki greiddu fyllsta ákveðið verð, þá mundi samvinnunni verða slitið um stjórn landsins.

Hér eru ólík viðhorf stjórnarflokkanna til stærsta atvinnutækis landsins. Það lítur því ófriðvænlega út ennþá og allt þetta rót og hreyfingar hafa án efa verið of dýru verði keyptar, sérstaklega fyrir þetta bæjarfélag og verst af öllu, að enginn fastur grundvöllur er fundinn fyrir framþróun þessa þarfa fyrirtækis. E. H.