Árið 1937 - Ný réttarhneyksli

Brautin, 7. des. 1937.

Dómur hefur nú fallið í hæstarétti í málaferlunum út af Dettifossslagnum 1934.

Er hann á þá leið að af 34 sem dæmd voru af bæjarfógeta eru 4 sýknuð en 30 dæmd til fangelsisvistar, 4, þeir Þóroddur Guðmundsson, Aðalbjörn Pétursson, Gunnar Jóhannsson og Guðmundur Davíðsson eru dæmdir í 5 mánaða fangelsi óskilorðsbundið, 4 aðrir i 4 mánuði, einnig óskilorðsbundið og hin 22 fengu skilorðsbundinn dóm, frá 110 daga og niður i 50 daga.

????????????????

????????????????

Dómar þessir eru með svívirðilegustu stéttadómum sem fallið hafa hér á landi. Þeir eru árás á samtök alþýðunnar og rétt hennar, verkfallsréttinn.

Tildrög þessa máls eru þau, í stuttu máli, að vorið 1934 átti lítið og nýstofnað verkalýðsfélag vestur á Borðeyri í vinnudeilu.

Hún snérist aðallega um viðurkenningu á félaginu og kauptaxta þess og forgangsrétt verklýðsfélaga til vinnu.

M. ö. o. félagið háði þá baráttu fyrir tilveru sinni sem flest félög hafa orðið að heyja.

V. S. N. veitti félaginu aðstoð í deilunni og m. a. lagði afgreiðslubann á öll skip Eimskipafélagsins eftir að það lét afgreiða skip sín á Borðeyri með verkfallsbrjótum.

Um miðjan maí kom svo Dettifoss hingað á leið til Akureyrar og fékkst ekki afgreiddur.

En er hann kom til baka, þá hafði íhaldið í bænum, með bæjarfógeta í broddi fylkingar, safnað saman slagsmálaliði, hlaðið varnargarð fyrir ofan hafnarbryggjuna og farið með brunadælur bæjarins niður á bryggju, til að nota sem vopn gegn verkalýðnum.

Var það algert lögbrot, þar sem svo er fyrir mælt, að slökkviáhöld séu geymd á þeim stað er greið­ur aðgangur sé að hvenær sem eldsvoða ber að höndum-. (Skv. lögum nr. 85, 22. nóv. 1907.)

Þegar svo verkamenn komu að til að hindra afgreiðslu skipsins, þá var tekið á móti þeim með þeim aðgerðum, að þeir urðu ofurliði bornir, eftir allharðan bardaga.

Sigur náðist svo í deilunni rétt á ettir, og má þakka hann hinni hörðu baráttu. Í samningunum var grein sem hljóðaði svo:

Málshöfðanir og skaðabótakröfur falli niður af beggja hálfu í þessu máli.. Flestir álitu að þar með væri málið til lykta leitt. En svo var þó ekki.

Rétt á eftir byrjuðu yfirheyrslur og málshöfðanir, þrátt fyrir þetta ákvæði samningsins. Og ekki nóg með það. Heldur tekur bæjarfógeti sjálfur, sem var foringi annars liðsins i bardaganum og því aðili í málinu, það upp, og dæmir síðan í því.

Hefði verið sinni nær að hann og þeir, sem að upptöku málsins stóðu, og að því að brjóta landslögin og hin óskráðu, en margviðurkenndu lög um verkfallsrétt alþýðunnar, hefðu verið dregnir fyrir lög og dóm og refsað.

En réttlætinu var varpað fyrir borð og dómur felldur af bæjarfógeta, sem hljóðaði þannig að 34 karlar og konur voru dæmd í lengri og skemmri fangelsisvist.

Hin dæmdu áfrýjuðu til hæstaréttar og nú er dómur hans fallinn.

Forsendur dómsins hafa ennþá ekki borist hingað, en um það er vitað, að þar eru mjög alvarlegar aðfinnslur og ávítur á bæjarfógeta fyrir meðferð hans á málinu og hefði því verið vísað heim ef það hefði ekki verið orðið of gamalt.

Að öðru leyti er ekki auðið að rekja forsendur dómsins, en það verður gert nánar síðar, enda er þetta mál ekki útrætt.

En þessir dómar snerta ekki aðeins hin 30 dæmdu, heldur, og miklu fremur eru þeir árás á allan verkalýð í landinu, samtök hans og réttindi.

Þeir vekja viðbjóð og gremju hjá öllum frjálslyndum mönnum og andúð á réttarfari landsins.

Það kann einhver að segja sem svo, að þessir dómar séu markleysa, því að þeim muni aldrei verða framfylgt. En það er hin argasta blekking. Þessir dómar geta orðið að vopnum i höndum íhalds­ins og fasisma, ef þeir skyldu einhvern tíma fá tækifæri til að nota þau.

Það verður því öll alþýða landsins, allir frjálslyndir menn og konur, að risa upp sem einn maður og mótmæla þessum réttarofsóknunum.

Og mótmælunum mun rigna yfir stjórnarvöldin hjá félögum og fundum út um allt land.

Þessi mótmæli þurfa að verða og munu verða að því afli sem molar og ónýtir þessa dóma svo að ekki verði urmull eftir af þeim.

Ásgrímur Albertsson

Innskot sk: 2018:

Frásögn Benidikts Sigurðssonar í minningargrein um Óskar Garibaldason. „Í Dettifossslagnum svonefnda 1932 var Óskar einna harðast leikinn, og lauk svo að honum var hrundið í sjóinn, en hann tók tvo af þeim sem harðast sóttu að honum með sér.  (neðst á viðkomandi síðu)

Voru þeir báðir ósyndir, en Óskar allgóður sundmaður, og bjargaði þeim til lands. Eftir slaginn var kommúnistum úthúðað rækilega í málgögnum andstæðinganna; – nema einum manni, Óskari Garibaldasyni.

Í einni greininni var honum meira að segja hrósað fyrir drengilega baráttu og fordæmt hve illa hann var leikinn í slagnum.“