Árið 1937 - Vottorða umræða

Einherji, 21. janúar 1937

Hversvegna er Gísli Halldórsson að útvega sér vottorð verkamanna ríkisverksmiðjanna um að hann sé "hæfasti maðurinn" til framkvæmdastjórnastarfsins?

Hvernig eru þau vottorð rökstudd?

Undanfarna daga - aðallega síðastliðinn laugardag - gengu nokkrir sendimenn milli verkamanna og annarra starfsmanna Ríkisverksmiðjanna til þess að fá undirskriftir þeirra undir áskorun til verksmiðjustjórnarinnar um að ráða Gísla Halldórsson áfram framkvæmdarstjóra verksmiðjanna, þar sem hann sé til þess starfa "hæfasti maðurinn"

Það er víst fáum ljóst hversvegna verið er að safna þessum undirskriftum. Starfið hefur að vísu verið auglýst laust, en alkunnugt er að sú auglýsing er aðeins formsatriði, því meirihluti stjórnarinnar sé fyrir löngu ákveðinn í að ráða Gísla áfram; að aðeins einn maður (heldur lítið þekktur) auk Gísla sjálfs hefir sótt um framkvæmdastjóra starfið.

Það er því ekki við neina að keppa og allt fyrirfram ákveðið. En hvað sem tilganginum með þessu líður, sem sýnilegu liggur ekki á yfirborðinu, eru slíkar undirskriftir sem þessar meira en lítið varhugaverðar.

Það má reyndar að nokkru leyti til sanns vegar færa, að allar undirskriftasmalanir séu varhugaverðar.

Alltaf slæðast þá einhverjir með, sem skrifa undir alveg hugsunarlaust eða bara af þægð. En úr hófi keyrir þó, þegar menn eru látnir skrifa undir það, sem þeir hafa ekki og geta ómögulega haft neina aðstöðu til að dæma um, - og viðurkenna það líka hiklaust.

Hvernig ættu verkamenn verksmiðjanna að geta dæmt um hver væri hæfasti maðurinn til framkvæmdastjóratarfsins og það jafnvel eflir lengri reynslutíma en Gísli hefir.

Hvað vita þeir um viðskipti hans út á við og ráðstafanir fyrir verksmiðjanna hönd? Og hvað hafa þeir velflestir af honum að segja í daglegum rekstri verksmiðjanna?

Jú, "Við erum nú líklega ekki strax búnir að gleyma því þegar hann kallaði okkur alla saman í sumar í pakkhúsinu og gaf okkur öl og vindla" sagði einn "Hann lætur Jóhann Guðmundsson hafa miklu frjálsari hendur heldur en hinir framkvæmdastjórarnir gerðu", sagði annar, reyndar með dálitlu háðsbrosi.

Ef til vill halda einhverjir að honum beri að þakka.

------------------------------------------------------------

Einherji, 28. janúar 1937

Undirskriftirnar.

Í síðasta tölublaði "Neista" gerir sorpgreinarhöfundurinn þar, sig enn einu sinni sekan í þeirri vesalmennsku, þegar hann skortir rök gegn andstæðingunum að rangfæra orð þeirra eða slíta þau út úr samhengi, og glímir svo sem ákafast við sinn eigin uppspuna.

Hann virðist ekki vilja sjá muninn á því, hvorki hvaða aðferðum sá beitt við undirskriftarsmalanir, né því hvort menn séu beðnir að skrifa undir eða gefa vottorð um hluti sem þeir eru vel kunnir eða nauðsyn ber til að leiðrétta. (t.d. hnekkja róg,) eða hvort notuð sé sú aðstaða að fátækir menn óttast um atvinnu sína, til þess að fá þá til þess að skrifa undir og leggja dóm á það, sem þeir hafa enga aðstöðu til að geta dæmt réttilega um, eins og það hver sé hæfasti maðurinn til þess að vera framkvæmdarstjóri Ríkisverksmiðjanna. -

Það verður ekki annað séð, en að menn hafi leiðst til þess eingöngu af ótta við að vera látnir gjalda í atvinnuúthlutun eða jafnvel með atvinnumissi ef þeir neituðu að skrifa undir.

Skulu hér nú tilfærð af handahófi nokkur ummæli ýmsa verksmiðjumanna.

"NÚ hefi ég gert það sem ég sé eftir alla æfi" sagði einn.

"Það var komið til mín eitthvað 5 til 6 sinnum og þá skrifaði ég undir, af því ég þorði ekki að eiga neitt á hættu með atvinnuna, en ég bæði skammast mín fyrir undirskriflina og iðrast eftir henni", sagði annar.

"Ég skammast mín fyrir að hafa skrifað undir þetta skjal, en hvað átti ég að gera, nú segja þeir að allir verksmiðjumennirnir verði látnir sækja um plássin sín að nýju í vor og hvernig verður þá valir úr?" sagði sá þriðji.

"Ég vildi ekki hætta neinu. En annars eru þessar undirskriftir hreinasta markleysa, því það getur hver heilvita maður séð, að ekkert getum við dæmt um hver sé hæfasti maðurinn til að vera framkvæmdastjóri.

Annars hefir mér fallið vel við Gísla. Hann er afskiptalaus maður og lætur mann alveg í friði við vinnuna", sagði fjórði.

Allstaðar kemur svipað fram: Ótti við atvinnutap og ef til vill ekki að ástæðulausu. Eða hvernig á að skilja að einn undirskriftarsmalinn hótaði manni því, sem færðist undan að skrifa undir, að segja Jóhanni eða "þeim þarna niðurfrá", eftir honum?

Fleira er ekki rúm til að tilfæra að sinni. En ofanrituð dæmi er boðist til að sanna ef óskað er. Þó verða nöfn hlutaðeiganda vitanlega ekki gefin upp til þeirra manna er þeir óttast að hefnist á sér með vinnusviptingu, en sannanirnar mætti t.d. leggja fyrir verksmiðjustjórnina.

X

---------------------------------------------------------

Einherji, 11. febrúar 1937

Einherji hefir verið beðinn fyrir svofellda yfirlýsingu til birtingar:

Við undirritaðir, sem fórum með undirskriftalista til starfsmanna ríkisverksmiðjanna, í sambandi við ráðningu framkvæmdarstjóra, lýsum hér með yfir því, að ummæli þau sem höfð eru eftir okkur einum eða fleirum í 2. tölublaði Einherja þetta ár, eru ósönn.

Ef einhverjir verksmiðjumannanna halda því fram, að við höfum ekki látið þá sjálfráða gerða sinna, fara þeir með vísvitandi ósannindi.

Það skal ennfremur tekið fram, að við fórum aðeins einu sinni til hvers manns, nema Sigurðar Björgólfssonar kennara, sem óskaði eftir því, að komið yrði til sin aftur og var það gert.

Siglufirði, 29. janúar 1937.

Guðjón Þórarinsson.

Kristinn, Jóakimsson.

Björn Pálsson.

--------------------------------

(ritstjórinn skrifar:)

Það lítur út fyrir, að þeir sem undir yfirlýsingu þessa skrifa, hafi annaðhvort lesið ummæli Einherja heldur ónákvæmlega, eða að þeir semji sig fullmikið að siðum Neista, sem leggur það helst fyrir sig að hrekja það sem enginn hefir sagt, nema hann sjálfur.

Ummæli Einherja voru þessi:

"Eða hvernig á að skilja það, að einn undirskriftasmalinn hótaði manni því, sem færðist undan að skrifa undir, að hann skyldi segja Jóhanni, eða "þeim þarna niðurfrá", eftir honum.

Einherji hefur áður boðist til að leggja fram sönnunargögn fyrir þessu og öðrum ummælum, er hann tilfærir orðrétt út af undirskriftasmöluninni og hann endurtekur það tilboð.

Sönnunargögnin eru verksmiðjustjórninni til reiðu, hvenær sem hún óskar þess og er þá hægt að tilfæra ýmislegt fleira en það, sem Einherji hefir að þessu skýrt frá. í þessu sambandi.