Árið 1963 - Moldviðri- Æsingamoldveður íhaldsins í sambandi við ríkisverksmiðjurnar.

Neisti. 27. maí 1936

Íhaldið notar lygar og blekkingar til þess að hylja árásir Kveldúlfs á sjómenn og landverkafólk.

Undanfarna daga hefir foringjaklíka íhaldsins bæði í Reykjavik og víðar efnt til æsingafunda út af þeim bráðabirgðalögum sem gefin voru út um breytingar á stjórn Síldarverksmiðja ríkisins.

Þeir hafa látið kjaftaska sína og blaðsnepla breiða þær lygar út, að breytingin væri gerð til þess, að koma því í framkvæmd að ekki yrði greitt fast verð fyrir síldina, heldur aðeins hluti af verðinu, og svo uppbót seinna ef hagnaður yrði.

Með þessum lygum og fjarstæðum hafa þeir reynt að æsaupp sjómenn og blekkja þá til fylgis við sig.

Þeir sem nokkuð eru kunnugir þessum málum vita, að það er atvinnumálaráðherra sem sker úr um það, hvort greitt er fast verð fyrir síldina, eða hún tekin til vinnslu af framleiðendum á þeirra kostnað og greitt allt að 85 % af áætlunarverði út á hana.

Jafnvel þó að gamla stjórnin hefði verið áfram, og allir verið sammála um að kaupa föstu verði, þá hefði það ekki verið gert, nema atvinnumálaráðherra gæfi leyfi þar til.

Það þurfti ekki stjórnarskipti til að koma þessu í framkvæmd, það hefði verið hægt án þess, ef það hefði verið ætlunin.

Íhaldið hamaðist, jafnvel eftir að búið var að gefa af hálfu Alþýðuflokksins yfirlýsingu um, að keypt skyldi föstu verði.

Var það af umhyggju fyrir sjómönnum að íhaldið fór í þessar æsingar?

Nei, moldviðrinu var þyrlað upp af foringjum Sjálfstæðisflokksins, Kveldúlfsklíkunni, til þess að draga athygli fjöldans frá sjálfum sér.

Í skjóli æsinganna, vega þeir að fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar með því að stöðva hin stórvirku atvinnutæki, togarana, vitandi þó, að mokafli er.

Það er einnig annað sem vakti fyrir íhaldinu, með því að þyrla upp moldviðrinu - og skal það skýrt í fáum dráttum.

Á síðastliðnu sumri brást síldveiðin að allverulegu leiti, brást svo, að saltsíldarútflutningur síðasta árs nam tæpum helming af útflutningi ársins þar á undan, þó Faxaflóasíldin sé meðtalin.

Strax þegar sást að síldveiði mundi minni en venjulega, fór síldin að hækka í verði og hækkaði það mikið, að fyrir nýsíldina fékkst um tíma allt að því fimmfalt verð miðað við það sem var í byrjun síldveiðitímans.

Íhaldsblöðin öll og blaðpeðið Siglfirðingur líka voru að koma með háværar kröfur um hækkað síldarverð en voru venjulega á eftir tímanum, þannig, að síldin var hækkuð áður en kröfurnar komu.

Nú í vetur hefur þorskafli brugðist svo hrapalega, að með fádæmum er. Um síðustu mánaðamót vantar um 18 þúsund smálestir til þess að aflinn sé eins mikill og á sama tíma í fyrra, og var þó frekar aflatregða þá.

Það hefur ekki orðið vart við, að verð á saltfiski hafi hækkað, þó framleiðslan yrði þetta mikið minni en venjulega.

Það hefir heldur ekki orðið vart við að íhaldsblöðin hafi gert háværar kröfur um hækkað saltfiskverð.

Það sem liggur til grundvallar því, að íhaldsblöðin þegja um saltfiskverðið er það, að illu heilli hafa íhaldsöflin, svindlarafyrirtækið Kveldúlfur, ennþá of mikil ítök um þau mál.

Það er almannarómur, að Kveldúlfur sé hluthafi í fiskfirmum bæði á Spáni og Ítalíu, sé raunverulega bæði seljandi og kaupandi fiskjarins - og eftir því sem lægra er verðið hér heima, þeim mun meiri gróði úti.

það er margt sem þessi almannarómur hefir við að styðjast, t.d. "Gismondihneykslið" og nú síðast, að fiskur skuli ekkert hækka í verði, þrátt fyrir mikið minna framboð en venjulega.

Það er Kveldúlfur einn, sem hefir hagnað af því að halda fiskverðinu niðri. Þar er ekki verið að hugsa um hagsmuni sjómanna og smáútvegsmanna.

Síldin hækkaði í verði, af því að með þau mál fóru menn, er horfðu á hag fjöldans, hag þjóðarinnar, þeir höfðu engar "prívat"- interessur af því að halda verðinu niðri.

Saltfiskurinn hækkar ekki í verði, af því að í þeim málum hafa, illu heilli, of mikil ítök þeir menn, sem hafa beinan hagnað af því að verðið sé sem lægst.

Í sambandi við verksmiðjustjórnarmálið þyrlar Kveldúlfsklíkan upp moldviðri til þess að glepja fjöldanum sýn.

Til þess í skjóli æsinganna að reyna að dylja árásir Kveldúlfs á afkomumöguleika sjómanna og alls verkafólks.

Það er öllum vitanlegt, að Alþýðuflokkurinn hefir barist fyrir því, að skapa lífræna framleiðslu, skapa atvinnu, barist fyrir því að afurðaverðið yrði sem allra best, barist fyrir því, að verkafólkið, hinir raunverulegu skaparar verðmætanna, fengju það sem því ber, af afrakstri atvinnuveganna, til þess að það geti lifað því lífi sem það á heimtingu á, sem frjálsbornir þegnar þjóðfélagsins, og það er öllum vitanlegt, að Alþýðuflokkurinn, sem nú fer með stjórn Síldarverkamiðja ríkisins að mestu leyti, mun gera sitt ýtrasta til, að greiða eins mikið fyrir síldina og mögulegt er, til þess að hlutur sjómanna verði sem allra bestur.

En jafnframt skal öllu vinnandi fólki verða vitanlegt, að Íhaldsflokkurinn, eða þeir sem þar ráða vinna gagnstætt þessu.

Það skal öllum verða vitanlegt, að lygar íhaldsins um ástæðuna til bráðabirgðalaganna um stjórn verksmiðjanna eru útbreiddar til þess, að draga athygli fólksins frá eftirtöldum árásum Kveldúlfs í afkomumöguleika verkalýðsins og þá um leið fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar:

1. Kveldúlfur reynir að sölsa undir sig fisk landsmanna fyrir smánarverð. Lætur S. Í. F. bjóða þessa dagana aðeins 23½ eyrir fyrir kg. af 1. flokks fiski (22 stykki í 50 kg, pakka) vitandi það, að fiskverð hlýtur að hækka, þar sem framleiðsla er allt að því helmingi minni en í meðallagi.

2. Kveldúlfur stöðvar 6 togara af 7, sem hann hefir umráð yfir, þrátt fyrir það, að afli er fádæma mikill og fyrirsjáanlegur stórgróði og svíkur þar með sjómenn og verkafólk um atvinnu og möguleika til að bjarga sér og þá um leið þjóðina alla um erlendan gjaldeyri, sem fást mundi fyrir aukna útflutningsvöru.

3. Kveldúlfur bindur logarana við land í stað þess að láta þá fara á karfaveiðar, þrátt fyrir það að karfaafli er ágætur og þrátt fyrir það, að þeir hafa umráðarétt yfir verksmiðju, sem hefir eins góð skilyrði til karfavinnslu eins og t. d. Sólbakkaverksmiðjan.

4. Kveldúlfur neitar að láta togarana til að veiða karfa til verksmiðjunnar hér, þrátt fyrir það að þeim hefir verið boðið allt að því kr. 5,50 fyrir hvert mál, og því fyrirsjáanlegur gróði með sæmilegum afla.

Almenningur getur gert sér í hugarlund hvað þetta hefir í för með sér fyrir vinnandi fólk og þjóðina í heild.

Það eru þessir glæpir og fleira, sem Kveldúlfsklíkan ætlar að fela í moldviðri blekkinga og lyga, sem þeir á hverjum tíma þyrla upp, þegar þeir þurfa á að halda.

En það fer ekki hjá því, að augu almennings hljóta að opnast. Það fer ekki hjá því, að svona aðgerðir hlýtur almenningur að stimpla sem landráð.

Og eftir verknaðinum, eflir sökinni, verður Kveldúlfsklíkan dæmd.