Árið 1938 - Almennur fundur- Nokkur orð út af ummælum Finns Jónssonar.

Einherji, 17 janúar 1938

MOTTO:

  • Ef ætlarðu' að svívirða saklausan mann,
  • þá segðu' aldrei ákveðnar skammir um hann
  • en láttu það svona í veðrinu vaka,
  • þú vitir, að hann hafi unnið til saka.

Páll J. Árdal.

Hér boðaði A-listinn til fundar í bíó s.l. fimmtudag. Mætti því ætla, að sá fundur hefði átt að vera undirbúningur undir bæjarstjórnarkosningarnar væntanlegu.

Að vísu var á þær minnst, en ekkert teljandi tekið á bæjarmálum. Tilgangurinn með fundarboðuninni virðist því hafa verið sá, að ræða það mál, sem mest var rætt á fundinum, síldarverksmiðjumálið svokallaða, eða m.ö.o. það, að á síðasta Alþingi var breytt lögum um Síldarverksmiðjur ríkisins, sem virðist liggja mjög þungt á Finni Jónssyni, fyrrverandi formanni Síldarveiksmiðja ríkisins, enda var Finnur látinn hafa sérréttindi um ræðutíma á fundinum.

Því skal ekki haldið fram í þessum línum að Finnur Jónsson hafi í blaðaskrifum né ræðum sínum á fundinum dróttað því beint að Þormóði Eyjólfssyni, að hafa haft í frammi fjárdrátt né þjófnað í sambandi við tryggingar Síldarverksmiðja ríkisins og sjálfur kannast hann ekki við að hafa gert það.

En hitt dylst engum, að málflutningur og ræðublær Finns Jónssonar var mjög til þess fallinn, að vekja grun hjá bæjarmönnum hér á Siglufirði um að Þormóður Eyjólfsson væri mjög varhugaverður maður og hefði jafnvel komið óheiðarlega fram í málum Síldarverksmiðja ríkisins, viðkomandi viðskiptum þeirra við Sjóvátryggingarfélag Íslands.

Hins vegar viðurkenndi Finnur, að því miður hefði hann líka sjálfur (þ.e F. J.) ekki athugað það árið 1936 að tryggja hagfelldustu viðskipti Síldarverksmiðja ríkisins um sjóvátryggingar og bar það fyrir, að hann hefði treyst því, að Síldarverksmiðjur ríkisins hefðu hin hagfelldustu viðskipti í þessu efni, sem hægt væri að fá hjá Sjóvátryggingarfélagi Íslands.

Getur nú Finnur Jónsson með nokkurri sanngirni hafið deilu á Þormóð Eyjólfsson út af vanrækslu, sem ég vegna ókunnugleika veit ekki hvort er á rökum byggð, þegar hann jafnframt lýsir því yfir, að hann sjálfur hafi ekki verið á verði 1936 um hag Síldarverksmiðja ríkisins í nákvæmlega sama atriði, þessum tryggingarmálum?

Mér finnst það hæpið, og sennilega finnst mörgum fleiri Siglfirðingum hið sama, hvort sem fleiri eða færri viðurkenna það, upphátt.

Gott er þess að minnast, að Finnur Jónsson lýsir því yfir á fundinum, eftir allt saman, að hann hafi "enga andúð á Þormóði Eyjólfssyni" - eru það hans orðrétt ummæli. Og "það er fjarri því", sagði Finnur líka á fundinum, "að ég hafi persónulega nokkuð á móti Þormóði Eyjólfssyni".

Finnur Jónsson heldur fram, að Þormóður Eyjólfsson hafi ekki sem skyldi í sinni stjórnarformannstíð leitað hagfelldustu kjara um sjóvátryggingu á verðmæti, sem iðgjöld af nema ca. 21.300 kr., en játar, að hann sjálfur því miður ekki haft hugsun í því að leita bestu slíkra kjara um sjóvártryggingu á verðmæti, sem iðgjöld af nema ca. 33.900 kr. árið 1936, þegar hann sjálfur var formaður stjórnar Síldarverksmiðja ríkisins, enda þótt það sé yfirlýst af Brynjólfi Stefánssyni, forstjóra Sjóvátryggingarfélags Íslands, að hann (Br.St.) hafi boðið stjórn Síldarverksmiðja ríkisins árið 1936 þann marg-umtalaða afslátt á iðgjöldunum.

Á þetta tal F.J. að þýða það, að Siglfirðingar eigi frekar að kjósa A-listann við bæjarstjórnarkosningarnar heldur en Þormóð Eyjólfssón.

En mun það geta verið, að Finnur Jónsson hafi verið með ræðuhöldum sínum á fundinum á fimmtudaginn, meira að hugsa um að torvelda samkomulagið innbyrðis í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, heldur en að vera hollur ráðunautur Siglfirðinga um afgreiðslu sinna vandamála í bæjarstjórn?

A.m.k. minnist ég þess ekki, að hann gerði tilraun til tillagna um bæjarmálin, sem sú bæjarstjórn, sem bráðlega verður kosin, á um að fjalla.

En þeirri hugsun skaut upp í huga mínum, þegar hann sagði á fundinum:

"Hvernig haldið þið að samkomulagið verði í stjórn síldarverksmiðjanna?"

Hvort ræða Finns Jónssonar mundi vera gerð í markvissum tilgangi, þó öðrum en þeim, að stuðla að vinnufriði í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins.

Áheyrandi.