Árið 1938 - Bílstjórar og Skifting vinnunnar.

Einherji 25. Janúar 1938

Ein af háleitustu hugsjónum Jafnaðarstefnunnar er — að því er þeir segja — að jafnrétti ríki í sem flestu, og skyldi maður ætla að höfuðpaurar Jafnaðarmanna hér í Siglufirði færi eftir þeirri kenningu, en það er öðru nær. Maður er nefndur Jóhann F. Guðmundsson, sem flestir verkamenn hér á Siglufirði kannast við að mörgu misjöfnu.

Eins og kunnugt er, er Jóhann þessi, sem stendur yfirverkstjóri hjá Síldarverksmiðjum ríkisins og hefir þar með vinnuúthlutun að gera. Vinnuskiftingin hefir verið svo óheyrilega ranglát, að manni verður á að spyrja, hve lengi slíkum manni á að líðast að misbeita svo valdi sínu, sem raun ber vitni um.

Dæmi þessu til sönnunar er, að einum bílstjóra hefir verið meinuð öll vinna við Síldarverksmiðjunum, meðan aðrir hafa þar fleiri þúsund krónur. Ástæðan fyrir þessu mun vera sú, að smá orðahnippingar höfðu orðið á milli bílstjórans og yfirverkstjórans fyrir rúmu ári síðan,

Öðrum bílstjóra er sett það að skilyrði fyrir vinnu hjá verksm. að hann greiði upp í gamla verslunarskuld við verslun Jóhanns F. Guðmunds, mikinn hluta af vinnulaunum sínum hjá verksm. Einn mann hefir J. F. G. svift vinnu, vegna þess að hann neitaði að biðja hann fyrirgefningar, en báðir, verkstjórinn og verkamaðurinn, höfðu haft stór orð hver við annan og vildi verkamaðurinn að þær sakir jöfnuðust.

Öðrum verkamanni neitaði hann um vinnu með þessum orðum: „Þú færð enga vinnu, þú haft skaða af því fyrr að vera ekki Jafnaðarmaður“. Þeim þriðja bauð hann atvinnu í Ríkisverksmiðjunum ef hann vildi ganga í Jafnaðarmannafélagið og svona mætti lengi telja. Dæmi þessi eru nægileg til þess að sýna þá ósvífnu atvinnukúgun, sem hér hefur verið höfð, og

því ekki ótrúlegt að flestir verkamenn hugsa sig um tvisvar áður en þeir ljá slíkum mönnum atkvæði sitt við hönd farandi bæjarstjórnarkosningar, sem svifta fátæka og atvinnulitla heimilisfeður atvinnu sem þeir eiga heimtingu á að fá án nokkurs endurgjalds til Jóhanns F. Guðmundssonar.

Verksmiðjumaður

---------------------------------------------------------

Neisti, 28. janúar 1938

Skipting vinnunnar heitir grein i síðasta Einherja, undirrituð "Verksmiðjumaður". Er ég þar borinn sökum all rækilega. Það er sagt, að ég hafi meinað bílstjóra vinnu við verksmiðjurnar vegna smá orðahnippinga okkar á milli, að annar bilstjóri fái ekki vinnu, nema að greiða mér mikinn hluta af vinnulaunum sinum upp i gamla skuld, að einn mann hafi ég svipt vinnu, vegna þess að hann neiti að biðja mig fyrirgefningar.

Ýmislegt fleira er tínt til, og verður eitthvað af því ef til vill tekið upp á öðrum vettvangi síðar.

Er best að byrja hér á bílstjóranum með "orðahnippingarnar". Í sambandi við þetta tel ég rétt að birta eftirfarandi vottorð:

"Sumarið 1936 óskaði ég þess við Jóhann F. Guðmundsson verkstjóra, að þegar hann þyrfti á bílum að halda frá V.B.S. þá bæði hann ekki uni sérstaka bíla, heldur tiltæki aðeins hve marga bíla hann þyrfti, svo að stöðin gæti ráðið því sjálf hverjir færu í hvert skipti. Jóhann varð við þessari ósk minni og er ég honum þakklátur fyrir-".

Siglufirði, 14. janúar 1938 f.h. Vörubílastöðvarinnar

Þórarinn Hjálmarsson (sign.)

------------------------------

Út af þessu varð deila á milli mín og Guðjóns Jónssonar bílstóra. Hann vildi láta mig biðja um sig sértaklega. Nú skal ég engan dóm á það leggja, hvor okkar hafi hnippt meira í hinn, það er alveg aukaatriði.

Hitt skiptir aftur máli, að frá þessum tíma hefir hvorugur talað við hinn, og Guðjón þar að leiðandi aldrei minnst á keyrslu við mig.

Aftar á móti hefir hann reynt að fá keyrslu hjá hinum verkstjórunum, og er honum það síst láandi.

Og nú ætla ég að birta hér annað vottorð til þess að sanna mitt:

Samkvæmt ósk Jóhanns F. Guðmundssonar vil ég taka fram eftirfarandi: Það hefir verið venja frá því fyrsta að við Jóhann F. Guðmundsson fórum að starfa saman við Síldarverksmiðjur ríkisins á Siglufirði, að við höfum rætt um hvaða bíla skyldi taka í keyrslu þegar um mikið hefir verið að ræða, svo sem uppskipun á kolum eða salti og fleira.

Síðastliðið vor kom til mín eigandi að bilreiðinni SI-13, Guðjón Jónsson, til heimilis á Siglufirði, og bað mig um keyrslu, en ég sagðist skyldi taka það til athugunar.

Talaði ég svo um þetta við Jóhann F. Guðmundsson, og bað hann mig að vísa Guðjóni til sin og láta það fylgja með, að hann (Jóhann) væri fús til þess hvenær sem væri, að jafna þann ágreining, sem á milli þeirra væri, ef Guðjón óskaði eftir því sjálfur.

Þetta sagði ég Guðjóni en hann sagðist ekki sjá neina ástæðu til að tala við hann um þetta, og sagðist alls ekki biðja Jóhann um neina keyrslu, og sagði að hann gæti alveg eins komið til sín til að tala um þetta.

Litið annað fór okkur á milli í þetta skipti, og bað hann mig ekki oftar um keyrslu á síðastliðnu sumri, og var mér kunnugt um, að hann var ekki farinn að tala við Jóhann þegar ég fór í haust frá Siglufirði, þann 2. október 1937.

Hafnarfirði, 15. nóvember 1937

Guðjón Jónsson, verkstjóri (sign.)

--------------

Svo kemur hér eitt vottorð enn:

Það vottast hér með, að sumarið 1937. meðan ég keyrði vörubíl SI-13, þá fékk ég keyrslu hjá Síldarverksmiðjum ríkisins oftast þegar ég beiddist þess.

Vilberg Þorláksson (sign.)

------------------

Þetta verður að nægja að sinni. Það hefir aldrei staðið á mér að jafna þessar sakir. En mér er nær að halda að það hafi verið af einhverjum óvildarmanni mínum kappsmál að viðhalda þessum ágreiningi og að það hafi ráðið mestu.

En væri ekki rétt fyrir þennan "verksmiðjustjórnarformann" sem í Einherja skrifar, að skýra frá því, þegar Síldarverksmiðjur ríkisins, sumarið 1935, settu verkbann og viðskiptabann á einn af bestu rafvirkjum þessa bæjar.

Hvar var verksmiðjumaðurinn þá með sín, endemisfrægu réttlætiskrumlur?

Mér er ekki kunnugt um, að þeir Einherjamenn hafi talið neitt við þetta að athuga, og kemur þar fram eins og oftar, að það er ekki sama hver í hlut á.

En þeim er nokkur vorkun Einherjamönnum, þar sem vitað er, að sanngirnin hefir aldrei verið þeirra sterka hlið.

Þá kemur bilstjórinn, sem á að hafa greitt mér mikinn hluta af launum sinum.

Rétt frá sagt er það þannig:

Í árslok1934 skuldaði mér einn af bílstjórum þessa bæjar, - sem fengist hafði við útgerð. - 17-18 þúsund krónur. Fyrir þessari upphæð fékk ég víxil.

Maðurinn hafði ekki aðstöðu til þessa að greiða þessa skuld nema á löngum tíma. Sömdum við um það, að hann greiddi mér kr. 1.50 fyrir hverja klukkustund sem hann keyrði hjá ríkisverksmiðjunum.

Nokkru seinna lækkuðum við þetta niður í kr. 1.25 á klukkustund. - Á þennan hátt hefi ég fengið greitt á tveimur árum kr. 260.90. ég tók það fram við manninn strax, að hann skyldi ekki koma í keyrslu til mín, þótt hann væri kallaður, ef hann gæti fengið eitthvað að gera annarsstaðar, til þess að hann finni sem allra minnst til þess að greiða eitthvað í skuldinni.

Mér verður að spyrja: Hversvegna er Framsóknarklíkunni svo illa við það, að þessi bílstjóri sé skilamaður, eftir því sem efni standa til?

Er það vegna þess að ég er eigandi skuldarinnar, eða af því að "klíkan" ætli sér í framtíðinni að hvetja menn til vanskila?

Fyrri tilgátan mun þó réttari, og vil ég því til sönnunar benda á þetta :

Árið 1935 skrifuðum við Þormóðar upp á 500 kr. víxil fyrir mann hér í bæ. Hann gat ekki greitt víxilinn á gjalddaga. Í annað sina sem víxillinn var framlengdur vildi Þormóður heldur vera einn á honum, (þá var hann með eitt kastið, sem orsakaði það, að hann talaði ekki við mig). Nú, hefir þessi maður greitt víxilinn að fullu með vinnu sinni við afgreiðslu Eimskip hér á staðnum.

Hér kemur það sanna fram eins og með bílsljórann og rafvirkjann, sem að framan getur.

Réttlætiskrumlurnar kreppast misjafnlega fast saman, eftir því hver í hlut á.

Í sambandi við verkamanninn, sem ég á að hafa svipt atvinnu og sem mun vera Óskar Sveinsson, þá vil ég skora á Höfuðsmann Einherja, Þormóð Eyjólfsson, að birta bréf það, sem Óskar skrifaði (var látinn skrifa er réttara) stjórn ríkisverksmiðjanna síðastliðið sumar, og svör okkar Guðmundar Sigurðssonar verkstjóra við því.

Þegar þau bréf hafa verið birt, mun hlutur Einherjamanna rýrna all verulega.

En þótt ég sé saklaus af því, að hafa beitt atvinnukúgun, er ekki þar með sagt, að henni hafi aldrei verið beitt, eða átt að beita.

Það var tilraun til atvinnukúgunar þegar einn af vélstjórunum átti ekki að fá atvinnu við ríkisverksmiðjurnar af því að hann væri kommúnisti.

Það var líka tilrann til atvinnukúgunar þegar reka átti einn verkamanninn, sem fylgdi kommúnistum að málum, en taka annan sem var í flokki hægra megin við Alþýðuflokkinn.

Og það var atvinnukúgun þegar Guðberg Kristinssyni var bolað frá Vinnumiðlunarskrifstofunni, þvert ofan í áður gert samkomulag milli Alþýðuflokksins og Framsóknarflokksins.

Og svo hinar marg endurteknu yfirlýsingar Þormóðs Eyjólfssonar um það, að ég skyldi verða rekinn frá ríkisverksmiðjunum, hvað eru þær annað en tilkynning um atvinnukúgun, sem hann ætlaði sér að framkvæma, en þorir ekki?

Að hverjum rétti Jón Gíslason þá sneið um daginn á A-listafundinum, að sumir starfsmenn ríkisverksmiðjanna hefðu ekki þorað að fara í kveðjusamsæti það, sem Gísla Halldórssyni var haldið, af ótta við atvinnumissir?

Vill ekki "Verksmiðjumaðurinn" í Einherja svara því?

Í öllum Þeim ritdeilum, sem við Alþýðuflokksmenn höfum átt við Einherjamennina, hafa þeir borið skarðan hlut.

Einherji flutti einu sinni þá frétt, í nafnlausri grein, að ein stúlkan við símann væri njósnari fyrir Alþýðuflokkinn.

Ábyrgðarmaður blaðsins sagðist ekki hafa skrifað greinina en neitaði að gefa upp höfundinn.

Hann var dæmdur.

Síðar flutti blaðið svívirðingar um mig og Erlend Þorsteinsson. Í báðum tilfellum sagðist ábyrgðarmaðurinn ekki hafa skrifað greinarnar, en neitaði að gefa upp höfundana.

Hann var dæmdur. Og nú er svo komið, að engin fæst til að vera ábyrgðarmaður þessa vandræðablaðs, nema þjónn Þormóðs Eyjólfssonar.

Vekur það grun um, hvaðan óþverrinn muni hafa runnið.

Og síðast en ekki síst má geta þess, að Þormóður Eyjólfsson hefir verið dæmdur fyrir niðrandi umæli um mig, í sambandi við ríkisverksmiðjurnar.

Það er því ekki að ástæðulausu, þótt ég sé ekki beint elskaður af hinum biksvörtu halastjörnum i Vetrarbrautinni.

J.F.G