Af hverju Sjálfstæðismenn eru með bæjarrekstri á Rauðku?

Siglfirðingur 3. október 1939 Grein Jón Gíslason

Eins og á öðrum stað er getið um hér í blaðinu - voru felldar tillögur Sjálfstæðismanna, sem gengu í þá átt að selja Rauðku til einkareksturs. Að Sjálfstæðismenn reyndu um mörg ár að láta verksmiðjuna komast í einstaklinga eign, stafar fyrst og fremst af því, að með því móti hefði hún í sæmilegum árum borið langsamlega stærsta bagga útsvaranna, því að sjálfsögðu var okkur ljóst, að hverjir sem eignuðust Rauðku mundi hún verða gerð að nýtísku verksmiðju.

Og ef Rauðka hefði sem einstaklings eign, verið gerð að 5.000 mála verksmiðju, með nýtísku vélum og sparsamri stjórn, - má gera ráð fyrir að hún hefði greitt í útsvar um eða yfir 50 þúsund krónur í meðal ári.

Þess má geta, að S.Goos greiddi hér, er hann rak verksmið­juna, 25 þúsund króna útsvar eða meira og voru þó atköst Rauðku þá ekki nema 700-900 mál, en síðan hann rak verksmiðjuna hafa útsvör og umsetningarskattar stór hækkað.

Eftir að allar tilraunir Sjálfstæðismanna um sölu eða leigu til einstaklinga voru að engu gerðar, áttu þeir í þessu máli um tvennt að velja:

Annað var, að Ríkisverksmiðjurnar keyptu Rauðku. Með þeirri sölu voru úr sögunni einustu möguleikarnir til að lækka hin háu og ranglátu útsvör, sem allir bæjarbúar eru nú að sligast undir. Og með því var um aldur og æfi gengnir í greipar Ríkisins allir gróðamöguleikar bæjar og einstaklinga og dýrmæt lóðarréttindi.

Hin leiðin var sú, að bærinn ræki sjálfur fyrirtækið og fengi lán til að auka og endurbyggja verksmiðjuna.

Aðeins um þetta tvennt var að velja. - Með sölunni var eins og fyrr segir, öll hagnaðarvon horfin, og borgararnir ver settir en áður um skattabyrðarnar. Með því að bærinn ræki verksmiðjuna og endurbyggði eru mikil og sterk rök fyrir því, að hún gæti orðið hinn mesti og besti bjargvættur þessa bæjar.

Nú mun einhver spyrja:

Af hverju látið þið ekki einhvern einstakling fá verksmiðjuna og endurbyggja hana - ef það er satt að þið í meðal ári getið fengið um 50 þúsund krónur í útsvar?

Því er til að svara, að nú síðan hinir gífurlegu skattar, sem árs árlega eru að aukast voru lögleiddir hér á landi, svo og síðan hinn alltof hái umsetningaskattur kom til sögunnar - þá. munu lánardrottnar vera mjög tregir (vægast sagt) til þess að lána fé til einkareksturs í öllum þeim bæjum og kaupstöðum þar sem útsvör og umsetningarskattur eru jafn gífurlega há og hér víðast hvar - og þá ekki hvað síst hér á Siglufirði. (Þess má geta í þessu sambandi, að Kveldúlfur og Alliance borga hver á sínum stað í útsvar, ekki nema lítinn hluta af því útsvari sem samskonar rekstur yrði að borga hér).

Þegar þetta er athugað ætti mönnum að vera það ljóst, að það voru eins litlar líkur til þess að lán fengist til endurbyggingar Rauðku sem einkafyrirtækis, eins og þær voru miklar ef hið opinbera, í þessu tilfelli bærinn ætti í hlut, því bærinn leggur að sjálfsögðu ekki útsvar eða umsetningaskatt á þetta fyrirtæki sitt frekar en önnur, sem hann rekur. Og þá má enn spyrja:

Hvað er þá unnið við að bærinn reki og endurbyggi Rauðku ef hann leggur enga skatta á reksturinn, en stofnar bæjarfélaginu í mikla áhættu?

Í fyrsta lagi getur bærinn ráðið, eingöngu Siglfirðinga til vinnu í verksmiðjunni. En Það mundi ekki fást ef Ríkið keypti hana.

Í öðru lagi er það sannanlegt mál, að síldarverksmiðjurekstur er einhver allra arðvænlegasta atvinnugrein, sem rekin er hér á landi. En það er vegna þess að Síldarverksmiðjur Ríkisins ráða verðinu og hafa það svo lágt, vegna þess, hve þær flestar eru gamlar og ekki síst sakir síns mikla pólitíska reksturskostnaðar þeirra. t.d. má geta þess að 19 manna stjórnarliði verksmiðjanna er ættað 92.800 kr. (sjá Eimreiðina 2.hefti þ.á. bls.139) á fjárlögum 1940.

Endurskoðun kostar um 5 þúsund. Símareikningur milli 30-40 þús­und. Tap á Sólbakka og Húsavik og siglingakostnaður, að því er heyrst hefir, um 100 þúsund. Og samt stórgræða Ríkisverksmiðjurnar sl.ár. - Já, enda þótt afskrifaðar sé árlega tugir þúsunda, fyrir afglöp sem enginn þykist bera ábyrgð á!

Af þessu og mörgu öðru sem minnast mætti á í þessu sambandi, ætti það að vera öllum Siglfirðingum ljóst - að nýtísku verksmiðja undir stjórn Snorra Stefánssonar, ætti að gefa sæmilegar tekjur þau ár sem Ríkisverksmiðjurnar gætu sýnt hagnað sem næmi þeim 92.800 kr. sem yfirstjórn þeirra kostar Af þessu ættu allir að geta séð, að sterkar líkur eru fyrir , því að Rauðka - ef hún hefði fengist endurbyggð, hefði getað borið stærsta baggann af útsvörum þessa bæjar, svo og veitt fjölda manns atvinnu árlega fyrir utan þá miklu vinnu sem fengist hefði í haust og vetur við endurbygginguna. Að sjálfsögðu hefði nokkur hluti árlegs gróða runnið til bæjarins, eins og t.d ágóði af vatnsveitu o.fl.

En vonirnar um þetta eru nú að engu orðnar. Verkamenn og smiðir, sem lítið hafa borið úr býtum undanfarið sumar, geta nú, þegar þeir fara að ganga atvinnulausir, hugsað með “þakklátum huga” til Siglfirska borgarans og bæjarfulltrúans, “mesta manns Siglufjarðar um 20 ára skeið” - hr. Þormóðs Eyjólfssonar.

Því hann hafði forustuna fyrir þeim mönnum sem unnu að því að eyðileggja haust og vetraratvinnu fjölda bláfátækra manna. Svo og þá langþráðu von allra skattborgara bæjarins, að útsvör þeirra færu eitthvað að lækka. því það get ég fullvissað alla Siglfirðinga um, að ef Þormóður hefði barist eins fyrir þessu máli innan síns flokks í Reykjavík, eins og aðrir þeir bæjarfulltrúar sem um það hafa fjallað - þá væri Rauðkumálið fyrir löngu leyst, því maður eins og Sveinn Benediktsson var ekki einn fær um að drepa það.

En þegar óvinir okkar Siglfirðinga á hinum æðri stöðum fengu einn af bæjarfulltrúunum á Siglufirði í lið með sér, ásamt Sveini Benediktssyni, þá hlaut málið að fá illan enda.

Eftirmáli.

Við Sjálfstæðismenn trúðum því að við mundum geta, fengið sómasamlega afgreiðslu á þessu máli, og það var vegna þess, að núverandi atvinnumálaráðherra Ólafur Thors hafði sjálfur þurft að berjast mikilli og harðvítugri baráttu til þess að fá að byggja nýtísku verksmiðju á Hjalteyri.

Haraldur Guðmundsson var þá atvinnumálaráðherra, og réðst Ólafur, að makleikum, harðlega á hann í útvarpsræðu er hann flutti á Alþingi og birtist í Morgunblaðinu 25, mars 1937. En Þar segir:

“En úr því sem komið er, verður víst að telja, að enginn ráðherra sjái sér fært að standa gegn leyfinu”

Og síðar lýsir hann örlögum þeirra manna sem fremja slíkt glapræði “að varna því að reist væri ný stór verksmiðja á Hjalteyri er veitti hundruðum manna nýja góða atvinnu, Það muni gera þann sem það reyni, að pólitísku líki fyrr eða síðar.”

Svona var tónninn í Ólafi Thors við þáverandi atvinnumálaráðherra, - og þeir sem fletta vilja upp í leiðurum Morgunblaðsins frá 21, mars 1937 og 24. mars s.á., þeir munu sjálfsagt finna sterkari orð í garð Haraldar Guðmundssonar en hér eru tilfærð eftir Ólaf Thors.

En Ólafur Thors hefir kannski eins og Þormóður, viljað forða bænum frá þeim voða, sem, talinn er af óvinum Rauðkumálsins, að það sé að byggja nýtísku síldarverksmiðju. Dráttur hans á leyfisveitingunni - og öll afgreiðsla málsins hefir kannski miðast við það, að forða bænum frá þessum voða.

En ég vil nú að lokum biðja menn að lesa grein eflir hann um Rauðkumálið, sem birtist í Morgunblaðinu 19.ágúst þ.á. en þar stendur: "þó síldveiðin bregðist í ár, raskar það á engan hátt þeirri stað­reynd, að með öllu er áhættu­laust að lána fé til byggingar svo arðvænlegs fyrirtækis." (það er Raufarhafnarverksmiðjunnar).

Ólafur Thors spáði pólitískum dauða þeirra manna sem stæðu gegn leyfi til byggingar verksmiðjunnar á Hjalteyri. Ég vona að spá hans rætist á öllum, sem staðið hafa á móti leyfinu, til endurbyggingar Rauðku; vona að þeir, eins og hann kemst að orði, verði að pólitísku líki fyrr eða siðar.

Jón Gíslason