Tengt Siglufirði
Mjölnir, 8. ágúst 1942
Í síðasta blaði var gerð, að umtalsefni hættan á hernaðarlegum árásum hér á landið. Voru þar raktar ýmsar staðreyndir, sem bentu til þess , að hættan væri að aukast.
Síðan það var skrifað hefir ýmislegt gerst, sem bendir ótvírætt í sömu átt. Má nú segja að svo sé komið, að þýskar flugvélar séu hér yfir landinu á hverri nóttu og hafa þær tvívegis skotið af vélbyssum á mannvirki og einu sinni varpað sprengjum.
Manntjón hefir sem betur fer ekki ennþá hlotist af og lítið eignatjón. En hér er svo alvarleg hætta á ferðum, að hún hlýtur að vekja hvern mann til umhugsunar.
Hér á Siglufirði hafa tvívegis verið gefin hættumerki, nú síðast a aðfaranótt miðvikudags. Í bæði þessi skipti hefir það komið í ljós, að ástandið í loftvarnamálunum er gjörsamlega óviðunnandi.
Loftvarnakerfið er allt í molum ennþá ?
Menn þeir, sem eiga að mæta í hjálparsveitunum o.s.frv. mættu ekki, staðir þeir, sem ætlaðir eru sem loftvarnabyrgi voru sumir læstir, almenningur ekkert undir það búinn að gera það sem á að gera, menn stóðu á götunum og gláptu upp í loftið og komu jafnvel hlaupandi út úr húsum sínum.
Á vinnustöðvunum, t.d. Ríkisverksmiðjunum, voru menn úrræðalausir og vissu ekkert hvað þeir áttu að gera.
Svona má ekki til ganga lengur. Menn verða nú að horfast í augu við það, að árás getur verið gerð á hverri stundu.
Enginn má álíta sig svo óhultan, að hann þurfi ekki að gera það hann getur til varnar sér og öðrum.
Fyrir nokkru síðan var farið með sand og skóflur í hús í bænum. Ekki er blaðinu kunnugt hvort farið hefur verið með í öll hús.
Víða mun þessu hafa verið komið fyrir í forstofum eða miðstöðvarkompum og öðrum skotum, en alls ekki verið þar sem það á að vera, uppi lofti.
Þessu þarf fólk tafarlaust koma í lag.
Hvern beri að saka um, að þessum er ekki lengra komið, er ekki gott að segja. Í þessu hefir ríkt andvaraleysi og sljóleiki.
Það er því vafasamt að fara að rífast um það, hver beri sökina. Nú er um að gera að hafist verð handa. Það sem næst liggur fyrir virðist vera: Að nú þegar verði allt loftvarnakerfið endurskoðað og látin fara fram loftvarnaæfing, sem sýni hvernig það reynist, að því verði stranglega framfylgt, að staðir þeir, sem ætlaðir eru sem loftvarnabyrgi, verði alltaf hafðir til taks, að á öllum vinnustöðvum verði verkafólkinu gert það ljóst, hvað það á að gera og hvar það á að leita hælis ef hættu ber að höndum, sérstaklega er þess þörf í síldarverksmiðjunum að allt sé gert, sem hægt er, til að sjá verkamönnunum borgið.
Þeir atvinnurekendur, sem sýna kæruleysi um líf og limi verkamannanna ættu skilið þungar refsingar.
Margir hafa á það bent réttilega, að mjög óheppilegt sé að nota rafflautuna bæði þegar kviknar í og til að gefa hættumerki. Fólk áttar sig ekki strax á því hvort heldur er og getur það valdið ruglingi. Virðist óþarfi að nota nema litlu lúðrana, þegar eldur kemur upp, en nota svo, rafflautuna einungis þegar um árásar hættu er að ræða.
Það er ekki hægt að skiljast svo við þetta mál, að minnast ekki á hinar virku loftvarnir, þ.e. þann hluta varnanna, sem hin erlendu setulið hafa tekið að sér, að sjá um.
Að því er virðist, eru þessar varnir því næst engar, hvorki loftvarnabyssur né flugvélar. Óhætt mun að fullyrða, að Siglufjörður sem framleiðslubær sé engan veginn lítilvægur og að það væri tjón fyrir Bandamenn, ef hér yrðu gerð spjöll og eyðilegging. Er það því undarlegt, hve lítið hefir verið gert til þess að efla varnir bæjarins. Herbúðir hafa verið settar niður í miðjum bænum og dregur það ekki hættunni.
Forráðamenn bæjarins þurfa vafalaust að vekja athygli hernaðaryfirvaldanna á þessu og gera það sem hagt er, til að fá því kippt í lag.
Það, sem hver einasti - maður þarf nú að gera sér ljós, er að nú þegar verður að hefjast handa.
Hæðnisorð eins og að þessi eða hinn sé "hræddur" og geri því ráðstafanir, mega ekki heyrast. Það er hvorki hugrekki né hetjuskapur að vera kærulaus fyrir því, sem framundan er. Enda ekki víst að þeir, sem tala digurbarkalegast meðan ekkert skeður, verði brattastir þegar í harðbakkann slær.
Oft hefir reynslan sýnt hið öfuga. Menn, mega heldur ekki að ástæðulausu láta það henda sig, að færast undan þeim störfum, sem þeim eru falin. Nú verða allir að gera það, sem þeir geta! Enginn má skerast úr leik.