Árið 1943 - Fréttabréf frá Þrótti

Mjölnir, 21. desember 1943

Frá Verkamannafélaginu "Þrótti".

Framkvæmdastjóri Síldarverksmiðjasmiðja ríkisins hefur fyrir hönd verksmiðjustjórnar skrifað Verkamannafélaginu Þrótti bréf, þar sem óskað er eftir að Verkamannafélagið framlengi verkakaupsamninga þá, sem nú gilda milli þessara aðilja um eitt ár eða frá 1. janúar 1944 til 1. janúar. 1945.

Stjórn og trúnaðarráð munu fljótlega taka bréfið til yfirvegunar og væri eðlilegast að fram færi um málið allsherjar atkvæðagreiðsla.

Með því móti komi best í ljós vilji félagsmanna í þessu stórmáli.

Síðasti fundur Þróttar var ágætlega sóttur. Erindi Eyþórs Hallssonar var hið skemmtilegasta. Fjallaði það aðallega um hákarlaveiðar áður fyrr. Kjartan Helgason las upp kvæði, og Gunnar Jóhannsson las upp úr bókinni Nýr heimur.

Mikill áhugi er ríkjandi meðal félagsmanna "Þróttar" um að efla félagið allan hátt og auka fræðslustarfið. Næsti fyrirlestur, sem haldinn verður í félaginu er um verkalýðshreyfinguna á Norðurlöndum. Ásgrímur Albertsson mun flytja þennan fyrirlestur. Ekki er að efa, að fyrirlesturinn verður hinn fróðlegasti, því Ásgrímur hefur kynnt sér sögu verkalýðshreyfingarinnar á Norðurlöndum.

Ættu meðlimir Þróttar að fjölmenna og sýna þar með samúð til frænda okkar Norðmanna, því saga verkalýðshreyfingarinnar í Noregi er einn stærsti kafli í sögu Noregs síðustu áratugina.

Á síðasta , bæjarstjórnarfundi var samþykkt tillaga, sem Gunnar Jóhannsson hafði flutt í Hafnarnefnd um að í útborgun vinnulauna hjá Siglufjarðarkaupstað verði breytt í það horf, að vinnulaunin verði talin í umslög handa hverjum einstökum verkamanni og verkstjóri afhendi svo mönnum umslögin, og láti þá skrifa nafn sitt á vinnulistann sem viðurkenningu fyrir móttöku vinnulaunanna.

Var allsherjarnefnd falið að ganga frá þessu máli nú þegar.

Ástæðan fyrir þessari tillögu er sú, að verkamenn eru mjög óánægðir með það fyrirkomulag, sem verið hefur á útborgun vinnulauna hjá bænum.

Sérstaklega hefur afgreiðslan gengið afar illa; ekki við öðru að búast, þar sem aðeins var borgað út tvisvar í viku og þá aðeins tvo tíma í einu. Hver einstakur varð að fara inn til gjaldkera, og fór oft og tíðum langur tími í að rannsaka, hvort viðkomandi skuldaði ekki eitthvað hjá bænum, á meðan beið allur hópurinn óafgreiddur fyrir framan.

Þessi breyting verður til stór bóta fyrir báða aðila og ætti allsherjarnefnd að afgreiða þetta mál nú strax.

Þess skal getið að á að á síðasta Þróttarfundi var þetta mál allmikið rætt og samþykkt áskorun til bæjarstjórnar um að breyta um að aðferðir við útborgun vinnulauna í samræmi við gildandi kauptaxta og stjórn Þróttar falið að fá þessu kippt í lag sem allra fyrst.