Tengt Siglufirði
Mjölnir, 11. ágúst 1943
Kyndaraverkfallið.
Að vonum hefur verkfall kyndaranna í ríkisverksmiðjunum verið mikið umtalað mál, ekki aðeins hér á Siglufirði, heldur um allt land. - Sunnanblöðin hafa öll skrifað um málið, sum langar greinar.
Fyrir verkamennina í verksmiðjunum, sem eru kunnugir málavöxtum, er það mjög fróðlegt að kynna sér þessi skrif.
Morgunblaðið og Alþýðublaðið dæma kyndarana mjög hart og taka einstrengingslega afstöðu með verksmiðjustjórninni, sá sem læsi skrif þessara blaða, og fengi engar aðrar upplýsingar um deiluna, hlyti óhjákvæmnilega að fá um hana alranga hugmynd.
Þegar rekstur hófst í sumar var kyndurunum greitt eftirvinnukaup almennra verkamanna að viðbættum 10% en þar sem kyndurum er greitt 20% hærra mánaðarkaup en almennum verkamönnum er hér um að ræða bersýnilegt misrétti.
Kyndararnir kvörtuðu yfir þessu og fóru fram á hækkun, án þess þó að tiltaka nokkuð ákveðið. En í samningi Þróttar við verksmiðjuna eru engin greinileg ákvæði um eftirvinnu kyndara. Enga leiðréttingu á málum sínum gátu kyndararnir fengið sjálfir og þegar 3 vikur voru liðnar af reksturstímabilinu, tók þróttur að sér málið en ekkert samkomulag fékkst við þær samningaumleitanir.
En kyndararnir voru orðnir mjög óþolinmóðir og þegar sýnt þótti að "Þróttur" næði engu samkomulagi og ekki var fyrir "Þrótt" annað hægt að gera en skjóta málinu til Félagsdóms ákváðu kyndarar að taka málið í sínar hendur og óskuðu þess, að "Þróttur" skipti sér ekki meira af því.
Það skal fúslega viðurkennt, að það er óeðlilegt og miður æskilegt að nokkrir einstaklingar úr verkalýðsfélagi hefji verkfall upp á eigin spýtur, en hér stóð í raun og veru alveg sérstaklega á.
Sú óbilgirni af verksmiðjustjórn, að neita öllu og vilja ekkert bjóða til samkomalags, þrátt fyrir að öll sanngirni mælti með að kyndararnir fengju eftirvinnukaup í sömu hlutföllum og aðrir, er óvenjuleg og til þess fallin að skapa óvenjulegar mótaðgerðir.
Eftir að kyndararnir höfðu lagt niður vinnu, krafðist verksmiðjustjórnin að "Þróttur" sæi um að þeir kæmu aftur til vinnu eða útvegaði aðra menn til vinnunnar.
Stjórn og trúnaðarmannaráð hvorki vildi né gat orðið við þessu, enda þótt að verkfallið væri án tilhlutunar "Þróttar" og undirbúningur þess og tilhögun öðruvísi, en verið að reka rýtinginn í bak félaga sinna, og þó því sé haldið fram að kyndararnir hafi verið að brjóta gerða samninga, eru atriði sem halda hinu gagnstæða fram svo þar er staðhæfing gegn staðhæfingu.
En um það verður varla deilt að verksmiðjustjórnin braut a.m.k. anda samningsins, þegar hún neitaði að greiða kyndurunum nema 10% hærra eftirvinnu kaup en almennum verkamönnum þrátt fyrir að þeir höfðu 20% hærra mánaðarkaup.
Það sem hefur vakið mesta undrun margra í þessari deilu er framkoma Finns Jónssonar. Hann er, auk þess að vera í verksmiðjustjórn, meðlimur Alþýðusambandsstjórnarinnar, en virtist hafa verið harðastur í verksmiðjustjórninni í garð kyndaranna, og má telja það fullvíst, að hann muni hér hafa farið öðruvísi að en þeir menn óskuðu, sem kusu hann í stjórn landssambands verkalýðsfélaganna.
Deilu þessari er lokið með því, að kyndarar og þróarmenn fá eftirvinnukaup hlutfallslega jafnmikið hærra en almennir verkamenn, og þeir hafa hærra mánaðarkaup, og er það sanngjörn lausn málsins.
Þetta hefði sennilega náðst samkomulag um ef verksmiðjustjórn hefði boðið það áður en til verkfalls kom, þó kröfur kyndara væru hærri.
Verksmiðjurnar voru stöðvaðar um hálfan annan sólarhring, svo mikill skaði hefur af þessu hlotist og færi vel á því að það gott gæti þó af honum hlotist, að hann gerði menn hyggnari, svo samskonar árekstrar kæmi ekki fyrir aftur.
Sambúð verkamanna og ríkisverksmiðjustjórnar hefur undanfarin ár verið slæm og mikið verri en sambúð verkamanna og annarra atvinnurekenda. Þetta er óeðlilegt og nauðsynlegt að laga.
En auðvitað verður það ekki lagað nema með sameiginlegu átaki beggja aðilja. Verkamenn hafa nokkurn hug á þessu nú og skal því að óreyndu ekki vantreyst að verksmiðjustjórn komi þar á móti.
Þ.G