Árið 1943 - Þáttur Þórodds Guðmundsonar í kyndaraverkfallinu

Neisti, 28. ágúst 1943

Kyndaraverkfallið - Finnur Jónsson skrifar

Þóroddar Guðmundsson hefur í Mjölni 11. þ.m. gert kyndaraverkfallið að umtalsefni og sérstaklega afstöðu mína til þess.

Segir Þ.G. í grein þessari að ef verksmiðjustjórnin hefði boðið það, sem samkomulag varð um, áður en til verkfalls kom, myndi sennilega aldrei hafa orðið af verkfalli.

Af þessu tilefni tel ég ástæðu til að benda á eftirfarandi atriði.

Kyndararnir voru óánægðir með það eftirvinnukaup sem framkvæmdastjóri greiddi þeim, frá því verksmiðjurnar tóku til starfa þann 8. júlí. Þeir munu hafa kvartað yfir þessu en enga áheyrn fengið hjá Þ.G. fyrr en hann snýr sér loks til forstjóra verksmiðjanna í síma þann 26. júlí og skrifar verksmiðjustjórn síðan bréf um málið daginn eftir, þann 27. júlí.

Finnur Jónsson - SR Ljósmynd: Kristfinnur

Finnur Jónsson - SR Ljósmynd: Kristfinnur

Verksmiðjustjórn var í heild ókunnugt um málið þangað til, og það er því fyrst og fremst hinn óskiljanlegi dráttur, er varð á málinu af hálfu Þ.G., sem mun hafa valdið óánægju kyndaranna, hvaða afsakanir sem hinn launaði starfsmaður Þróttar kann að færa fram fyrir aðgerðarleysi sínu í þessu máli.

Og þegar hann loks hefst handa, kemur honum ekki til hugar að bera fram kröfur kyndaranna eða það, sem hann réttilega telur í Mjölni,- "sanngjarna lausn málsins" heldur ber fram nýjar kröfur og staðhæfir, að LÁÐST HAFI að semja um eftirvinnukaup þróarmanna og kyndara og krefst þess, að þróarmenn fái sama eftirvinnukaup og vindumenn, en kyndara eftirvinnukaup það, er samkvæmt samningi við verksmiðjurnar skal greiða við uppskipun á kolum.

Verksmiðjustjórnin gat ekki fallist á að gera nýjan samning á miðju rekstrartímabili um það, er hún taldi áður samið um og neitaði einróma að fallast á þennan skilning Þ.G. Þá lýsti hann því yfir, að hann myndi fyrir hönd Þróttar leggja til, að málið fari fyrir Félagsdóm.

Enginn vafi er á, að ef Þ.G. hefði þegar í upphafi haldið fram upprunalegri ósk kyndaranna, eða þerri túlkun á samningnum, sem hann nú viðurkennir "sanngjarna lausn málsins", þá hefði hann, fengið um það samkomulag við verksmiðjustjórnina, en Þ.G. kaus það ekki, heldur bar fram kröfur, sem enga stoð eiga í samningunum eins og hann er í frumriti Þróttar og verksmiðjustjórnarinnar, og bauð að leggja þær undir Félagsdóm, ef ekki yrði samkomulag um þær.

Kröfur Þ.G. eru skjalfestar í bréfi hans til verksmiðjustjórnar dagsettar 27. júlí og er hægur vandi að birta bréf þetta í heild, ef Þ.G. gefur tilefni til þess.

Því til sönnunar, að vandalaust var fyrir Þ.G. að fá málið leyst, EF HANN HEFÐI TEKIÐ ÞAÐ UPP Á RÉTTUM GRUNDVELLI, má nefna, að verksmiðjustjórnin bauð kyndurunum þegar, í því fyrsta, og raunar eina samtali, er hún átti við þá, að reikna eftirvinnukaup þeirra eftir mánaðarkaupi, eins og þeir sögðust hafa skilið að þeir ættu að fá upphaflega.

En kyndararnir höfðu þá öðlast skilning Þ.G. á samningnum og vildu ekki við þessu líta. Það verður því eigi annað séð, en að það hafi verið túlkun Þ.G. á samningnum, sem hratt kyndurunum út í verkfallið, og þessa túlkun sendir Þ.G. verksmiðjustjórn, af því er hann segir, í umboði Þróttar.

Þegar svo kyndararnir eru komnir út í verkfall, gefur Þ.G. yfirlýsingu um að það sé Þrótti óviðkomandi og hverfur alveg frá þeim kröfum, sem hann hafði gert í umræddu bréfi til verksmiðjustjórnar og hlýtur þessi framkoma hans að vekja nokkra undrun jafnvel hjá þeim, sem þekkja Þ.G.

Það er jafn fjarri mér og áður að verja verkfall kyndaranna, hinns vegar verður að virða þeim til vorkunnar að þeir gerðu það, af því var ákveðið haldið fram af Þ.G. að engir samningar væru til um eftirvinnukaup þeirra, og ennfremur það að kaupgjaldssamningur sá, er hann hafði látið prenta hljóðar nokkuð á annan veg en frumrit samningsins, sem er í höndum Þróttar og verksmiðjustjórnar.

Breytingin frá frumritinu, sem Þ.G. hafði látið gera í prentun, gat gefið kyndurunum nokkra ástæðu til að álíta, að þeir ættu að fá eftirvinnukaup við kolavinnu, eins og stóð í útgáfu Þórodds.

Kyndararnir höfðu ekki aðgang að frumritinu og gátu því ekki vitað að þar stóð skipavinna við kol, en ekki vinna við kol.

Þ.G. mun hafa leynt kyndarana þessari "prentvillu", hver svo sem tilgangurinn hefur verið með því.

Svona er þáttur Þ.G. í kyndaraverkfallinu og er ekki nema von, að hann reyni að leiða athygli frá honum, með því að bera mér það á brýn, að ég hafi verið harðastur í verksmiðjustjórn í garð kyndaranna.

Ég dró enga dul á skoðun mína, hvorki við kyndarana né við stjórn og trúnaðarráð Þróttar. Ég hef oftsinnis dáðst að hraustlegum handtökum sumra kyndaranna í ríkisverksmiðjunum, við hið erfiða starf þeirra, en samt sem áður taldi ég það skyldu mína að benda þeim á, að verkfall þeirra væri í alla staði ólöglegt og þeim sjálfum og öðrum verkamönnum við verksmiðjurnar til tjóns.

Þetta er í fullu samræmi við opinberar yfirlýsingar Alþýðusambandsins frá síðasta þingi þess, þegar sambandið skoraði á verkalýðinn að láta niður falla allan smáskæruhernað en taka upp skipulagða starfsemi í verkalýðsfélögum til þess að fá bætt kjör sín með heildarsamningum við atvinnurekendur.

Hitt er svo annað mál að starfsmenn verkalýðsfélaga geta verið misjafnlega til þess fallnir að leiða hina skipulögðu baráttu til kjarabóta, svo vel fari, en félögin ráða sjálf hverja þau velja til þess starfa og getur fólgist nokkur hætta í því fyrir þau, ef til þess veljast menn, sem hugsa meira um flokkslegan áróður, en heildarhag félagsmanna.

Fullyrðing Þ.G. um að sambúð verkamanna og verksmiðjustjórnar sé hin versta, og mikið verri en sambúð verkamanna við aðra atvinnurekendur, kemur mér undarlega fyrir sjónir. Verksmiðjustjórnin hefur hin síðari árin a.m.k. venjulega verið á undan öðrum með samninga um bætt kjör verkamanna, t.d. hækkun á kaupi vegna hins óvenjulega ástands á s.l. ári, mér vitanlega hafa mjög fáar kvartanir borist verksmiðjustjórn út af samningum, sem gerðir hafa verið.

Er mér því nær að álíta, að þessi ummæli Þ.G. séu rakalaus uppspuni, nema því aðeins að umkvartanir verkamanna tefjist einhversstaðar á leið til verksmiðjustjórnar, eins og umkvartanir kyndaranna, en þá töf er Þ.G. manna best kunnugt um.

Finnur Jónsson.