Árið 1943 - Texta margbreytni og..

Siglfirðingur 12. ágúst 1943 

Hver átti sök á verkfalli kyndaranna ?

Þess verður að krefjast, að allir vinnslusamningar er gerðir eru og kauptaxtar, séu þannig úr garði gerðir, að enginn, sem hlut á að máli, geti misskilið þá Verkamenn eiga aðgang að þeim, er slíka taxta semja og gera tvíræða vinnusamninga fyrir þeirra hönd.

Það er varla of mælt, að óhug hafi slegið á alla ábyrga menn og hugsandi í þessu landi er fregnin um kyndaraverkfallið burst út um landsbyggðina 5.þ.m. og það með að langstærsta og voldugasta iðnaðarfyrirtæki landsins höfuðkjarni sjálfra Ríkisverksmiðjanna væri stöðvað fyrirvaralaust, atvinnu hundraða manna í landi af þeim orsökum spyrnt út á hverfanda hvel og lífsafkomu þúsunda sjómanna, útgerðarmanna og skylduliðs þeirra stefnt í fullkominn voða.

En, sem betur fór, rættist úr þessu eftir rúmar 30 klukkustundir, og þótt þetta ástand var­aði eigi lengur en þetta, varð tjónið þó svo mikið, að það verður ekki tölum talið, né metið réttilega.

Því er von að almenningur spyrji - allir - undantekningarlaust, nema ef til vill nokkrir frá­villingar, sem hafa það eitt að lífstakmarki að gera þjóðfélagi sínu og samborgurum sem mesta bölvun - já, menn spyrja hver annan:

Hver á sök á þessu? En að þessu sinni virðist ekki auðið að komast að því, með neinum sanni, hver hér átti sökina. Kyndararnir kenna um verksmiðjustjórn og framkvæmdarstjóra.

Verksmiðjustjórn og framkvæmdastjóri munu hafa stranglega haldið sér að samningi þeim, er verkamannafélagið Þróttur gerði við verksmiðjurnar fyrir kyndaranna hönd og allra annarra starfsmanna verksmiðjanna.

Hinsvegar munu kyndararnir hafa skilið samningana á aðra lund, og haldið sér fast við þann skilning, er þeir lögðu í hann, og talið, að verksmiðjustjórn og framkvæmdastjóri væri þarna að brjóta á sér lög eða að minnsta kosti að beita sig ranglæti í samanburði við aðra starfsmenn verksmiðjanna. Þeir leita til Þróttarstjórnar og biðja hana ásjár.

Þróttarstjórnin verður að nokkru leyti við kröfum þeirra með því að skrifa verksmiðjustjórninni bréf þar sem farið er fram á að verksmiðjustjórn verði við óskum kyndara, sem í rauninni er sama og fara fram á að taxtanum sé breytt er hann og verksmiðjustjórn höfðu undirritað.

Hinsvegar treystist ekki Þróttarstjórn að styðja kyndara er út í deiluna var komið og sést á því að hún hefir ekki treyst sér að mæla bót verkfallinu og verið sjálf í vafa um, hvernig skilja bæri taxtann er hún sjálf hafði samið handa kyndurunum og undirskrifað fyrir þeirra hönd.

Að minnsta kosti hefir hún ekki getað fallist á skilning kyndaranna á taxtanum, því ella bar henni vafalaust, samkvæmt eðli málsins, að leiðrétta misskilning verksmiðjustjórnar á taxtanum og ganga þar fram fyrir skjöldu bæði vegna sjálfrar sín og skjólstæðinga sinna, kyndaranna. En þetta gerir Þróttarstjórnin ekki. En þá kemur annað sjónarmið til greina: Þróttarstjórn hlýtur að vera ábyrg gagnvart verksmiðjunum um gildir. Það er ekkert öryggi fyrir verkamennina og vinnuveitendurna að hafa slíkan meðalgangara, sem semur og lætur undirrita vinnutaxta, sem strax mæta tvöföldum misskilningi þegar á að fara að framkvæma þá. Eða er það gert af ráðnum hug að hafa taxtana þannig úr garði gerða, að þeir hljóti að valda verkföllum og vinnustöðvunum þegar á að fara eftir þeim til greiðslu á vinnulaunum?

Nei, það er alveg sama hvernig slíkum glappaskotum er velt fyrir sér. Það er og verður erfitt að skella skuldinni á vissan aðila en sýkna hina, því að enda þótt veila og tvískinnungur hefði nú verið í þessum kyndarataxta frá hendi Þróttar vísvitandi eða óafvitandi, þá er óvarlegt, eða að minnsta kosti mjög mikill trassaskapur og skeytingaleysi af kyndurum, sem áttu þarna einn lið taxtans, að sjá ekki veiluna eða ósamræmið strax, áður en taxtinn var samþykktur innan kauptaxtanefndar, því ólíklegt er, að sú nefnd leyfi sér að láta samþykkja taxta fyrir sérstaka vinnuflokka án þess að viðkomandi verkamenn fái að sjá þá og athuga áður en þeir eru þar samþykktir og gera þá við þá sín­ar athugasemdir. Af slíku háttalagi hljóta óumflýjanlega að skapast árekstrar þegar verst gegnir.

Sök kyndaranna sjálfra verður og meiri vegna þess að þeir skjóta ekki máli sínu strax til félagsdóms, því hann er einmitt til þess stofnaður að aðiljar í slíkum deilum sem þessum geti örugglega náð rétti sínum án þess að til verkfalla komi og þjóðfélagsröskunar af þeirra völdum.

Það er vonandi, að þetta einkennilega kyndaraverkfall verði til þess, að allir aðilar gæti þess vel er þeir ganga til samninga um vinnutaxta og verksamninga, að hvortveggja sé svo glöggt og greinilegt, að þar geti aldrei komið til greina nokkurskonar misskilningur um kaup né kjör eða önnur þau samningsatriði er máli skipta, og að hvor aðili um sig sé ábirgur gagnvart hinum og þjóðfélaginu í heild um það, að samningar þeir séu stranglega haldnir og öllum aðiljum sé ótvírætt ljóst svo eigi verði um villst, hvað felst í hverju atriði taxtans fyrir sig.

Og meðalgangurinn, hér Þróttur, er tvímælalaust ábyrgur gagnvart þeim fyrst og fremst, sem hann semur fyrir. Og enn hlýtur hann að vera ábyrgur fyrir því, að þeir félagsmenn hans, er hann semur fyrir gangi aldrei á þá samninga, er hann gerir fyrir þá. Séu samningarnir óhagstæðir fyrir skjólstæðinga Þróttar, verður hann eða stjórn hans að taka afleiðingunum:

Skaðabótakröfum verkamannanna. Það er það minnsta, sem hægt er að krefjast af slíkum mönnum, sem Þrótti stjórna og gerast þar leiðtogar og forsjón­ir verkamannanna, að þeir séu ábyrgir fyrir því sem þeir gera. Atvinnufyrirtækin eiga ekki að gjalda þess, þótt slíkir menn geri vitleysur og glappaskot í nafni sinna skjólstæðinga.

Við slík fyrirtæki, sem ríkisverksmiðjurnar er samningsöryggið þeim mun nauðsynlegra og sjálfsagðara, að allir árekstrar aðilja þegar vinnsla er hafin, geta orðið svo örlagaríkir og bakað þúsundum þjóðfélagsþegna óbætanlegt tjón, og þjóðfélaginu í heild, að slíkt verður að teljast glæpur að stofna þar til vandræða, enda þótt eigi sé gert ráð fyrir þess kyns afbrotum í refsilöggjöfinni. Og einmitt þess vegna eru slík afbrot ennþá hættulegri og óafsakanlegri.

II.

Margbreytni taxtanna.

Því verður tæplega mótmælt með skynsamlegum rökum að taxtafjöldinn og margbreytni hvers taxta um sig veldur oft miklum ruglingi og stælum og þrefi um það hvernig beri að skilja hin ýmsu atriði t.d. hvort þessi og þessi vinnuathöfn heyri undir þennan lið eða hinn. Til dæmis má taka, að einn er taxti yfir uppskipun á kolum, lausu salti og uppskipun og útskipun á sementi og hleðslu þess í vörugeymslu, enn fremur losun síldar úr skipum og bátum.

Nú vill svo til að ríkisverksmiðjurnar og sjálfsagt margir fleiri eiga saltbirgðir geymdar í vöruskemmum til og frá um bæinn, og þarf t.d. oft daglega að flytja saltið á bílum til S.R- þegar mikið er um síld, eða til þess að koma því fyrir í saltgeymslunum við þrærnar.

Nú hefir mörgum og þar á meðal að ég ætla Þrótti, skilist, að tilfærsla saltsins heyrði undir taxtann á salt-, kola- og sements­uppskipun og viljað fá þann taxta greiddan er unnið var að færslu saltsins, þó þannig, að þeir sem mokuðu upp á bilana og af þeim við þróarpall fengi uppskipunartaxtann (í dagvinnu kr.8.06) en hinir er taka við saltinu á þróarpalli, moka því upp í hjólbörur og aka því í saltgeymsluna við þrærnar, svo og þeir, er saltinu moka í þróargeymsluna fái vanalegan dagvinnutaxta (5.93). Nú liggur það í augum uppi, að ekki er verri vinna að moka á bílana og af, nema síður sé , en að moka því upp í hjólbörur og aka því á staðinn, að nú ekki sé talað um að moka því öllu uppundir þak í saltgeymslunum.

Auk þess getur svo farið að sömu mennirnir vinni allt verkið. Á þessu eina dæmi sést, að margs ber að gæta þegar undirritaðir eru víðtækir og margbreytilegir

vinnusamningar milli atvinnufyrirtækis og vinnuþiggjenda, og ekki hvað síst ef um þriðja aðila er að ræða (t.d. Þrótt hér).

Verkamaðurinn verður að vera alveg viss um það hvernig skilja beri hvern lið taxtans engu síður en atvinnufyrirtækið sem vinnuna veitir og meðalgangarinn (hér t.d. Þróttur) verður að ganga svo frá hverjum lið að hann geti ekki valdið misskilningi hjá hvorugum aðila.

Sé þessa ekki gætt, er meðalgangarastarfsemin verri en engin, sérstaklega sakir þess að milliliðunum gefast ótal möguleikar að smeygja fram af sér ábyrgðinni eftir ýmsum krókaleiðum.

Til fróðleiks fyrir almenning, er ekki á þess kost að fylgjast með slíkum málum sem þessum, skulu hér birtir taxtar þeir er nú gilda þennan mánuð hjá SR.