Árið 1944 - Atvinnumál

Siglfirðingur 7. júní 1944

 Atvinna Siglfirðinga

Eins og kunnugt er, eru fá mannmörg pláss á landinu er orðið hafa jafnhart úti um svonefndan stríðsgróða og Siglufjörður. Kemur það af þeim eðlilegu ástæðum, að hér stunda svo afar fáir sjálfstæða framleiðslu, en flestir lifa að mestu eða eingöngu á daglaunavinnu eða fastlaunuðum störfum.

Sjávarútvegurinn, sem áður mátti kalla, að stæði hér með blóma er nú að mestu lagður niður af Siglfirðingum. Örfáir stærri bátar stunda hér fiskiveiðar, en allmargir einstaklingar eiga þó trillubáta, og hafa margir, þeir, sem best stunda róðrana, af þeim góðan arð.

Síldarsöltunin, sem áður hefir verið, og sérstaklega fyrir stríð, drýgsti atvinnuvegurinn, var 1943 og 1942, því nær engin á borð við það, er áður var.

Hinsvegar hafa ríkisverksmiðjurnar hér reynst sannur atvinnubjargvættur Siglfirðinga síðastliðið ár. Hafa þær greitt í vinnulaun 1943 um 3 milljónir og 300 þúsundir og má gera ráð fyrir að 80-85% þeirrar upphæðar hafi runnið til Siglfirðinga.

Rauðka hefir s.l. ár greitt í vinnulaun um 400 þúsund krónur. Má af þessu marka hve gífurleg atvinnuaukning er að síldarverksmiðjunum. Tóku síldarverksmiðjurnar hér alls við um 625 þúsund málum síldar (S.R um 577 þúsund - Rauðka um 48 þúsund)

Auk þessa hafa margir Siglfirðingar haft fasta sumaratvinnu við Fljótaárvirkjunina.

Siglufjarðarbær hefir aldrei haft fyrr með höndum jafn stórbrotin viðfangsefni og nú, þar sem er virkjunin við Skeiðsfoss og hafnargerðin, sem nú er í undirbúningi.

Er það von allra bæjarbúa, að vel takist um framkvæmd þessara tveggja stórmála. Þá má og nefna veginn yfir Siglufjarðarskarð, sem nú er kominn á góðan rekspöl, og er mest sú framförin í því máli, að hafin var í vetur sprenging Skarðsins og vegarspottans sunnan þess.

Eins ber að geta, er mjög snerti hag fjölda margra Siglfirðinga á þessu ári, og reyndar mun hér lengi í minnum haft, en það er fyrirskipun sú frá sauðfjársjúkdómayfirvöldum ríkisins um algerðan niðurskurð á sauðfé bæjarbúa. Voru þetta vissulegar þungar búsifjar, því þarna var um að ræða hvorki meira né minna en um 3.000 fjár.

Og verður þess víst langt að bíða, að Siglfirðingar geti komið sér upp slíkum fjárstofni aftur. Munu þessar vítaverðu ráðstafanir seint gleymast Siglfirðingum.