Ýmsar smáfréttir og... - 1944

Mjölnir 22. mars 1944

Skipt um formann í Rauðkustjórn.

....... Aage Schiöth hefur nú sagt af sér formennsku í Rauðkustjórn, en kosinn hefur verið í hans stað Guðmundur Hannesson. bæjarfógeti.

-----------------------------------------------------------------------------

Samtals;  915.534 mál 
Smelltu till að stækka

Samtals; 915.534 mál
Smelltu till að stækka

Mjölnir 31. maí 1944

Verð bræðslusíldar ákveðið 18 krónur

........Eins og sést í, auglýsingu Síldarverksmiðja ríkisins á öðrum stað hér í blaðinu hefur verð bræðslusíldar verið ákveðið. Verður greitt 18 krónur fast verð til þeirra, sem þess óska, en þeir sem, heldur vilja leggja inn til vinnslu fá greitt 15.30 á mál. Er þetta sama verð og í fyrra.

Lengi vel voru horfur á, að ekki yrði unnt að greiða þetta verð, vegna þess að rekstarkostnaður hefur hækkað, en svo leit út, sem verð afurðanna myndi standa í stað. Þetta hefur þó lagast svo nú, að verksmiðjustjórnin hefur talið sér fært að ákveða sama verð og í fyrra.

Ekki er ennþá full vissa fyrir að nægar rekstrarvörur fáist til verksmiðjanna, en verið er að vinna að útvegun þeirra.

--------------------------------------------------------------------

Einherji 15. júní 1944

Verð bræðslusíldar 18 krónur, byrjað að taka á móti síld 8. júlí.

Ríkisverksmiðjurnar byrja að taka á móti síld til vinnslu 8. júlí, og er það um sama leyti og í fyrra.

Þá hafa Síldarverksmiðjur ríkisins auglýst að verð á bræðslusíld verði 18 kr. Verður greitt 18 króna fast verð til þeirra, sem vilja selja á föstu verði, en þeir sem vilja leggja inn til vinnslu fá greitt 15,30 á mál við móttöku.

Er þetta sama verð og greitt var s.1. ár. Vitanlegt er að allur reksturskostnaður hafi hækkað að mun frá því í fyrra og vafalaust hafa þá afurðir verksmiðjanna hækkað í verði, úr því verksmiðjustjórn telur sér fart að greiða sama verð nú og í fyrra fyrir hráefnið.

Erfiðlega hefur gengið að útvega verksmiðjunum rekstursvörur, svo sem kol og fleira, en eitthvað hefur úr ræst nú síðustu daga í þeim efnum.

-------------------------------------------------------------------------

Einherji 29. júní 1944

Síldveiðarnar. Búið að landa um 150 þúsund málum hjá S.R.

Það eru nú réttar þrjár vikur síðan Síldarverksmiðjur ríkisins byrjuðu að taka á móti síld. Á þessum tíma hefur síldveiðin verið mjög treg.

Helst veiðist síldin austurfrá, austur undir Langanesi. Annars verður síldar allvíða vart, en er mjög gisin og veður illa, Um 150 þúsund mál eru komin á land hjá Síldarverksmiðjum ríkisins bæði á Raufarhöfn og hér Siglufirði.

Veiðihæstu skip, sem leggja upp afla sinn hjá S.R., eru búin að fá um 400 mál og mun m.s. Magnús vera hæstur.

Byrjað er að flaka síld, en söltun síldar mun ekki hefjast almennt fyrr en eftir mánaðarmót. Um 20 þúsund tómtunnur munu vera til hér á Siglufirði og verður vafalaust saltað í þær allar.

------------------------------------------------------------

Mjölnir 23. ágúst 1944

Síldveiðin gengur vel.

En verksmiðjurnar alltof fáar og litlar.

Afbragsgóð síldveiði hefur verið nú um nokkurt skeið, og mun síldaraflinn nú vera mun meiri en í fyrra á sama tíma. En með vaxandi afla koma upp ný vandræði, þá skapast ástand, sem menn hafa verið sjónarvottar að ár eftir ár, að skipin liggja í hrönnum full hlaðin og bíða eftir löndun.

Framan af sumrinu, meðan veiðin var treg og allir voru áhyggjufullir út af því, hvort síldin ætlaði að bregðast, veiddist þó oftast svo mikið, að verksmiðjurnar gátu haldið áfram að bræða, þá gekk vinnslan “normalt.” Með öðrum orðum, verksmiðjukosturinn er ekki meiri en svo, að helst þarf að vera hálfgert síldarleysi, ef á að hafast undan ellegar þá, að “kulið” hindri veiðar.

Reynslan sannar okkur ár eftir ár, hvílík feikna skammsýni, svo ekki sé tekið dýpra í árinni, það er hjá mönnunum, sem ár eftir ár berjast gegn því, að nýjar verksmiðjur séu reistar.

Svo illt, sem ástandið er nú núna, verður það þó enn verra eftir stríðið, þegar gera má ráð fyrir miklu fleiri skipum við síldveiðar heldur en nú. Nú eru t.d. engir togarar á síldveiðum og ekki heldur ýmsir stærri bátar, sem munu bætast við. Allar verksmiðjur eru nú í gangi. nema Rauðka og Sólbakki.

Kemur að vísu til með að muna um Rauðku, þegar hún er komin í fulla stærð, en sú stækkun er líka gerð í trássi við suma forráðamenn verksmiðjumálanna.

Það er eins á sviði verksmiðjumálanna eins, og á öðrum sviðum, það er þörf gagngerðra stefnubreytinga frá því, sem nú er, það verður að hætta að miða

framleiðslutækin við hallæri, aflaleysi og ógæftir. Framleiðslutækin þurfa að miðast við það, að hægt sé að hagnýta allan aflann, hvort sem hann er mikill eða litill.

--------------------------------------------------------------

Mjölnir 30. ágúst 1944

Nýr framkvæmda­stjóri S. R.

Stjórn Síldarverksmiðja ríkisins hefur nú ráðið nýjan framkvæmdastjóra í stað Jóns Gunnarssonar, sem sagt hefur upp frá áramótum. Var ráðinn Magnús Blöndal, til eins árs.

Hefur Magnús verið skrifstofustjóri verksmiðjanna frá því þær voru byggðar, og er því öllum hnútum kunnugur.

--------------------------------------------------------------

Siglfirðingur 1. september 1944

Nýr framkvæmdastjóri ríkisverksmiðjanna kjörinn.

......... Eins og kunnugt er hefir Jón Gunnarsson sagt upp starfi sínu við framkvæmdastjórn ríkisverksmiðjanna.

Á fundi er ríkisverksmiðjustjórnin hélt nýlega var Magnús Blöndal skrifstofustjóri verksmiðjanna kosinn framkvæmdastjóri til eins árs frá 15. október n.k. að telja. Var hann kosinn með samhljóða atkvæðum.

----------------------------------------------------------

Mjölnir 13. september 1944 (Auglýsing, sama auglýsing kom einnig í hinum blöðunum)

VERÐ Á SÍLDAR MJÖLI

Ákveðið hefur verið að verð á síldarmjöli á innlendum markaði verði 52,19 krónur pr. 100 kg. frítt um borð, ef mjölið er greitt og tekið fyrir 15. september næstkomandi. Sé mjölið ekki greitt og tekið fyrir 15. september bætast frá þeim tíma, vextir og brunatryggingarkostnaður við mjölverðið.

Sé hinsvegar mjölið greitt fyrir 15. september, en ekki tekið fyrir þann tíma, þá bætist aðeins brunatryggingarkostnaður við mjölverðið, ef kaupandi hefur ekki tilkynnt Síldarverksniðjum ríkisins fyrir þann tíma, að hann hafi sjálfur vátryggt, mjölið á fullnægjandi hátt, að dómi síldarverksmiðjanna. Sama ákvæði viðvíkjandi brunatryggingu gildir einnig fyrir það mjöl, sem ekki er greitt né tekið fyrir 15. september næstkomandi. Allt mjöl verður þó að vera pantað fyrir 30. september næstkomandi og greitt að fullu fyrir 10. nóvember næstkomandi.

Vinsamlegast sendið pantanir yðar sem fyrst.

Siglufirði, 24. ágúst 1944.

Síldarverksmiðjur ríkisins

--------------------------------------------------------------

Mjölnir 28. september 1944

Frá síldveiðunum.

Vegna “ástæðna,” sem flestir vita, hefur ekki verið hægt að birta fréttir af síldveiðunum í sumar, en nú hafa fengist breyting á því, og birtist hér veiði helstu skipanna, sem lagt hafa upp hjá Síldarverksmiðjum ríkisins, og eins móttaka síldar hjá hverri verksmiðju fyrir sig: Töflur hér fyrir ofan

------------------------- 

Mjölnir 27. október 1944

Rauðka rís af grunni.

S.l. föstudag bauð stjórn Rauðku bæjarfulltrúum, skipstjórum, blaðamönnum og ýmsum fleirum til risgjalda Rauðku. Við það tækifæri flutti formaður Rauðkustjórnar ræðu, þar sem hann skýrði nokkuð frá gangi byggingarinnar.

Er nú lokið við byggingu hússins að mesta, nema að eftir er að þekja það, en asbestplötur, sem verða notaðar á þakið eru ekki komnar, en væntanlegar á næstunni. Eru þess plötur miklu betri en járn sökum þess, að þær þurfa minna viðhald og ekki kemur suddi á þær að innan eins og járnið, og því hreinlegri.

Byggingarkostnaður er mjög nálægt því ennþá að standast áætlun, þegar tekið er tillit til þess, að horfið var að því ráði, að steypa þróna í stað timburþróar, sem ráðgerð hafði verið. En byggingarkostnaður hússins reyndist miklu minni vegna þess, að allt var haft á sömu hæð og jafnar það sig nokkuð upp.

Ketillinn, sem pantaður hefur verið frá Ameríku, er væntanlegur um miðjan vetur. Er ekki sjáanlegt að neitt verði því til fyrirstöðu, að Rauðka geti tekið til starfa næsta sumar.

Bygging verksmiðjunnar og fyrirkomulagi er svo háttað, að hægt verði að stækka hana upp í 15 þúsund mála verksmiðju, án þess að rífa nokkuð eða breyta því, sem komið er. Gránueignin verður afhent Rauðku til afnota.

--------------------------------------------------------------------------

Mjölnir 19. desember 1944

Ríkisstjórnin ákveður að reisa tvær nýjar síldarverksmiðjur.

Ríkisstjórnin hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 93- 25. september 1942, um að reisa nýjar síldarverksmiðjur og er það svohljóðandi:

1.grein.................

2.grein laganna orðist þannig: Til byrjunarframkvæmda samkvæmt 1. grein, sem hefjist svo fljótt sem ástæður leyfa, heimilast ríkisstjórninni að taka lán innanlands, fyrir hönd ríkissjóðs, að, upphæð allt að 20 milljónir króna.

3 grein.

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafumvarp þetta:

Allir munu vera sammála um, að þjóðarnauðsyn sé til þess að auka afköst síldarverksmiðjanna í landinu og að þessi afkastaaukning verði samfara aukningu skipastóls landsmanna. Í þessu skyni hefur ríkisstjórnin ákveðið að láta reisa nýja 10 þúsund mála síldarverksmiðju á Siglufirði fyrir síldarvertíð 1946 og nýja 5 þúsund mála verksmiðju í Höfðakaupstað, eins fljótt og hafnarskilyrði þar leyfa, helst fyrir síldarvertíð 1946.

Til þess að hægt sé að ráðast í þessar framkvæmdir, ber nauðsyn til að hækka lántökuheimild ríkisstjórnarinnar úr 10 milljónum króna, eins og hún er í núgildandi lögum, upp í 20 milljónir króna.