Árið 1944 - Framfaraskeið

Siglfirðingur 11. febrúar 1944

 Nýjar framkvæmdir í atvinnumálum.

Væntanlegar framkvæmdir hjá Ríkisverksmiðjunum. - Nýtt geymslu og þurrkhús, fyrir veiðitæki síldveiðiflotans.

Eins og kunnugt er, hefir stjórn Síldarverksmiðja ríkisins setið á rökstólum í Reykjavík . Eins og gefur að skilja, er þar um margt að ræða, þar sem hér er stjórn langstærsta og voldugasta atvinnufyrirtækis þjóðarinnar.

Hinsvegar er það ekki nema, eðlilegt, að Siglfirðingar hafi mikinn áauga fyrir þróun og aðgerðum þessa mikla fyrirtækis, þar eð höfuðstöðvar þess eru hér, og líka vera ber, í höfuðbæ síldariðnaðarins, og rekstur þess er svo nátengdur atvinnulífi bæjarins, að segja má, að með því standi falli atvinnumöguleikar mikils hluta bæjarbúa, og að bærinn eigi langmest afkomu sína undir því að vel og viturlega skipist t.d. um stjórn þess hverju sinni.

Nýmæli eru það því fyrir bæjarbúa. og líklegt til að skapa að einhverju leyti aukna atvinnu fyrir þá, að verksmiðjustjórnin mun hafa afráðið að byggja á þessu vori geymslu og þurrkunarhús fyrir síldarnætur (og reknet) síldveiðiflotans.

Þetta verður að teljast bráðnauðsynleg ráðstöfun, og vita það allir Siglfirðingar manna best, hverja erfiðleika hefir verið við að stríða fyrir veiðiskipin um geymslu veiðarfæra sinna, Þar hefir eina fangaráðið fyrir skipin verð það að hauga nótum sínum og netum upp á bryggjurnar, til viðgerðar eða geymslu, þurrkunar eða hreinsunar.

Um bryggjurnar er, eins og nærri má geta, um háveiðitímann geysimikil umferð og er þá eigi um annað að ræða, en að leiðin liggur yfir veiðarfærin, sífelld og stanslaus, nótt og dag. Berst við þessa umferð, grútur og allskonar óhreinindi í þessi dýru veiðitæki, og verður það óumflýjanlega til þess, að þau stórskemmast, og það svo, að illt er úr að bæta, eða jafnvel ógerningur ef illa tekst.

Má óhætt fullyrða að á þennan hátt hafi farið forgörðum miklar fjárhæðir, svo numið hefur tugum og hundruðum þúsunda.

Hið nýja geymslu- og þurrkhús mundi að mestu leyti bæta úr þessum annmörkum, og má með byggingu þess telja, að stórt spor sé stigið til sparnaðar og öryggis fyrir veiðiflotann, auk þess, sem það mun hafa í för með sér talsverða atvinnuaukningu fyrir bæjarbúa.

II.

Hvað líður byggingu hinnar nýju 10 þúsund mála verksmiðju?

Eins og menn vita var á sínum tíma áformað með samþykkt Alþingis að byggð skyldi hér ný 10 þúsund mála verksmiðja og var byggingarkostnaðurinn áætlaður um 4 milljónir króna. Úr framkvæmdum hefir þó eigi orðið sakir hernaðarástæðna. Nú mun stjórn verksmiðjanna hafa rætt um þetta mál, og mun ríkisstjórnin væntanlega leggja það fyrir þetta Alþingi.

Eins og kunnugt er, er nú mikið rætt um aukningu hins Íslenska veiðiflota, með smíði skipa í Svíþjóð, og innanlands með aðstoð ríkisins. En eins og kunnugt er, þá er verksmiðjukostur til síldarvinnslunnar hvergi nærri nægur fyrir þann flota, sem fyrir er, ef mikil veiði er, hvað þá, ef flotinn eykst að miklum mun.

En enda þótt, mikil þörf sé fyrir hina nýju verksmiðju þá mundi byggingarkostnaðurinn verða meiri en svo, að S.R. fengi undir risið án mikils styrks frá ríkinu. Talið er, að byggingarkostnaður slíkrar verksmiðju nú yrði ferfaldur á við upphaflegan áætlaðan kostnað, eða um 16 miljónir. Það mun því hafa verið rætt

um framkvæmd málsins á þeim grundvelli, að fyrirtækið sjálft stæði straum af upphaflegu áætluðum kostnaði, þ.e. 4 milljónum + helmingi áætlaðs aukins kostnaðar, eða alls 10 milljónum, en ríkið legði til hinn helming kostnaðaraukningar, eða um 6 milljónir.

En hvað úr þessu verður, mun vitanlega mest komið undir ákvörðunum þings og stjórnar. Annars verður eigi með góðu móti séð, að hjá því verði komist að byggja verksmiðjuna ef alvara á að verða úr því að auka sem mest veiðiflotann, en sú aukning myndi fyrst komast í gagnið við lok ófriðarins, og þá yrði líka bráðnauðsyn á, að hin nýja síldarverksmiðja væri fullbúin.

Það er því mjög líklegt, ef stjórn og þingi er mjög annt um aukningu flotans, og um það efast víst enginn að óreyndu, að hafist verði handa sem allra fyrst um byggingu verksmiðjunnar.

Efling veiðiflotans er þjóðinni lífsnauðsyn og er ekki að efa, að óðara og stríðinu lýkur, verði bráð og ör þróun á því sviði. Hinsvegar er alls eigi víst, að fyrstu árin eftir styrjaldarlokin verði létt að útvega byggingarefni til nýrrar verksmiðjubyggingar, og því síður, að slíkt efni mundi falla í verði. Miklu fremur er líklegt, að útvegunarörðugleikar byggingarefnis muni þá stóraukast og verðið hækka að mun. Auk þess er ekki líklegt að vinnulaun og annar kostnaður við slíkar framkvæmdir muni lækka fyrstu árin eftir styrjaldarlokin. Það er því sýnt að ekki er eftir neinu að bíða með þessar miklu framkvæmdir. Enda er ólíklegt, að Alþingi skoði lengi hug sinn um að styrkja aðalatvinnuveg þjóðarinnar með ekki stærri upphæð en þarna er farið fram á.

III.

Rís hér upp stóriða í sambandi við síldveiðarnar eftir lok styrjaldarinnar?

Eftir að hinum mikla styrjaldarharmleik líkur, verður endurreisn hinna herjuðu þjóða og þjóðlanda aðal viðfagsefni allra þjóða. Sú endurreisn verður að vera hraðstíg og magni þrungin, ef öllu á að bjarga við í tæka tíð.

Eitt af örðugustu viðfangsefnum í þessari baráttu verður framleiðsla matvæla og allskonar neysluvarnings. Milljónir, - tugir og hundruð milljóna - manna hefir um langt árabil soltið heilu og hálfu hungri.

Mörg ágætustu framleiðslulöndin, sem áður voru nægtabúr heilla heimsálfa eru eyðilögð og verða eigi nýtt til framleiðsla fyrr en eftir langt árabil, og skortur og neyð ríkir miklu víðar en nokkur getur gert sér hugmynd um. Úr þessu þarf öllu að bæta og þó sérstaklega verður matvælaframleiðslan aðkallandi til að bjarga því af kynstofni þjóðanna, sem bjargað verður. Þetta er öllum heiminum ljóst og “hinar sameinuðu þjóðir" hafa þegar hafist handa um undirbúning þess­ara miklu átaka. Íslenska ríkinu var boðin hlutdeild og þátttaka í hinu mikla viðreisnar- og hjálparstarfi, sem það að sjálfsögðu þáði.

Fulltrúi þess er nú komin heim af fyrstu ráðstefnu hinna sameinuðu hjálparnefndar, og mun vafalaust áðu, en langt líkur nánar skýrt opinberlega frá ályktunum og samþykktum þessarar, merkilegu ráðstefnu og sennilega eitthvað látið í ljós um það, á hvern hátt Íslandi er ætlað að taka þátt í hinni miklu alheimshjálparstarfsemi.

En ólíklegt er að sú hjálp geti orðið innifalin í öðru en matvælaframleiðslu. Og til þess er Ísland vel fallið, sérstaklega að því, er lýtur að framleiðslu sjávarafura. Enda mun eigi síður skortur á þeirri framleiðslu, þegar þar að kemur, heldur en framleiðsla landbúnaðarneysluvöru.

Það er litlum efa bundið, að fáir staðir á landi hér eru líklegri en Siglufjörður til þess að framleiða neysluvöru úr síldinni og fleiri sjávarafurðum, sakir aðstöðu sinnar til aflafanga frá sjó.

Auðugustu síldveiðimið heimsins munu vera hér fyrir Norðurlandi að því er til kemur hinnar feitu sumarsíldar, sem að öllu næringarmagni mun mega heita kjörfiskur, og auk þess hentugri til margvíslegrar tilreiðslu til ljúffengra og næringarríkrar fæðu, en flestar eða allar fisktegundir, sem þekktar eru á norðurhveli jarðar.

Það virðist því opin leið til þess að einmitt hér á Siglufirði, sem ævinlega verður miðstöð Íslenskra síldveiða sakir legu sinnar miðsvæðis við bestu síldarmiðin, hafnarskilyrða sinna og margháttaðrar reynslu á sviðum allrar tækni er lýtur að tilreiðslu síldarinnar, hljóti að verða miðstöð þeirra framkvæmda, er skapast kunna sakir neysluþarfar þeirra þjóða og landa, er harðast hafa orðið úti í hörmungum styrjaldarinnar.

Það eru víst fáar sjávarafurðir, er hægt er að tilreiða jafn margvíslega og síldin. Og það er víst enginn neyslufiskur á norðurhveli jarðar, sem hægt er að veiða á jafn tröllaukinn mælikvarða og síldin.

Hitt hefir jafnan staðið þessari stórframleiðslu fyrir þrifum til þessa, að veiðimagnið hefir oftast verið mun meira en með góðu móti hefir verið hægt að hagnýta, auk þess hefir það síldarmagn, sem hingað til hefir tekist að hagnýta með nokkurn veginn skikkanlegu móti, að þessu verið flutt úr landi sem hráefni í einhverja dýrustu og eftirsóttustu lúxusvöru, sem hægt er að framleiða. Hefir kveðið svo rammt að þessu, að jafn vel sjálf síldarframleiðsluþjóðin hefir flutt inn í landið ýmislega tilreidda síldarrétti fyrir tugi og hundruð þúsunda!!

Enda alkunna að t.d. Svíar og þjóðverjar, Pólverjar og Norðmenn o.fl. hafa hagnast um milljónir hver um sig á því að kaupa þetta dýrmæta neysluvöruhráefni héðan. Framtíðarhugsjón hins Íslenska ríkis, að því er snertir framleiðslu á neysluvöru úr síldinni, hlýtur því að beinast að því, að hagnýta sjálft þá ótæmandi möguleika, er síldveiðarnar veita.

Það virðist einsætt. að hér á aðal framleiðslustað þessa heimsfræga neyslufiskjar, rísi upp verksmiðja, er skili á heimsmarkaðinn neysluvörum, er úr síldinni verða unnar fulltilreiddum, en láti ekki lengur aðrar þjóðir fleyta rjómann og aðalgróðann af þessari framleiðslu.

Og það er nokkurn veginn víst, að aldrei fyrr hafa blasað við Íslenskri framleiðsla aðrir eins möguleikar og nú munu skapast, að lokinni þessari heimsstyrjöld.

Það virðist því einsætt, að stefna beri að því, að setja hér á stofn framleiðslustöðvar og verksmiðjur, er skili á heimsmarkaðinn fullbúinni og margvíslegri neysluvöru úr íslensku síldinni en nokkurn tíma hefur áður þekkst.

Að vísu mun okkur enn skorta tækni og þekkingu á þessu sviði, en það er áreiðanlega vissa fyrir því, að fjöldi ágætra og þrautreyndra fagmanna á þessu sviði væri hægt að fá frá hinum ýmsu neyslulöndum, til þess að kenna landsmönnum tökin á hinni margvíslegu framleiðslu, auk þess sem innlendri tækni á þessum sviðum mundi skjótt fleygja fram með meiri hraða og markvísari vinnubrögðum en nokkurn órar nú fyrir. Möguleikarnir eru óteljandi.

Og víst er um það, að ástandið í heiminum eftir styrjöldina mundi létta okkar fátæku og fávísu þjóð um þessi efni, róðurinn miklu meira er við getum gert okkur í hugarlund, og fjármagn til framkvæmdanna mundi sjálfsagt auðvelt að útvega, ef vel og skynsamlega væri á haldið.

Ef einungis Svíar hafa getað hagnast um tugi milljóna á því að kaupa ótilreidda Íslenska síld, og aðrar þjóðir, svo sem Þjóðverjar og Pólverjar annað eins eða meira, ætti að vera auðvelt að sjá, hversu gífurlega vér Íslendingar höfum illa haldið á okkar málum í þessu efni hingað til.

Nú liggur það í loftinu, að einmitt stórframleiðsla á neysluvörum úr sjávarafurðum verði heiminum nauðsynleg til þess að seðja hungraðar milljónir á næstu árum og áratugum, þá er varla of djarft að gera ráð fyrir, að einmitt Ísland, sem er umkringt of auðugustu fiskimiðum heims, muni geta skapað sér skilyrði til stórframleiðslu og auðsældar á þessu sviði, ef vel væri á haldið.

Og við skulum ekki að óreyndu vantreysta okkar bestu mönnum um það, að þeim takist að koma því í kring, að hér skapist þær aðstæður, að vér þurfum eigi að fleygja þessum auðæfum, er hafið leggur oss upp í hendur, í gróðahít annarra þjóða. Við verðum að treysta því, þrátt fyrir alla sundrung og flokkastreitu. að í þessu máli verði allir flokkar sammála og samtaka um það að skapa þjóðinni glæsileg lífsskilyrði úr þeim auðlindum, er náttúran sjálf hefir lagt oss upp í hendur.

Takist það ekki verður sjálfstæðið lítilsvirði og í raun og veru hermdargjöf fátækri, fávísri og fámennri þjóð. Það eiga varla aðrar þjóðir meiri auðsuppsprettu og jafn óþrjótandi og Íslendingar eiga í fiskimiðunum kringum landið. En þau auðæfi eigum vér að nota oss sjálfum til handa en ekki láta aðrar þjóðir grípa arðinn, út um greipar vorar jafnóðum og þeirra er aflað, og jafnvel áður.

Ef íslensk stjórnarvöld og þjóðin öll verður vel á verði á næstu árum, um þessa hluti, þá á Ísland og íbúar þess glæsilega framtíð í vændum, sem einvörðungu byggist á náttúruauði þeim, er forsjónin hefir lagt oss upp í hendurnar.

Og þeim mun fremur ætti þjóðin að geta verið vongóð um þessa hluti, sem hún hyggst nú að taka í sínar eigin hendur öll sín mál að fullu og öllu til eilífðar og ævarandi varðveislu, þrátt fyrir bægslagang og mótspyrnu fáeinna danskra Íslendinga.

IV.

Lýsisherslustöðin.

það er víst nokkurn veginn víst, að eigi verður þess langt að bíða, að ríkið með atbeina S.R. muni láta byggja lýsisherslustöð. Hefir þetta mál allmikið verið rætt og talsvert undirbúið, en eins og fleiri starfsframkvæmdir orðið að bíða sakir styrjaldarógæfunnar.

Talsvert er þegar farið að bera á því að meðal leiðandi manna þjóðarinnar gætir nokkurrar togstreitu um það, hvar slíkri stöð skuli valinn staður, og er þá eigi ætíð gætt þeirra sjónarmiða, er segja til um hver staðurinn muni heppilegastur, heldur hitt oftast meir, hvert landshornið eigi að hreppa hnossið.

Flestir munu þó líta svo á, að slíkt iðjuver ætti að vera þar, sem mest safnast saman of lýsinu til þess að spara sem mestan flutningskostnaðinn. Hér á Siglufirði mun framleitt meira en helmingur alls lýsismagns í landinu, en aðrar lýsisvinnslustöðvar eru dreifðar um alla strandlengjuna frá Vestfjörðum til Austfjarða, og hvergi nema tiltölulega lítið lýsismagn á hverjum stað á móts við það, er hér er.

Það væri því mesta undarleg ráðstöfun, ef slíkri herslustöð yrði ætlaður staður annarsstaðar en hér á Siglufirði. Að minnsta kosti hlyti eitthvað annað að ráða þeirri ráðstöfun en heill fyrirtækisins og gagnsemi þess fyrir heildina. En þjóðarheillin vill stundum verða léttvæg, er hún er lögð á metaskálarnar móti heimskulegum héraðahroka og hreppasjónarmiðum.

Eins og menn vita, þá stendur til að reist verði einhvern tíma og einhversstaðar áburðarverksmiðja. Er nú þegar hafin togstreita milli Reykjavíkurblaðs og Akureyrarblaða, hvor þessara staða skuli hreppa hnossið.

Hvernig þeim hráskinnsleik lýkur er ekki gott að vita, en um það, hvar lýsisherslustöðin ætti að vera, gæti ekki orðið neinn ágreiningur, ef dæma ætti, eingöngu eftir hagsmunum allra aðilja, þ.e. framleiðendanna. Á þeim stað, þar sem framleitt er yfir helmingur þess lýsismagns, er herða á, þar á vinnslustöð þessi að vera. Nú má vel geta sér þess til, að einhver hluti þingsins heimti það, að þessari vinnslustöð verði valinn staður norður við Aðalvik eða ef til vill suður í Vik í Mýrdal, eða einhversstaðar, Þar sem aldrei hefir nein lýsisframleiðsla verið.

Það hafa líka heyrst um það raddir, að hér geti slík stöð ekki þrifist, sakir skorts á rafmagnsorku, og var það á sínum tíma eina frambærilega ástæðan fyrir því, að stöðina skyldi reisa annarstaðar. Nú er sú ástæða úr sögunni að ætla má, því að þegar Fljótaárvirkjunin er tekin til starfa þá þarf ekki að bera við orkuleysinu. Allan líkur mæla því með því að tilvonandi herslustöð verði reist hér.

Yrði það eigi gert, mundi kostnaður við byggingu og rekstur stöðvarinnar verða svo gífurlegur, að álitamál væri hvort nokkurt vit væri í að reisa hana. Má benda á fjöldamargt, er sparast mætti með því að hafa stöðina hér, þó það verði eigi gert í þetta sinn, að eins má benda á, að við það sparaðist meira en helmingur allra tilfærslu og flutningskostnaðar hráefnisins, svo og stórfé í byggingu lýsisgeyma, o.m.fl.

Um allar slíkar atvinnuhorfur og atvinnuaukningu fyrir bæjarbúa og tæknilegar framfarir í atvinnuháttum, þurfa Siglfirðingar að vera vel á verði. Þeir þurfa að beita öllu sínu þreki og allri sinni lagni til þess að láta eigi aðra staði draga frá Siglufirði þá atvinnumöguleika, er hann hefir réttmætar kröfur til.

Og það má líka ætla, og það með miklum sanni, að hvorki þing né stjórn muni geta fallist á, að höfuðframleiðslustöðvar síldariðnaðarins, hverju nafni, sem þær kunna að nefnast, verði annarstaðar starfræktar og reistar en hér á Siglufirði. Um það kunna að minnsta kosti allir Siglfirðingar að verða sammála, hvað sem öðrum líður.