Árið 1945 - Atvinnuskipulag !- Vinna verður að hefjast nú þegar í Síldarverksmiðjum ríkisins

Neisti 2. febrúar 1945

Siglfirðingar eiga við atvinnuleysi að stríða. Mikið er rætt og ritað um nýskipun atvinnuveganna og útrýming atvinnuleysis. Stórletraðar fyrirsagnir og greinar sjást eftir menn er aldrei fyrr hafa um þessi mál fjallað og er það gleðilegt.

Atvinnumálarnefnd Þróttar hefur tekið þessi mál föstum tökum og tillögur hennar hafa verið og eru birtar hér í blaðinu. Tillögur þessar, ef þær ná fram að ganga, miða að því, að útrýma hér atvinnuleysinu fyrir fullt og allt.

Róm var ekki byggð á einum degi, og svo er einnig með þessar tillögur að þær koma ekki til framkvæmda nema að litli leyti á næstunni. Á fundum í verkamannafélaginu hefur oft verið rætt um nauðsyn þess, að unnið væri í Síldarverksmiðjum ríkisins yfir vetrarmánuðina, til þess að þær væru tilbúnar til vinnslu ekki seinna en um miðjan maí.

Stjórn Þróttar gekk á fund fyrrverandi framkvæmdastjóra og reyndi að kippa þessu í lag, en án árangurs. Það bjuggust margir við því að þessu yrði breytt til batnaðar við framkvæmdastjóraskiptin og við myndun hinnar nýju ríkisstjórnar. Framkvæmdastjórinn og stjórn S.R. láta allt sitja við það sama.

Er verkamenn koma til meistarana, sem stjórna vinnunni, til að grennslast eftir atvinnuhorfum, er svarið: “Þetta fer að lagast” Þetta sama svar fæst svo viku eftir viku, mánuð eftir mánuð.

Stjórn og framkvæmdastjóra S.R. er þetta framkvæmdarleysi til vanvirðu. Það er harla einkennilegt að framkvæmdastjóri og stjórn S.R. skuli ekki koma auga á það, að verksmiðjurnar tapa engu þótt unnið sé að undirbúningi sumarvinnslunnar yfir vetrarmánuðina, þvert á móti. óbeinlínis hefur þetta framkvæmdarleysi aukið atvinnuleysi hér í bæ og skaðað fyrirtækið.

Vinna hefur ekki verið hafin í S.R., nema af nokkrum útvöldum, fyrr en í apríl eða maí. Í júní hefur svo þurft að vinna eftirvinnu. Tvö síðastliðin ár hafa verksmiðjurnar ekki verið tilbúnar til vinnslu fyrr en um 8. júlí og varla þá, því að vinnustaðir hafa verið vanræktir. Ef þessi vinna færi fram yfir vetrarmánuðina væri tryggt að verksmiðjurnar væru til búnar til vinnslu um miðjan maí.

Enga eftirvinnu þyrfti að vinna, en hún er S.R. mjög kostnaðarsöm sem eðlilegt er. Atvinna ykist í bænum við þetta. Hlaupavinnan skiptist við það milli færri manna.

Ef þessari vinnu væri lokið með vorinu væru líkur til þess að verkamennirnir úr S.R. kæmust í atvinnu á ný. Með vorinu hefjast húsbyggingar, framkvæmdir hjá

bænum og öðrum fyrirtækjum og fleira. Þá má búast við manneklu, en til þess þyrfti aldrei að koma, ef vinna í S.R. væri að mestu leyti lokið.

Stjórn og framkvæmdastjóri verða nú þegar að breyta um stefnu, vinna verður að hefjast sem allra fyrst. Verkamenn fylgjast vel með þessum málum.

Verkamaður.