Árið 1945- Rauðka 1

Einherji 19. apríl 1945

Hvaða hegningu verðskulda þeir bæjarfulltrúar, sem hafa reynt með uppreisnaraðgerðum sínum gegn hinni löglegu Rauðkustjórn að torvelda henni störf sín við endurbyggingu verksmiðjunnar, sem hefði getað haft þær afleiðingar, að þetta óskabarn Siglfirðinga hefði verið frá þeim tekið.

Kjósendur þessara óheppnu fulltrúa munu birta þeim dóm sinn við fyrsta tækifæri. Þar sem þeim verður greinilega gert ljóst, en á mannúðlegan hátt, að þeir hafi með þessari framkomu sinni, framið pólitískt sjálfsmorð.

Bæjarfulltrúar þessir eru:

Hinn margyfirlýsti hatursmaður endurbyggingarinnar Þormóður Eyjólfsson (sem nú er umboðslaus í bæjarstjórn) Þóroddur Guðmundsson og Ó. Hertervig. Þóroddur og Þormóður eru báðir eins og kunnugt er þjónar Síldarverksmiðja ríkisins og eiga að gæta hagsmuna þeirra.

Hvað boðar þessi lýðsstyrkur Þormóðs, sem hefur lýst því yfir, að hann muni af öllum lífs og sálarkröftum vinna að því að bærinn endurbyggi ekki Rauðku.

Einn árangurinn af þessum liðsafla er hinn dæmalausi úrskurður hans um að reyna að ógilda löglega kosna Rauðkustjórn og hin nýja kosning Rauðkustjórnar, sem gekk út á það að víkja úr stjórninni formanni og varaformanni, mönnum, sem njóta fyllsta trausts allra þeirra bæjarbúa, sem óska, að endurbygging Rauðku takist.

Eitt af stærstu áhugamálum bæjarbúa síðastliðin ár hefur verið og er endurbygging síldarverksmiðjunnar Rauðku. Við það fyrirtæki eru tengdar miklar og heillaríkar vonir mikils meirihluta þeirra er bæinn byggja, um að þetta fyrirtæki geti orðið fjárhagsleg og um leið menningarleg lyftistöng bæjarins.

Fjöldinn af Siglfirðingum hafa því tekið ástfóstri við þetta fyrirtæki og eiga enga heitari ósk en að vel takist um að koma þessu óskabarni sínu upp.

Þegar hafist var handa með endurbygginguna voru Siglfirðingar svo lánsamir að velja í verksmiðjustjórnina menn, sem hafa sýnt það í störfum sínum, að þeir hafa lagt alla orku sína fram til þess að koma verksmiðjunni upp. Og störf þeirra hafa tekist það vel, þrátt fyrir erfiðar aðstæður, að verksmiðjan á að geta tekið til starfa í sumar.

Bæjarfulltrúarnir Egill Stefánsson, Kristján Sigurðsson og Ólafur H. Guðmundsson og Axel Jóhannsson áfrýjuðu úrskurði forseta og hinni nýju stjórnarkosningu til Félagsmálaráðuneytisins.

Nú hefur bæjarstjórn borist tilkynning frá Félagsmálaráðuneytinu um að úrskurður ráðuneytisins væri fallinn.

Var úrskurður Þormóðs forseta og hin nýja stjórn hans og félaga dæmd lögleysa ein, en stjórnarkosning Rauðku í janúar dæmd gild.

Hér fer á eftir símskeyti ráðuneytisins:

Bæjarstjórinn á Siglufirði Reykjavík 17/4'45

Ráðuneytið hefur í dag úrskurðað kæru bæjarfulltrúanna Egils Stefánssonar, Ólafs H. Guðmundssonar, Kristjáns Sigurðssonar og Axels Jóhannssonar yfir kosningum á fundi bæjarstjórnar Siglufjarðar 4. þ.m., þannig: kosningar forseta og fastra nefnda bæjarstjórnar Siglufjarðar, sem fram fóru á bæjarstjórnarfundi 4. þ.m. svo og aðrar kosningar, sem fram fóru á fundinum og samkomulag hefir orðið um, skulu standa óhaggaðar.

Úrskurður forseta bæjarstjórnar um kosningu á stjórn síldarverksmiðjunnar Rauðku, sem fram fór á fundinum er úr gildi felldur, svo og kosning sú á síldarverksmiðjustjórninni, sem fram fór á þeim fundi.

Ráðuneytið sér, eftir atvikum ekki ástæðu til að fella úr gildi kosningu þá, sem fram fór á stjórn verksmiðjunnar á bæjarstjórnarfundi 17. janúar þ.á. Forsendur úrskurðarins sendast í bréfi í dag. Tilkynnist þetta kærendum og bæjarstjórn.

Félagsmálaráðuneytið.

---------------------------------------------------------------------------

Lokaárásin á Rauðku

Þormóður Eyjólfsson hefir löngum verið Rauðku óþarfur og reynt á ýmsan hátt að koma í veg fyrir, að bærinn endurbyggði Rauðku. Þegar 1939 kostaði endurbyggingin tæpar 2 milljónir króna, 5.000 mála verksmiðja, nú um 5 milljónir og þeim mun meir, sem stækkunin verður meiri.

Hitt er almenningi hér í bæ ekki eins kunnugt, að fulltrúaráð Framsóknarflokksins, undir forsæti Þ.E. (réttara sagt: Þrátt fyrir forsæti Þ.E.) - sem varaforseta fulltrúaráðsins - samþykkti 30. maí 1939 svohljóðandi tillögu:

“Fundur haldinn í fulltrúaráði Framsóknarmanna í Siglufirði þriðjudaginn 30/5 1939 samþykkir að skora á ráðherra Framsóknarflokksins, að þeir beiti sér fyrir því, að ríkisstjórnin veiti nú þegar Siglufjarðarkaupstað leyfi til að mega taka lán til bygginga síldarverksmiðju á svokölluðum Rauðku grunni í Siglufirði.”

Framsóknarflokkurinn í landinu, en einkum í Siglufirði, hefur beðið stórtjón af, að slíkri tillögu var eigi framvísað við Framsóknarráðherrann, sem var af Þ.E. reynt að blekkja í málinu með því að stinga svona tillögu undir stól.

Og Framsóknarráðherranum talin trú um, að ekkert fjárhagsvit væri í endurbyggingunni. Hafa fjandmenn Framsóknarflokksins kunnað að hagnýta sér það.

Breytingartillaga í þá átt, að skora á ráðherra Framsóknarflokksins, að þeir beiti sér fyrir því við ríkisstjórnina, að sem allra fyrst verði reist 5.000 mála síldarverksmiðja í Siglufirði, annaðhvort með því að veita heimild til að taka lán til slíkrar byggingar eða á “annan hátt” var felld,- vegna orðanna “annan hátt”, sem Þ.E. ætlaði að nota fyrir smugu.

Ætla mætti, að ráðherra hefði fengið tillögu þessa og Þ.E. fast eftir gengið, en blaðið fullyrðir, að ráðherrann hefir aldrei fengið þessa tillögu, heldur hafi Þ.E. stungið samþykktinni undir stól (eitt dæmið af mörgum um einræði hans og fádæma yfirgang í félaginu) og hafi við ráðherrann lagst á móti endurbygging verksmiðjunnar af bænum og í svipaðan dúr hefir hann unnið síðar. (Framsóknarmönnum í Siglufirði hefir ekki líkað þessi umboðsmennska og krafist af bæjarstjórn að vera lausir við umboð sitt til Þ.E. sem varabæjarfulltrúa, - en það er önnur saga.

Árið 1939 skrifaði fjöldi Framsóknarmanna undir áskoranir til þáverandi ráðuneytis að leyfa endurbyggingu Rauðku upp í 5.000 mál og nægilegar lánveitingar (tæpar 2 milljónir). Er því með öllu rangt að segja, að Framsóknarfélagið í Siglufirði hafi 1939 verið mótfallið endurbyggingu Rauðku af bænum, þótt svo hafi tekist til, að umboðsmaður flokksins í bæjarstjórn og í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins hafi túlkað málið fyrir ráðherranum á nokkurn annan hátt en samþykkt tillaga fulltrúaráðsins gerir grein fyrir.

Árið 1943 gerði Framsóknarfélagið hér tilraun til þess að safna öllum flokkum um endurbyggingu Rauðku og tryggja samvinnu flokkanna um málið.

Var það gert á þann hátt, að í Rauðkustjórn yrði fjölgað upp í 5, svo að hver flokkur gæti átt fulltrúa í stjórninni og að stjórn Rauðku yrði kosin af fulltrúaráðum flokkanna, er komið hefðu manni að í bæjarstjórn, en ekki af hinum vígreifu fulltrúum flokkanna í bæjarstjórn.

Var talið vali fulltrúaráðanna það til gildis, að það færi fram með meiri ró en í bæjarstjórn, kæmi frekar í veg fyrir persónuleg hrossakaup og venslaval.

Um fyrirtækið yrði því meiri ró og öryggi heldur en, ef bæjarfulltrúar réðu einir um valið og ætlandi væri, að fulltrúaráðin, þar sem bæjarfulltrúarnir hafa líka sæti, gættu fremur alhliða sjónarmiða en einn eða tveir menn.

Í Framsóknarfélaginu hér voru menn næstum einróma með þessari tilhögun, Þ.E. líka fyrst, en réðist þó síðar gegn henni, er hann fór betur að hugsa sig um að spilla fyrir Rauðku. Sjálfstæðisflokkurinn og D-listamenn voru fyrirkomulagi þessu fylgjandi.

Þegar til lána kom með Rauðku mun það eigi hafa spillt fyrir heldur hið gagnstæða, að fulltrúaráðin kysu í Rauðkustjórn.

Fjáraflamönnum fannst trygging í því. Þegar ríkisábyrgðar þurfti til endurbyggingar Rauðku sá Þormóður sér leik á borði.

Hann fær samverkamann sinn í stjórn síldarverkamiðja ríkisins, Svein Benediktsson, sem Siglfirðingum er nógu kunnur, og eigi þarf að lýsa fyrir þeim, til þess að geysast fram á vígvöllinn gegn Rauðku, sem hann vill klófesta fyrir Síldarverksmiðjur ríkisins.

Hann fær áhrifamann í Sjálfstæðisflokknum, sér náskyldan, duglegan og vel metinn mann, til þess að flytja á alþingi sem skilyrði fyrir ríkisábyrgðinni, að bæjarfulltrúar skyldu kjósa í Rauðkustjórn og var það skilyrði samþykkt.

Er næsta óskiljanlegt, að mikilhæfur stjórnmálamaður skuli geta látið hafa sig til þess að ganga jafn persónulegra erinda, þótt fyrir náskyldan mann hafi verið og mörgum Sjálfstæðismönnum hér þykir af lítilli fyrirhyggju gjört hafa verið.

Nú kemur reynslan:

Laus myndi nú Siglufjörður hafa verið við ýmis óþægindi og stapp, ef kosningaraðferðinni hefði ekki verið breytt.

Betur mun og séð fyrir vali af fulltrúaráðunum en einum eða 2 bæjarfulltrúum, einkum þar sem svo er ástatt, að bæjarfulltrúarnir hafa að engu tillögur og fyrirskipanir fulltrúaráðs síns, eins og Þormóður svo oft hefir gert og fyrirfram lýst yfir, að hann myndi gera.

Þá er heill flokkur, eins og Framsóknarflokkurinn, sem hefir átt ekki óverulegan þátt í endurbyggingu Rauðku, sviptur áhrifum á val þýðingarmestu nefndarinnar í bænum.

Það mun og þykja háðulegt, að afleiðingar af samþykkt, er þingið gerði að skilyrði, að sjálfir bæjarfulltrúarnir kysu í Rauðkustjórn, skapaði Þormóði aðstöðu til þess að kjósa einn mann í Rauðkustjórn annan (!) en þann, er Framsóknarfélagið lagði fyrir Þormóð að kjósa.

Þingið hefir ekki gengið út frá að vísu - og til þess hafði það gilda ástæðu, að til væru menn, sem þannig brytu í bág við sinn eigin félagsskap og það er eina afsökun þingsins, en þó virðist það helst til mikil einsýni hins annars mikilhæfa stjórnmálamanns að telja vali stjórnar Rauðku betur borgið í höndum bæjarfulltrúanna en fulltrúaráð­anna, og ekki að vita nema hann hafi vitað líka, til hvers refirnir væru skornir.

Þann 4.þ.m. heldur svo Þ.E. bæjarstjórnarfund og stjórnar honum þannig að endemi verða. Hann leitar eigi afbrigða frá fundarsköpum og veður svo áfram, að hann neitar bæjarfulltrúum um bókun.

Kemur öllum saman um, að slík fundarstjórn hafi verið með endemum.

Hitt er annað mál, að janúarkosning Rauðkustjórnar fullnægir líka nýju reglugjörðinni eins og úrskurður Stjórnarráðsins gengur út frá og dæmir kosninguna líka gilda eftir henni.

Nemur úrskurður stjórnarráðsins alveg úr gildi, hinn dæmalausa úrskurð forseta bæjarstjórnar um kosningu Rauðkustjórnar, sem að framsetningu og hugsun stangar sjálfan sig.

Eins og fyrr segir hefir Þormóður viljað koma Rauðku fyrir kattarnef. Síðasta ráð hans er nú að kjósa í Rauðkustjórn Ragnar Guðjónsson, mann, sem barðist með honum móti endurbyggingu Rauðku 1943.

Auk þess er hann mágur Þórodds Guðmundssonar, og gat því verið nokkurskonar hengibrú milli Þormóðs og Þórodds, enda hefir þessi kosning sýnt það, að oft hefir Þormóður pólitískt skroppið yfir brúna til Þórodds og Þóroddur til Þormóðs.

Vera má og, að Þ.E. og hans nótar hafi hugsað sem svo: Sjálfur hávaðinn út af Rauðku (Sveinn Ben er, á fremur Sveinslegan hátt farinn að rita í Morgunblaðið o.fl.) gæti leitt til þess að koma Rauðku undir “ríkið.”

Þetta er því alls ekki svo vitlaust reiknað út. Hafa menn því vel skilið þetta samband. Hitt hefir mönnum virst óskiljanlegra, að bæjarstjórinn væri með í samningnum.

Er illsjáanlegt, hvaða pólitískur ávinningur þetta geti verið fyrir hann eða þann flokk. Hann hefir öllu að tapa, en ekkert að vinna við slíkt samkomulag og vissulega mun það a.m.k. koma algerlega í bág við hér umbil allan hluta hans flokks.

Heyrst hefir, að Þormóður hafi lofað honum nokkrum Framsóknaratkvæðum til þingkosninganna næstu, en bæjarstjórinn gengur með þingmanninn í maganum.

Þau verða víst fá atkvæðin, sem Þormóður á ráð á. En stutt er að skreppa yfir “hengibrúna” og óvíst hvoru megin við brúna Þormóður verður.

Menn trúa þó ekki öðru en bæjarstjórinn losni við þessa óhægð eftir Rauðkuúrskurðinn, sem varla mun hafa aukið fylgi hans innan Sjálfstæðisflokksins, því síður fylgi utan flokksins, en síðasti frambjóðandi Sjálfatæðisflokksins naut þess að nokkru.

Móti þessu öllu segir Þormóður: Ég er maðurinn, sem er að bjarga Rauðku. Ég læt Ragnar og Ottó Jörgensen - þótt varamenn séu - kjósa sjálfa sig í Rauðkustjórn!

Skyldu margir Siglfirðingar verða til þess að trúa því, að það væri til þess að bjarga Rauðku að kjósa í Rauðkustjórn Ragnar Guðjónsson í stað Guðmundar Hannessonar og O. Jörgensen í stað Erlends Þorsteinssonar, að þeim ólöstuðum?

Ótrúlegt mun Siglfirðingum þykja það, þótt Þormóður, fáeinir Hertervigar og nokkrir Þóroddar reyni að telja fólki trú um slíkt.

Siglfirðingar! Hættum þessum óvitaleik með Rauðku. Látum það aldrei koma fyrir aftur, að við verðum ekki sammála um Rauðku.

Framundan eru miklir erfiðleikar með útvegun fjár til þeirrar stækkunar Rauðku sem áformuð er í sumar.

Rauðkustjórn hefir öll unnið vel og samvinna innan nefndarinnar verið hin besta.

Haltu þannig áfram Rauðkustjórn og vér Siglfirðingar skulum styrkja nefndina til þess af alefli.