Árið 1945- Rauðka 6 - Rauðkuverksmiðjan - Siglunesið og “stóra hneykslið”

Siglfirðingur 28. september 1945  Grein eftir A. R. SCHIÖTH og svör andstæðings +

Svo sem kunnugt er ákvað stjórn síldarverksmiðjunnar Rauðku að gera það, sem í hennar valdi stóð til þess að verksmiðjan gæti tekið til starfa á sumrinu 1945. Var litið svo á, að jafnvel þótt leggja yrði í talsverðan aukakostnað til þess að þetta næðist mundi sá aukakostnaður endurgreiðast á tiltölulega skömmum tíma með því, að afurðir þessarar verksmiðju, sem og annarra verksmiðja voru fyrirfram seldar fyrir sæmilegt verð.

Um þetta munu allflestir hafa verið sammála, en hitt gat enginn séð fram á, að sumarið 1945 mundi verða eitt hið versta síldarsumar, sem menn muna eftir.

Örðugleikarnir á því að koma verksmiðjunni upp fyrir þann tíma sem síldveiði byrjar reyndust miklir og yrði of langt mál að skýra það hér, en þrátt fyrir þetta var verksmiðjan móttökuhæf í kring um 15. júlí og fyrsta löndun fór fram 17. þess mánaðar.

Ef nægilega mikið af sæmilega góðu hráefni hefði borist verksmiðjunni mundi hún vafalaust hafa getað afkastað 5.000 málum á sólarhring en það kom ekki til að á það reyndi af ástæðum, sem þegar eru kunnar.

Með hliðsjón af því, sem hér hefir verið sagt gerði stjórnin sitt ýtrasta til þess að ná samningum við veiðiskip, en það gekk treglega. Ástæðan var sú og sú eingöngu, að menn trúðu því ekki að verksmiðjan yrði tilbúin í tæka tíð. Útgerðarmenn þorðu ekki að samningsbinda sig við verksmiðju, sem þeir ekki höfðu trú á, að gæti tekið við síld þeirri, sem skip þeirra öfluðu, og sú er þá staðreynd, að í byrjun júlímánaðar hafði verksmiðjan ekki yfir að ráða nema 2 Íslenskum skipum (m.s. Dagný og m.s. Gunnvör) og 4 færeyskum (m.s. Yvonna, Mjóanesið, Fugloy og Godthaab).

Sér hvert mannsbarn, að það var svo það var svo víðsfjarri, að skip þessi gætu annað hráefnaþörf verksmiðjunnar, og það jafnvel þótt afköst hennar hefðu verið brot af því, sem ég tel hér að framan, enda þýðir ekki að loka augunum fyrir þeirri staðreynd, að ef sumarið 1945 hefði orðið meðal síldarsumar, eða meira, mundu aðrar verksmiðjur alls ekki hafa getað annað vinnslu af þeim mikla skipafjölda, sem þær höfðu undirgengist að taka síld til vinnslu af.

Erlendur Þorsteinsson - Ljósmyndir: Kristfinnur

Erlendur Þorsteinsson - Ljósmyndir: Kristfinnur

Svona er ástatt fyrir verksmiðjunni þann 4. júlí í sumar þegar þess gefst kostur að bæta við verksmiðjuna einu af stærsta og besta síldveiðiskipi í flotanum m.s. Siglunesinu. Útvegsbankinn, sem hafði ákveðið að hjálpa samnefndu útgerðarfélagi til þess að koma skipinu á síldveiðar, keypti 130 þúsund króna víxil af því, en til tryggingar voru tvennir snurpunótabátar, tvær snurpinætur og persónuábyrgð þeirra Áka Jakobssonar, Sigurðar Thoroddsen og Steinþórs Guð­mundssonar. Var farið fram á það við stjórn Rauðku, að hún ábyrgðist greiðslu þessa með allt að 40% af afla skipsins.

Mér var það fullljóst, að Rauðku stjórn hafði ekki heimild bæjarstjórnar til þess að taka að sér þessa skuldbindingu og færði þetta því í tal við 4 bæjarfulltrúa, þar á meðal bæjarstjóra, sem ég náði til. Með því að afgreiða þurfti mál þetta samdægurs vannst ekki tími til að halda bæjarstjórnarfund um málið og tókum við meðstjórnendur mínir þá ákvörðun að eiga það á hættu, að bæjarstjórn gerði okkur ómerka að þessari ráðstöfun.

Var okkur ljóst, að færi svo, værum við persónulega ábyrgir ef handveð og persónutryggingar reyndust ófullnægjandi. Um “leynimakk” og “pukur” það, sem á að hafa átt sér stað um þessa ábyrgð, skal það tekið fram, að samdægurs var skráð eftirfarandi bókun á bls. 17 í fundargerðarbók stjórnarinnar, en að þessari bók eiga allir bæjarfulltrúar aðgang, þar á meðal Erlendur Þorsteinsson:

“Samþykkt með öllum atkvæðum að ábyrgjast gagnvart Útvegsbankanum ávísun á 40% afla m.s. Siglunes á í hönd farandi síldarvertíð allt að 130 þúsund kr. Með tilliti til þess, að verksmiðjan er í skipahraki, taldi stjórnin nauðsynlegt að gera þetta með því að ella mátti búast við, að verksmiðjan yrði af skipinu.”

Enda var það svo, að skipið hefði ekki farið á síldveiðar ef um­rædd ábyrgð hefði ekki verið látin í té.

Þetta er nú, lesendur góðir, í stuttu máli það, sem Erlendur og fógeti kalla “stórkostlegt hneyksli,” “ennþá stærra hneyksli” og ég veit ekki hvað og hvað. En það er ekki látið þar við sitja að úthrópa mig, samstarfsmenn mína og framkvæmdarstjóra hér í bæ, heldur eru blaðsneplar þeir, sem þeir hafa aðgang að látnir flytja þessar “hneykslissögur” landshornanna á milli.

Þeir, sem einhverja hugmynd hafa um það, hvers, virði tvær snurpinætur og tveir snurpubátar eru geta gert sér einhverja hugmynd um, hve geigvænleg sú fjárhagslega áhætta er, sem við, vegna þessarar ábyrgðar höfum bakað Rauðku. Hrökkvi ekki handveðið fyrir víxilgreiðslunni, verður geng­ið að eignum þeirra Áka, Sigurðar og Steinþórs, en hrökkvi þær ekki að heldur má ganga að eignum okkar Gunnars og Ragnars, ef bærinn vill svo við hafa.

Það gefur að skilja, að ef stjórn Rauðku skuldbindur verksmiðjuna umfram það, sem heimildir standa til verður hún persónulega ábyrg fyrir þeim skuldbindingum.

Það er vitanlega ekkert nýtt þótt síldarverksmiðjur hlaupi undir bagga með útgerðarfélögum á einn eða annan hátt með ábyrgðum eða peningalánum, þótt hitt kunni að vera rétt, sem ég hefi heyrt fleygt að Síldarverksmiðjun ríkisins hafi aldrei gengið inn á þessa braut.

En ég fæ ekki séð, að hér hafi skapast hættulegt fordæmi með því að næsta sumar stendur allt öðruvísi á fyrir verksmiðjunni heldur en stóð sumarið 1945. Er óhætt að fullyrða, að verksmiðjan muni geta afkastað 7-8 þúsund málum á sólarhring sumarið 1946 og að kostnaður við að stækka verksmiðjuna upp í 10 þúsund mála verksmiðju mun ekki fara langt fram úr milljón.

Menn skildu nú halda, að þeir, sem hrópa hátt um þetta “stórhneyksli” hefðu aldrei látið sig henda sú skissa að gera sig seka í slíkt “stórhneyksli” eða verra. Við athugun á bókum síldarverksmiðjunnar Rauðku kemur í ljós, að stjórn þeirri er sat að völdum 1940 hefir, fyrir milligöngu formanns, lent sú skissa, að lána útgerðarmanni af lánuðu rekstrarfé verksmiðjunnar 8.000 krónur. Til tryggingar skaðlausri greiðslu voru hvorki veiðarfæri né persónuábyrgð, heldur síldin í sjónum.

En þá hét formaður Rauðkustjórnar ekki Aage Schiöth, hann hét Erlendur Þorsteinsson.

II

Janúarkosin stjórn - Aprílkosin stjórn

Það verður ekki séð annað en að tvö blöð hér í bæ, “Neisti” og Einherji eigi til óþrjótandi pappír og blek þegar um svokölluð Rauðkumál er að ræða. Æ ofan í æ er verið að staglast á því að stjórn sú, sem bæjarstjórn kaus 20. apríl s.l. sé ólögleg “gervistjórn.” en svo sem kunnugt er, hefir stjórn þessi haft með höndum lántökur, endurbyggingu og rekstur verksmiðjunnar frá þeim degi og fram á þennan dag.

Um þessi mál hefi ég ritað tvær smágreinar, sem birtust í þessu blaði, og skal ekki endurtaka neitt af því, sem þar stóð annað en það, að ég er ólögfróður og tel mig ekki dómbæran á það, hvort bæjarstjórn hefir brotið lög á janúar kosinni stjórn eða hvort stjórnarráðið er að leitast við að brjóta lög á bæjarstjórninni, því hvorttveggja hefir verið fleygt. En mér er spurn:

Ef 4 af 9 kjörnum bæjarfulltrúum telja sig beitta ólögum af 5 manna meirihluti, hversvegna leita þeir þá ekki réttar síns hjá dómstólunum? Því slíkt er ekki annað en heimska ein að halda því fram, eins og gert hefir verið, að meirihlutinn hafi látið undir höfuð leggjast að framkvæma þessa skyldu sína. Og ef að svo stendur á, að dómarinn á hér hagsmuna að gæta, ja, þá sýnir undanfarin reynsla, að tök eru á að fá hingað setudómara.

En nú segir fógetinn og minni­hlutinn: Úrskurður er kominn frá Félagsmálaráðuneytinu, og sá úrskurður er dómur, en meirihlutinn svarar: Skeyti ráðuneytisins er álit en ekki dómur, með því að það fjallar um málefni, sem er á valdi bæjarstjórnar að afgreiða.

Enn spyr ég sem leikmaður: Úr því ekki var hægt að fá neinn dómúrskurð hjá héraðsdómara Siglufjarðar og Reykjavíkur og heldur ekki hjá Hæstarétti er þá ekki eitthvað til, sem heitir landsdómur?

En hvað um það, samstarfsmenn mínir, framkvæmdastjóri og ég, höfum litið svo á, að ráðuneytið væri húsbóndi bæjarstjórnar en bæjarstjórn væri húsbóndi okkar og samkvæmt þessu höfum við hagað okkur. Teljum við, að í bæjarstjórn, sem skipuð er 9 bæjarfulltrúum sé það í fullu samræmi við algildar lýðræðisreglur að 5 bæjarfulltrúar ráði meiru en 4 þegar eitthvað ber á milli.

Annars skal hér sagt frá því, að mér er ekki ljóst með hverjum hætti þessi 3/5 hluti janúarkosinnar stjórnar hagar sinni “ólöglegu” starfsemi. Ekki hefir verið látið svo lítið að boða okkur Gunnar Jóhannsson á málamyndafundi þá, sem þetta nefndarbrot hefir verið að halda á lögregluvarðstofunni, hafnarskrifstofunni, úti á Hvanneyrarbraut og hver veit hvar, en hinsvegar hefir verið lögð mikil áhersla á að fá framkvæmdastjóra verksmiðjunnar til að mæta á fundum þessum, en ekki tekist.

Það væri þó synd að segja, að minnsta kosti formaður þessa stjórnarbrots hefði ekki gert eitt og annað til þess að vekja á sér athygli. Öðru hvoru hefir hann komið inn á skrifstofu verksmiðjunnar, boðið þar góðan daginn, spurst frétta, snúið sér við og horfið í sömu andránni. Þá hefir bæjarstjórninni borist bréf frá sama aðila undirritað f.h. fulltrúaráðs Siglufjarðar, en enginn, nema kannski hann sjálfur, veit hvaða ráð þetta er, ekki er það 15 mannaráðið.

Hér á eftir fer sýnishorn af einu af þessum sprenghlægilegu bréfum, sem sami aðili sendi mér persónulega:

“Á fundi janúarkosinnar Rauðkustjórnar í dag í skrifstofu Rauðku var svohljóðandi samþykkt gerð:

Rauðkustjórn ákveður að mótmæla þessum aðgerðum 20.apríl kosinnar Rauðkustjórnar og skorar á hana að afhenda framkvæmdarstjóra lykilinn, svo að ekki þurfi árekstrar að myndast milli aðilja út af öðru eins atriði.

Uppl. staðfest. Fundi slitið.

Guðmundur Hannesson

Axel Jóhannsson

Kristján Sigurðsson

Virðingarfyllst

Guðmundur Hannesson (sign.)

Er nokkuð vit í þessu bréfi? Hvaða aðgerðir, lykil og atriði er átt við?

Annars skal ég ekki fjölyrða um samanburð á þessum nefndum, en vil taka fram að endingu, að stjórn sú, sem bæjarstjórn kaus 20. apríl s.l. hefir að einu og öllu leyti. farið með mál verksmiðjunnar hvað endurbyggingu og rekstur snertir.

Hafa lánsstofnanir og aðrir aðiljar sem undir var að sækja, svo og viðskiptamenn viðurkennt hana sem löglegan samningsaðilja. (Hér er þó rétt að geta einnar undantekningar, sem sé Axels Jóhannssonar f.h. hönd m.s. Dagný). Stjórnin hefir haft fullt umboð til að skuldbinda bæinn um lántökur vegna endurbyggingarinnar allt að 5,5 milljón króna og lántöku og veðsetningu vegna reksturs hennar innan vissra takmarka. Hefir bæjarstjóra gefist kostur á, ásamt skrifstofustjóra að sitja alla fundi og hafa þeir gert það, þegar þeir hafa getað komið því við.

Er þessa getið vegna þess, að á tímabili fyrrverandi formanns var vægast sagt ekkert gert til þess, að bæjarstjóri gæti fylgst með gjörðum stjórnarinnar nema það, að ég fékk munlegt samþykki fyrir því, að hann yrði boðaður á fundi, en því var ekki framfylgt. Tel ég, að bæjarstjóri sá, er fór með þann starfa fram til ársins 1938 hefði kunnað illa við slík vinnubrögð.

Fundirnir hafa gengið vel og greiðlega, allar gerðir nefndarinnar samþykktar með öllum atkvæðum nefndarmanna og framkvæmdarstjóra, nema 15. fundurinn, - en á þeim fundi mætti Erlendur Þorsteinsson. Var ekki annað að sjá og heyra, en að hann væri þangað kominn til þess að svala heift sinni á bæjarstjóra, enda lét hann að vanda, bóka allskonar óviðkomandi “glósur” til hans.

Ég segi að vanda, vegna þess, að eins og fundargerðarbók Rauðku, sú er bæjarfógeti heldur, ber það með sér að það var siður hans og raunar líka fógeta, að bóka skammir hver um annan á þessi pappírsblöð verksmiðjunnar.

En þá voru þeir vitanlega ekki eins góðir vinir eins og nú!

III

Endurbygging verksmiðjunnar og rekstur

Mér hefði þótt vænt um að geta birt niðurstöðutölur byggingarkostnaðar verksmiðjunnar á þessu stigi málsins, en það er því miður ekki hægt. Í næsta mánuði býst ég við, að hægt verði að gangs frá endanlegum reikningsskilum við h.f. Héðinn í Reykjavik, en eins og kunnugt er hefir þetta félag haft með höndum smíði og pöntun á flestum vélum verksmiðjunnar og annast uppsetningu þeirra að verulegu leyti.

Um afkomu rekstursins er svipað að segja, endanlegar tölur eru ekki fyrir hendi enn sem komið er. Mun stjórnin á sínum tíma leggja gögn sín þar að lútandi

fyrir bæjarstjórn og er það á valdi bæjarstjórnar, hvort skýrsla nefndarinnar verður gerð heyrum kunn áður en bæjarreikningar verða lagðir fram.

Eins og ég benti á í byrjun þessarar greinar þótti sjálfsagt að leggja í verulegan aukakostnað til þess að verksmiðjan gæti tekið til starfa tímanlega sumarið 1945 en þetta hefir meðal annarra ástæðna orðið orsök þess, að verksmiðjan hefir farið talsvert fram úr áætlun. Mundi þetta þó eigi hafa komið að sök, ef sæmileg síldveiði hefði verið. En ég get huggað menn með því, að byggingarkostnaður verksmiðjunar verður alltaf mun lægri en áætlaður kostnaður við byggingu annarra svipaðra verksmiðja.

Sumarið 1945, en það er fyrsta sumarið, sem hún tekur til starfa að aflokinni endurbyggingu, berast verksmiðjunni ekki nema 13,8 þúsund mál síldar. Er auðvelt að gera sér hugmynd um, hvernig reksturs afkoma verksmiðjunnar er með slíkum aðdrætti. Stjórnin gengur ekki að því gruflandi, að framundan bíður mikið og vandasamt starf, en hún treystir því, að yfirleitt muni bæjarbúar una henni vinnufriðar og einnig þykist hún mega vænta skilnings hjá lánveitendum fyrirtækisins með því að öllum er ljóst, að slík óáran til sjávar, eins og síldarútvegur allur hefur átt við að búa síðastliðið sumar, er ekkert sjálfskaparvíti.

Hefir stjórnin samþykkt að taka ekki laun sín fyrir þessa árs starf sitt svo sem skylt var.

IV

Niðurlag

Mottó: “Hér syndum vér fiskar,” sagði hornsílið.

Það er ósköp mannlegt að ganga, með þá flugu í höfðinu, að enginn sé eins fær um að fara með umboð meðborgara sinna á löggjafarþingi þjóðarinnar eins og hann sjálfur. Og hafi maður verið svo heppinn að hossast upp í ábyrgðarmiklar og vel launaðar stöður vegna andláts tveggja heiðursmanna, -án þess að hafa nokkuð verulega til þess unnið, er ekki nema eðlilegt, að mann langi á þing, ekki síst þegar maður hefir komist þangað áður sem varamaður þess alþingismanns, sem einnig féll frá.

En tilviljunin ein er ekki nóg, almenningur á atkvæðin, sem til þess þarf og hann er oft gagnrýninn og duttlungafullur. En sú er bót í máli, að almenningur lætur oft blekkjast, og besta ráðið til þess að blekkja almenning til fylgis við sig er að staglast nógu oft á því í ræðu og riti, og ekkert sé hægt að framkvæma til almennings heilla nema í samráði við sig, og að sjálfur eigi maður frumkvæðið að flestum þeim framfaramálum sem framkvæmd hafa verið. Best að gera sig í augum almennings að einhverskonar pólitískum stórlaxi, sem syndir gljáandi og velnærður innan um alla hina fiskana:

“Lítið á mig; ég einn er fær um að fara með umboð ykkar, en til þess þarf ég að fá atkvæði. Það var ég og vinur minn frá Noregi, sem bentum Svavari bankastjóra á “kreditexport". Mér og vini mínum frá Noregi er fyrst og fremst að þakka, að byrjað var á athugun á endurbyggingu Rauðku. Ef þið meðnefndarmenn mínir þurfið að halda fund, þá getið þið haldið hann á minni skrifstofu, annan hef ég engan tíma.

Ykkur hlýtur að vera ljóst, að aldrei hefir verið annar eins útflutningur á síld og síðustu stríðsárin og ekki koma þar “fjölskyldusjónarmið” til greina.”

Kannist þið, lesendur góðir, við grammafónplötuna? - En þið vitið að flestum grammafónsplötum er hægt að snúa við og þá kemur annað lag:

“Þið eruð niðurrifsmenn Rauðku þið viljið selja Rauðku “svei ykkur þið viljið torvelda endurbyggingu Rauðku, þið viljið selja ríkinu Rauðku. Þið eruð ólögleg stjórn, ég hefi skeytið frá félagsmálaráðuneytinu í höndunum. ­Hættið að starfa að Rauðkumálum," fáið okkur lykilinn svo ekki þurfi að verða neinn ágreiningur.”

Það er sitt hvað gaman og alvara, en hvorttveggja fer þó oft saman. Ég hefi leitast við, með þessum línum að sýna fram á, að Rauðkumálið á, eins og flest mál broslegar hliðar, en fyrst og fremst er endurbygging og stækkun síldarverksmiðju bæjarins alvarlegt hagsmunamál bæjarbúa.

Það veltur á miklu um framtíð þessa fyrirtækis, að um það skapist fyrst og fremst vinnufriður, Ég þykist hafa styrkt fyrrverandi formann stjórnarinnar í þessu, sem og öðru, sem til hagsbóta gat orðið endurbyggingunni og ég þykist hafa látið hann njóta sannmælis í hvívetna, en með því, að ég get ekki fallist á að hann hafi gert hið sama eftir 20. apríl, vil ég að endingu leggja fyrir hann tvær spurningar:

a) Man bæjarfógetinn nokkuð eftir því, að hann hafi sjálfur, ekki alls fyrir löngu, borið fram tillögu um að bærinn seldi Rauðkuverksmiðjuna ef fyrir hana fengist 1 milljón króna? Ég veit að fógetinn er stálminnugur, en ef hann er í vandræðum vil ég gjarnan hjálpa honum.

b) Hvernig stóð á því, að bæjarfógetinn barðist ekki við hlið okkar hinna, sem vildum endurbyggja síldarverksmiðjuna árið 1939? Hvernig stóð á því, að þá taldi hann það hreinasta glapræði að ráðast í slíkar framkvæmdir?

Af hverju stafar þessi kúvending? Það er líklega ekki af því, að það hefir þótt ósigurvænlegt til fylgisauka, að leggjast á móti báðum stærstu velferðarmálum Siglfirðinga, Skeiðsfossvirkjuninni og endurbyggingu Rauðku?

Siglufjörður hefir vakið á sér eftirtekt annarra landsmanna síðustu mánuðina fyrir svo kölluð “skandalsmál". Það er ekkert nýtt, að þeir, sem skreppa í aðra landsfjórðunga séu spurðir að því, hvort “ekki sé neitt nýtt skandalsmál í Siglufirði.” Sumrin kennum við aðkomumönnum um hávaðalætin í bænum en í

þessum “skandölum" eiga þeir engan þátt. Hér eiga þeir bæjarbúar fyrst og fremst sökina. sem látlaust senda óhróður um meðborgara sína til blaða í Reykjavík, Akureyri og víðar.

Undanfarið hefir bærinn verið að setja í stórskuldir vegna þess, að hann hefir bjargfasta trú á framtíð atvinnulífsins hér við fjörðinn. Þess vegna er þess líka krafist af allmörgum bæjarbúum, að þeir vinni margháttuð störf í þarfir framfaramála bæjarins oft á tímum ókeypis eða fyrir titla þóknun. Nú spyr ég:

Ætlast bæjarbúar til þess að þeir fái vinnufrið eða eiga þeir að vera ofurseldir álygum og rógi pólitískra spekúlanta?

Siglfirðingar standa nú í svo miklum stórræðum, að því aðeins verður hægt að stýra bæjarskútunni fram hjá boðaföllum, að hér ríki sterkur bæjastjórnarmeirihluti. Skal hér engu spáð um það, hvaða einstaklingar og hvaða flokkar muni mynda þennan meirihluta upp úr næstu bæjarstjórnarkosningum, en eitt er víst, að því aðeins verður komið á haldfastri samvinnu milli flokka og einstaklinga, að öruggt sé, að enginn þeirra, er að samstarfinu stendur sé með falinn kuta í erminni, er hann rekur í bak samstarfsmanna sinna, hvenær sem honum þykir henta.

A. SCHIÖTH

Eftir að lokið var að rita grein þessa, hefi ég lesið. í Alþýðublaðinu þvætting og ósannindi um þessi mál, m.a. það, að ríkið sé í 2ja miljón króna ábyrgð fyrir verksmiðjuna. Ábyrgð ríkisins er að vísu ekki nema ein og hálf miljón en hvað munar Erlend & co um það, að þeir ljúgi um slíka smáupphæð?

A. SCHIÖTH

---------------------------------------------------------------------------------------

Neisti 4. október 1945

Opið bréf til Aage Riddermand Schiöth

Í 38. tölublaði Siglfirðings birtir þú ritsmíð mikla undir fyrirsögninni “Rauðkuverksmiðjan.” Vegna fyrirsagnarinnar mætti ætla, að þú hefðir fundið þig knúðan til þess að gefa almenningi nokkrar upplýsingar um stofnkostnað og rekstursafkomu þessa fyrirtækis, sem þú segist hafa stjórnað síðan 20. apríl s.l.

Svo er þó ekki. Þar fyrirfinnast engar upplýsingar um þau efni, þó að reyndar virðist mál til komið, að almenningur fái vitneskju um hversu þeim er háttað.

Tilefni þessarar greinar þinnar virðist það eitt, að verja gerræði og hneyksli aprílkosinnar Rauðkustjórnar, er hún gekk í 130.000 króna víxilábyrgð fyrir félag þeirra Þórodds og Áka.

Þungi almenningsálitsins hefur gert þér órótt. Kommúnistar skildu hneykslið og höfðu vit á að þegja. En einhver varð að reyna að gera hreint.

Þeir völdu þig til þess. Þú varst ánægður með að hafa forystuna. Þess skyldir þú þó minnast, að til er málsháttur um þá, sem att er út í ófæruna. Ég veit, að þú kannt hann. Þess vegna er óþarfi að prenta hann.

AF HVERJU ERTU SVONA OFSALEGA REIÐUR

Næsti tilgangur með grein þinni virðist vera sá, að staðfesta á prenti þær skoðanir, sem þú hefur á mér og veita til mín nokkru af persónulegum skömmum. Það sýnir sig fljótt á stílsmáta greinarinnar, lauslopa hennar og orðfæri, að þú hefur verið reiður, ofsalega reiður, hamslaus af reiði.

En hvers vegna? Jú, þér ferst líkt og pöróttum strák, sem framið hefur ódæði, sem hann treystir, að ekki komist upp. Þegar upp kemst verður hann hamslaus af reiði.

Ekki fyrir það að hafa framið strákaparið, heldur af því að það skyldi komast upp. Og reiði hans bitnar ekki fyrst og fremst á sjálfum honum fyrir að fremja þennan heimskuverknað, eða gagnvart þeim, sem töldu hann á að gera það heldur bitnar reiði hans á þeim, sem kom verknaðinum upp.

Alveg sama er með þig. Þér finnst að ég hafi ljóstrað þessu upp. Þess vegna bitnar reiði þín fyrst og fremst á mér. Ef þér hefur sjálfum verið ljóst, hvað þú varst að gera þegar þú skrifaðir upp á 130 þúsund króna „plaggið" hefðirðu áreiðanlega gert ráð fyrir, að það kæmist ekki upp. Það sýna bókanirnar á bls. 17. Kem ég að því síðar.

ÞRÍR ÁFANGAR

Úr því, að þú minnist á þátttöku þína í Rauðkustjórn og störf þín þar, er ekki úr lagi að rifja það nokkuð upp. Þessu starfi þínu má skipta í þrjú tímabil eða áfanga. Það fyrsta hefst 1938. Þá ert þú kosinn í stjórnina ásamt mér og Sveini Þorsteinssyni. Þegar til þess kom, að bærinn ætti að fara að reka verksmiðjuna, og átti að fara að taka reksturslán, neitaðir þú að skrifa upp á fyrsta víxilinn.

Bankinn, sem lánaði reksturslánið taldi að öll stjórnin þyrfti að skrifa upp á víxilinn samkvæmt umboði því, er bæjarstjórnin hafði veitt Rauðkustjórn.

Ég þurfti þess vegna að fá bæjarstjórnarfund til þess að breyta umboðinu og lýsa yfir því, að undirskrift okkar Sveins væri nægjanleg til þess að skuldbinda verksmiðjustjórnina.

Þetta gerðir þú á þeim tíma, sem verksmiðjunni var nauðsynlegt rekstursfé til þess að standa við skuldbindingar sínar. En mikið hefur þér nú farið fram síðan með viljugheit, að skrifa upp á allskonar víxla fyrir Rauðkustjórnina.

Annað tímabilið hefst rétt eftir áramótin 1944. Þú varst þá kominn í verksmiðjustjórnina aftur eftir langa hvíld. Og eftir því, sem þú segir, fyrir atbeina fógetans og 15 manna ráðsins. Þú varst kosinn formaður af þáverandi meirihluta verksmiðjustjórnar.

Undirbúningur að stækkun verksmiðjunnar stóð fyrir dyrum. Til þess að vinna að þeim undirbúningi var nauðsynlegt, að formaður verksmiðjustjórnar færi til

Reykjavíkur. Allir voru sammála um það, nema þú. Þú heimtaðir, að fógetann færi með þér.

Þér fannst ekki, að þú komast af án hans í þetta ferðalag. Ég taldi þetta óþarfa og sömuleiðis tveir aðrir stjórnarmeðlimir. Þetta gast þú ekki þolað og sagðir af þér formensku. Svo mikið fannst þér þá liggja við að hafa fógetann með þér, til þess að vinna að undirbúningi málsins.

Þar með má segja, að ljúki öðru tímabili þínu í Rauðkustjórn, þó að þú reyndar starfaðir sýnilega með mestu ánægju undir forystu Guðmundar Hannessonar þar til 20. apríl s.l. En þá hefst hið þriðja tímabil. Því er ekki lokið enn.

Frá áramótum til 20. apríl gerast þó ýmsir skrítnir viðburðir. Í fullu samráði við þig, að því er best verður vitað, var kosin ný Rauðkustjórn 17. janúar 1945. Allir mættir bæjarfulltrúar voru sammála.

Fundur var haldinn í hinni nýkjörnu stjórn. Í henni áttu sæti sömu menn og áður. Þú gekkst til kosninga og kaust sem formann Guðmund Hannesson. (Hér má skjóta því inn, að eftir tveggja daga umhugsunarfrest, er þá sagðirðu af þér formennsku, þá kaust þú Guðmund Hannesson fyrir formann.)

Samkomulag virtist hið besta. Þegar þremenningarnir, Hertervig, Þormóður og Þóroddur, komu heim og vildu skipta um stjórn, vegna persónulegrar óvildar til Guðmundar Hannessonar, vildir þú ekkert af því vita.

Taldir þú sem rétt var, að allar ýfingar í verksmiðjustjórn, og deilur um verksmiðjuna, mundu skapa henni tortryggni og vandkvæði út á við. En eftir 20. apríl virðist þú skipta um skoðun.

Ekki mundi formannsstaða að nýju hafa freistað þín? Það var jú alveg búið að ganga frá öllum undirbúningi að byggingu verksmiðjunnar. Semja um útvegun og smíði véla, útvega lán og hvað eina. Þess vegna voru öll líkindi til þess, að formaðurinn kæmist til Reykjavíkur aðstoðarlaus, og þyrfti ekki að segja af sér formennskunni, þó að einhverjir slæmir menn í verksmiðjustjórn neituðu um “barnfóstru” til fararinnar.

SEGIRÐU NÚ ALVEG SATT?

Þú segir í grein þinni, að Útvegsbankinn hafi verið búinn að ákveða að kaupa 130.000 kr. víxil af Siglunesinu og til tryggingar ábyrgð 3ja manna. Þess vegna hafi verið farið fram á við stjórn ,,Rauðku" að hún ábyrgðist greiðslu þessa, með allt að 40% af afla skipsins.

Ertu nú alveg viss um, að þetta sé alveg rétt? Heldurðu ekki, að hitt sé nær sönnu, að Útvegsbankinn hafi verið búinn að neita um þetta lán? Og hvernig var hægt að veðsetja veiðarfæri og báta, ef félagið átti ekki þessa hluti?

Hversvegna var ávísað 10% af afla skipsins til snuprubáta Jóns Sveinssonar, ef Siglunesið átti þá? Hitt er svo tvímælalaust rangt hjá þér, að einungis hafi verið farið fram á, að þið ábyrgðust þessa lánveitingu með andvirði af 40% afla skipsins.

Ef það hefði verið rétt, hefðuð þið aldrei átt né þurft að skrifa upp á víxilinn. En á þessu virðist þú engan mun skilja, og kem ég síðar að því.

Það var beinlínis gert að skilyrði fyrir lánveitingunni að svo yrði gert. Þú ert ákaflega hrifinn af því, hversu mikils virði séu tvær nætur og tvennir snurpubátar.

Og rétt er það, það er mikils virði ef það er nýtt. En það skyldi nú aldrei vera svo, að aðrir bátarnir, sem veðsettir voru hafi verið þeir sömu, sem Þórhallur Björnsson hætti við að tjarga, eftir að sérfróðir menn höfðu sagt honum, að enginn skipstjóri mundi fara með þá á síld.

Hinir voru líka gamlir. Ætli það hafi ekki líka verið farið mesta nýjabragðið af nótunum, ef að Pétur Njarðvík hefur veitt leyfi til að veðsetja þær, sem aldrei voru greiddar að fullu.

HVERN ÁTTI AÐ BLEKKJA EÐA SVÍKJA?

Þú segir, að þér hafi verið ljóst, meira að segja fulljóst, að Rauðkustjórn, hafði ekki umboð til þess að gera þessa skuldbindingu. Til þess skorti hana umboð frá bæjarstjórn.

Þú talaðir við fjóra bæjarfulltrúa, þar á meðal bæjarstjóra. Hverjir voru þessir fjórir? Það skyldu þó ekki hafa verið, auk bæjarstjóra, þeir Þóroddur, Gunnar og Ragnar? Tími var ekki til að halda bæjarstjórnarfund segir þú.

Er ekki hitt réttara, að þið hafir talið vonlaust að fá þetta samþykkt í bæjarstjórn, þar sem Þormóður ekki vildi fylgja ykkur að málum? Þess vegna tókuð þið þann kostinn, að gera þetta í heimildarleysi.

En ef þér hefur verið ljóst, að þið gerðuð þetta í heimildarleysi, hlýtur þér líka að hafa verið ljóst, að með uppáskrift ykkar hlutuð þið að blekkja eða svíkja einhvern af þeim aðilum, sem treystu því, að þið hefðuð leyfi til þess að ábyrgjast lán þetta fyrir verksmiðjunnar hönd.

Átti að svíkja bæinn til þess að samþykkja þessa ábyrgð eftirá? Var það gert vitandi vits að blekkja Útvegsbankann, sem hafði neitað að veita þetta lán nema með ábyrgð Rauðku? Eða er verið að blekkja félagið, sem lánið tók með því að veita því einskisverða ábyrgð?

”Samþykkt með öllum atkvæð um að ábyrgjast gagnvart Útvegsbankanum ávísun á 40% afla m.s. Siglunes á í hönd farandi síldarvertíð allt að 130 þúsund krónur”

Þetta segir þú, að sé sönnun þess að engu hafi verið reynt að leyna. En þetta er þveröfugt. Þessi bókun segir nefnilega allt annað, heldur en það, sem gert var.

Hún nálgast það að vera fölsun, ef húm ekki er það beinlínis. Þessi bókun segir, að verksmiðjustjórnin ábyrgist 40% af afla skipsins, - sennilega þess hluta, sem seldur var verksmiðjunni til bræðslu - allt að 130 þúsund krónur, - 40% af afla þó aldrei meira en 130 þúsund krónur.

Hér er ekkert minnst á uppáskrift á víxil. Hér er ekkert minnst á neinar tryggingar eða einkaábyrgðir. Hér er einungis um það að ræða að sjá um, að Útvegsbankinn fái 40% af andvirði aflans, um leið og það fellur til, en þó aldrei yfir ákveðna upphæð.

Samkvæmt þessari bókun var um enga áhættu eða ábyrgð að ræða, aðra en þá að skila þessum peningum til bankans. En hvað gerðuð þið?

Jú, þið fáið stimpil verksmiðjunnar framan af skrifstofu, og skrifið upp á 130 þúsund króna víxil. Þessi bókun virðist því beinlínis gerð til þess að dylja það, að verksmiðjustjórn hafði gengið í ábyrgð sem hún samkvæmt þinni eigin játningu hafði enga heimild til.

Lengra var ekki hægt að ganga til þess að leyna þessu. En svo segir þú, að engin leynd hafi verið. Skilur þú virkilega ekki muninn á þessu tvennu? Eða heldur þú, að þér takist að blekkja almenning, sem er lítt vanur þessum hlutum, með því að halda svona endileysu fram.

Bæjarstjórnarfundur var ekki haldinn vegna þess, að það varð að leyna þessu og líka vegna hins að þið höfðuð ekki meirihluta í bæjarstjórninni til þess að samþykkja þessa ábyrgð. En þú hefur sjálfsagt einnig skilið, að ekki mundi sigurvænlegt að ganga til lánsstofnana og fá viðbótarlán eftir að slík ráðsmennska með fjármuni þeirra var orðin á vitorði almennings.

„ÞAÐ ER LÍTIÐ SEM HUNDSTUNGAN FINNUR EKKI,” segir gamall málsháttur.

Og datt mér hann í hug þegar þú kemur með stóru “bombuna” um 8.000 krónurnar, sem ég átti að lána 1940.

En hér hagræðir þú enn sannleikanum og beinlínis skrökvar þó að þú berjir þér á brjóst annað veifið og þykist vera sannleikans postuli. Þú hefur ekkert fyrir þér í því að þetta lán hafi verið veitt fyrir mína milligöngu.

Ég var fjarverandi - á Alþingi - þegar þetta var afráðið. Það, sem þú hefur fyrir þér í þessu, er að ég í maí 1940, sendi verksmiðjustjórn símskeyti um það, að ég hafi tekið við þeim skilríkjum, sem hún heimtaði til tryggingar fyrir láni þessu.

BÓKUNIN Á bls. 17

Þú ert ákaflega hreykinn af því, að ekki hafi nú verið farið leynt með þessa ábyrgð. Birtir þú í þessu sambandi bókun, sem þú segir, að sé á bls. 17 (ekki vantar nákvæmnina.) En fyrri hluti þessarar bókunar er svo:

”Samþykkt með öllum atkvæð um að ábyrgjast gagnvart Útvegsbankanum ávísun á 40% afla m.s. Siglunes á í hönd farandi síldarvertíð allt að 130 þúsund krónur”

Þetta segir þú, að sé sönnun þess að engu hafi verið reynt að leyna. En þetta er þveröfugt. Þessi bókun segir nefnilega allt annað, heldur en það, sem gert var.

Hún nálgast það að vera fölsun, ef húm ekki er það beinlínis. Þessi bókun segir, að verksmiðjustjórnin ábyrgist 40% af afla skipsins, - sennilega þess hluta, sem seldur var verksmiðjunni til bræðslu - allt að 130 þúsund krónur, - 40% af afla þó aldrei meira en 130 þúsund krónur.

Hér er ekkert minnst á uppáskrift á víxil. Hér er ekkert minnst á neinar tryggingar eða einkaábyrgðir. Hér er einungis um það að ræða að sjá um, að Útvegsbankinn fái 40% af andvirði aflans, um leið og það fellur til, en þó aldrei yfir ákveðna upphæð.

Samkvæmt þessari bókun var um enga áhættu eða ábyrgð að ræða, aðra en þá að skila þessum peningum til bankans. En hvað gerðuð þið?

Jú, þið fáið stimpil verksmiðjunnar framan af skrifstofu, og skrifið upp á 130 þúsund króna víxil. Þessi bókun virðist því beinlínis gerð til þess að dylja það, að verksmiðjustjórn hafði gengið í ábyrgð sem hún samkvæmt þinni eigin játningu hafði enga heimild til.

Lengra var ekki hægt að ganga til þess að leyna þessu. En svo segir þú, að engin leynd hafi verið. Skilur þú virkilega ekki muninn á þessu tvennu? Eða heldur þú, að þér takist að blekkja almenning, sem er lítt vanur þessum hlutum, með því að halda svona endileysu fram.

Bæjarstjórnarfundur var ekki haldinn vegna þess, að það varð að leyna þessu og líka vegna hins að þið höfðuð ekki meirihluta í bæjarstjórninni til þess að samþykkja þessa ábyrgð. En þú hefur sjálfsagt einnig skilið, að ekki mundi sigurvænlegt að ganga til lánsstofnana og fá viðbótarlán eftir að slík ráðsmennska með fjármuni þeirra var orðin á vitorði almennings.

„ÞAÐ ER LÍTIÐ SEM HUNDSTUNGAN FINNUR EKKI,” segir gamall málsháttur.

Og datt mér hann í hug þegar þú kemur með stóru “bombuna” um 8.000 krónurnar, sem ég átti að lána 1940.

En hér hagræðir þú enn sannleikanum og beinlínis skrökvar þó að þú berjir þér á brjóst annað veifið og þykist vera sannleikans postuli. Þú hefur ekkert fyrir þér í því að þetta lán hafi verið veitt fyrir mína milligöngu.

Ég var fjarverandi - á Alþingi - þegar þetta var afráðið. Það, sem þú hefur fyrir þér í þessu, er að ég í maí 1940, sendi verksmiðjustjórn símskeyti um það, að ég hafi tekið við þeim skilríkjum, sem hún heimtaði til tryggingar fyrir láni þessu.

Ef það er sama og að hafa milligöngu um lán, er þér óhætt að fara heim og læra betur. Hér gerði ég ekki annað en að framkvæma sjálfsagða fyrirgreiðslu, sem verksmiðjustjórn óskaði eftir.

Það eru hrein ósannindi, að þetta lán hafi verið veitt af rekstursfé verksmiðjunnar. Verksmiðjan hagnaðist allverulega árið 1939, og gat lánað þetta af eigin fé. Þá segir þú einnig sannleikann þannig, að hann verður allt að því lygi, þegar þú talar um lán til útgerðarmanns, vegna þess, að lánið var veitt til tveggja skipa.

Til annars 3.000 krónur en hins 5.000 krónur. En nú skulum við að gamni, bera þetta saman við lánveitinguna eða ábyrgðina til Sigluness. Fyrra skipið setti í tryggingu 50% af afla. Hið síðara einnig. Fersksíldarverð var 12 kr. Verksmiðjan fékk því 6 krónur af hverju máli sem þessi skip fiskuðu. Það fyrra þurfti því að fiska 500 mál til þess að greiða skuldina að fullu, en hitt skipið 850.

Með öðrum orðum. Hvorugt þurfti eitt fullfermi til þess. En Siglunesið þitt þurfti hvorki meira né minna en ca. 18.000 mál - átján þúsund mál - eða 10 til 12 fullfermi. Og þessa upphæð lánaðir þú af lánsfé bankanna, sem sumpart var fengið með ábyrgð ríkisins. Er það ekki von, að þú sért hreykinn!!

HEIMSPEKILEGAR HUGLEIÐINGAR OG RAUNHÆFAR UPPLÝSINGAR.

Ég held ég verði að mestu að sleppa II. kafla ritgerðar þinnar, þar sem þú ræðir mjög háfleyglega um ýmis efni og dóma.

Ég er ekki vel sterkur á svellinu í heimspekilegum hugleiðingum. Þú verður þess vegna að fyrirgefa þó að ég skilji ekki allar hugleiðingar þínar um hina ýmsu dóma, sem þú þar talar um. En mér finnst þó einhvern veginn, að þú hafir tekið þann kostinn að beygja þig undir þann dóminn, sem síst skyldi, nefnilega dóm einræðis og ólöghlýðni.

Er það e.t.v. næst skapferli þínu. En ekki skil ég heldur hversvegna þú hefur svona ,,flotta" fyrirsögn fyrir III. kafla “Endurbygging verksmiðjunnar og rekstur”

Þar er nefnilega ekkert nema fyrirsögnin og svo upplýsingar um það, að eiginlega vitir þú ekkert um byggingarkostnað og ekkert um rekstursafkomu.

Allir bæjarbúar verða síðan að gera svo vel og bíða bar til þér þóknast að vita eitthvað um þessa hluti. Þó að þú getir ekkert fullyrt um stofnkostnað, segir þú samt á öðrum stað, að stækkun upp 10 þúsund mál kosti aldrei yfir milljón króna.

En hvernig getur þú staðhæft þetta, ef að þú ekki hefur hugmynd um hvað verksmiðjan kostar nú. Á einum stað segir þú “Um afkomu rekstursins er svipað að segja (þ.e. eins og um stofnkostnað), endanlegar tölur eru ekki fyrir hendi enn sem komið er.” En á öðrum stað litlu síðar segir svo:

“Er auðelt að gera sér hugmynd um, hvernig rekstursafkoma verksmiðjunnar er með slíkum aðdrætti.” þetta er víst það, sem þú kallar að gefa haldgóðar upplýsingar um endurbyggingu og rekstur verksmiðjunnar!!

Það er svo sem auðséð, að hugurinn hefur verið annarstaðar, og að tilgangur inn með þessum skrifum þínum, hefur verið allur annar en sá, að upplýsa bæjarbúa um það, hvernig gengi með þetta stóra fyrirtæki þeirra.

Reyndar kemur þú því að, að þið í stjórninni hafið nú sýnt það göfuglyndi!! og þá miklu sjálfs afneitun að taka ekkert fyrir stjórnarstörfin í sumar. Ja, ekki er nú samviskan í of góðu lagi. Hverju skyldi það muna fyrir jafn stórt fyrirtæki og “Rauðku” hvort hún greiðir stjórnarlaun eða ekki. Það er ekkert atriði í rekstri verkamiðjunnar.

En hitt er miklu meira um vert, að henni sé stjórnað þannig, að gagn verði að, en ekki á þann hátt að valdi fyrirtækinu álitshnekki og miska. En ykkur kann að finnast það “billeg” auglýsingarstarfsemi fyrir áhuga ykkar á málefnum bæjarins.

ÞÚ VILT FÁ VINNUFRIÐ OG STERKAN MEIRIHLUTA.

Þú kvartar mjög um það, að þú og samstarfsmenn þínir hafi verið lagðir í einelti. Bornir rógi og álygum, og það ásamt framkvæmdarstjóra.

Það er Þóroddar sannleikur, sem þú ferð þar með. Á framkvæmdarstjóra hefur aldrei verið minnst í þeirri gagnrýni, sem fram hefur komið á gerðum ykkar.

En hvar er “rógurinn og lygin?” Það hefur verið átalið, sem hneyksli, að þið skylduð ábyrgjast þetta lán eins og allt var í pottinn búið.

Á það hefur verið bent, að til þessa hefðuð þið enga heimild og hefðuð reynt að leyna þessu. Allt þetta hefur þú viðurkennt og játað í skrifum þínum.

Ert þú að “rógbera” eða “ljúga” á sjálfan þig? Sé svo, þá verður sennilega að álíta, að skrif annarra, sem hafa farið í sömu átt megi heimfæra þar undir, annars ekki. Þú villt hafa vinnufrið, ekki til þess að starfa að gagni að málum verksmiðjunnar, því hann hefurðu, heldur til þess að mega í friði og óáreittur fremja aðrar eins kórvillur og þá, sem þú hefur verið átalinn fyrir.

En rétt er það, einu hefur verið upp á þig logið. Því hefur verið haldið fram, að þú hafir gert þetta nauðugur, að áeggjan annarra, eða jafnvel af því, að þér hafi ekki verið fulljóst, hvað þú varst að gera.

Þetta segir þú ósannindi. Þú hafðir forgönguna um málið, þú gerðir þetta ekki að áeggjan annarra. Og þér var fullljóst, hvað þú varst að gera. Sjálfsagt er að hafa það, sem réttara reynist.

Og ætlast þú sennilega til að afsökunar sé beiðst á þessum “álygum” á þig. Þú vilt sterkan meirihluta. Finnst þér Ragnar veikur? Ég veit, að þú telur kommúnista sterka, annars hefðirðu aldrei gert tilraun til að hjálpa þeim eða verja þá.

En með kutann í erminni!! Þá má segja við þig eins og Sigurjón á Laxamýri sagði við dóttur sína, sem var að fara til Danmerkur: “Varaðu þig á þeim dönsku, þeir hafa hann hjá sér.”. Varaðu þig á kommum þeir hafa hann hjá sér.

MARGUR HELDUR MANN AF SÉR

Þú hefur tekið að þér að verja brask kommúnistanna. Aðaluppistaðan í þeirri vörn þinni er hnútakast til mín. Lýsing þín á mér og skammir í minn garð er þó hvorki frumleg né fyndin. Þú hefur tekið þér til fyrirmyndar grein, sem Aðalbjörn Pétursson skrifaði til mín 1940. Á hana var litið sem sorpskrif og höfundur hlaut engan sóma af.

Ég hefði gjarnan kosið þér betra hlutskipti, en að setjast á bekk með Aðalbirni. En enginn má sköpum renna, og hver velur sér náttstað við sitt hæfi. Svo hefur orðið um þig nú. Annars svaraði ég aldrei grein Aðalbjarnar, svo nokkru hærra hefi ég gert þér undir höfði, þótt vafi kunni á því að leika, að þú sért þess maklegur. Annaðhvort er skoðun þín sú, að þessir tveir ágætismenn, sem þú minnist á hafi gert það mín vegna að deyja, eða ég hafi á einhvern hátt flýtt fyrir um að hérvistardögum þeirra lyki.

Hirði ég ekki um, hvor er þín skoðun, þar sem báðar eru jafn fjarstæðar. Aftur á móti skil ég vel gremju þína yfir því, að ég skuli vera í vellaunaðri stöðu. Vellaunuðu stöðurnar eru að þínu áliti ekki fyrir menn af mínum uppruna.

Að þínu áliti eru það synir efnamannanna og sérréttindamannanna í þjóðfélaginu, sem þær eiga að fá. Þér þykir það óviðurkvæmilegt, að sonur fátæks sjómanns, sem alinn er upp á snauðu verkamannsheimili, skuli hafa fengið vel launaða stöðu.

Það gengur glæpi næst. En þó sárnar þér kannski enn meir, að ég skuli ekki hafa brugðist stétt þeirri, sem ég er sprottinn úr. Þú hefðir sjálfsagt verið ánægðari, ef ég hefði með öllu látið ófreistað að reyna að notfæra þá þekkingu og þær gáfur, sem ég kann að hafa öðlast til þess að gera mitt til að bæta kjör verkamanna og láglaunamanna.

Þú hefðir sjálfsagt fyrirgefið mér, ef ég hefði látið þetta afskiptalaust. Orðið hrifinn, ef ég hefði gengið í lið með ykkur sérréttindamönnunum. En ég er óalandi og óferjandi af því að ég er í góðri stöðu, en reyni samt að vinna að bættum hag vinnandi fólksins. Ég er ánægður með þetta álit þitt.

Og mér þykir vænt um, að þú tekur kommana og brask þeirra fram yfir mig. Það gefur mér vissu um, að ég er enn óvilltur og á réttri leið.

ÞAÐ BER EKKI ALLT UPP Á SAMA DAG.

Það hefði þótt fyrirsögn fyrir nokkrum árum hefði því verið spáð að forystumenn kommúnista myndu verða þátttakendur í allskonar braski og spekulationum.

En það hefði þó líklega þótt ennþá meiri fyrirsögn, ef því hefði verið spáð, að þú mundir takast á hendur að aðstoða þá í þessu braski og ganga fram fyrir skjöldu þeim til varnar. En þetta er ekki óskiljanlegt. Örskammt er öfganna á milli.

Skilningurinn og hluttekning þín í þeirra garð á sínar ástæður. Að sinni skal ekki farið lengra í að rekja það.

Ég hefi reynt í þessu bréfi að forðast eftir föngum að blanda inn í þessar umræður persónulegum skætingi eða persónulegri skilgreiningu á þér, sem kynni að verða skammir á prenti, þó að sönn og rétt væri.

Þú hefur að vísu gefið ærið tilefni til þess. En ég álít, að það verði meir þeim til skammar, sem það viðhefur, en hinum, sem það er um.

Ég vildi aðeins ráðleggja þér að lesa grein þína í Siglfirðingi aftur yfir, ekki einu sinni heldur oft og með athygli. Ég er þess fullviss, að slíkur lestur mundi verða hollur fyrir þig, og til varnaðar að láta það ekki henta þig aftur að láta slíkan þvætting á “þrykk út ganga.”

Þá mættir þú einnig minnast þess, að holt getur það ekki talist fyrir þá, sem í glerhúsi búa, að hefja grjótkast að náunga sínum. Vel mætti svo fara, að kastað yrði til baka, þó að svo hafi ekki verið gert af mér í þetta sinn.

Siglufirði 2/10'45

Erlendur Þorsteinsson

P.S.

Af því að þú ert af dönskum uppruna, þá vilt þú kannski segja mér hvað orðið “kreditexport,” táknar sem þú talar um í grein þinni þýðir, þá skal ég reyna að skýra fyrir þér hvað átt er við með orðinu “exportkredit.”

E.Þ.

Aage Schiöth savarar

Erlendur, fógetinn og Rauðka                    

Siglfirðingur 2. nóvember  1945

Fyrir tæpum tveim árum síðan birtust í Alþýðublaðinu svæsnar árásargreinar á bæjarstjórn Siglufjarðar. Fyrirsagnirnar voru feitletraðar á fremstu síðu og var allskonar orðalag á þeim: “Megnasta öngþveiti ríkir í bæjarstjórn Siglufjarðar," “Bæjarstjórn Siglu­fjarðar óstarfhæf,” “Það hljóta að fara fram nýjar kosningar á næstunni” o.s.frv. En það er síður en svo, að árásum þessum hafi linnt, heldur hafa þær fengið á sig persónulegri blæ. 

Er þess skemmst að minnast að í fyrra urðu allir fulltrúar bæjarstjórnarinnar fyrir persónulegum árásum þessa blaðs (nema auðvitað fulltrúar Alþýðuflokksins) í sambandi við ýmis mál, er fyrir bæjarstjórn komu. 

Skrif þessi hafa mælst illa fyrir. Voru á tíma uppi háværar raddir um, að bæjarstjórnin léti stefna Alþýðublaðinu fyrir rógburð, en úr því varð þó aldrei. Má nærri geta um það, hvort slík skrif sem þessi séu til þess fallin að auka hróður bæjarbúa út á við eða létta þeim fulltrúum starf það, sem vinna fyrir bæjarfélag sitt. 

Ég fór heldur ekki varhluta af narti Alþýðublaðsins (þótt um smámuni væri að ræða samanborið við annað) og fékk blaðið dæmt í 400 kr. sekt og ummælin dæmd ómerk.

Þótti Neista litla þetta hart að gengið og tók nú upp samskonar baráttu og stóri bróðir í Reykjavík. Hefir hann undanfarið haldið uppi látlausum rógi um menn og málefni og jafnvel þjófkennt heiðarlega borgara þessa bæjar, sem ekkert hafa til saka unnið annað en það að vinna ósleitilega, og af mikilli fórnfýsi, fyrir hagsmunamálum bæjarins. 

Hafa greinar þessar ýmist verið nafnlausar eða undirritaðar af Erlendi Þorsteinssyni, - en vitanlega kannast hann ekkert við óhróðurinn í sunnanblöðunum - segir hann sjálfur. 

I

Hinn “ólöglegi” formaður og hin “ólöglega” stjórn Rauðku. 

Það virðist óneitanlega hart fyrir lögregluyfirvaldið á staðnum og fyrrverandi fulltrúa hans og settan bæjarfógeta, að þurfa að vera síkveinandi undan ofbeldi því, sem ég, þessi “ólöglegi” formaður beitir þá. Finna þeir enga leið til þess að ná rétti sínum með aðstoð dómsmálaráðuneytisins, sem þeir þó ávallt skýrskota til og þykjast hafa á sínu bandi? Hvað veldur, eru þeir farnir að vantreysta málstaðnum? 

Ég hefi fyrir mér álit hinna færustu lögfræðinga um:

Að kosning Rauðkustjórnar í janúarmánuði s.l. var fullkomlega lögum samkvæm, -

Að þar af leiðir að gjörðir bæjarstjórnar 4. apríl, er hún hafði kosningu þessa að engu og kaus upp aftur í téða stjórn var markleysa ein, -

Að hvaða bæjarstjórn eða hreppsstjórn sem er, getur á hvaða tíma svipt undirnefndir sínar umboði þeirra. Til þess hafa þær óskorað vald án íhlutunar annarra. Af þessu leiðir óhjákvæmilega það, sem ég hefi áður haldið fram, að stjórn sú, sem bæjarstjórn kaus 20. apríl er í alla staði lögleg, enda hvergi véfengt af þeim aðiljum, sem stjórnin þurfti undir að sækja.

Fógetinn segir að vísu: “Ekki vildi Lárus Jóhannesson t.d. lána nema gamla Rauðkustjórnin skrifaði upp á lánið líka.“ Lárus lánaði þó aldrei neitt, hann var milligöngumaður milli lánveitanda og lántaka, því að fyrrverandi formaður Rauðku, herra Guðmundur Hannesson varð að leita til hans þegar hann var búinn að hoppa, árangurslaust milli láns- og peningastofnana í Reykjavik í heilan mánuð, í þeim tilgangi að útvega fé til endurbyggingu verksmiðjunnar. 

Lárus, sem ekki hafði aðstöðu til að fylgjast með Rauðkudeilunni, sendi afrit af reikningsskilum vegna lántökunnar til gömlu stjórnarinnar og bað um kvittun fyrir. Þetta er það, sem fógetinn kallar “að skrifa upp á lánin.” 

II

”Ég skrifaði undir,”  segir fógetinn, “áskorunarskjal til ráðuneytisins um að leyfa endurbyggingu Rauðkuverksmiðjunnar 1939.” Þetta a nú að sanna hve heill hann var í Rauðkumálinu þetta árið.

Það er sjálfsagt rétt, að hann veigraði sér við því að ganga í opinbera andstöðu við jafnmikið hagsmunamál bæjarfélagsins eins og endurbyggingarmálið var þetta ár og hefir verið síðan, en honum var vel kunnugt um, að þetta mál mundi vera drepið á hærri stöðum og gerði því undirskrift hans og annarra hvorki til eða frá.

Mergurinn málsins er sá, að hann rótaði hvorki legg né lið málim, til framdráttar, og hann lét þrásinnis í ljósi, að ekkert vit væri í því að endurbyggja verksmiðjuna. Öllum bæjarbúum er það kunnugt, að Framsóknarflokkurinn hér í bæ var nærri því óskiptur á móti málinu og var það síðast drepið hjá ríkisstjórninni, þar sem tveir Framsóknarráðherrar máttu sín meir en einn ráðherra Sjálfstæðisflokksins. -

Hinu eru bæjarbúar ekki búnir að gleyma, að það hefir kostað bæjarfélagið allmargar milljónir króna, beint og óbeint, að ekki tókst að endurbyggja verksmiðjuna 1939. Þá var áætlað, að endurbyggingin mundi kosta 1½ milljón krónur miðað við 5.000 mála afköst og fé til þessa mannvirkis var fyrir hendi.

Í viðleitni sinni til að gera litið úr starfi mínu sem formanns Rauðku, telja þeir Erlendur og fógeti, “að búið hafi verið að ganga frá flestum lánum”, þegar ég tók við stjórnarformennskunni 20. apríl. Þetta, eins og svo margt fleira í greinum þeirra er ósatt.

Það var ekki byrjað á því að taka ríkisábyrgðarlánið á þeim tíma, en það sem meira var er það, að fyrrverandi formaður var ekki heldur farinn að tilkynna Lárusi, að ríkisábyrgðarheimildina þyrfti að nota að fullu. Ennfremur var þá ótekið miljón króna lán í Sparisjóð Siglufjarðar. (Svo sem kunnugt er, hefur Erlendur orðið sér til athlægis með því að telja heimildina 2 milljónir, en hún er 1½ miljón krónur) 

III

Afskipti mín og Erlendar af Rauðkumálinu 

Erlendur segir, að með því, að ég hafi neitað að árita rekstrarvíxil fyrir Rauðku 1938, hafi hann orðið að leita til bæjarstjórnar og fá hjá henni sérstaka samþykkt til þess, að víxillinn væri seljanlegur. 

Þessi framkoma mín, sem Erlendur fordæmir, var í fullu samræmi við skoðun okkar Sjálfstæðismanna, að á meðan verksmiðjan væri ekki endurbyggð væri óráðlegt fyrir bæinn að reka hana, en hitt gleður mig óneitanlega, að Útvegsbankinn skuli hafa borið það traust til mín, að hann tók ekki meirihluta stjórnarinnar, með Erlend í fararbroddi, gildan, en krafðist meirihlutasamþykkis bæjarstjórnar í minn stað. 

Þá heldur hann því fram, að ég hafi lagt niður formennskuna 1941 af því, að ég hafi ekki fengið fógetann með mér sem “barnfóstru” til Reykjavíkur. Virðist Erlendar með þessu vilja benda á, að þetta starf henti honum vel, og hefir hann sjálfsagt persónulega reynslu í þeim hlutum. En ástæðan var nú allt önnur og hún var þessi: 

Á tveim fundum, sem haldnir voru um það, hvernig skyldi haga ferðum til Reykjavikur í þarfir verksmiðjunnar var hver tillagan á eftir annarri felld með jöfnum atkvæðum (2:2) af því, að einn nefndarmanna, Sveinn Þorsteinsson, sat hjá við atkvæðagreiðslu um allar þær tillögur, sem ég og aðrir fluttu til þess að komast að niðurstöðu í þessu máli, án þess að leggja sjálfur fram nokkra tillögu í málinu. Með slíkum meirihluta, taldi ég og tel enn, að ógerlegt sé að ráðast í önnur eins stórræði og endurbygging Rauðkuverksmiðjunnar er.

En fógetinn var slyngari en ég. Þegar hann var orðinn formaður fékk Sveinn fría ferð til Reykjavíkur og málið var leyst. 

Erlendur heldur því fram, að þegar aprílkosna stjórnin tók við, hafi endurbygging verksmiðjunnar verið það langt komin, að starf þessarar nefndar hafi ekki getað verið annað en auvirðilegt og lítið. Starfið hefir gengið vel, það játa ég, en það er af því, að stjórnin hefir átt að fagna velvild og greiðvikni hjá báðum peningastofnum bæjarins, og get ég þess hér, þeim til verðugs hróss. - Þá má ekki gleyma því, að stjórnin hefir losnað við þá menn, sem berastir eru að því að nota undirferli og baktjaldamakk í starfi sínu, og tel ég tel það vel farið að ýmsu leyti. 

Stjórnin hefir ekki þótt þurfa að halda uppi væmnu auglýsingastarfi fyrir sig í blöðum bæjarins, eins og sumir aðrir, og væri í því sambandi fróðlegt að heyra nafnið á hinum norska vini Erlendar, er hann segir, að hafi bent sér á lánsmöguleikana í Noregi 1938 og hann, Erlendur, síðan brugðist vel við og komið endurbyggingarmálinu á framfæri. 

Ég veit nú ekki betur en, að það hafi verið Svavar bankastjóri Guðmundsson, sem útvegaði lánstilboðið frá exportkredit í Noregi, auk þeirrar hálfrar miljónar íslenskra króna. sem talið var, að mundi nægja til endurbyggingarinnar. Bankastjórinn, sem var vel kunnugur rekstri verksmiðjunnar tók sér á hendur ferð til Noregs, og þessi varð árangurinn. Hvatti hann eindregið bæjarstjórnina til þess að ráðast í endurbygginguna, en hún fórst fyrir, svo sem kunnugt er, og skal það mál ekki rakið að sinni. 

Um afskipti Erlendar af Rauðkumálinu skal ég svo ekki fjölyrða, en vil að lokum benda á, að í fundargerðarbók þeirri, sem fógetinn heldur ólöglega fyrir hinni löglegu Rauðkustjórn og neitar að afhenda, er bókuð tillaga í þrem liðum, sem Erlendur flutti, að mig minnir í janúar mánuði 1944. Af skiljanlegum ástæðum get ég ekki birt þessa tillögu, en hún mun vissulega verða birt, þótt síðar verði. Hefði tillaga þessi verið samþykkt væri Rauðkuverksmiðjan áreiðanlega í sama ástandi eins og hún var veturinn 1944. En sem betur fór var tillaga þessi felld og var samþykkt að beina endurbyggingarstarfinu inn á aðrar leiðir og hefir það borið sýnilegan árangur. 

Í ellefu dálka grein þeirri, sem Erlendur sendir mér, og sem krydduð er klámsögu og allskonar þvættingi, fer hann að minnast á glerhús. Á hann sjálfsagt við það, að margt sé fallvalt í þessum heimi ekki hvað síst á þessum tíma öryggisleysis, sem við lifum á. 

Mér er, nú sagt, að t.d. í Ameríku sé nú farið að byggja stálbent glerhús, sem kváðu vera síst ótryggari en önnur hús, en um þetta er mér ókunnugt. Hitt veit ég fyrir víst, að árið 1934 var með lögum sett á stofn fyrirtæki, sem heitir Síldarútvegsnefnd. í kringum starfsemi þessarar stofnunar hafa verið reist talsvert mörg glerhús, en þau eru ekki stálbent, og ekki örgrannt um að þeim muni vera talsvert sprunguhætt. 

Erlendur hefir lengst af verið starfsmaður þessarar stofnunar og kannast kannski við eitthvað af þessu. Er hætt við, að ef glerhús þessi yrðu fyrir aðkasti mundi grilla í gegn um sprungurnar í ýmislegt, sem almenningi þætti fróðlegt að kynnast, “fjölskyldusjónarmið” og margt annað. - En þetta getur allt beðið betri tíma.

IV

Minnimáttarkennd eða hvað?

Erlendur Þorsteinsson hefir oft gert sér tíðrætt um “sérréttindamenn,” Vil ég stinga upp á því, að hann skýri þetta hugtak nánar og birti helst lista yfir þá menn, sem hann telur að falli undir þetta hugtak t.d. hér í bæ. Væri fróðlegt að sjá hvort hann teldi sig eiga sæti á þessum lista, þennan “fátæka og stéttvísa sjómannsson”. 

Skyldi sá maður, sem til fleiri ára hefir starfað sem háttlaunaður framkvæmdarstjóri hjá stofnun, sem að mestu hefir legið niði í undanfarin stríðsár,  komast á þennan lista? 

Skildi það nokkuð geta hækkað hann í röðinni, að sami maður tekur gott kaup fyrir starf sitt í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, hjá Nýbyggingarráði og hjá Síldarverksmiðju Siglufjarðarkaupstaðar, Rauðku, fyrir lítið sem ekkert starf, svo ekki sé nú minnst á fleira? - Fróðlegt væri að fá álit Erlendar á þessu. 

Eftirfarandi klausa, sem á undanförnum árum hefir verið uppistaðan í pólitískum ræðum og ritgerðum Erlendar, birtist í 17. tbl. Neista: 

“Vellaunuðu stöðurnar eru að þínu áliti ekki fyrir menn af mínum uppruna. Að þínu áliti eru það synir efnamannanna og sérréttindamannanna í þjóðfélaginu, sem þær eiga að fá.

Þér þykir það óviðurkvæmilegt, að sonur fátæks sjómanns, sem alinn er upp á snauðu verkamannsheimili, skuli hafa fengið vellaunaða stöðu. Það gengur glæpi næst. En þó sárnar þér kannski enn meir, að ég skuli ekki hafa brugðist stétt þeirri, sem ég er sprottinn úr.“ 

Hvort er þetta minnimáttarkennd eða hræsni, eða hvorttveggja?" 

En hvað um það, hvar og hvenær er hefir Erlendur heyrt eða séð mig halda þessari firru fram? 

Fyrir á að giska 80 árum síðan voru bræður tveir fluttir sveitaflutningi frá Eyjafirði til Reykjavíkur. Þeir voru þá börn að aldri, urðu síðar mikilsvirtir menn, annar framúrskarandi embættismaður og ráðherra, hinn viðurkenndur vísindamaður, og prófessor, við erlendan háskóla. 

Þrátt fyrir óréttlæti og fátækt, tókst þeim með dugnaði og atgjörvi að hafa sig áfram í lífinu. En þess eru líka dæmi, að synir efnaðra foreldra, sem allir vegir virtust færir, hafa liðið skipsbrot í lífsins ólgusjó, og peningarnir hafa orðið þeim hefndargjöf, en það er fásinna ein að halda því fram, að sá maður sé óstéttvís, sem ekki leitar inn á starfssvið föður síns. 

Eða er það óstéttvísi, að synir okkar Erlendar stunda sjómennsku? Nei, Erlendur, þú gerir of mikið úr dómgreindarleysi almennings að bera slíkt á borð.

Það er nú einu sinni svo, að menn leita að þeim starfa, sem þeim hentar best og er það ekki á valdi Erlendar eða mínu, að fá því breytt, en hinu má svo bæta við, að þess eru því miður dæmi, að menn fara með þær trúnaðarstöð­ur, sem hefðu verið betur settar af öðrum. 

V

Niðurlag

Erlendur átelur það, að ég skuli ekki birta neinar tölur úr reikningum verksmiðju bæjarins. Stjórn Rauðku telur, að henni beri að standa bæjarstjórn reikningsskap gerða sinna og er það svo á valdi hennar hvort hún vill birta þessar tölur eða ekki. Eða hvort telur Erlendur, að hann hafi heimild til að birta tölur úr rekstrarreikningi Síldarútvegsnefndar án vitundar og samþykkis Síldarútvegsnefndar? 

Mér er kunnugt um, að þessar tölur hafa ekki verið birtar fyrr en mörgum mánuðum eftir starfsárslok og við það er vitan­lega ekkert að athuga. 

Ég get þó upplýst, að stjórnin hefir að undanförnu unnið að því að athuga möguleika á fullri stækkun verksmiðjunnar upp í 10 þúsund mála verksmiðju, og er ekki ósennilegt, þrátt fyrir allt, að takast megi að koma þessu í kring, en um það fullyrði ég ekkert að svo stöddu. 

Ásakanir um, að mér hafi verið það sérstakt áhugamál, að taka að mér formennskuna í aprílmánuði eru ósannar. Mun ég láta of hendi þessa formennsku þegar bæjarstjórn óskar þess, með sama gerðum Erlendar, birtir hann í 17. jafnaðargerði og ég tók við henni. En eitt vil ég að lokum benda bæjarbúum á, og það er, að það var á valdi meirihluta bæjarstjórnar að fela einni eða annarri stjórn að fara með rekstur verksmiðjunnar, lántökur, veðsetningar og annað í því sambandi, og var það sýnilegt eftir 20.apríl, að þennan starfa mundi hún ekki fá í hendur annarri stjórn en aprílkosinni, enda gerði hún það. 

Hvernig hefði farið ef aprílkosin stjórn hefði þverkallast við að taka að sér þennan starfa? Menn hugleiði þetta. 

Jú, þá var einmitt búið að skapa ástand, það sem Alþýðublaðið gerði sér svo tíðrætt um: “Óstarfhæf bæjarstjórn”, ,megnasta öngþveiti,” “nýjar kosningar” o.s.frv. Eða var það þetta sem Erlendur og fógetinn vildu? 

Er svo að sinni lokið skrifum mínum um þessi mál.

Siglufirði 31/10 1945  A. Schiöth 

----------------------------------------------------------

Einherji 11. nóvember 1945 Og enn svarar Erlendur

AUMINGJA SCHIÖTH kemst í óþægilega mótsögn við sjálfan sig og víða í langlokugrein í 41. tölublaði Siglfirðings, út af Rauðkumálinu, enda telja jafnvel kunningjar hans, að greinin sé að mestu skrifuð af öðrum.

Hún er a.m.k. víða rætnari en búast má við af manni eins og honum, sem talinn hefir verið drenglyndur, þótt kappsfullur væri. 

Hann telur janúarkosna Rauðkustjórn hafa verið löglega kosna, en af því að hún sé undirnefnd, geti bæjarstjórn vikið henni frá, þegar hún vilji. 

Hann gleymir því, sem Einherji hafði minnt hann á, að janúarkosin Rauðkustjórn væri kosin eftir sérstakri reglugjörð staðfestri af stjórnarráðinu með kjörtímabili eitt ár. 

Fyrr en það kjörtímabil er liðið gat bæjarstjórn ekki breytt til um löglega kosningu Rauðkustjórnar, nema þá með því að breyta reglugjörðinni með samþykki ráðuneytisins, en það var ekki gert. Ætti þetta að vera auðskilið mál. 

En svo kemur hér til í viðbót, að dómsmálaráðuneytið hefir úrskurðað, að janúarkosin Rauðkustjórn væri lögleg, en sú aprílkosna ekki. 

Þessum úrskurði bar bæjarstjórn að hlýða, en hún gat lagt hann fyrir dómstólana og reynt að fá honum breytt, en bæjarstjórn gerir hvorugt. Hún hvorki hlýðir úrskurðinum né fær honum breytt hjá dómstólunum, heldur hefir hann að engu og vísar til sinna "færu" lögfræðinga, eins og þeir væru eitthvað æðra stjórnarvald! 

Ráðuneytið er æðra stjórnarvald en bæjarstjórnin og í siðuðu þjóðfélagi verður óæðra valdið að hlýða því æðra, uns úr sé skorið af enn æðra stjórnarvaldi á löglegan hátt, í þessu tilfelli af dómstólunum. 

Þessa hefir meirihluti bæjarstjórnar ekki gætt, heldur látið Þormóð og kommana narra sig til þess að brjóta þessa sjálfsögðu reglu. 

En engu líkara er, eftir grein Schiöth, en að hann skilji ekki þessa mikilvægu reglu, hvers siðaðs þjóðfélags. 

Maður hefði nú getað trúað kommunum til þess, að þeim flökraði ekki við að rísa gegn úrskurðum ríkisvaldsins án þess að fá þeim breytt á löglegan hátt eða a.m.k. gera tilraun til þess. 

Hitt þótti ótrúlegra, að bæjarstjóri, sem væri Sjálfstæðismaður, léti narra sig út í slíkt ævintýri, og að jafnheit Sjálfstæðiskempa og Schiöth okkar skyldi gerast skósveinn þess óheillavættis, er þannig flekaði Sjálfstæðishetjurnar tvær. 

Hinn greindi kommúnisti Gunnar Jóhannsson sagði líka um þetta á bæjarstjórnarfundi: 

“Við gerum þetta til þess að kljúfa borgaraflokkana.” Er það út af fyrir sig athyglisvert og sýnir m.a. stjórnmálahyggindi bæjarstjórans og Schiöth, en hitt er enn verra, ef það kynni að draga dilk á eftir sér fyrir bæjarstjórnina í öðrum málum, ef henni yrði ekki trúað fyrir því að ráða málum sínum innan þess réttarsvæðis, sem henni að lögum, er afmarkað.

Blaðið vonar, að svo margir sanngjarnir og vitrir menn megi hér eftir jafnan skipa bæjarstjórn Siglufjarðar, að við slíku sé ekki hætt, en hinsvegar er rétt að leggja niður fyrir sér, hverjar afleiðingar það getur haft fyrir bæjafélagið í framtíðinni, ef oft er höggvið í sama óheilla knérunn heimskulegra ofbeldisverka. 

Mun bæjarstjórinn og Schiöth varla græða á frekari umræðum, en eigi verður því neitað, að fullhugi er Schiöth að fara með slíkum rökum að hreyfa þessu máli aftur og tæplega mun flokkur hans kunna honum þakkir fyrir. 

Er svo útrætt um þetta mál af hendi Einherja