Árið 1945 - Yfirgangur SR - FYRIRSPURN SVARAÐ, og fleira.

Neisti 22. nóvember 1945

Bæjarstjórn hefur ekki leyft byggingu lýsisgeyma upp við Túngötu. Stjórn Síldarverksmiðjanna hefur ennþá ekki sótt um nein leyfi til bygginga verksmiðjuhúss, ketilhúss, geymsluhúss eða lýsisgeyma.

Út af fyrirspurn, sem birtist í síðasta blaði NEISTA um það, hvort rétt væri að Síldarverksmiðjur ríkisins ætli að reisa lýsisgeyma upp við Túngötu, og hvort bæjarstjórn hefði leyft þetta, getur NEISTI upplýst eftirfarandi.

Sérstök nefnd sem skipuð var atvinnumálaráðherra Áka Jakobssyni, sér um byggingu hinnar nýju verksmiðju, sem nú er verið að reisa. Nefndin hefur ákveðið að byggja lýsisgeymana á lóðum sem liggur upp undir Túngötu.

Bæjarstjórn eða byggingarnefnd hafa ekki leyft þessar byggingu, enda ekki ennþá verið sótt um neitt leyfi til þeirra bygginga, sem verið er að framkvæma og þegar búið að framkvæma.

Virðingarleysi fyrir bæjarstjórn og reglum kaupstaðarins virðast þar sitja í fyrirrúmi. Á seinasta bæjarstjórnarfundi bar mál þetta á góma.

Bæjarstjóri vildi sem mest eyða umræðum, af hverju sem það kann að stafa. Gefur þetta tilefni til að rifja upp linku hans gagnvart þessu fyrirtæki og trassaskap að framkvæma fyrirskipanir bæjarstjórnar. Búið mun vera að samþykkja þrisvar sinnum, ef ekki fjórum sinnum í bæjarstjórn að leggja fyrir bæjarstjórann að sjá um að, lýsisrör sem verksmiðjurnar lögðu í fullu heimildarleysi og banni hafnarsjóðs, yfir lóðir hafnarsjóðs og út á Öldubrjót, yrðu tafarlaust teknar niður. Leiðslurnar sitja enn.

Sýnt hefur verið fram á að Síldarverksmiðjurnar byggðu fyrir nokkrum árum hornið á þrónni við Dr. Paul verksmiðjunnar, út á lóð Hafnarsjóðs. Var talið, að veruleg spilda af dýrmætu hafnarsvæði, gæti hæglega lagst undir verksmiðjurnar ef ekkert væri að gert, og byggingunni mótmælt.

Í þessu máli hefur bæjarstjóri ekkert aðhafst. Þrátt fyrir ítrekuð fyrirmæli hafnarnefndar og bæjarstjórnar. Þegar þessi afstaða bæjarstjórans er athuguð, getur engan furðað á því, þó bæjarstjórinn og byggingarnefnd, sé sýnd sú lítilsvirðing, að sækja ekki um leyfi til þess að byggja nokkur stórhýsi á vegum þessa fyrirtækis.

Hvort að allir íbúar bæjarins eru jafn ánægðir með aðgerðirnar, eða aðgerðaleysi bæjarstjórans í þessum málum eins og hann sjálfur, verður þó að teljast vafasamt.

---------------------------------------------------------------------

Einherji 25. nóvember 1945

YFIRGANGUR S.R.

Upplýsingar í síðasta tölublaði Neista um, að S.R. láti byggja hús og mannvirki án þess að bera það undir byggingarnefnd og bæjarstjórn hafa vakið furðu meðal bæjarbúa.

Er það fyrrverandi framkvæmdastjóri S.R. Sveinn Benediktsson og bygginganefnd verksmiðjunnar, sem þarna eiga sökina, og bæjarstjórinn fyrir að láta það afskiptalaust.

Einherji telur, að S.R. séu margs og mikils maklegar og vert að sýna þeim fulla tilhliðrunarsemi um það, er með sæmilegu móti gæti gengið, en ef lengra fer, verði að spyrna við fæti. Hér vill svo til, að 3 bæjarfulltrúar bæjarstjórnar Siglufjarðar eru í meirihluta stjórnar S.R. og má ætla, að þeir fengju einhverju að ráða.

A.m.k. eru þeir bæjarfulltrúar sem í stjórn S.R, sitja, ekki úr sök nema að þeir hafi gert aðrar tillögur, er að engu hefðu verið hafðar af bygginganefnd verksmiðjanna.

Það er ótrúlegt, að hvert stórhýsið á fætur öðru sé byggt án þess, að borið sé undir bygginganefnd og bæjarstjórn, en hlýtur að vera satt, úr því að blaðið Neisti fullyrðir það.

Gegnir slíkt furðu, að byggingarnefnd S.R. haldi svo á málunum. Einherji vill ekki að svo stöddu segja meira um einstök atriði, en hann mótmælir því í nafni mikils hluta bæjarbúa, að lýsisgeymar séu settir nálægt fyrirhuguðu nýju barnaskólasvæði, enda þótt fáráðlegt sé að ætla nýjum barnaskóla stað þar. Búið mun vera að samþykkja þrisvar sinnum, ef ekki fjórum sinnum í bæjarstjórn að leggja fyrir bæjarstjórann að sjá um að, lýsisrör sem verksmiðjurnar lögðu í fullu heimildarleysi og banni hafnarsjóðs, yfir lóðir hafnarsjóðs og út á Öldubrjót, yrðu tafarlaust teknar niður. Leiðslurnar sitja enn. Það væri jafnófært að hafa lýsisgeymana þar, sem verið er nú að byggja undirstöður undir þá, að sögn, þótt barnaskólinn nýi verði aldrei settur þar nálægt. Burt með lýsisgeymana þaðan. Þeir eiga að vera nálægt sjó.

Er vonandi, að hinn nýi framkvæmdastjóri S.R., sem margir hyggja gott til, sannfæri bygginganefnd S.R. um nauðsyn þessa. Allir Siglfirðingar mótmæla lýsisgeymunum, þar sem þeim er ætlað að vera. Burt með þá þaðan. Öll bæjarstjórnin hlýtur að vera því sammála.

-------------------------------------------------------------

Einherji 22. desember 1945

Þóroddur og lýsisgeymarnir

Einherji fann að því í 24. tölublaði að ætla ætti stórum lýsisgeymum stað fast við Túngötuna, eina af fjölförnustu götunum. Mjölnir og Þóroddur virðist ekki geta rætt almenn bæjarmál nema blanda bæjarfógeta inn í og þá auðvitað svívirða hann.

En málefnalega færir Mjölnir og Þóroddur fram þau rök fyrir lýsisgeymunum svo nærri götu bæjarins, að ella yrði S.R. að kaupa lóð Lúðvíksstöðvar undir lýsisgeymana, en þótt svo hefði verið, sem ekki er, væru það kynleg rök.

Einherji getur bent Mjölni og Þóroddi á, að lýsisgeymarnir eru best settir á lóð bæjarins meðfram flóðgarðinum, fyrir vestan lóð Ásgeirs Bjarnasonar. Þessi lóð bæjarins er bænum ekkert sérstaklega nauðsynleg í öðru skyni og ætti að vera hægt fyrir S.R. að komast að samkomulagi við bæinn um þetta. Þar næst mætti benda á lóð Ásgeirs Bjarnasonar meðfram flóðgarðinum.

Það eru því margar leiðir til þess að losna við lýsisgeymana við fjölfarna götu. Blaðið Einherji fann að yfirgangi S.R. í því að lýsisgeymarnir yrðu við Túngötu. Þóroddur snýr útúr þessu og lætur sem Einherji hafi talað um yfirgang stjórnar S.R., en með S.R. á Einherji við forráðamenn S.R., á því sviði er yfirgangurinn beinist að.

En Einherji sagði skýrt og ákveðið: “Er það (fyrrverandi framkvæmdarstjóri S.R., Sveinn Benediktsson) og byggingarnefnd verksmiðjunnar sem þarna eiga sökina,” svo að af þessum ummælum Einherja sést, að hann er ekki að kenna stjórn S.R. um þetta.

Á tveim stöðum öðrum í greininni er byggingarnefnd S.R. kennt um, að lýsisgeymarnir séu settir þarna.

Vera má, að fyrrverandi framkvæmdarstjóri eigi ekki þá sök í þessu, sem Einherji telur, og Einherji hefur ekki annað fyrir sér í því en það, að blaðinu virðist óskiljanlegt, að framkvæmdastjóri S.R. sé ekki hafður með í ráðum um fyrirkomulag bygginga S.R. A.m.k. hefur það verið svo, að framkvæmdastjóri S.R. hefur beitt sér fyrir að fá þær lóðir, sem ætla mættu að vera æskilegar fyrir stækkun S.R.

Hann og stjórnin hefðu því átt að beita sér fyrir því að fá umrædda lóð bæjarins við flóðgarðinn undir lýsisgeymana, enda getur byggingarnefnd S.R. ekki látið byggja lýsisgeymana á lóð, sem S.R. ekki eiga. Byggingarnefnd S.R. skipa auk þess sanngjarnir og samvinnuþýðir menn og flestir munu hyggja gott til núverandi framkvæmdarstjóra S.R., svo að með lagi ætti að vera hægt að fá lýsisgeymana setta við flóðgarðinn á lóð bæjarins.

Jafnvel skárra en hafa lýsisgeymana upp í miðjum bæ, við Túngötuna hjá fyrirhuguðum barnaskóla, hefði verið að hafa þá við Norðurgötu á lóð S.R., þó líka það sé ekki gott.

Hér er ekki aðalatriði, að byggingarnefnd S.R. setji lýsisgeymana án leyfis byggingarnefndar, þótt það sé sjálfsagt, að sækja um slíkt leyfi -- heldur hitt: að ætlast er til að lýsisgeymarnir séu settir við fjölfarna götu upp á miðri eyri hjá fyrirhuguðum barnaskóla.

Þar, sem bæjarbúar geta ekki unað að þeir séu, og án nokkurs leyfis. Slíkt hneyksli hefur aldrei gerst fyrr. S.R. (í þessu tilfelli byggingarnefnd S.R.) hefur aldrei fyrr sýnt bæjarbúum annað eins gerræði og blaðið spyr Siglfirska kjósendur:

Mega bygginganefndarmennirnir, Þóroddur, Þormóður og bæjarstjóri vægast sagt ekki fyrirverða sig fyrir að gera ekkert til þess að spyrna við þessu? Samt hefir þessi byggingarnefnd fengið einstakling sektaðan fyrir að byggja án leyfis, forstofu litla við hús sitt.

Er þetta á móti skipulagi bæjarins, sem ekki er hægt að breyta, nema með samþykki bæjarstjórnar.

Hversvegna gæta þremenningarnir, ekki betur skyldu sinnar gegn bænum? Hvers vegna hindra þeir ekki þetta?

Hinsvegar verður eigi annað séð af, hvernig Mjölnir og Þóroddur taka í málið, en að Þóroddur og blaðið hafi ekkert við það að athuga, að lýsisgeymarnir verði fast við Túngötu, við fyrirhugaðan barnaskóla, og svívirðir þá persónulega, er hann hyggur að því finna.

Mun blaðið hafa fáa Siglfirðinga með sér í því. Einherji skorar á bæjarstjórn að beita sér fyrir því að hún ákveði lýsisgeymunum stað annarsstaðar en við fjölfarnar götur.

Bæjarstjórn getur ráðið þessu, ef hún vill, og hvers vegna skyldi hún ekki vilja það?

Burt með lýsisgeymana frá Túngötu og á lóð bæjarins við flóðgarðinn.

-----------------------------------------------------------------------------

ES. 2018 - Ég minnist þess, að á ýmsum tímum er ég var starfsmaður Síldarverksmiðja ríkisins (í um, eða yfir 35 ár) þá hafi þessar framkvæmdir SR oft komið til umræðu á meðal þeirra eldri, sem ég og fleiri þeirra yngri hlustuðu á, þar á meðal ég.

Þá var þar fullyrt, að allar viðkomandi framkvæmdir, sem nefndar hafa verið og sagðar gerðar í óleyfi, hafi verið framkvæmdar samkvæmt munnlegu leyfi frá bæjarstjóra og ákveðnum nefndar og bæjarstjórnarmönnum (sem ég ætla ekki að nafngreina hér). Þess vegna hafi bæjarstjóri og fleiri þagað og dregið málið. +

Sumir fullyrtu að bæjarstjórinn hafi verið rekinn þess vegna ? – Þetta er með öllu óstaðfest, ég hefi ekki fundið gögn sem sanna þetta. En hér skrifað, svona til fróðleiks:

Steingrímur Kristinsson