Árið 1946 - Niðursuðan -1,2,3 - Niðursuðuverksmiðjan

Neisti 4. janúar 1946

Mér hefur verið sagt að Þóroddur Guðmundsson hafi sagt á fundi, sem Sósíalistar héldu í Alþýðuhúsinu, að ég hafi komið í veg fyrir að Síldarverksmiðjur Ríkisins byggðu hér niðursuðuverksmiðju. Þetta eru tilhæfulaus ósannindi.

Að vísu er ógerningur að hrekja allar staðleysur, sem, Sósíalistar þyrla upp svona rétt fyrir kosningar um einstaka menn og málefni, en þar sem hér er um að ræða stórmál er alla bæjarbúa varðar, get ég ekki látið þessum ósannindum ómótmælt.

Ég skal í stuttu máli rekja gang þessara mála og þau afskipti, sem ég hefi af þeim haft.

Stjórn S.R. fól Dr.Jakob Sigurðssyni að rannsaka niðursuðu matvæla, sérstaklega síldar, í U.S.A. árið 1944. Er hann kom heim um áramótin 1944-1945 gaf hann stjórn S.R. skýrslu um þessar rannsóknir, og lagði jafnframt fram áætlun um niðursuðu og niðurlagningarverksmiðju og rekstur hennar. Þessar athuganir hafa nokkuð verið athugaðar t.d. hjá Nýbyggingarráði, sem taldi rétt að athugað yrði um möguleika á samvinnu eða þremur aðilum, sem sé Síldarverksmiðjunum, Síldarútvegsnefnd og Siglufjarðarkaupstað.

Erlendur Þorsteinsson - Ljósmynd: Kristfinnur

Erlendur Þorsteinsson - Ljósmynd: Kristfinnur

Þetta mál er þó ekki fullrannsakað hjá Nýbyggingarráði enn, og er t.d. framkvæmdastjóri þess með athuganir á markaðsmöguleikum í U.S.A.

Verksmiðjustjórn samþykkti með samhljóða atkvæðum að láta gera tilraunir s.l. sumar og voru þær gerðar af dr. Jakob Sigurðssyni og Ingimundi Steinssyni hér á Siglufirði.

Þessar tilraunir gefa einungis niðurstöður um hæfni framleiðsluvörunnar en ekki framleiðslukostnað.

Þessi mál hafa síðan nokkuð verið rædd af verksmiðjustjórn. Á fundi verksmiðjustjórnar í október var samþykkt með atkvæðum allra mættra meðlima verksmiðjustjórnar að láta fram fara á sumri komanda niðursuðu í allstórum stíl, og athuga möguleika á því, hvort hægt væri að framkvæma þetta í húsum Gránuverksmiðjunnar í Siglufirði og leita um það samkomulags við bæjarstjórn.

Á þessum fundi var Þóroddur ekki mættur, en hafði farið sama dag til Skagastrandar, enda þótt hann vissi að þetta mál ætti að taka fyrir. Formaður verksmiðjustjórnar taldi hann samþykkan þessu.

Síðan gerist ekkert í málinu fyrr en í nóvember, um það leyti, sem Þóroddar fékk frí frá þingstörfum vegna annríkis hér í Siglufirði. Þá afhendir hann formanni S.R. í Reykjavík tillögu um að stjórn S.R. útvegi sér þegar heimild Alþingis fyrir þriggja milljón, króna láni til þess að byggja niðursuðuverksmiðju.

Engin greinargerð fylgdi tillögunni. Formaður verksmiðjustjórnar skýrði mér frá þessari tillögu í símtali. Ég sagði honum að hér væri um svo stórt mál að ræða, að ég teldi að það ætti að ætti að ræðast á fundi, og helst sem allra fyrst. Síðan hefi ég ekkert um þetta heyrt.

Nú hefur Þóroddur verið hér í Siglufirði í 3-4 vikur, að sjálfsögðu við mikið annríki. Hér í Siglufirði er meirihluti verksmiðjustjórnar. Varaformaður Þormóður Eyjólfsson, ritari Þóroddar Guðmundsson og ég.

Þóroddur hefur ekki minnst á þessa tillögu við mig einu orði, því síður óskað eftir að ég styrkti hann í því að fá mál þetta tekið fyrir í stjórn S.R. Ég get þess vegna ekki séð alvöruna eða ákafann í að koma þessu máli á framfæri.

Þeir sem hafa nokkra ábyrgðartilfinningu, geta varla búist við því, að um mál þetta sé greitt atkvæði í síma. Hér á að ráðstafa til langrar framtíðar miljónum króna, sem geta haft hina mestu þýðingu fyrir afkomu sjómanna og útgerðarmanna um land allt. Þess vegna þarf að athuga málið og rannsaka, og búa þannig um hnútana, að sem best samvinna allra þeirra aðila, sem hlut eiga að máli, geti orðið.

Ég geri ráð fyrir, að Þóroddur hafi tilbúna rækilega greinargerð fyrir þessari tillögu sinni, þó að honum hafi ekki enn unnist tími til þess að koma henni til okkar hinna, sem erum í verksmiðjustjórn. Þóroddur veit það vel, að ég hefi verið því mjög hlynntur að komið yrði upp niðursuðu- og niðurlagningarverksmiðju.

En það má hann vita, að ég greiði ekki fyrirvaralaust og athugunarlaust atkvæði með milljónaframlögum, og ekki að heldur þótt kosningar séu fyrir dyrum.

Siglufirði, 12. des. 1945.

Erlendur Þorsteinsson

P. S. Síðan þetta var skrifað eru nú bráðum þrjár vikur. Ennþá hefur Þóroddur ekkert hreift þessu máli, en á líka mjög annríkt um þessar mundir. E.Þ.

---------------------------------------- 

Mjölnir 9. janúar 1946

Árið 1946 - Niðursuðan - 2

Tekst Sósíalistaflokknum að fá byggða stóra niðursuðuverksmiðju hér næsta sumar?

Eitt af því allra þýðingarmesta fyrir atvinnumál Siglufjarðar er stór niðursuðuverksmiðja. Þess vegna hafa sósíalista mjög beitt sér fyrir því máli og lagt kapp á að vinna því fylgi.

Stjórn Síldarverksmiðja ríkisins hefur um langan tíma haft mál þetta til athugunar, haft mann á sinn kostnað í Ameríku til að kynna sér niðursuðu fiskafurða, og s.l. sumar látið gera tilraunir með niðursuðu á síld.

Þá hefur og verið áætlaður kostnaður við að byggja niðursuðuverksmiðju, sem gæti afkastað 48 þúsund dósum á dag.

Þóroddur Guðmundsson og Áki Jakobsson atvinnumálaráðherra sem mestan áhuga hafa haft fyrir þessu máli, töldu, að best væri. að Síldarverksmiðjur ríkisins reistu og rækju svona verksmiðju hér á Siglufirði.

En ýmsir aðrir hafa verið að stinga upp á að niðursuðuverksmiðjan yrði byggð af þremur eða fjórum t.d. SR, Fiskimálanefnd, Síldarútvegsnefnd og ef til vill

Siglufjarðarkaupstað. Það hefur þó reynst tafsamt að fá nokkurt samkomulag um þetta. og í haust var ekki sýnt, að neitt samkomulag gæti fengist um málið milli svo margra aðilja.

Í haust kom stjórn SR saman til fundarhalda í Reykjavik og virtist þá eðlilegast, að hún tæki afstöðu til, hvort hún vildi, að SR byggðu verksmiðjuna á sinn kostnað, án þátttöku annarra aðilja.

Málið var lauslega rætt, en á eina fundinum, sem Þ.G mætti ekki, er málið tekið fyrir og samþykkt að halda tilraunum áfram á Siglufirði næsta sumar.

Eða m.ö.o. að reisa ekki verksmiðjuna á næsta sumri. Strax eftir þennan fund fóru tveir eða þrír verksmiðjustjórnarmeðlimirnir úr bænum, en Þ.E. líkaði mjög illa þessi afgreiðsla málsins og afhenti hann formanni verksmiðjustjórnar svohljóðandi tillögu, sem hann óskaði eftir, að yrði afgreidd í verksmiðjustjórn:

“Stjórn SR samþykkir að leita heimildar Alþingis til þess að mega reisa niðursuðuverksmiðju fyrir síldar og aðrar sjávarafurðir á Siglufirði er tæki til starfa á árinu 1947 með a.m.k. 1000 kassa afköstum á dag (48 dósir í kassa) og til þess að taka lán í þessu skyni, allt að þrjár milljónir króna með ríkisábyrgð."

Erlendur og Þormóður setja fótinn fyrir málið.

Sveinn Benediktsson formaður verksmiðjustjórnar kvaðst myndi geta fylgt þessari tillögu.

Síðan kemur tillagan fyrir stjórnarfund, en þar sem þeir Erlendur og Þormóður voru komnir til Siglufjarðar þurfti að leita atkvæða þeirra í síma.

Þegar það er gert hefur Erlendur allt á hornum sér; telur málið ekki nægilega undirbúið og ófært sé að afgreiða svo stórt mál nema öll verksmiðjustjórn sé samankomin á fundi til að æða það.

Og svo virtist, sem Erlendur hafi talað bæði við Þormóð og Jón Þórðarson, sem staddur var á Hjalteyri, til að fá þá til fylgis við sjónarmið sitt. Það er að vísu rétt, að ekki lágu fyrir nákvæmir uppdrættir og nákvæm kostnaðaráætlun en málið var nægilega undirbúið til að biðja um þingheimild og á meðan gat svo verksmiðjustjórn haldið áfram nauðsynlegum undirbúningi undir framkvæmdir næsta sumar.

En Erlendur og Þormóður fengu málinu frestað í verksmiðjustjórn, þar með var sýnt, að ekkert yrði úr framkvæmdum næsta sumar, því verksmiðjustjórn kemur sennilega ekki saman fyrr en í febrúar eða mars, eða um það leyti, sem líður að þinglokum.

Ákvörðun, sem þá yrði tekin um að leita þingheimildar komi því ekki til afgreiðslu á Alþingi fyrr en næsta haust.

Allt þetta ætti Erlendi að vera ljóst, svo vitandi vits hefur hann sett fótinn fyrir þetta mál og hindrað, að niðursuðuverksmiðjan verði byggð hér næsta sumar á vegum SR.

Erlendi er líka ljóst, að aðfarir hans verða ekki vel liðnar meðal Siglfirðinga, þess vegna er hann að reyna að afsaka sig í klaufalega samsettri þvættingsklausu í síðasta tölublaði Neista og kvartar um að ekki hafi fylgt tillögu Þórodds, rökstuðningur og greinargerð.

Maðurinn er sem sé ekki ennþá sannfærður um nauðsyn þess að byggja hér niðursuðuverksmiðju. Hinsvegar mun hvorki Þóroddur né aðrir áhugamenn í þessu máli hirða um að sannfæra Erlend héðan af.

“Klaufaskapur” Þórodds í málinu.

það eru reyndar fullar líkur til þess, að það sé fyrir klaufaskap Þórodds, að ekki tókst að fá Erlend til að vera með málinu í stjórn SR. Þegar tekið er tillit til hve frámunalega hégómlegur maður Erlendur er, eins og flestir gervipólitíkusar kratanna, þá er sennilegt að Þóroddi hefði getað fengið Erlend inn á málið, með því að fá hann sjálfan til að flytja tillöguna einan, svo hann hefði tækifæri til að hæla sér af því á eftir, að hann hefði haft forgöngu í málinu.

Hefði Erlendur haft aðstöðu til þess, eru miklar líkur til að hann hefði verið áhugasamur um að koma því fram þrátt fyrir, að bersýnilegt er orðið, að honum er sama um, hvort verksmiðjan verður byggð á næsta sumri eða ekki.

Þar sem kunnugt er, að Þóroddur hefur einmitt oft notað sér þannig hégómaskap kratanna til að koma fram góðum málum í bæjarstjórn, verður það að teljast klaufaskapur af honum að reyna ekki að beita þessu ráði við Erlend í verksmiðjustjórninni.

Annars ber þess auðvitað að gæta, að líklega skiptir litlu máli hvar þessi gervipólitíkus er, sem er áhrifalítill piltungur í áhrifalitlum flokki.

Málið tekið upp á nýjum grundvelli.

Þegar stjórn SR var búin að fresta tillögu Þórodds og þar með slá föstu, að SR byggðu ekki niðursuðuverksmiðjuna á næsta ári, réðu sósíalistar ráðum sínum um, hvað gera bæri.

Að samkomulagi varð svo, að Áki Jakobsson atvinnumálaráðherra legði fram á Alþingi frumvarp til laga um, að ríkisstjórnin byggði niðursuðuverksmiðjuna. Sjávarútvegsnefnd neðri deildar Alþingis flytur nú frumvarp þetta eftir beiðni atvinnumálaráðherra og er það svohljóðandi:

389. FRUMVARP TIL LAGA um síldarniðusuðuverksmiðju ríkisins. Frá sjáfarútvegsnefnd.

1. grein.

Ríkisstjórninni er heimilt að reisa og reka á Siglufirði, verksmiðju til þess sjóða niður og leggja síld í dósir. Til þess að standast kostnað af byggingu verksmiðjunnar heimilast ríkisstjórninni að taka allt að 3 milljón króna lán.

2. grein

Tilgangur verksmiðjunnar er að hafa forystu um niðursuðu og niðurlagningar síldar í dósir með það fyrir augum að miðla reynslu og þekkingu á þessu sviði til annarra slíkra verksmiðja sem reistar kunna að verða í landinu.

3. grein.

Ríkisstjórninni heimilast að taka eignarnámi lóðir, hús og önnur mannvirki, sem nauðsynleg eru til byggingar verksmiðjunnar samkvæmt 1. grein

4. grein.

Nánari ákvæði um rekstur og stjórn verksmiðjunnar, svo og um annað, er þurfa þykir, skulu sett með reglugerð.

5. grein.

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Vonandi sýnir Alþingi þann skilning og viðsýni, að frumvarp þetta nái fram að ganga á þessu þingi, svo hægt verði að byggja verksmiðjuna næsta sumar.

Allur Sósíalistaflokkurinn á þingi stendur með málinu, þá er vitað um fleiri þingmenn, sem eru því fylgjandi, en vilji nú Erlendur eitthvað bæta fyrir aðgerðir sínar í þessu niðursuðuverksmiðjumáli, ætti hann að vinna að því að kratarnir greiði atkvæði með því á þingi. -

Tryggi Erlendur það að allir kratarnir greiði atkvæði með málinu á Alþingi, verða menn hér sjálfsagt fúsir til að gleyma tvískinnungshætti hans og óheilindum í málinu hingað til.

-------------------------------------- 

Neisti 17. janúar 1946

Árið 1946 - Niðursuðan - 3

Ætlar Sósíalistaflokkurinn að byggja stóra niðursuðuverksmiðju á Siglufirði?

Í síðasta tölublaði Mjölnis er grein undir fyrirsögninni:

“Tekst Sósíalistaflokknum að fá byggða stóra niðursuðuverksmiðju hér næsta sumar.”

Á grein þessi að vera svar við nokkrum línum, sem ég skrifaði útaf tvískinnungshætti og yfirborðsmennsku Þóroddar í þessu máli. Greinin er óundirskrifuð en ber öll höfundarmerki Þóroddar.

Er ekki annað sýnilegt en að flokkurinn ætli að byggja verksmiðjuna og starfrækja, en þó kemur fram síðar í greininni að ríkissjóður á að leggja til peningana. Það virðist eiga að halda markvist áfram á þeirri braut að byggja fyrirtæki til stuðnings fyrir flokkinn með framlagi frá því opinbera eða hálfopinbera og þróunin, áframhaldandi og stighækkandi.

Fyrst Gilslaug og söltunarstöðin með framlagi kaupfélagsins og fyrir þess peninga, síðan “falkurútgerðin” og Gilslaug aftur með framlagi bæjarsjóðs og síðast stór! niðursuðuverksmiðja með framlagi frá ríkissjóði.

Þessi grein sýnir glögglega að aldrei hefur vakað fyrir Þóroddi að koma málinu fram, heldur aðeins að sýnast. Heppilegustu leiðina fyrir flokkinn að sýnast í þessu máli hefur verið talin að leggja fram órökstudda tillögu í verksmiðjustjórn. Fylgja henni ekki eftir, bera hana síðan fram í frumvarpsformi á Alþingi svo að landsmenn gætu fylgst með umbótahug þeirra Sósíalistanna.

Þóroddur telur að Sveinn Ben. hafi verið tillögunni fylgjandi og viljað greiða atkvæði með henni strax. Ég veit að náin samvinna er á milli þeirra Sveins og Þóroddar.

En annað sagði þó Sveinn við mig í símtali, sem hann átti við mig um þetta. En ef að Sveinn hefur verið málinu fylgjandi, hversvegna boðar hann þá ekki til fundar í verksmiðjustjórn strax og afgreiðir málið?

Athafnir þeirra Sveins og Þóroddar bera þess glögg merki, að þeir hafa ekkert viljað gera til þess að koma málinu í örugga höfn. Um afgreiðslu áframhaldandi tilrauna í stórum stíl með niðursuðu er það rétt, eins og ég tók fram áður, að Þóroddur var ekki við.

En hann vissi að málið var á dagskrá, og formaður verksmiðjustjórnar hafði sýnt honum eða sagt honum frá tillögu í þessa átt, og taldi hann henni fylgjandi.

Í tillögu Þóroddar er ekkert um rekstursfyrirkomulag þessa fyrirtækis. Átti að taka halla ef yrði af bræðslusíldarhlut sjómanna, og þannig rýra enn hinn skarða hlut sem þessi stétt ber frá borði?

Niðursuðan út af fyrir sig er heldur engin vetraratvinna fyrir Siglfirðinga, þar sem hún fer fram aðeins yfir síldartímann. Niðurlagning síldar að vetri til, þarf að verða í stórum stíl, ef um vetraratvinnu á að vera að ræða. En um þetta er ekki einn staf að finna í tillögu Þóroddar.

Þóroddur telur nú atvinnumálaráðherra það til gildis, að hann hefur hlutast til um að frumvarp yrði flutt um þetta á Alþingi. Nú veit Þóroddur það að mjög miklar deilur hafa verið um það hvar þessi verksmiðja ætti að standa.

Þess vegna hefði verið miklu öruggari leið að fá þetta mál samþykkt í verksmiðjustjórn og vinna því öruggt fylgi þar. Ef að hreppapólitík kemst inn í málið á Alþingi, getur það orðið því til mestu óþurftar.

En í sambandi við fyrirtæki sem þetta er nauðsynlegt að sem mest reynsla sé fengin um fjárhagslega afkomu fyrirtækisins og sölumöguleika afurðanna. Stofnun miljónafyrirtækis, sem síðan væri ekki hægt að reka mundi verða öllum til tjóns og engum til gagns. Það væri flan en hvorki fyrirhyggja eða nýsköpun.

Til þess að koma fyrirtækinu á stofn þarf því samvinnu sem flestra aðila, sem um málið vilja hugsa skynsamlega og leggja sem mest til hliðar pólitískar “spekulationir.”

Enda mundi þá meira verða hugsað um framkvæmdir og öryggi fyrirtækisins, heldur en það að sýnast. Persónulegt hnútukast let ég mig litlu skipta.

En leyfi mér aðeins að benda á þær staðreyndir sem fyrir hendi eru, um afskipti mín af “Rauðkumálinu” og þá fyrirgreiðslu, sem ég hefi látið í té, á öllum tímum, þrátt fyrir margskonar ýting og hnútuköst af þeirra hálfu, sem þóst hafa haft forgöngu í því máli. Siglufirði

12. jan. 1946 Erlendur Þorsteinsson