Árið 1947 - Fréttir ofl.- Ýmsar smáfréttir.

Neisti 10. janúar 1947

Þrettándadagsfagnaður á Hvanneyrarskálarbrúninni

Þrettándadagskvöld um hálf níu leytið uppljómaði Hvanneyrarskálarbrúnin skyndilega og var upplýst af 32 blysum. Vegurinn niður úr skálinni var varðaður litlum blysum. Var þetta fögur og tignarleg sjón.

Í fyrstunni hélt almenningur að þarna væru á heimleið einhverjir jólasveinar, en svo var ekki. - Nokkrir starfsmenn Síldarverksmiðja ríkisins, aðallega úr S.R.'30 og SRN, undir forystu Guðmundar Einarssonar voru þarna á ferðinni, en ekki jólasveinarnir.

Þetta frumlega tiltæki þeirra félaganna hefur án efa verið kostnaðarsamt og krafist nokkurrar vinnu og eiga þeir því fyllsta þakklæti skilið fyrir frammistöðu sína.

Hafið þökk fyrir skemmtunina.

Jólasveinn
---------------------------------------------------------

Einherji 25. janúar 1947

Framkvæmdastjórar S R. orðnir tveir;

Sigurður Jónsson ráðinn framkvæmdarstjóri Síldarverksmiðja ríkisins.

Nú um áramótin varð sú nýskipan á um framkvæmdastjórn S.R., að framkvæmdastjórastarfinu var skipt í tvennt sökum hinna miklu aukningar hjá fyrirtækinu, og hefur Sigurður Jónsson verið ráðinn framkvæmdastjóri, ásamt framkvæmdastjóranum, sem fyrir var, Hilmari Kristjánssyni.

Sigurður Jónsson hefir um langt skeið verið starfsmaður S.R., fyrst sem gjaldkeri og síðar sem skrifstofustjóri. Allir, sem Sigurð þekkja - dugnað hans og samviskusemi, vita að hér hefir vel til ráðist um val nýja framkvæmdastjórans.
------------------------------------------------

Einherji 25. janúar 1947

Um þessar mundir er mikil síldveiði í Kollafirði.

M.s. Erna kom í þessari viku til Siglufjarðar með síld til vinnslu.

--------------------------------------------------------
Einherji 25. janúar 1947

Á þrettándadagskvöld s.l. gafst á að líta á brún Hvanneyrarskálar - ánægjulega og eftirminnilega sjón. – Blysum í tugatali hafði verið komið fyrir á skálarbrúninni og niður með vegkantinum, sem liggur frá skálinni.

Kyndlar þessir loguðu glatt langa hríð - fólk hópaðist saman á götum úti og dásömuðu dugnað þeirra manna sem hér voru að verki og létu í ljós ánægju sína yfir þeirri tign og fegurð, sem þessi blys settu yfir bæinn á þessu kyrrláta vetrarkvöldi.

Þá er og vert að geta hér álfadans og blysfarar, sem íþróttamenn efndu til á gamlárskvöld s.l. Það er gamall og góður siður að efna til álfadans um hver áramót. Því miður hefir þessi siður fallið niður hér um mörg ár og var það illa farið. - Því þeir, sem muna álfadansana í “gamla daga” minnast þess, að þeir settu svip á bæinn í tilbreytingarleysi skammdegiskveldanna.

Álfadansinn á gamlárskvöld s.l. fór vel fram. - Búningar góðir og furðanlega góð takt í dönsunum eftir svo fáar æfingar. Það sem á vantaði var, að áhorfendurnir “tækju lagið” með álfunum.

Starfsmenn S.R., sem unnu að blysförinni í Hvanneyrarskál! - Hafið þökk fyrir framtakssemi ykkar og dugnað og látið ekki undir höfuð leggjast að kveikja á skálarkertunum um næstu áramót.

Íþróttamenn og aðrir, sem lögðuð á ykkur tómstundavinnu til að koma á stað álfadansinum á gamlárskvöld - hafið bestu þakkir fyrir tiltækið og haldið þessu áfram - ekki veitir af að “bregða blysum á loft” í tilbreytingarleysi vors kæra bæjarfélags.

-------------------------------------------------------
Mjölnir 12. febrúar 1947

Kosning í stjórnir S.R. og síldarniðursuðuverksmiðju ríkisins

Á fundi í Sameinuðu Alþingi í fyrradag voru eftirtaldir menn kosnir í stjórn SR til næstu þriggja ára:

 • Þóroddur Guðmundsson
 • Sveinn Benediktsson
 • Júlíus Havsteen
 • Eysteinn Jónsson og
 • Erlendur Þorsteinsson

Varamenn:

 • Haraldur Guðmundsson skipstjóri
 • Jón L. Þórðarson
 • Elías Þorsteinsson
 • Jón Kjartansson
 • Finnur Jónsson

Skipun í stjórn Síldarsuðuverksmiðju ríkisins:

 • Dr. Jakob Sigurðsson
 • Kristmar Ólafsson
 • Snorri Stefánsson

Stjórn Tunnuverksmiðju ríkisins hefir nýlega ráðið Már Einarsson sem framkvæmdastjóra fyrirtækisins.

------------------------------------------
Mjölnir 19. febrúar 1947

Síldarvinnsla.

Eins og getið hefur verið um hér í blaðinu áður er S.R.P. verksmiðjan að bræða síld þá, sem flutt er frá Suðurlandi hingað til bræðslu, og var hingað komið um hádegi á þriðjudag 30.933 mál síldar.

Gengur vinnsla seinna en með sumarveidda síld vegna þess hvað þessi er magrari og vinnsla að öllu óhagstæðari fyrir verksmiðjurnar.

Eru þarna við vinnu rétt um 60 manns, og var útborgað vinnukaup s.l. viku rúmar 70 þúsund króna.

Eru þó ekki taldir hér með þeir menn, sem vinna að losun skipanna, sem flytja síldina hingað.

Sést hér hve geysimikil atvinna skapast hér í bæinn við þessa síldveiði, sem fram fer við Suðurland.

------------------------------------------------------
Mjölnir 19. febrúar 1947

Síðustu síldarfréttir.

Nú er veitt allmikið af síld á Reykjavíkurhöfn og komið hefur fyrir að skip, sem hafa þurft út af höfninni, hafa orðið að bíða meðan veiðiskip voru að snurpa og er þetta alveg nýtt í sögu síldveiðinnar.

Þá hefur síld sést vaða út af Vestfjörðum og má hugsa eftir því, að hún sé á austurleið.
-----------------------------------------------------

Mjölnir 19. febrúar 1947

Kol flutt úr bænum.

Allflest þau skip, sem hingað hafa flutt síld hafa fermt sig hér með kol á hina ýmsu staði landsins, og er búið að flytja héðan 5.000 tonn, og 600 tonn frá Raufarhöfn.

Má af þessu sjá, að allalvarlegt ástand hefði víða orðið á landinu, ef þessi kol hefðu ekki legið hér.
--------------------------------------------------

Einherji 22. febrúar 1947

Kosning í stjórn síldarverksmiðja ríkisins

Kosningu hlutu:

 • Af hálfu Framsóknar: Eysteinn Jónsson. Til vara Jón Kjartansson.
 • Af hálfu Alþýðuflokksins: Erlendur Þorsteinsson. Til vara Finnur Jónsson.
 • Af hálfu Sjálfstæðisflokksins: Sveinn Benediktsson og Júlíus Hafstein sýslumaður.

Til vara:

 • Jón Þórðarson og Elías Þorsteinsson.
 • Af hálfu Sósíalista: Þóroddur Guðmundason.
 • Til vara: Haraldur Guðmundsson, skipstjóri Ísafirði.

Hvað skulu Sjálfstæðismenn segja um, að Jón sé rekinn vegna Júlíusar? Er það umhyggja fyrir útvegi landsmanna, er því veldur?

Mikið þjark er meðal ráðamanna Sjálfstæðisflokksins út af kosningu þeirra í Síldarútvegsnefnd.

Þar ætla miklir menn í flokknum að fremja enn meira óréttlæti. Reka Sigurð Kristjánsson, en veita Jóni Þórðar sárabætur með því að kjósa hann.

Sigurður hefur, eins og kunnugt er, í mörg ár verið í Síldarútvegsnefnd, og formaður hennar, og getið sér hins besta orðstírs.

Hann er orðinn vanur og kunnari því starfi en nokkur annar Íslendingur og það væri eftir öðru í Íslenskri pólitík, að Sjálfstæðismenn spörkuðu einmitt honum úr nefndinni, en við sjáum nú til hvað setur. - Margir innan Sjálfstæðisflokksins sjá, hversu vitlaust þetta er.

Siglfirðingar og útgerðarmenn flestir um land allt munu fylgjast vel með, hversu þessu reiðir af.
--------------------------------------------------------

Mjölnir 19. mars 1947

Bræðslu Kollafjarðarsíldar er nú lokið. Samtals bárust S.R. 74.500 mál síldar. Voru rúm 28.500 mál brædd í nýju verksmiðjunni, en um 46 þúsund í Dr. Paul-verksmiðjunni. Samtals munu hafa fengist úr þessari síld rúni 700 tonn af lýsi og er það a.m.k. helmingi minna en venjulega fæst úr sama síldarmagni af sumarsíld.
---------------------------------------------------------------

Siglfirðingur 1. ágúst 1947

Síldarmóttaka S.R. til klukkan 12 á miðnætti 30. júlí

 

Síldarverksmiðjan Rauðka 60.752 mál
-------------------------------------------------

Mjölnir 6. ágúst 1947

Verð á síldarmjöli innanlands

Eftir því sem blaðið hefur frétt, mun stjórn SR nýlega hafa ákveðið að selja síldarmjöl um 10 kr. lægra á sekk en fæst fyrir það erlendis.

Er það að sumu leyti ágætt ef hægt er að selja landsmönnum innlendar afurðir á lægra verði en fæst fyrir þær á erlendum markaði.

Hinsvegar skýtur þetta nokkuð skökku við verðlagningu á öðrum innlendum afurðum eins og kjöti, smjöri o.fl. Eru sumar landbúnaðarvörur seldar með margföldu því verði, sem fæst fyrir þær erlendis.
-----------------------------------------------------

Neisti 8. ágúst 1947

Óhöppin í Ríkisverkverksmiðjunum

Á þessu sumri hafa Ríkisverksmiðjurnar orðið fyrir óvenjulegum óhöppum. Síldarmjöl hefur skemmst (brunnið) vegna sjálfsíkveikju.

Afköst verksmiðjanna hafa verið fremur léleg og afurðir, sérstaklega mjöl úr einni verksmiðjunni, slæmt, óeðlilega feitt.

Mótorar hafa brotnað og eyðilagst, bæði hér og á Raufarhöfn. Þró sprungið og nú alveg nýlega lýsi runnið af einum geymi.

Blaðið vill ekki að svo stöddu leggja neinn dóm á það, hverju sé um að kenna að þessi óhöpp hafa átt sér stað, en vill bíða skýringa réttra aðila, sem hljóta að koma á næstunni.

Hitt virðist auðsætt, að hér verði að kippa í taumana og skapa fastari stjórnsemi í þessu mikla fyrirtæki.

Afkoma síldarútvegsins er að miklu leyti bundin við það, að þessu fyrirtæki farnist vel. Þess vegna ríður á miklu að þess sé gætt, að fyllsta reglusemi verði um hönd höfð við reksturinn.

Sem betur fer virðist ekki hafa hlotist stórkostlegt tjón, enn sem komið er, af þessum óhöppum, en meir virðist þar hafa ráðið tilviljun, en hin fyllsta aðgæsla, svo ekki verði meira sagt.
-------------------------------------------------------

Siglfirðingur 12. ágúst 1947

Verksmiðjurnar.

Nýlega sprakk rör i leiðslu frá lýsisgeymi S.R. '46. Fór talsvert mikið af lýsi úr geyminum og rann um nágrenni hans. Mun nokkuð lýsi hafa farið þarna til spillis, þó tókst að ná talsverðu af því upp með fötum, en í þann starfa fór mikill vinnukraftur

Ennfremur sprakk nýlega síldarþró í S.R.P. og rann mikið af síld norður á söltunarstöð “Pólstjörnunnar h.f.” Nú er búið að hreinsa síldina þaðan burt og gera við skemmdirnar á síldarþróinni.
---------------------------------------------------------

Mjölnir 5. nóvember 1947

Síldveiðin

Samkvæmt upplýsingum, sem blaðið fékk hjá skrifstofu S.R. um fjögurleytið í gær, var þá búið að bræða um 11.000 mál síldar.

Alls höfða þá borist til verksmiðjanna 15.480 mál. Ekkert hefur verið brætt síðan á laugardag. Verður bræðsla ekki hafin að nýju fyrr en viðbót hefur borist, en nú bíða um 7.000 mál flutnings í skipum á Ísafirði.

Veður hefur verið slæmt undanfarna daga og hamlað bæði veiðum og flutningi síldarinnar. Allmikillar síldar hefur orðið vart í Faxaflóa, í Hvalfirði, Kollafirði og víðar. Veður hefur einnig hamlað veiðum þar.

Gera menn sér vonir um veiði þar, er veður batnar, og er gert ráð fyrir, að þá hefjist flutningur á síld til bræðslu hingað til Siglufjarðar.
-----------------------------------------------------------

Mjölnir 12. nóvember 1947

Í gærkvöldi höfðu borist hingað til Siglufjarðar til bræðslu í S.R. um 21.000 mál síldar.

Eru nú um 8.000 mál á leið hingað, þar af um 1.000 mál að vestan og 7.000 mál að sunnan. -

Verið er að lesta Fjallfoss í Reykjavík til norðurferðar. Er gert ráð fyrir að hann muni koma með um 11.000 mál. Ennfremur er verið að lesta tvö skip önnur. - Veður hamlaði veiðum fyrir sunnan í gær.

Bræðsla hófst að nýju í S.R. í gær, en síðastliðna viku var ekkert brætt. Gert er ráð fyrir að framvegis verði aðallega brætt í S.R.N.. -

Búið er að frysta um 10.000 tunnur af Faxaflóasíld, í beitu, en bræðslusíldaraflinn þar er alls orðinn um 40.000 mál.
---------------------------------------------------

Mjölnir 26. nóvember 1947

Síldveiðin

Flutningi sunnansíldar hingað til bræðslu er stöðugt haldið áfram. Var í gær verið að lesta Fjallfoss til norðurferðar með um eða yfir 10 þúsund mál síldar. Veiði hefur verið fremur dræm undanfarna daga, hefur verið djúpt á síldinni, og erfitt að ná henni

af þeim sökum. En í gær brá til batnaðar, og veiddust nærri 20. þúsund mál s.l. sólarhring.

Seinnihluta dagsins í gær voru alls komin hingað um 73.000 mál síldar, að vestansíldinni meðtalinni, en ekki var búið að landa því magni öllu.

Búið er að bræða milli 55-60.000 mál hér. Auk þess er stöðugt brætt á Akranesi, og er í ráði að brátt verði hafin bræðsla í Keflavík, í beinamjölsverksmiðju þar.

Hafa S.R. lánað þangað skilvindur í því skyni. Einnig er verið að athuga möguleika á bræðslu í Njarðvíkum, einnig í beinamjölsverksmiðju. Blaðinu er ókunnugt um væntanleg afköst þessara verksmiðja, nema Akranes verksmiðjunnar, er bræðir um 1.000 mál á sólarhring.

Fitumagn þeirrar síldar, sem veiðst hefur í haust, hefur verið allmiklu meira en Kollafjarðarsíldarinnar í fyrravetur, en ekki er hægt að segja ákveðið um hversu mikið það er, fyrr en bræðslu er lokið.

Meira hefur verið af stórri síld í því, sem veiðst hefur, en var í Kollafjarðarsíldinni.

Alls mun nú vera búið að veiða rúmlega 100.000 mál síldar í haust, auk þess, sem fryst hefur verið til beitu.

Síðustu dagana hefur orðið vart síldar í Kollafirði og út af Reykjavíkurhöfn, ennfremur í Hafnarfirði.
------------------------------------------------------

Neisti 28. nóvember 1947

Þórður þögli - Ferð niður í ríki.

Fyrir ekki alllöngu síðan lagði ég leið mína niður í S.R. bræðslu var þá nýlokið í S.R.'46 en S.R.N. nýlega byrjuð Verkamennirnir þar voru glaðir og reifir - í sjöunda himni yfir sunnansíldinni, þeir unnu störf sín hratt og örugglega. Það er fátt jafn gaman sjá, sem verkamenn starfsglaða og prúða. Þetta er aðall hverrar þjóðar.

En samt var ekki allt í lagi þarna. Verkamennirnir vorn óánægðir með það, að geta ekki farið í bað að lokinni vakt.

Kváðu þeir síldarlyktina svo mikla af fötum sínum, að þeir væru alls ekki í húsum hæfir, er þeir kæmu heim af vöktunum.

Þetta með baðleysið í S.R. er ófyrirgefanlegur trassaskapur af stjórn S.R. að hlutast ekki til, að böð verksmiðjanna séu í lagi og verður að kippa þessu í lag hið snarasta.

Ennfremur væru verksmiðjurnar ekkert of góðar til þess að útvega verkamönnum sínum grænsápu til þvotta á vinnufatnaði þeirra. Ég vil alvarlega ráðleggja

forráðamönnum S.R að ráða bót á baðleysinu. Á næstunni mun ég taka mér aðra ferð niður í ríki (ekki upp í ríki) til þess að spjalla við vini mína, verkamennina þar.
------------------------------------------------------------

Neisti 12 desember 1947

Þórður þögli

Ákvörðun skömmtunaryfirvaldanna um aukaskammt á kaffi og sykri fyrir jólin er hvarvetna fagnað. Þessari ráðstöfun er ekki síst fagnað á hinum fjölmörgu verkamannaheimilum hér í bæ, þar sem fyrirvinnan er önnum kafin við löndun eða bræðslu sunnansíldarinnar.

Vaktavinnan í SR og hinn langi vinnutími þeirra sem vinna við löndun síldarinnar, hefur í för með sér mjög aukna kaffi- og sykurnotkun.

Að þessu athuguðu finnst mér, að þeir verkamenn, sem vinna við síldina, ættu að fá sérstakan aukaskammt af kaffi og sykri eins og sjómenn­irnir á síldveiðiflotanum, en aukaskammtur þeirra er 250 gr. af kaffi og 800 gr..af sykri á mánuði. Fyrir hönd hinna fjölmörgu verkamannaheimila hér í bær, sem eiga tvímælalaust réttláta kröfu á aukaskammti af kaffi og sykri, skora ég á bæjarstjórnina og stjórn “Þróttar” að hafa forgöngu í þessu.

Siglfirskir verkamenn, sem vinna 12 til 18 tíma á sólarhring og stundum lengur, eiga þetta fyllilega skilið.
----------------------------------------------------------

Neisti 12 desember 1947

Þórður þögli

Viðvíkjandi baðleysinu í S.R. hefur Sigurður Jónsson framkvæmdastjóri lofað að gera sitt besta í því, að böðin í S.R.'46 komist sem fyrst í lag.
----------------------------------------------------------

Neisti 12 desember 1947

Þórður þögli

Töluverður vatnsskortur er nú í bænum, og er þetta sérstaklega bagalegt í suður- og uppbænum. Vatnsskorturinn hefur mjög aukist við það, að allar verksmiðjur S.R. eru nú í gangi.

Að vísu munu margir bæjarbúar vera fúsir til þess að líða vatnsskort einhvern hluta af deginum, svo að síldarvinnslan í SR þyrfti ekki að stöðvast þess vegna.

En sannleikurinn er sá, að mjög mikið vatn er misnotað í “ríkinu”. t.d er vatn notað í þrærnar þar, til þess að sprauta í hólfin, svo að síldin gangi betur inn.

Í stað þessa vatns mætti hæglega nota sjó, sem kæmi að sömu notum, en við þetta mundu sparast daglega hundruð tonna af vatni.

Það er áskorun mín til forráðamanna bæjarins, að um þessa misnotkun á vatninu verði kvartað við stjórn SR, og henni gert skylt að nota sjó í stað vatns í þrærnar.
---------------------------------------------

Mjölnir 23. desember 1947

Síldveiðin

Samtals hafa nú borist til SR í Siglufirði 303 þúsund mál síldar. En búið er að bræða um 270 þúsund mál.

Vinna hættir í verksmiðjunum kl. 12 á hádegi á morgun, en hefst aftur kl. 7 að morgni þriðja jóladags