Árið 1947-SR46 - NÝJASTA VERKSMIÐJA S.R. (S.R.´46) TEKIN Í NOTKUN VIÐ VINNSLU SUNNLENSKU SÍLDARINNAR

Einherji 8. mars 1947

TIL REYNSLU

Rúm 60 þúsund mál af sunnlensku síldinni komin til Siglufjarðar. Þar af í SRP ca. 41 þúsund mál og SR'46 rúmlega 20 þúsund mál.

Minnkandi veiði sunnanlands þessa viku. - 3 skip komu hingað með síld í gær.

Síðan í þorrabyrjun hafa borist til Siglufjarðar rúm 60 þúsund mál af síld frá Suðurlandi. Hefir síldin aðallega verið brædd í SRP-verksmiðjunni, eða um 40 þúsund mál.

Fyrir nokkru hófst vinnsla í SR´46 og hefir hún gengið mjög misjafnlega, eins og jafnan vill verða fyrst í stað í nýjum verksmiðjum.

Hver sem fær sér gönguferð í verksmiðjuna nú, sér að nýja mjölhúsið við Þormóðsgötu hefir verið tekið í notkun.

Mun hver sem þangað kemur reka í rogastans - bygging hússins er vægast sagt ámælisverð. Þó nú sé látið mjöl í geymslu þessa, er það rétt svo, að það sé forsvaranlegt, og til lengdar er það ekki hægt.

Snjór er um allt húsið, vegna hve óþétt það er. Þak hússins tókst ekki að klára fyrir haustið, og frá því er þannig gengið, að snjósköflum er boðið heim í hvilft þaksins við fyrsta tækifæri, og í sæmilegum snjóum, eins og Siglfirðingar þekkja að hér geta komið, mun sá þungi, sem á þakið getur safnast skipta þúsundum tonna.

Þetta er það af störfum háttvirtrar byggingarnefndar Áka Jakobssonar, sem hverjum manni er augljós.

Eru fleiri framkvæmdir af sama tagi? Það er spurning, sem er á margra vörum? En út í þá sálma verður ekki farið að sinni.

En allt bendir til þess, að óþarfi hafi verið af Áka að skipa sérstaka byggingarnefnd fyrir mannvirki þessi, og taka þau úr höndum stjórnar SR, sem hafði á prýðilegan hátt, og hlutfallslega ódýrari en nú verður raun á, séð um fyrri byggingar SR.