Árið 1948 - Ýmsar fréttir

Einherji 10. janúar 1948

Mikil síldveiði er enn í Hvalfirði. - 50-60 skip með um 40 þúsund mál lágu í Reykjavík 8. þ.m. 11 síldarflutningaskip með um 60 þúsund mál voru hér á höfninni fyrradag. Þegar þau hafa verið losuð hafa verksmiðjur S.R. hér tekið á móti ca. 375 þúsund málum síldar.

Uppgripasíldarafli er enn í Hvalfirði og sundunum við Reykjavík .s.l. fimmtudag komu 15 skip með afla sinn til Reykjavíkur með samtals 12 þúsund mál síldar.

Flest flutningaskipanna eru á höfninni hér eða á leiðinni hingað þegar þetta er ritað, en eins og kunnugt er stöðvuðust flutningar hingað norður, vegna veðurs og urðu skip sem voru á leiðinni hingað með síld og létu úr Reykjavíkurhöfn fyrir áramót, að leita skjóls á Aðalvík og komu ekki hingað fyrr en um miðja þessa viku. Skipin voru þessi: (með ca)  Tafla hér fyrir ofan

Væntanleg eru um helgina True Knot með ca. 35.000 mál síldar og Sæfellið með ca. 2.700.

Um s.l. áramót höfðu verksmiðjur SR hér tekið á móti 315 þúsund málum af Djúpsíld og Faxasíld, nokkuð af því magni var þó óunnið í þró um áramót.

Þetta er um 12 þúsund málum meira en verksmiðjur SR hér tóku á móti s.l. sumar.

Þegar losuð hafa verið flutningaskipin, sem nú eru á höfninni og þau skip, sem eru á leiðinni hafa verksmiðjur SR hér, tekið á móti rúmum 400 þúsund málum síldar og vantar þá aðeins ca. 40.000 mál til að náist sama síldarmagn og allar verksmiðjur SR unnu úr á s.l. sumri. -

Flestar ferðir með síld norður hefur Eldborgin farið, eða samtals 8 ferðir, næst Eldborginni með ferðafjölda eru svo Sindri og Hrímfaxi, en Fjallfoss er það skipið, sem flutt hefir mest síldarmagn í vetur eða ca. 60 þúsund mál síldar
--------------------------------------------------------

Siglfirðingur 15. janúar 1948

SÍLDVEIÐIN

Stöðug síldveiði hefur nú verið í Hvalfirði, þegar veður hefur leyft. Um áramótin hafði borist til síldarverksmiðja ríkisins af Hvalfjarðar- og Vestfjarðarsíld, sem hér segir:

Efsta myndin: Þróarrými, síldar dragarar, löndunarbryggja og fleira árið 1963- Umtaðaur löndunarkrani er sá norðari þarna á myndinni, þeir syðri voru komnir áður. Þar sunnan við eru „krabba“ kranarnir (Ljósmynd: sk) ------- Töflurnar tvær -- Og mynd frá ca 1948-9 Ljósmynd: Kristfinnur – Neðsta myndin sem birtist með frétt Siglfirðings frá 21. ágúst 1948 - Smelltu á myndina, sem stækkar þá og færist neðar á síðu

Efsta myndin: Þróarrými, síldar dragarar, löndunarbryggja og fleira árið 1963- Umtaðaur löndunarkrani er sá norðari þarna á myndinni, þeir syðri voru komnir áður. Þar sunnan við eru „krabba“ kranarnir (Ljósmynd: sk) ------- Töflurnar tvær -- Og mynd frá ca 1948-9 Ljósmynd: Kristfinnur – Neðsta myndin sem birtist með frétt Siglfirðings frá 21. ágúst 1948 - Smelltu á myndina, sem stækkar þá og færist neðar á síðu

 • S.R.'46 144.303,46 mál
 • S.R.'30 118.182,87 mál
 • S.R.P. 52.352,49 mál
 • eða samtals 314.838,82 málum.

Eftir áramótin hefur verið landað 30.030,36 málum, sem skiptist þannig: á verksmiðjurnar:

 • S.R.'46 18.602,03 mál
 • S.R.'30 2.706,00 mál
 • S.R.P 8.722,33 mál
 • Alls eru því komin hér í land 343.869,18 mál síldar.

Auk framangreinds afla er verið að losa Banan, Hvassafell og Sæfell, en varð að hætta sökum veðurs. Hér bíður einnig Hel með fullfermi. Alls eru þetta um 30.000 mál.

Sökum þess, hve veðrið hefur verið óhagstætt, stöðugir stormar, hafa síldarflutningarnir gengið miklu verr heldur en búast mátti við, og hefur það haft sín áhrif.

Síldveiði þessi, hefur verið mikil lyftistöng fyrir allt atvinnulíf landsmanna, og er óskandi að veiði þessi geti haldist sem lengst.
-------------------------------------------------------------------

Neisti 16. janúar 1948

AUKASKAMMTAR

Þeim, sem vinna við sunnansíldina hjá S.R. verður nú úthlutað aukaskammti af kaffi og sykri. Þann 10. þ.m. sendi Þróttur beiðni til skömmtunarskrifstofunnar um aukaskammt af kaffi og sykri. Áður höfðu verkamenn hjá SR gert ráðstafanir til þess að fá þetta fram, og urðu þær til þess að Verkamannafélagið greip inn í málið.
-------------------------------------------------------------------

Mjölnir 21. janúar 1948

Verður byggð fljótandi síldarverksmiðja?

Reykjavíkurbær, ríkisverksmiðjurnar, Óskar Halldórsson og ýmsir útgerðarmenn, hafa samþykkt að stofna hlutafélag með 4 milljón króna hlutafé til að reka fljótandi síldarbræðslu.

Gert er ráð fyrir, að ríkisverksmiðjurnar, Reykjavíkurbær og Óskar leggi fram sína milljónina hvor, en aðrir útgerðarmenn eina milljón samtals. -

Keypt verður 6-7 þúsund tonna skip og settar í það síldarbræðsluvélar, sem Óskar Halldórsson á.

Mál þetta er svo að segja ákveðið og verður strax hafist handa um undirbúning þess, ef engar nýjar tálmanir koma fram. Það eru margir kostir við að hafa þannig hreyfanlega síldarbræðslu, en annmarkar eru líka margir og má sjálfsagt áætla, að bræðslukostnaður í slíkri verksmiðju verði a.m.k. helmingi dýrari en í verksmiðju á landi.
-----------------------------------------------------------------

Mjölnir 21. janúar 1948

Böðin í S.R. -Neisti eignar sér allar framkvæmdir í því máli.

Það var Páll Ásgrímsson sem ræddi um baðleysið við Sigurð Jónsson framkvæmdastjóra, sem tók mjög vel í málið og leyfði, að mennirnir sjálfir kæmu þeim í lag, ef efni væri til.

Hallur Garibaldason og Óskar Garibaldason, fóru svo og settu böðin upp.
--------------------------------------------------------

Neisti 30 janúar 1948

Orðsending frá Þórði þögla.

Ég mun ekki gera Gunnari Jóhannssyni og öðrum klausurithöfundum Mjölnis það til eftirlætis að metast um það, hverjum bað sé að þakka, að aukaskammturinn fékkst og baðleysinu í SR'46 var kippt í lag. Skrif mín um það, sem betur getur farið fyrir almenning í bænum, fara auðsýnilega mjög í taugarnar á þessum “pedit” mönnum Mjölnis og hin slæma samviska þeirra heimtar að þeir helgi sér verk annarra. - Allt í lagi. Gjörið þið svo vel. Þið hafið ekki af of miklu að státa.

Við verkamenn og alþýðu þessa bæjar vil ég segja eftirfarandi:

Í dálkum mínum næst í Neista mun ég hreyfa málum, sem snerta hagsmuni okkar allra. - Gaman verður að vita hvernig “pedit”­rithöfundar Mjölnis bregðast við þeim.

ÞÓRÐUR ÞÖGLI e/o blaðið Neisti Pósthólf 81
-------------------------------------------------

Einherji 7. febrúar 1948

Um 600 þúsund mál af Faxaflóa- og Vestfjarasíld komin hér á land í haust og vetur

S.l.. fimmtudag var byrjað að losa hér True Knot, Hel, Súðina og Straumey. Voru þau með samtals um 50 þúsund mál.

Í gær um hádegi biðu þessi skip losunar.:

 • Pólstjarnan með 2.700 mál
 • Knob Knot með 35.000 mál
 • Selfoss með 6.000 mál
 • Fjallfoss með 11.000 mál.

Á leiðinni til Siglufjarðar eru þessi skip með síldarfarma:

 • Banan .................... 11.000 mál
 • Hrímfaxi .................. 4.500 -
 • Sindri ...................... 1.000 -
 • Huginn ..................... 1.000 -

Verksmiðjur SR hér voru búnar að vinna s.l. fimmtudagskvöld úr 570 þúsund málum síldar.
-----------------------------------------------------

Mjölnir 3. mars 1948

S.R. hætta að taka á móti síld í Reykjavík n.k. laugardag.

Stjórn Síldarverksmiðja ríkisins hefur tilkynnt, að hætt verði að taka á móti síld til bræðslu í Reykjavík n.k. laugardag, kl. 6 e.h.

Þrátt fyrir þetta kveðst stjórnin gera ráð fyrir, að bræðsla muni halda áfram fram undir páska, vegna þess, hve mikil síld er nú í bing í Reykjavík.

Kveðst stjórnin hafa tekið þessa ákvörðun, til þess að tryggja, að hægt verði að ljúka við standsetningu verksmiðjanna áður en sumarbræðsla hefst.

Fulltrúi sósíalista greiddi ekki atkvæði með þessari ákvörðun
--------------------------------------------------

Mjölnir 3. mars 1948

Eiga Bretar að fá vetrarsíldarlýsið ódýrt

Ríkisstjórnin sviptir stjórn SR umboði til þess að selja síldarlýsisframleiðsluna í vetur á frjálsum markaði.

Og nú bregður svo undarlega við, að ríkisstjórnin sviptir stjórn S.R. umboði til að selja síldarlýsið á frjálsum markað til þess að geta tekið það inn í samningana við Bretana.

Eins og öllum landsmönnum er í fersku minni, seldi ríkisstjórnin síldarlýsið í fyrra við verði, sem jafngilti því, að kaupendunum væri gefið fjórða til fimmta hvert tonn, en hitt selt þeim fullu verði.

Í vetur gaf ríkisstjórnin stjórn síldarverksmiðjanna umboð til að selja vetrarframleiðsluna af síldarlýsi á frjálsum markaði.

Voru söluhorfur taldar hinar bestu, og fullt útlit fyrir, framleiðslan mundi þegar seljast fyrir það verð, sem er á þessari vöru á heimsmarkaðinum, eða a.m.k. ekki fyrir neðan 140-150 £ tonnið.

Nú hafa þau tíðindi gerst, að hingað hefur komið bresk samninganefnd til þess að semja um viðskipti. Eftir því sem frést hefur, hafa viðræður hennar og Íslendinga gengið fremur stirt.

Með framferði sínu í afurðasölumálunum í fyrra tókst stjórninni að spilla mjög markaðsmöguleikum okkar í Austurevrópu, enda munu Bretar nú þykjast þess fullvissir, að þeir þurfi ekki að óttast skæða samkeppni úr þeirri átt, og lofa Íslendingum að sækja á við þessa samninga.

En mikil er þægðin við Breta ef nú á einnig að fórna vetrarlýsinu til þess að ná, einhverjum samningum við þá, meðan allsstaðar annarsstaðar blasa við hinir bestu markaðir fyrir þessa eftirspurðu vöru.
-------------------------------------------------------

Mjölnir 10. mars 1948

Síldarbræðslan

Um síðustu helgi höfðu alls verið brædd hér í Siglufirði tæplega 898 þúsund mál síldar á vetrarvertíðinni. Af því mun SR46 hafa brætt meira en helming, eða um 480 þúsund mál.

Gert er ráð fyrir, að við þetta muni bætast um 60 þúsund mál, áður en bræðslu lýkur, sem sennilega verður um miðja næstu viku, ef ekkert óvænt verður til tafar.
---------------------------------------------------------

Mjölnir 17. mars 1948

Vetrarbræðslunni er að verða lokið

Bræðslu vetrarsíldarinnar er nú að verða lokið. Samkvæmt upplýsingum, sem blaðið fékk hjá skrifstofustjóra S.R., Sigurði Njálssyni, s.l. mánudag, voru þá óbrædd 12 þúsund mál í þróm og á leið hingað í skipum.

Er vetrarbræðslan hér nú alls orðin ca. 950 þúsund mál, en gert ráð fyrir, að hún verði um 960 þúsund má1 þegar henni lýkur, sem verður í þessari viku.

Lýsisframleiðslan í vetur mun nema ca. 15 þúsund tonnum, og mjölið ca. 24 þúsund tonnum.

Af lýsinu hefur ekkert verið flutt út ennþá, en um helmingur mjölsins, mest til Bandaríkjanna 6.400 tonn - til Hollands, 3.400 tonn og til Danmerkur 2.400 tonn.

Þegar bræðslu lýkur verður haldið áfram um standsetningu verksmiðjanna fyrir sumarið, og mun það veita mikla atvinnu.

Kolaskip með tæp 4.000 tonn af kolum til verksmiðjanna, er væntanlegt næstu daga.
--------------------------------------------------

Mjölnir 17. mars 1948

Losun síldarinnar

Við losun á síld úr flutningaskipum, sem losunardeildin hefur haft með að gera, hafa unnið frá því á nýári að jafnaði ca. 170 manns.

Unnið hefur verið á 12 tíma vöktum. Vinnulaun við losun á allri þeirri síld, sem deildin sá um, þar með talin Vestfjarðasíldinni í haust, nemur ca. 1.800,000 kr.

Eftir er að greiða út vinnulaun fyrir vinnu við 2 síðustu flutningaskipin. Í þessu eru ekki talin þau vinnulaun, sem SR greiddu sjálfar fyrir losun undir krönum

Mikill fjöldi aðkomumanna hafa stundað hér vinnu við síldina í vetur. Nú eru flestir þeirra hættir og farnir heim, enda ekki meiri vinna hér en sem bæjarmenn geta annað.
--------------------------------------------------

Siglfirðingur 23. mars 1948

Síldveiðarnar. –

Í Hvalfirði eru síldveiðarnar hættar. Verksmiðjurnar hér eru langt komnar með að bræða þá síld, sem hingað hefur verið flutt. Vart þarf að geta þess, hversu gífurleg tekjulind þessar veiðar hafa verið, og aldrei áður hefur verið jafn mikil vinna hér eins og í vetur.
------------------------------------------------------

Mjölnir 24. mars 1948

Skipi hlekkist á

Flutningaskipið “Hel”, sem SR hafa á leigu, og undanfarið hefur flutt hingað bræðslusíld frá Reykjavík, lagði af stað norður, með síldarfarm s.l. fimmtudag. Þegar skipið kom nokkuð norður fyrir Akranes var sjógangur mikill og kastaðist síldin til í lestunum og kom mikill halli á skipið.

Ægir var sendur til að aðstoða skipið og sigldi það í fylgd með honum til baka til Reykjavíkur. - Liggur “Hel” þar ennþá og er ekkert farið að róta við farminum og verður líklega ekki gert fyrr en eftir páska. Þessi farmur í “Hel” er síðasti farmurinn að sunnan.
----------------------------------------------------------

Mjölnir 24. mars 1948

Skemmtun Verksmiðjumanna SR'46

Síðastliðið laugardagskvöld héldu verkamenn, sem vinna í SR'46, veislufagnað með borðhaldi að Hótel Siglunes. Pétur Baldvinsson stjórnaði skemmtuninni, bauð hann starfsmenn verksmiðjunnar og gesti þeirra velkomna og lýsti skemmtiatriðum.

Undir borðum flutti Jóhann G. Möller ræðu. Fluttur var útvarpsþáttur SR'46; lesin skemmtiþáttur og fjórar ungar stúlkur skemmtu með söng og gítarleik.

Mikið var sungið undir borðum. Að lokum var svo dansað til kl. 2 e.m. Skemmtisamkoman fór í alla staði vel fram og var verkamönnum í SR'46 til sóma.
--------------------------------------------------

Mjölnir 2. júní 1948

Atkvæðagreiðsla um vaktafyrirkomulagið í síldarverksmiðjunum.

Dagana 28. og 29. maí fór fram atkvæðagreiðsla meðal verkamanna, sem vinna hér í síldarverksmiðjunum um hvaða hátt menn vildu hafa á vaktafyrirkomulaginu þar. Höfðu komið fram raddir um að leggja niður sex tíma vaktafyrirkomulagið en taka upp átta tíma eða tólf tíma vaktir í staðinn.

Var greitt atkvæði um, hvort menn vildu sex tíma, átta tíma eða tólf tíma vaktir.

Þátttaka í atkvæðagreiðslunni var fremur treg. Greiddu 92 menn atkvæði. Féllu atkvæði þannig, að 69 kusu gamla fyrirkomulagið,- sex vildu helst 8 tíma- og 6 vildu 12 tíma vaktir.

Þó að þátttakan væri ekki mikil, sýnir hún samt ótvírætt, að verkamenn vilja halda áfram því fyrirkomulagi, sem verið hefur á vöktunum.

Í kjörstjórn voru Jónas Stefánsson, Gunnar Guðbrandsson og Jóhann G. Möller.
-------------------------------------------------------

Mjölnir 16. júní 1948

Óviðkunnanleg vinnutilhögun hjá S.R. Í vor hefur verið unnið að undirbúningi

Síldarverksmiðja ríkisins og Rauðku undir sumarvertíðina.

Vinnur þar nú mikill fjöldi verkamanna. Fyrir nokkru var farið að vinna eftirvinnu til kl. 7 hjá S.R. Er þar hafður sá háttur á, að aðkomuverkamenn og unglingar eru látnir hætta vinnu kl. 4, en siglfirskir verkamenn látnir halda áfram.

Þetta fyrirkomulag er með öllu ófært. S.R. hefur ráðið allmarga aðkomumenn til vinnu í verksmiðjunum í sumar, og með þeirri ráðningu skuldbundið sig til að láta aðkomumennina sitja að sömu vinnutilhögun og búsetta Siglfirðinga.

Með svona tilhögun skapast óánægja meðal verkamannanna, sem vinna hjá fyrirtækinu, og er slíkt ófært. Vitanlega hafa aðkomumennirnir rétt til að krefjast þess

að fá sama vinnutíma og búsettir menn hér, svo framarlega að ekki hafi verið um annað samið við þá sérstaklega.

Vonandi sjá stjórnendur S.R. sér fært að kippa þessu í lag sem allra fyrst.
---------------------------------------------------

Einherji 2. júlí 1948

Móttaka síldar hjá SR hefst á hádegi á morgun.

Á morgun kl. 12 á hádegi hefst móttaka síldar hjá SR. Minni þátttaka er nú í síldveiðunum heldur en s.l. sumar, t.d. hefir nú verið sótt um viðskipti hjá SR fyrir aðeins 165 nætur móti 178 nótum s.l. sumar.
-----------------------------------------------------

Siglfirðingur 3. júlí 1948

Síldarverksmiðjur ríkisins, tilbúnar til vinnslu.

Ný löndunartæki sett upp í sumar.

SÍLDARVERKSMIÐJUR ríkisins hér á Siglufirði munu ú allar tilbúnar að hefja vinnslu, eftir því sem blaðinu er tjáð af verkstjórum fyrirtækisins Mun því móttaka síldar geta hafist nú þegar, eða svo fljótt sem einhver síld veiðist.

Í SR'30 og SRN vinna um 60 manns, en í verkamiðjunum öllum eitthvað í kringum 250 menn. Eftir eiga þó að bætist við um 50 menn, svo að starfsliðið í verksmiðjunum í sumar mun, verða um 300 manns.

Um 170 skip munu í sumar leggja upp afla sinn hjá SR., en þau skip eru þó aðeins með 165 nætur, þar sem nokkur þeirra eru tvö um nót.

Nokkrar fréttir hafa borist um síld hér fyrir Norðurlandi og er þeim gerð nánari skil annarsstaðar í blaðinu.

S.R, hafa nú komið sér upp alls 9 hagkvæmum löndunartækjum, þar af 5 kranar og 4 “krabbar” svonefndir.

Í sumar verður væntanlega sett upp, ný tegund löndunartækja, sem er sogslanga, sem sýgur síldina úr skipunum Slangan sjálf er þegar komin til landsins, en nauðsynlegan útbúnað vantar enn.
------------------------------------------------------

Neisti 9. júlí 1948

Verkamenn, sem vinna við síldveiðarnar verða að fá aukaskammt af kaffi og sykri yfir síldveiðitímann.

Það er kunnara en frá þurfi að greina, að eigi verður mælt á móti þeirri sanngjörnu kröfu, að þeir, sem vinna hér við síldina yfir síldveiðitímann fá úthlutað aukaskammti

af kaffi og sykri og jafnvel nokkuð af hreinlætisvöru yfir þennan mesta annatíma ársins.

Nú hefur sjómönnum síldveiðiflotans verið úthlutað aukaskammti af kaffi og sykri og ættu skömmtunaryfirvöld að veita þeim sem vinna í landi við síldina slíkt hið sama.
----------------------------------------------

Mjölnir 14. júlí 1948

Slæmt húsnæði hjá S. R.,

Flest fyrirtæki hér í bænum, sem hafa aðkomuverkamenn í vinnu yfir sumarmánuðina, sjá þeim fyrir húsnæði. Að vísu er það misjafnlega gott, en víðast hvar þó viðunandi.

Undantekning frá þessu eru þó síldarverksmiðjurnar. - Fjöldi aðkomuverkamanna vinna á sumri hverju hjá síldarverksmiðjunum, einkum þó hjá Síldarverksmiðjum ríkisins. -

Þessir menn búa flestir við algerlega óviðunnandi húsnæði, víða margir saman, 10-12 eða jafnvel fleiri.

Þetta er algerlega óviðunnandi. Fyrirtæki eins og S.R., sem er opinber eign ætti að vera öðrum fyrirtækjum til fyrirmyndar hvað snertir aðbúnað verkamanna, alveg á sama hátt og það býr vel að fastastarfsmönnum sínum.
------------------------------------------------

Siglfirðingur 17. júlí 1948

ÓSTARFRÆKTAR

Mönnum þykir eðlilega hart að þurfa að horfa á síldarverksmiðjurnar hér óstarfraktar yfir þan tíma, sem menn vonuðu að mundi verða mesti athafnatími verksmiðjanna og þar með verkamenn og bæjarbúa yfirleitt.

Nokkuð virðist þó vera að birta yfir miðunum og standa vonir manna til þess að þess verði ekki langt að bíða, að bærinn fái sinn eðlilega sumarsvip; starfandi menn og rjúkandi verksmiðjuskorsteina.
--------------------------------------------------

Siglfirðingur 20. júlí 1948

Bræðslusíldaraflinn á laugardag, aðeins 91.500 hektólítrar

Bræðslusíldaraflinn síðastliðið laugardagskvöld var aðeins 91.516 hektólítrar, en á sama tíma í fyrra var hann rúmlega 418.000 hektólítrar og auk þess var þá búið að salta í um 9.500 tunnur.

42 síldveiðiskip hafa nú fengið 500 mál og þar yfir. Andvari frá Reykjavík er hæstur með 1.612 mál, Önnur hæstu skip eru:

Siglunes 1.604 mál - Helga Reykjavík 1.494 mál - Björn Jónsson Reykjavík 1.308 mál

Víðir Akranesi 1.306 mál - Fagriklettur 1.266 mál - Helgi Helgason V.E. 1.257

Í síðustu viku veiddust 40.000 mál.
----------------------------------------------

Siglfirðingur 20. júlí 1948

Nær engin síldveiði enn. -- Flotinn í landvari

Nær engin síld hefur veiðst síðastliðinn sólarhring. 4 eða 5 skip fengu þó smávegis á Vopnafirði og við Digranes í gær og eitt eða tvö skip köstuðu þar í morgun, en fengu engan afla.

Slæmt veður er nú á miðunum og hefur flotinn leitað í var. Mikill fjöldi skipa liggur á Raufarhöfn.
-------------------------------------------

Siglfirðingur 29. júlí 1948

Síldarverksmiðja í Örfirisey

BORGARSTJÓRI Reykjavíkur, boðaði í gær blaðamenn á fund, að Hótel Borg í Reykjavík og skýrði þeim frá fyrirhugaðri byggingu síldarverksmiðju í Reykjavík.

En Reykjavíkurbær og h.f. Kveldúlfur hafa áformað að ráðast í byggingu mannvirkis þessa. - Þar voru og mættir. Richard Thors og Sveinn Einarsson, verkfræðingur.­

Verksmiðja þessi á að vera þurrvinnsluverksmiðja og eiga framkvæmdir að hefjast innan skamms við byggingu hennar. Gert er ráð fyrir, að verksmiðjan verði til um næstu áramót. Afköst hennar eiga að vera 5.000 mál.
----------------------------------------------

Einherji 13. ágúst 1948

SÍLDARMÓTTAKA HJÁ S.R. NAM 11. þ.m. UM 91 ÞÚSUND MÁL, ÞAR AF 49 ÞÚSUND MÁL HÉR Á SIGLUFIRÐI

Sama deyfðin er enn yfir síldveiðunum, í fyrradag höfðu Síldarverksmiðjur ríkisins, móttekið aðeins 91.342,16 mál síldar. Skiptist þessi síldarmóttaka þannig milli hinna ýmsu verksmiðja S.R.:

 • S.R.P ................14.080,00 mál
 • S.R.N. og '30....... 5.849,00 -
 • S.R.'46 ..............20.071,67 -
 • Raufarhöfn......... 25.992,67 -
 • Skagaströnd ....... 13.219,00 -
 • Húsavík ............. 3.129,50 -

Á sama tíma í fyrra höfðu S.R. móttekið 418 þúsund mál síldar; á sama tíma 1946 höfðu verksmiðjurnar móttekið 401 þúsund mál síldar.

Samtals nam öll síldarmóttaka S.R. í fyrra sumar 445 þúsund mál og sumarið 1946, 437 þúsund mál.

Mesta síldarmagn, sem borist hefur á land hjá S.R. á einum degi í sumar var 8. ágúst s.l., en þá tóku S.R. á móti 9.506 málum.

Síldarverksmiðjan Rauðka hefur tekið á móti 11.568 málum. s.l; sumar fékk Rauðka 79 þúsund mál.
---------------------------------------------------

Siglfirðingur 17. ágúst 1948

72 skip hafa fengið 1000 mál og þar yfir en 157 skip meira en 500 mál.

Andvari frá Reykjavik er hæstur með 3.748 mál.

Á laugardagskvöld s.l. höfðu 157 síldveiðiskip fengið 500 mál og þar yfir, en 72 skip 1.000 mál eða meira.

Andvari var hæstur með 3.748 mál.

Hæsti botnvörpungurinn var Sævar frá Vestmannaeyjum með 1.300 mál og hæstu tvílembingarnir Smári og Valbjörn með 1.900 mál.

17 skip hafa fengið yfir 2.000 mál.

Samkvæmt skýrslu Fiskifélags Íslands höfðu eftirtalin skip fengið yfir 2.000 má1 á miðnætti síðastliðið laugardagskvöld - Tafla hér fyrir ofan 

Siglfirðingur 21. ágúst 1948

Hér birtast myndir af nýjum löndunartækjum við SR., sem unnið hefur verið að í sumar og gerðar tilraunir með. Mynd hér ofar, sem birtist með frétt Siglfirðings frá 21. ágúst 1948

Hingað til hafa tilraunirnar ekki borið mikinn árangur, en að svo komnu máli er ekkert hægt um það að segja, hvort takast muni að hafnýta sogkraft til löndunar á síld, en það mun vissulega hafa mikla þýðingu, ef tilraunir þessar bera árangur.

Siglfirðingur 26. ágúst 1948

Slys varð í gær í S.R.N.

ÞAÐ SLYS varð i gær um kl. 11,30. að ungur maður héðan úr bænum, Arnar Herbertsson, handleggsbrotnaði við vinnu í S.R.N. Hann vann við að keyra mjölsekkjum, frá mjölflutningsböndum verksmiðjunnar og festi, hægri handlegginn í öxli mjölflutningsbandsins og brotnaði upphandleggurinn og skaddaðist nokkuð.

Er blaðið spurði frétta af Arnari í gærkvöldi, leið honum sæmilega eftir atvikum.

-------------------------------------------------------------

Mjölnir 10 nóvember 1948

Eiga einstaklingar að fá að byggja lýsisherslustöðina ?

Í svarræðu sinni í útvarpsumræðunum um fjarlagafrumvarpið á dögunum, vék Jóhann Þ. Jósefsson fjármálaráðherra með nokkrum orðum, að hersluverksmiðjumálinu.

Sagði hann, að EINSTAKLINGAR HEFÐU HUG Á AÐ KOMA UPP SLÍKRI VERKSMIÐJU, og var á honum að skilja, að hann teldi þá tilhögun eðlilegri en að ríkið kæmi henni upp og ræki hana, eins og lög heimila og gera ráð fyrir, og teldi frekari afskipti þess af málinu óþörf.

Menn spyrja. Er ætlun ríkisstjórnarinnar að gera lýsisherslu á Íslandi að féþúfu fyrir einstaklinga? Og hvorra hagsmuni mundi hún fremur hafa í huga, eigenda lýsisherslustöðvarinnar eða t.d. sjómanna, útgerðarmanna og S.R., þegar hún tæki ákvörðun um bræðslusíldarverð á hverjum tíma?

Og hvort mundu auðmenn Reykjavíkur, eigendur slíkrar verksmiðju, fremur hallast að því að ákveða verksmiðjunni stað í Reykjavík eða t.d. hér á Siglufirði.

-------------------------------------------------------

Neisti 17. desember 1948

Samþykkt Þróttar um byggingu lýsishersluverksmiðjunnar.

“Fundur í Verkamannafélaginu Þrótti, haldinn þann 5. des. 1948, skorar á ríkisstjórnina og stjórn S.R. að láta byggja hina fyrirhuguðu lýsishersluverksmiðju á Siglufirði.

Auk þess sem fundurinn telur öll rök mæli með, að verk smiðjan verði byggð á Siglufirði, verður það að teljast hið mesta tillitsleysi í garð Siglfirskra verkamanna, ef verksmiðjan verður byggð annarsstaðar.”

Tillaga þessi var samþykkt með öllum atkvæðum fundarmanna. - Fundurinn kaus 3ja manna nefnd til þess að fylgjast með gangi málsins.

Í nefndina voru kosnir:

Gunnar Jóhannsson, Jóhann G. Möller, og Hlöðver Sigurðsson