Árið 1948 - Dýr flutningur síldarinnar- Næstum helmingur aflaverðmætisins fór í löndunar - og flutningskostnað

Neðanritað er það eina sem ég fann skrifað, tilheyrandi síldarbræðslu & flutningum, í blaði síldarsaltenda. (sk)
---------------------------------------

SÍLDIN 17. mars 1948

Þrátt fyrir hinn mikla afla í Hvalfirði, hafa þessar veiðar ekki verið hagstæðar fyrir nema tiltölulega fá skip. Veldur því einkum að veiðarfæratjón var gífurlegt, bæði af því að síldin var svo mikil að hún sprengdi næturnar og eins skemmdust veiðarfærin í víraflækjum og öðru drasli á botni fjarðarins. Vonandi verður það hreinsað burt fyrir næstu síldarvertíð og girt fyrir tjón af þeim sökum.

Mikið af verðmæti fór í flutningskostnað. Flutningar og löndun mun hafa kostað 20-25 kr. á mál, en skipunum var greitt 25-32 kr. á mál, eftir því hvort losað var í skip eða þró í landi. Flutningur á síldinni norður til Siglufjarðar varð mjög kostnaðarsamur sem eðlilegt er, þar sem til þess varð að leigja dýr skip og enginn undirbúningur var til umhleðslu og löndunar á síldinni.

Úr þessu rættist þó brátt um vonir fram, þegar farið var að nota löndunarkrana með síldargreipum, sem gerðu löndunina stórum fljótvirkari og hægari.

Ef síldarbræðslur hefðu verið til hér á staðnum, þá er auðsætt að síldveiðarnar hefðu orðið útgerðinni miklu hagstæðari. Þá hefðu sennilega flestöll skipin haft hagnað af síldveiðunum í Hvalfirði.

Fljótandi síldarverksmiðja og aukin afköst síldarbræðslna í landi við Faxaflóa næsta vetur.

Nú hefur hf. Hæringur verið stofnað og er hlutverk þess að kaupa 7-8 þúsund smálesta skip í Ameríku og setja í það síldarvinnsluvélar.

Verður þetta fyrsta fljótandi síldarbræðslan, sem Íslendingar hafa komið upp. Vinnsluafköst hennar eiga að verða 10 000 mál á sólarhring og á skipið að verða tilbúið fyrir næsta haust.

Nokkrum fiskimjölsverksmiðjum við Faxaflóa verður breytt, svo að þær geti brætt alls um 10.000 mál síldar daglega á hausti komandi.

Næsta haust ættu þá heildarafköst síldarbræðslnanna við Faxaflóa að verða um 20.000 mál á sólarhring.

Ef þessar verksmiðjur verða komnar upp í tæka tíð og fullkomin löndunartæki tilbúin, eins og nauðsynlegt er að verði, þá gefur það góða von um glæsilegan árangur, þegar vetrarsíldin kemur næst.

Á þessa leið fórust Ingvari Vilhjálmssyni orð. Hann er gamalreyndur skipstjóri, gjörhugull og gætinn og einn af mestu útgerðarmönnum og fiskiðjuhöldum Íslands.

Álit hans og annarra, að vetrarsíldin sé varanleg, er þess virði að því sé fullur gaumur gefinn. Vetrarsíldin er gullnáma, sem Ísland getur aflað sér mikilla verðmæta úr. Það verður að gera viðeigandi ráðstafanir í tæka tíð, svo að aflinn verði sem mestur, og ekki síst til þess að gera síldarafurðirnar tiltölulega verðmætari.

Á. E.
-----------------------------------------------------

Ath. sk: Þetta er niðurlag stærri greinar ú blaðinu SÍLDIN, en fyrrihlutinn fjallaði aðallega um síldarsöltun, sem og annað sem skrifað var í þetta blað.