Tengt Siglufirði
Siglfirðingur 9. desember 1948
HÆRINGUR
Enn eru fréttir þær er berast af síld fyrir Suðurlandi litlar, og þótt einn og einn bátur úr flotanum fái nokkrar tunnur við og við, stenst slíkt engan vegin vonir þær sem þjóðin elur í brjósti sínu.
Síld veitir vinnu á sjó og landi, - veitir fátækri þjóð gjaldeyri - Veitir vörur í verslanir, leysir skort á nauðsynjum. Mikið á þjóðin undir þessum litla silfraða fiski komið. Þjóðin öll leggur við eyrun, um síldina er talað, fréttirnar ganga frá manni til manns og hún er umræðuefnið í húsum háttsettra og láttsettra þegna þjóðfélagsins.
Síðastliðinn vetur óð síld fyrir suðurlandi, en allar vinnslustöðvar þjóðarinnar byggðar norðanlands. - Þessi óútreiknanlega síld þekkir samt ekki hyggjuvit mannanna og hve fljótur hann er að laga sig eftir aðstæðum. Við höfum eignast fljótandi síldarverksmiðju, sem verður fyrir suðurlandi, ef síld verður þar, en fyrir norðurlandi ef hún verður hér.
Hæringur er nýung í vinnslu og veiði síldar, - nýung, sem framfarasinnaðir þjóðfélagsþegnar fagna, en bölsýnin
kveður sitt óbreytalega lag, sem hljómar nú eins og þegar fyrsti vélbáturinn kom til Íslands. Er tímar líða munu hinir bölsýnu, venjast Hæringi eins og landflótta
Sovétþegn nýju umhverfi eða Framsóknarmaður sléttu túni eða jeppabíl, en hætt er þó við, að bölsýnin beinist þó gegn einhverjum nýjum tiltektum
framsækinnar þjóðar !
---------------------------------------------
Ath. sk 2018:
Hæringur var verksmiðjuskip sem var keypt af íslensku hlutafélagi frá Bandaríkjunum árið 1948 til síldarvinnslu. Hæringur var stærsta skip sem Íslendingar höfðu eignast fram að því, tæpar 7000 lestir, 117 metrar að lengd og 15,5 metrar að breidd. Saga þess var þó ekki glæsileg. Lá það lengstum við eystri hluta Ægisgarðsins og tók þar upp mestan hluta viðleguplássins, sökum síldarskorts. Hæringur fékkst þó lítillega við karfabræðslu en síðustu tvö árin lá það við mynni Elliðavogs og Grafarvogs. Hafði skipinu verið siglt upp í moldarbakka sem þar var. Á þessum stað stóð skipið þar til það var selt til Noregs í september 1954 og var notað til Kínasiglinga þaðan.
Hæringur var smíðaður í Buffalo 1901 og var því 47 ára gamall þegar hann kom til Íslands. Upphaflega var skipið til þess að flytja járngrýti, en síðar tók bandaríski herinn það í sína þjónustu á stríðsárunum. Hinir nýju íslensku eigendur létu breyta því og setja í það vélar til síldarvinnslu. Þetta var þó á þeim árum sem síldarveiðin brást við Íslandsstrendur.
Heimild fengin af síðu Wikipedia.