Árið 1948 - Viðtal við A. Schiöth

Siglfirðingur, 9. september 1948

 Síldarverksmiðja, Siglufjarðarkaupstaðar R a u ð k a.

Viðtal við stjórnarformann verksmiðjunnar. Aage Schiöth, lyfsala.

- Hvernig hefur fjárhagsafkoma verksmiðjunnar verið undanfarin ár?

Svo sem kunnugt er, var endurbyggingu og stækkun verksmiðjunnar að mestu lokið fyrripart sumarsins 1945, en þetta er fyrsta síldarleysissumar af fjórum sem nú hafa gengið yfir þjóðina.

Þetta fyrsta rekstrarár fékk verkmiðjan ekki nema 13,8 þúsund mál síldar til vinnslu en með því að endurbyggingunni var þá ekki með öllu lokið var það “lán í óláni” að mögulegt var að nota vinnuafl það, er ráðið var með venjulegri tryggingu, við bygginguna, og dró það allverulega úr tapi því, sem annars hefti verið á rekstri verksmiðjunnar.

- Einstaka menn- hafa haldið því fram að verksmiðjan hafi verið rekin með tapi allt frá því 1945. - hvað er hæft í þessu?

Þessu er fljótsvarað. Þótt undarlegt megi virðast eru þeir menn til hér í bæ, sem hafa allt á hornum sér, þegar minnst er á rekstur verksmiðjunnar. Þeir ganga um og hvísla í eyru samborgara sinna, að “nú sé Rauðka að setja bæinn á höfuðið” að “nú hafi orðið miljóna tap á Rauðku”, o.s.frv. Er ekki með öllu ljóst, hver tilgangur með slíku hjali er, því varla geta þessir menn búist við að þetta geti orðið til að auka traust og álit bæjarins út á við, ef satt reyndist. Á blaðsíðu 19 í einu riti Ófeigs, sem út kom í vetur, stendur orðrétt:

“Rauðka átti að kosta 4½ miljón en varð 10. Hallinn á starfseminni varð 1 milljón fyrsta árið, hálf miljón í fyrra og eitthvað minna í sumar sem leið.”

Hinn þjóðkunni stjórnmálamaður og rithöfundur, Jónas Jónsson. alþingismaður, ritar margt satt og rétt í Ófeigi og Landvörn og, oft hefur hann ljáð hagsmunamálum Siglufjarðar liðsinni og á skilið þakkir fyrir. Hitt mætti svo benda honum á að þessi blöð væru betri aflestrar ef þau hefðu sannorðari fréttamann hér í bæ en raun ber vitni.

Slíkum fréttaflutningi sem þessum er ekki hægt að taka, öðruvísi en góðlátlegu meðaumkunarbrosi, ekki í síst þegar þess er gætt, að auðvelt er að láta sér detta í hug hver fréttaritarinn er, en nóg um það.

Sannleikurinn er stuttu máli sá, að eins og áður hefur berið bent á verður vart talið að nokkur verulegur halli hafi verið á rekstrinum árið 1945 af ástæðum sem áður hafa verið raktar. Árið 1946 og 1947 fær verkmiðjan innan við 100 þúsund mál til vinnslu hvert árið en greiðir bæði afborganir og vexti af teknum lánum og skilar að auki ágóða.

Þegar þess er gætt, að þess tveimur árum, nær vinnslutími verksmiðjanna varla 10 dögum sannar það, ef til vill betur en nokkuð annað, að Síldarverksmiðja Siglufjarðarkaupstaðar er ein fullkomnasta síldarverksmiðja á landinu.

Auk þess hefur hún marga aðra kosti til að bera, eins og t.d. betri löndunarskilyrði en víðast hvar annarstaðar, yfirleitt styttri vegalengd frá fiskimiðum o.s,frv.

Endurbyggingarkostnaður verksmiðjunnar var 8½ miljón krónur, en ekki 10 miljónir. Ýmsar endurbætur sem gerðar hafa verið á verksmiðjunni eins og t.d. viðbótarlöndunartæki, nýtt hristisíuhús ofl. sýna að verksmiðjan hefur skilað hagnaði, en ekki tapað.

Þegar ráðist var í endurbyggingu­ og stækkun verksmiðjunnar fór fram mat á húsum, bryggjum, þróm og öðrum mannvirkjum, sem fyrir voru og var þetta allt metið á rúmar 2 miljónir króna. Er því ekki langt frá, að hver 1.000 mála at­köst standi bænum í 1 miljón krónum. Til samanburðar skal geta þess að þegar S.R. lét, stækka síðast á Siglufirði og Skagaströnd, svo sem frægt er orðið, nam sú stækkun ca. 2,5 miljónum króna á hver 1000 mála afköst.

Hversvegna bræddi Rauðka ekki síld úr Hvalfirði á Síðastliðnum vetri?

Því skal ekki neitað, að einstaka menn hvöttu verksmiðjustjórnina til þess að fara út í þennan rekstur og til eru þeir sem ámæltu stjórninni fyrir að hefja ekki síldarbræðslu síðastliðinn vetur.

Til skýringar skal þess getið, að framkvæmdastjóri gerði allmarga kostnaðaráætlanir um þennan rekstur, en vegna þess, fyrst og fremst, að farmgjöld voru óvenju há á flutningi síldar frá Suðurlandi til Norðurlands þótti ekki svara kostnaði að ráðast í þá vinnslu, enda er nú fullvíst að Síldarverksmiðjur ríkisins töpuðu stórfé á þeim rekstri. Hefi ég heyrt því fleygt að þetta tap hafi orðið ca. 5 kr, á hvert síldarmál.

Stjórn og framkvæmdastjórn “Rauðka” er nú að athuga möguleika á því, að kaupa Hvalfjarðarsíld á komandi hausti, ef veiðist, og flytja hana hingað til vinnslu. Það er fullvíst, að vinnslukostnaður Rauðka er mun lægri en t.d, vinnslukostnaður S.R. og veltur hér því mest á því, hvort tekst að semja um ódýrari farmgjöld en í fyrra.

Þá þykir og stjórninni skylt að hafa fyrir augum atvinnuhorfur Siglfirskra verkamanna á komandi vetri, sem er allt annað en glæsilegar.

Síðan síldin fannst í Hvalfirðinum virðast ýmsir málsmetandi hagsmuna eiga að gæta, í Reykjavík og verstöðvum sunnanlands, leggja mikla áherslu á, að í framtíðinni fari öll vinnsla sunnansíldarinnar fram í Reykjavik og næsta nágrenni og kann að vera að ekkert sé við þetta að athuga, ekki síst ef vinnslan þar getur orðið ódýrari.

Hins vegar er það ekki óeðlilegt, þótt við sem þennan bæ byggjum gerum okkur ljóst, að afkoma verkamanna yfirleitt hefði verið hörmulega léleg síðastliðinn vetur, ef ekki hefði farið fram síldarvinnsla hjá S.R. hér á Siglufirði, og hinu má heldur ekki gleyma, að Siglufjarðarbær hefur lagt í mikinn kostnað, tekið dýr lán, sem ríkistjónin, er í ábyrgð fyrir, í þeim tilgangi að reisa einhverja hina fljótvirkustu og bestu síldarverkmiðju í landinu.

Það þarf að athuga nákvæmlega, hvort sú fjármálastefna sé rétt að halda áfram ár eftir ár, að leggja miljónir króna í ný verksmiðjutæki og staðsetja þau, eftir því hvort síldin veiðist aðallega á austur, eða vesturveiðisvæðinu fyrir Norðurlandi eða fyrr suðvestan land, þetta eða hitt árið, vitandi það, að verksmiðjur þær, sem staðsettar eru fjærst frá veiðisvæðinu verða að standa auðar. Viðhald og vaxtatap á verk­miðjum þessum sem standa auðar óeðlilega langan tíma á ári hverju, nemur stórupphæðum.

Þegar síldveiði hófst í Hvalfirði á síðastliðnu hausti hefur því sjálfsagt hvarflað að mörgum, hvort þessi fjörður, ásamt Kollafirði væru einu firðirnir hér á landi, þar sem hægt væri að veiða síld til bræðslu að vetri til. Á ári hverju eru notaðar, hundruð þúsunda króna til síldarleitar úr lofti og virðist því ekki úr vegi, að nokkru sé til kostað, svo gengið verði úr skugga um, hvort möguleikar séu á vetrarsíldveiði í öðrum fjörðum landsins. Væri eðlilegt að skipta kostnaði við síldarleit þessa, milli síldarverksmiðja þeirra, sem staðsettar eru milli Horns og Langaness.

Hinn 31. ágúst s.l. sendi framkvæmdastjóri og stjórn Rauðku ríkisstjórninni erindi um þessi mál og mælti til þess að hafist yrði handa um þessa síldarleit fyrir Norðurlandi.

Í erindi þessu er m.a. bent á, að síldveiði hefir nú að mestu brugðist 4 ár í röð og muni það hafa stórkostleg áhrif til batnaðar á afkomu þjóðarinnar allrar, ef finnist leið til þess að starfrækja allar, eða nokkra, síldarverksmiðjurnar milli Horns og Langaness einhvern þann tíma sem annars er gert ráð fyrir að þær standi auðar. Það er full vissa fyrir því, að vetrarsíld hefur oft veiðst í Eyjafirði, á Vestfjörðum og Austfjörðum, en órannsakað með öllu, hvort vor og sumargotssíld heldur sig, t.d. í Miðfirði, Steingrímsfirði og Hrútafirði á vetrum, en alls ekki ósennilegt að svo kunni að vera. Lætur þá nærri að ætla, að síld þessi kunni að haga sér svipað og vetrasíldin í fjörðum Noregs og í Hvalfirði, en sé svo ætti að vera auðvelt að veiða hana.

- Er ekki hagur verksmiðjunnar þröngur eftir þessa síldarvertíð?

Jú, því verður ekki neitað, að þetta sumar ætlar að verða öllu erfiðara en sumarið 1945 og veldur því m.a. að verksmiðjunni hefur ekki borist síldarmagn í hlutfalli við afkastagetu á við aðrar verkmiðjur, en fyrir því eru ýmsar ástæður, sem ég hirði ekki að ræða um að sinni. Heildar móttaka verkmiðjunnar er í dag ca. 23 þúsund mál.

Hér þykir mér rétt að benda á, að hið hörmulega ástand sem rafveitumál bæjarins eru í, getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir rekstur verksmiðjumar.

Eftir bæjarstjórnarkosningarnar síðustu, skapaðist öngþveiti í rafveitumálunum sem öðum stórmálum bæjarins og hefur þetta að mestu haldist fram á þennan dag. (Það má t.d. geta þess að á yfirstandandi kjörtímabili hafa 3 bæjarstjórar farið með framkvæmd bæjarmála).

Virkjun Skeiðsfoss stöðvaðist og framleiðir nú Skeiðsfossstöðin, ekki nema tæpan helming af rafmagni því, sem ætlast var til í byrjun að stöðin gæti framleitt. Álag á þessa hálfgerðu rafstöð hefur aukist svo að við lá í sumar, að velja yrði annan hvorn kostinn, að taka rafmagnið frá verksmiðjunni, nokkra klukkutíma á sólarhring eða útiloka smáiðnað þann, sem skapast hefur í bænum, og loka fyrir suðustraum, einmitt þegar verst gegndi. Er slíkt örþrifaráð sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir bæjarfélagið í heild.

Ég tel samt sem áður enga ástæðu til að örvænta. Þótt síldarleysisárin hafi orðið fleiri að þessu sinni en flestir bjuggust við, trúi ég því ekki að síldin eigi ekki eftir að veiðast fyrir Norðurlandi að sama magni og t.d. á árunum 1938-44

Það hefir komið fyrir að stjórn Rauðku hefir orðið að leita til ríkissjóðs og hann hlaupið undir bagga með verksmiðjunni um stundarsakir, en til þessa hefir verið hægt að standa í skilum og verður vonandi framvegis.

Treysti ég vel núverandi ríkisstjórn til að taka á málum þessu með skilningi og velvild.