Árið 1948 - Ósvífni Sveins !

Mjölnir 5. janúar 1948

ÓSVÍFNI SVEINS BENEDIKTSSONAR

Í Morgunblaðinu frá 11. f.m. sem nýlega hefur borist mér í hendur, er smáklausa undirskrift: Sveinn Benediktsson.

Klausa þessi er hin rætnasta og ýmist útúrsnúningur og rangfærslur eða uppspuni frá rótum.

Tilgangurinn með henni er bersýnilega sá, að breiða yfir bruðl það og ábyrgðarleysi með fé ríkisverksmiðjanna, sem Sveinn hefur staðið fyrir undanfarið.

Í klausunni segir:

“Þóroddur Guðmundsson var því mjög andvígur að SR veittu öðrum verksmiðjum nokkra fyrirgreiðslu til þess að þær gætu hafið vinnslu á Hvalfjarðarsíld"

Verksmiðjurnar við Faxaflóa fóru ekki fram á neina fyrirgreiðslu hjá ríkisverksmiðjunum nema það að fá lánað hjá þeim vinnslutæki, sem þær vöntuðu, eða nánar tiltekið, skilvindur.

Þegar mál þetta var endanlega afgreitt í ríkisverksmiðjustjórninni í byrjun nóvember s.l. var framkvæmdarstjóri, Sigurður Jónsson staddur á fundinum og lagði eindregið gegn því að skilvindurnar væru lánaðar.

Skýrði hann frá því, að ríkisverksmiðjunum vantaði 5 skilvindur til að geta haldið uppi fullum vinnsluafköstum, auk þess gæti rekstraröryggi verksmiðjanna ekki talist borgið nema þær ættu 5-6 varaskilvindur, þar sem skilvindur væru svo viðkvæm tæki, sem oft biluðu.

Sveinn Benediktsson og Þóroddur Guðmundsson
Ljósm. Ókunnur og sk

Sveinn Benediktsson og Þóroddur Guðmundsson
Ljósm. Ókunnur og sk

Þá skýrði framkvæmdarstjóri frá að hann hefði pantað skilvindur, en afgreiðslufrestur á þeim væri tvö ár.

Að þessum lýsingum fengnum taldi ég ekki geta verið með því, að lána skilvindurnar prívat fyrirtækjum gegn ráðleggingum framkvæmdarstjóra.

Tveir aðrir stjórnarmeðlimir, þeir Jón Kjartansson og Júlíus Havsteen, sem að vísu greiddu báðir atkvæði með tillögu Sveins um að lána skilvindurnar, töldu málið þá svo athugavert, að þeir gerðu báðir skriflega grein fyrir atkvæði sínu (færðu fram afsakanir fyrir að greiða atkvæði með tillögu Sveins) og J. Havsteen tekur fram að hann sé mótfallinn að lána fleiri skilvindur.

Sveini tókst að fá samþykkt að lána skilvindurnar, engrar tryggingar var krafist fyrir hugsanlegum skemmdum á þess um dýru og viðkvæmu vélum og ekki gert ráð fyrir neinni leigu. Nú kostar hver skilvinda ca 60 þúsund krónur.

Þegar þetta ráðslag er borið saman við hina alkunnu frammúrskarandi gætni Sveins Benediktssonar með eigin fjármuni, stingur það óneitanlega nokkuð í stúf. Annars skal ég taka það fram, til að fyrirbyggja hugsanlegan misskilning að ég legg ekki trúnað á orðróm þann, sem gengur um, að Sveinn Benediktsson hafi haft persónulegra hagsmuna að gæta við að útvega skilvindurnar til láns.

Sveinn skýrir frá, að ég hafi verið andvígur því að ríkisverksmiðjurnar tækju skip á tímaleigu til síldarflutninganna norður.

Ég hélt því fram þá, og held því fram enn, að það er vítavert fyrirhyggjuleysi að láta ríkisverksmiðjurnar taka á sig áhættu svo nemur hundruðum þúsunda króna vegna þessara leiguskipa.

Og með tilliti til að það varðar alþjóðarhagsmuni að veiðarnar geti gengið sem best og tefjast sem minnst vegna flutningsörðugleika er það siðferðileg skylda ríkissjóðs að taka á sig áhættuna af leigu flutningaskipanna. - Þessari skyldu brást ríkisstjórnin, en þegar Sveinn vissi um hug ríkisstjórnarinnar í þessu efni, vildi hann enga kröfu til hennar gera um ábyrgð og barðist fyrir því, að ríkisverksmiðjurnar tækju einar á sig ábyrgðina af þeim gífurlegu fjárfúlgum, sem um var að ræða.

Sannaðist það hér, sem raunar oft áður, að Sveinn Benediktsson ber meira fyrir brjósti það sem hann telur pólitíska hagsmuni en hagsmuni ríkisverksmiðjanna og síldarútvegsins.

Á einum stað stendur svo í klausu Sveins:

“-átaldi Þóroddur mig fyrir að ég liti á málið frá þjóðhagslegu sjónarmiði en ekki frá sjónarmiði SR -"

Hér er rangfært mjög. Það er rétt að ég hefi oft átalið Svein fyrir hve illa hann gætti hagsmuna ríkisverksmiðjanna, en aldrei átalið hann fyrir að líta á mál frá “þjóðhagslegu sjónarmiði," því ég man aldrei eftir að Sveinn hafi fyrst og fremst litið á mál þau, sem á dagskrá hafa verið hjá SR frá þjóðhagslegu sjónarmiði.

Að síðustu segist Sveinn taka upp orðrétt eftir mér eftirfar andi ummæli:

“hvað varðar okkur um þjóðarhagsmuni.”

Sagan um þessi ummæli hefur verið sögð á Alþingi og blöðum stjórnarflokkanna. Sögumenn, sem allir þykjast hafa þau orð rétt eftir mér, segja þau á mismunandi vegu. Þá ber sögumönnum ekki saman um hvað ummælin hafi fallið.

Einn talar um fund í stjórnarráðinu, annar um fund í ríkisverksmiðjustjórn og nú segir Sveinn að þau hafi verið sögð utan fundar í umræðum milli stjórnarmeðlima.

Einn sögumanna segir ummælin bókuð í fundargerðabók SR, og nú segir Sveinn að þau séu bókuð í “vasabók” eftir minni, að vísu þó samdægurs. -

Ekki ætla ég að heimska mig á því að ráðleggja þessum vinum mínum drengskap í stjórnmálabaráttunni, en eftir á hljóta þeir sjálfir að sjá, að þegar þeir leggja margir saman til þess að rægja og svívirða pólitískan andstæðing, segja allir sömu söguna, en engum ber saman við hinn, eru mikið meiri líkur til, að almenningur skilji þorparaskap þeirra.

Sveinn Benediktsson ætti að láta sér skiljast það að hagsmunir ríkisverksmiðjanna eru líka alþjóðarhagsmunir og það er hlálegt að ætla sér að afsaka fyrirhyggjuleysi sitt um hagsmuni ríkisverksmiðjanna, með umhyggju fyrir þjóðarhagsmunum.

Siglufirði, 23. des. 1947 Þ.Guðmundsson.