Árið 1949 - Ýmsar fréttir

Einherji 15. mars 1949

Vinna við endurbyggingu mjölskemmu S.R.'30 og SR'46 fer senn að hefjast.

Í þessari viku munu nokkrir starfsmenn vélsmiðju Hamars koma hingað til bæjarins í þeim erindagerðum að hefja undirbúning að viðgerð og endurreisn hrundu mjöl skemmunnar.

Stjórn S.R. mun hafa lagt áherslu á, að sem fæstir menn frá Hamri kæmu hingað til þess að hægt væri að koma þeim mun fleiri Siglfirðingum að verkinu.

--------------------------------------------------------

Mjölnir 15. júní 1949 (Bæjarpósturinn)

Sagan af Hæringi.

Táknræn, fyrir afrek núverandi ríkisstjórnar á nýsköpunarsviðinu, eru kaup hennar á síldarbræðsluskipi.

Gæðingur hennar einn, vestur í Ameríku “hafði á hendinni” gamlan skipsskrokk. - Þennan skipsskrokk keypti ríkisstjórnin að óathuguðum möguleikum á að fá heppilegra skip, og lét með ærnum kostnaði koma fyrir í honum síldarbræðsluvélum.

Var þessi farkostur síðan vatni ausinn og nefndur Hæringur. Sögðu gárungar, að nafngiftin hefði verið ákveðin með hliðsjón af aldri fleytunnar, en aðrir uppnefndu skipið Hræring, með hliðsjón af efnisþéttleika þess.

Þetta skipsbákn hefur enn sem komið er reynst ónothæft til síldarbræðslu. Síldarslatti, sem var látinn í bræðsluvélar þess í vetur, kvað ekki hafa sést síðan í neinni mynd.

Og nú liggur þetta rándýra, grautfúna og kolryðgaða hró, sem aldursins vegna gæti verið amma Jóns Gunnarssonar, til þrengsla í Reykjavíkurhöfn, rammlega bundið við hafnarbakka, svo að því hvolfi ekki.

Kostar dvöl þess þar, að sögn kunnugra, hundrað þúsund krónur á mánuði hverjum.

Siglfirskur stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar hefur stungið upp á því, að skipið yrði dregið upp á land og steypt utan um það.

Aðrir leggja til, að Jóni Gunnarssyni verði gefið skipið aftur, að því tilskildu, að hann komi því slysalaust og á sinn kostnað út úr Reykjavíkurhöfn.

Þetta var útúrdúr; fjallaði um helstu nýsköpunarframa “fyrstu ríkisstjórnar Alþýðuflokksins á Íslandi.”

-------------------------------------------------------

Mjölnir 29. júní 1949

Bræðslusíldarverið 40 krónur?

Ríkisstjórnin vill að verðið á bræðslusíldinni verði lækkað, í samræmi við kröfur og hagsmuni Unilever-feitmetishringsins. -

Útvegsmenn og sjómenn krefjast hækkunar.

Stjórn SR situr nú á fundi í Reykjavík, og er aðalverkefni hans að ákveða verðið á bræðslu síldinni í sumar. Er kunnugt, að ríkisstjórnin hefur mikinn hug á að það verði lækkað frá því sem var í fyrra, í samræmi við það verð á síldarlýsinu, sem Unilever-hringurinn skammtar, en sem kunnugt er hefur ríkisstjórnin reynst ófáanleg til að reyna að selja lýsið til annarra landa en þeirra, sem þessi einokunarhringur hefur læst gripörmum sínum í.

Mun ríkisstjórnin hafa viljað lækka verðið ofan í 35 krónur pr. mál, en tillögur hennar stranda á einbeittri mótspyrnu sjómanna og útvegsmanna, sem hafa krafist hækkunar.

Frést hefur að komið hafi fram tvær tillögur á fundi SR, önnur um 38 kr. verð, en hin um 45 kr. verð. Er talið sennilegt, að meirihluti stjórnar SR muni fallast á að það verði 40 kr. - Stjórn L.Í.Ú. og verðlagsnefnd sjávarafurða halda fund í dag til að ræða málið, og verður sennilega ekki tekin endanleg ákvörðun um síldarverðið fyrr en að þeim fundi loknum.

-------------------------------------------------------

Mjölnir 24. ágúst 1949

BRÆÐSLAN

Á miðnætti á mánudagskvöld höfðu verksmiðjur S.R. tekið á móti 128.835 málum í bræðslu. sem skiptist þannig milli verksmiðjustaða:

  • Siglufjörður 37.234 mál
  • Skagaströnd 2.692 -
  • Húsavík 4.318 -
  • Raufarhöfn 84.591 -

Síldarverksmiðjan Rauðka er nú búin að taka á móti rösklega 25 þúsund málum.

Fitumagn síldarinnar hefur verið talsvert breytilegt að undanförnu. Síld, sem efnagreind var hinn 18. þ.m. á rannsóknarstofu S.R., reyndist hafa 19,4% fitu, en síld, sem rannsökuð var 1 gær hafði aðeins 17,3%