Árið 1948 - Veiðibann - 1. Spurningar ÞG

Mjölnir 10. mars 1948

Síldveiðibannið er þáttur í hrunaðgerðum ríkisstjórnarinnar

Sú afsökun ríkisstjórnarinnar og meirihluta stjórnar SR fyrir síldveiðibanninu, að nú þegar þurfi að stöðva allar síldarverksmiðjurnar til þess að standsetja þær fyrir sumarið er rökleysa og þvaður, borið fram til að blekkja þá, sem ekki þekkja til síldarvinnslu.

Með stöðvun síldveiðanna hefur hrunstjórnin enn einu sinni sýnt hug sinn til almennings i landinu.

Hún er enn ein sönnun þess, að valdhafarnir vilja ekki góða afkomu og mikla atvinnu í landinu, og um leið þess að barlómur þeirra um gjaldeyrisvandræði, sem hefur verið helsta röksemd þeirra fyrir því, að stöðva verði margháttaðar framkvæmdir í landinu, svo sem iðnað, byggingar o.fl., er ekki borin fram af neinni alvöru og umhyggju fyrir afkomu þjóðarinnar, heldur aðeins þvaður, sett fram í blekkingarskyni.

Sú afsökun þeirra, að nú þegar þurfi að stöðva verksmiðjurnar til þess að standsetja þær undir sumarið, er borin fram í blekkingarskyni, og verður það öllum, ekki einungis Siglfirðingum, heldur öllum landslýð, ljóst við nánari athugun.

SR'46 er í fyllsta lagi til vinnslu, og þótt setja þurfi olíukyndingu við tvo þurrkara, er það ekki nema í hæsta lagi 3ja vikna verk að koma þeim fyrir. Sér hver heilvita maður, að ekki er ástæða til að stöðva vinnslu í henni þrem til fjórum mánuðum áður en hægt er að gera sér vonir um nokkurn síldarugga til bræðslu í henni.

Mun hún nú vera búin að bræða um helming þeirrar síldar, sem borist hefur hingað í vetur, eða a.m.k. 480 þúsund mál af tæpum 900 þúsund, sem borist höfðu hingað um síðustu helgi. Hefur bræðsla í henni aldrei gengið eins vel og nú seinustu vikurnar. Eru miklar líkur til þess, að hún hefði ein getað haft undan þeim 40 skipum, sem ætluðu að halda áfram veiðum í Hvalfirði, þegar bannið kom til.

Þá eru verksmiðjurnar við Faxaflóa, svo og Fiskiðjuver ríkisins, sem hefðu getað haldið áfram vinnslu, ef á hefði þurft að halda. En sú vinnsla hlýtur að stöðvast um leið og tekið er fyrir bræðsluna hjá SR. Veiðarnar stöðvast þá óhjákvæmilega.

Þá eru ótaldar aðrar verksmiðjur, sem til mála hefðu getað komið, svo sem síldarverksmiðjan á Skagaströnd, verksmiðjan á Seyðisfirði, svo og Rauðka, sem hefði sjálfsagt verið fáanleg til vinnslu nú í vetur, ef leitað hefði verið eftir því af hálfu ríkisstjórnarinnar í tíma.

Og loks spyrja menn:

Þóroddur Guðmundsson (lm.sk) Erlendur Þorsteinsson og Jón Kjartansson: Ljósmyndir: Kristfinnur

Þóroddur Guðmundsson (lm.sk) Erlendur Þorsteinsson og Jón Kjartansson: Ljósmyndir: Kristfinnur

Hvaða vit er í því að stöðva mikla síldveiði nú vegna síldarvertíðarinnar nú í sumar? Hvaða tryggingu hefur ríkisstjórnin og stjórn SR fyrir því, að í sumar verði svo mikil síldveiði, að þörf verði allra síldarverksmiðja norðanlands til þess að anna vinnslu hennar?

Er þá gengið út frá þeirri röksemd þessara aðila sjálfra um það, að gera þurfi við allar verksmiðjurnar, sem reyndar er rökleysa.

Hefur ríkisstjórnin yfirleitt nokkra tryggingu fyrir því, að nokkur síld að ráði veiðist hér í sumar?

Gamalt máltæki segir, að betri sé einn fugl í hendi en tíu í skógi, en blessuð ríkisstjórnin okkar virðist vera á annarri skoðun. Þótt menn geri sér vonir um góða síldarvertíð í sumar, er það ekki næg ástæða til þess að hætta við góða vertíð nú.

Fáar atvinnugreinar eru eins mikilvægur þáttur í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar og síldveiðin. Nú er verð á síldarafurðum hærra en nokkru sinni fyrr, og hefur stjórn SR verið boðið 140 £ í lýsistonnið og í mjöltonnið 48 £

Var þetta áður en breska samninganefndin kom, en þá brá svo einkennilega við að ríkisstjórnin svipti verksmiðjustjórnina umboði til að selja þessar afurðir.

Er lítill efi á því, að hún ætlar sér að selja Bretum það, líklega við miklu lægra verði. Er hrunstjórninni vel trúandi til að selja það við smánarverði nú eins og í fyrra, þegar hún seldi lýsið á 95 £ og mjölið á 31 £.

Þá er enn eitt athyglisvert atriði. Hvaða vit er í því, frá þjóðhagslegu sjónarmiði, að hætta framleiðslu vöru, sem allstaðar er auðseljanleg við hagkvæmu verði, eins og síldarafurðirnar eru, og senda bátaflotann í stað þess til öflunar á fiski, sem ekki virðist eins auðvelt að selja, þótt vitanlega standi einnig opnir ágætir markaðir fyrir hann, ef vel væri á málunum haldið.

Með þessu uppátæki er einnig verið að stofna til atvinnuleysis í Reykjavík, og sjálfsagt hefur löngunin til að gera það verið mjög þung á metunum, þegar stöðvunin var afráðin.

Ríkisstjórnin og skálkaskjól hennar, fjárhagsráð, voru búin að koma kyrkingi í iðnað og byggingarframkvæmdir í vetur, svo að ekki er annað sýnt, en að henni muni þá og þegar takast að koma hinu langþráða atvinnuleysi á. En þá kom síldin eins og skollinn úr sauðaleggnum og eyðilagði þessa þokkalegu áætlun í bili.

Hver einasti heilvita maður, sem ekki er algerlega blindaður af ofstæki og kommúnistahatri, hlýtur að sjá, að bann ríkisstjórnarinnar við síldveiðunum er ekkert annað enn einn liðurinn í baráttu hennar fyrir hruni og eymd meðal almennings, eitt af skemmdarverkum hennar, sem beint er gegn alþýðunni í landinu til þess að beygja hana og auðmýkja, svo afturhaldið geti náð á henni þeim fantatökum, sem það óttast að það sé nú búið að missa algerlega.

Þ.G.
-------------------------------------------- 

Neisti 3. apríl 1948

Árið 1948 - Veiðibann - 2. Svar SR  - Tveir stjórnarmeðlimir S.R. svara Mjölni 

Mjölnismenn víkja enn einu sinni af vegi sannleikans

Út af grein, sem birtist í 10. tbl. Mjölnis, með fyrirsögninni: “Síldveiðibannið er þáttur í hrunaðgerð um ríkisstjórnarinnar,” viljum við undirritaðir taka fram eftirfarandi:

Ríkisstjórnin eða einstakir fulltrúar úr henni höfðu engin afskipti af ákvörðun stjórnar SR um að hætta að taka á móti síld úr Hvalfirði 6. mars s.l.

Þegar verksmiðjustjórnin tók ákvörðun sína, mátti gera ráð fyrir að með svipaðri síldveiði og áður, mundi það mikið magn síldar berast til Siglufjarðar að síldarvinnslu yrði ekki lokið fyrr en vikuna fyrir páska.

Svo sem öllum Siglfirðingum er kunnugt, þurfa fram að fara mjög umfangsmiklar viðgerðir, endurbætur og lagfæringar á verksmiðjunum öllum og má gott heita ef tími vinnst til þess að koma þeim í fullhæft rekstursástand áður en síldveiði hefst um mánaðarmótin júní-júlí n.k. En að okkar áliti er algjörlega óverjandi að halda áfram að vinna síld með tapi, þannig að það gæti orðið til þess að ekki væri hægt í tæka tíð og með góðum árangri að taka á móti verðmætari afla Norðurlandssíldar. Þegar verksmiðjustjórnin tók ákvörðun sína, var 70% af veiðiskipaflotanum hættur veiði.

Af þessu leiddi, að búist var við minni afla og flutningaskipin því ófús á að liggja í Reykjavíkvik og bíða eftir síld, nema trygging eða ákveðin greiðsla kæmi til af hálfu S.R. Hefði það að sjálfsögðu leitt til aukinna útgjalda fyrir S.R.

Það er rangt í greininni, að stjórn S.R. hafi verið boðið £ 140-0-0 í síldarlýsi pr. tonn. Hið sanna er, að stjórn S.R. reyndi að selja fyrir þetta verð cif., en gat ekki. Ennfremur reyndu S.R. að selja fyrir £ 131 cif. og tókst það heldur ekki. Er því víðs fjarri, því miður, að þetta ágæta verð hafi nokkurn tíma staðið til boða.

Verksmiðjunum hefur aldrei staðið til boða £ 48-0-0 í tonnið af mjöli, eins og Mjölnir fullyrðir. Hið rétta er, að líkur eru fyrir, að takast muni að selja nokkurn slatta af mjöli fyrir £ 47.0.0 pr. tonn, án protein uppbótar fob. Í Holland, en það þýðir að frá þessu verði þarf að draga flutningsgjald til Hollands, vátryggingu, geymslu í Hollandi og útskipun þar. Hið raunverulega fob-verð hér, miðað við 65% protein, er því um £ 40 tonnið.

Rætt var um að hefja vinnslu á Hvalfjarðarsíld á Skagaströnd, meðal annars til að fá reynslu á vinnslugetu nýju verksmiðjunnar þar. Verksmiðjustjórinn á Skagaströnd taldi þess engan kost að hefja þar vinnslu nú.

Að endingu viljum við láta þess getið, að á fundi þeim, sem verksmiðjustjórnin samþykkti, að áliti Mjölnis, þær skaðsemdaraðgerðir, að hætta móttöku Hvalfjarðarsíldar í Reykjavík 6. mars, var mættur fulltrúi Sósíalistaflokksins Þóroddur Guðmundsson og greiddi hann ekki atkvæði. Verður að líta svo á, að hann hafi ekki álitið þessa ályktun stjórnar S.R, það skaðlega, að hann teldi rétt að greiða atkvæði gegn henni

Við höfum mótmælt helstu rökleysum og staðleysum í áðurnefndri Mjölnisgrein og látum það nægja. Hitt látum við svo lesendur eina um að dæma, hvort aðrar hugleiðingar blaðsins um, að núverandi ríkisstjórn vinni að því að skapa atvinnuleysi, hafi ekki við álíka rök að styðjast og fleipur blaðsins, sem hér hefur verið hrakið.

Reykjavík, 16. mars 1948

Erlendur Þorsteinsson og Jón Kjartansson
---------------------------------------------  

Mjölnir 7. apríl 1948 - Þóroddur

Árið 1948 - Veiðibann - 3. Svar ÞG:  

"Tveir stjórnarmeðlimir S.R. svara Mjölni"

Svo hljóðar fyrirsögn á grein, er þeir Erlendur Þorsteinsson og Jón Kjartansson birta í síðustu tölublaði Neista og Einherja.

Þótt báðir þessir menn hafi starfað í stjórn SR s.l. ár; annar sem stjórnarmaður en hinn sem varastjórnarmaður, þá hefði fyrirsögnin á greininni átt að vera:

“Tveir frambjóðendur svara Mjölni.” Því að greinin er öll, fyrst og fremst pólitískur áróður og ekki af betra taginu, þar sem bæði er farið með helber ósannindi og öðrum stað sagður hálfur sannleikur eins og nú skal sannað.

Í greininni segir orðrétt:

“Verksmiðjunum hefur aldrei staðið til boða £ 48:0:0 í tonnið af mjöli, eins og Mjölnir fullyrðir. Hið rétta er, að líkur eru fyrir að takast muni að selja nokkurn slatta af mjöli fyrir £ 47:0:0 pr. tonn, án prótein uppbótar, fob. Holland, en það þýðir að frá þessu verði þarf að draga flutningsgjald til Hollands, vátryggingu, geymslu í Hollandi og útskipun þar. Hið raunverulega fob.-verð hér miðað við 65% prótein, er því um 40 £ tonnið."

Þó sleppt sé þvættingnum í niðurlagi þessarar klausu um kostnaðinn við þessa umræddu mjöl-sölu, ef af henni yrði, þá má það furðulegt heita að láta frá sér fara fullyrðinguna í upphafi klausunnar, og þetta gera menn, sem sjálfir hafa nýlega samþykkt, á fundum í stjórn SR, að selja 2.300 tonn af síldarmjöli fyrir £ 44:16:0, miðað við 65% prótein innihald, og hlutfallslega uppbót fyrir meira próteininnihald.

Þar sem nú, að mjöl SR inniheldur yfirleitt 70-71% prótein, fer stundum jafnvel yfir 73%, en framkvæmdarstjóri hefur tjáð mér, að hann telji að meðal próteininnihald mjölsins í vetur sé uni 71%, þá er söluverð þessa mjöls um £48:18:0 eða tæp 49 £.

Mjölnir hefur því ekkert ofsagt um þetta. Það skal tekið fram, að þessi umræddu 2.300 tonn af síldarmjöli eru ekki seld í clearing viðskipti, heldur greiðast þau í pundum Miklar líkur eru til, að meira mjöl sé hægt að selja á sama markað fyrir sama verð. Er nú beðið eftir að kaupandi setji tryggingu, og getur þá afskipun þessa mjöls hafist.

Hinir tveir frambjóðendur gera að umtalsefni, ummæli Mjölnis um ákvörðun stjórnar S.R. 6. mars s.l. að hætta móttöku Hvarfjarðarsíldar. Reyna þeir að bera fram afsakanir fyrir þessari ákvörðun. Veigamestu afsökunina telja greinarhöfundar þá, að tími væri ekki nægur til að undirbúa verksmiðjuna undir sumarrekstur, hefði bræðslu á Hvalfjarðarsíld verið haldið áfram.

Þessi afsökun er þá heldur léleg, því svo lítið þarf að gera við SR'46 að vel hefði mátt hafa hana mánuð lengur í rekstri, og hafa hana þó tilbúna fyrir sumarvertíð.

Þá hyggjast greinarhöfundar að flengja Mjölni með mér og segja að ég hafi verið staddur á hinum umrædda verksmiðjustjórnarfundi og ekki greitt atkvæði um tillöguna, um að hætta móttöku síldar.

Það er rétt að ég hafi verið á þessum fundi og það er ennfremur rétt að ég hafi ekki greitt atkvæði um tillöguna, en þetta er aðeins hálfur sannleikurinn.

Greinarhöfundar sátu báðir þennan fund, báðir hlustuðu þeir á mig benda á, að varhugavert væri að ákveða stöðvun móttöku síldar. Báðir hlustuðu þeir á mig leggja

til, að ákvörðun um stöðvun móttöku yrði frestað nokkra daga, þar til séð yrði hvernig veiddist. Hvorki þeir né hinir stjórnarmeðlimirnir vildu fallast á uppástungu mína.

Hitt vita svo allir menn, að hefði orðið mikil síld, hefði verksmiðjustjórnarmeirihlutinn orðið að éta ofan í sig ákvörðunina um að hætta móttöku. Óhaggað stendur það, að það var hið mesta ábyrgðarleysi af meirihluta stjórnar SR að ákveða stöðvun móttöku 6. mars s.l., eins og sakir stóðu þá.

Ég hef nú sýnt fram á, hvernig greinarhöfundar segja aðeins hálfan sannleikann um mína afstöðu á fundinum 6. mars s.l., og að frásögn þeirra þannig er litlu betri en ósannindi, þar sem hún gefur alrangar hugmynd um hvað gerðist og á bágt með að trúa því, að þetta sé viljandi gert og kýs að leggja það þannig út, að þetta stafi af gleymsku en sjálfsagt rifjast þetta upp fyrir greinarhöfundum þegar þeir eru á það minntir og harma þá mistök sín. Skal því ekki fleiri orðum um það farið.

Greinarhöfundar fullyrða, að vetrarsíldin sé unnin með tapi. Ekki liggja ennþá fyrir reikningar yfir kostnað við vinnsluna og mjög lítið magn afurðanna er ennþá selt. Hvernig er þá hægt að fullyrða, að tap sé á vinnslunni?

Það er ekki hægt eftir öðru að fara en ágiskunum svo slíkar fullyrðingar eru beinlínis út í loftið. Miklar líkur eru til að hægt sé að selja afurðirnar úr þessari vetrarsíld það háu verði, að vinnslan beri sig.

Virðist mér það því hvatvíslegar getsakir í garð ríkisstjórnarinnar, sem hefur ótakmarkað einræðisvald í afurðasölumálum, að hún selji svo illa, að tap verði á rekstrinum. Að sjálfsögðu veit ég vel, að greinarhöfundar vildu síst sýna hvatvísi í garð núverandi ríkisstjórnar, en fullyrðingar þeirra í þessu efni eru það nú samt, þegar að er gáð.

Ég mun ekki gera þessa ritsmíð að frekara umtalsefni, en virðist augljóst, að frambjóðandinn hafi illilega bögglast fyrir brjósti greinarhöfunda, þegar þeir sömdu greinina og við það hafi löngunin til að gera lítið úr Mjölni orðið heldur meiri en þeim var hollt. Þ.G.

 Þóroddur Guðmundsson