Árið 1949 - Einkaleyfi: Páll Ólafsson

Einherji 10. maí 1949

Forstöðumaður efnarannskónastofu S.R., Páll Ólafsson, hefur fundið upp aðferð á geymslu síldar og sótt um einkaleyfi á aðferðinni.

Forstöðumaður efnarannskónastofu S.R., Páll Ólafsson, hefur fundið upp aðferð á geymslu síldar og sótt um einkaleyfi á aðferðinni.

Samkvæmt tilkynningu í nýútkomnu lögbirtingarblaði hefir forstöðumaður efnarannsóknarstofu Síldarverksmiðja ríkisins, Páll Ólafsson, sótt um einkaleyfi á aðferð, til að geyma síld, önnur sjávardýr og líffæri þeirra og vinna úr þeim lýsi og fóðurefni.

Ef hér er um að ræða framtíðarlausnina á hinu mikla vandamáli sjávarútvegsins, - geymsla hárefnisins (síldarinnar), þá eru hér á ferðinni mikil tíðindi og góð.

Eftir að fyrrnefnd auglýsing hafði birst, átti blaðið tal við Pál Ólafsson um geymsluaðferð þá er um getur og starf hans við að finna hana.

Efnafræðingurinn vildi ekkert um starf sitt tala á þessu stigi málsins og sagði að það væri tíminn og reynslan, sem skæru úr því, hvort hann væri á réttri leið. Efnafræðingurinn hefur unnið að þessum athugunum og rannsóknum undanfarin ár á efnarannsóknarstofu S.R.

Helstu aðalatriðin við geymsluna eru þau, að síldin er tætt. eða hökkuð og blönduð bensóli og öðrum skyldum efnum, en þau verja síldina skemmdum. Síldin er síðan dælt í geyma og má geyma hana þar eins lengi og með þarf, óskemmda. Geymsluefnin bensól og fleira, leysa meirihlutann af lýsinu úr síldinni við blöndunina og má vinna það lýsi um leið.

Til þess að geyma síldina þarf að blanda 5-10% af bensól í hana, en það kemur að mestu leyti til skila aftur, þegar síldin er unnin.

Er því kostnaður af geymsluefninu mjög lítill, því að auk þess sem lítið notast af því, er það ódýrt.

Síldariðnaður vor Íslendinga er nú orðinn stórfelldari og fullkomnari en hliðstæðar iðngreinar annarra þjóða. Hann hefur verið í örum vexti s.l. 20 ár.

Eitt af mestu vandamálum sjávarútvegsins, er geymsla síldarinnar. Öllum iðnaði og þá ekki síst síldariðnaðinum, er það mjög mikilvægt að eiga hráefnisforða, svo um samfellda vinnslu geti verið að ræða.

Þá er ekki síður nauðsynlegt vegna skipastólsins, að geta tekið viðstöðulaust á móti síldinni þann stutta tíma sem hún veiðist hér.

Þær síldarvertíðar eru ekki úr minni liðnar, þegar það gerðist, að setja þurfti veiðibann á flotann af því að ekki var hægt að taka viðstöðulaust á móti síld. Það er vonandi að sú vinna, sem unnin hefur verið á efnarannsóknarstofu S.R. til þess, að finna upp hina nýju aðferð, eigi eftir að verða síldarútveginum til mikils gagns.

Forstöðumaður efnarannsóknarstofu Síldarverksmiðja ríkisins, Páll Ólafsson, hefur starfað hjá S.R. síðan 1938 eða um 11 ára skeið.

Að loknu stúdentsprófi 1932 las hann lífefnafræði við Kaupmannahafnarháskóla og lauk þaðan magistersprófi 1940.

Framhaldsnám stundaði hann í Oxford og víðar. Hann hefur dvalið erlendis á vegum Síldarverksmiðja ríkisins, bæði í Bandaríkjunum og á Norðurlöndum og kynnt sér þar nýungar á sviði síldariðnaðar.

Það er fyllsta ástæða til að þakka efnafræðingnum fyrir þá miklu vinnu og fyrirhöfn sem hann hefur lagt í, við þessar rannsóknir