Árið 1948 - Þórður Þögli; samansafn pistla á árinu, í dálknum „Þórður Þögli“

01-16 Neisti 16. janúar 1948  

Þórður þögli:

Rétt fyrir jólin minntist ég á það í dálkum mínum, að þeir, sem ynnu við bræðslu, uppskipun og löndun sunnansíldarinnar, ættu réttlætiskröfu á aukaskammti af kaffi og sykri yfir síldveiðitímann.

Skoraði ég á Verkamannafélagið og bæjarstjórn að hafa forgöngu í málinu. í rúman mánuð gerðist ekkert í þessu máli fyrr en verkamenn í SR tóku málið í sínar hendur og varð það til þess, að nú fær hver sá, sem vinnur við bræðslu eða uppskipun og löndun síldarinnar aukaskammt af kaffi, sem nemur hálfum pakka á mann og 750 gr. af sykri.

Ég óska Siglfirskum húsmæðrum til hamingju, því að þeirra mikla hlutverk er að sjá um það, að skömmtunarvaran endist.

Verkamenn þeir, sem vinna við uppskipun og löndun við höfnina eiga í raun og veru alls engan samastað til þess að drekka kaffi sitt í.

Er þetta mjög bagalegt og þarf skjótrar úrbótar. Að vísu er svo kallað, að þeir, sem vinna við aflestun og lestun hafi til umráða kaffistofu í Hafnarhúsinu á bæjarbryggjunni, en kaffistofa sú er varla nema nafnið eitt, og er bæjarfélaginu til stórrar skammar.

Helst mætti líkja kaffistofu þessari við hesthús, að því undanskildu, að núorðið eru þau mörg upplýst með rafmagni, en það er kaffistofan ekki.

Það er bráðnauðsynlegt, að búið sé vel að verkamönnum þeim, sem vinna við og í skipum, sem hingað koma. Það er því áskorun mín til forráðamanna bæjarins, og þá sérstaklega hafnarnefndar, að nú þegar verði ráðin bót á þessu og verkamönnum við höfnina verði séð fyrir góðri og vistlegri kaffistofu.

Ennfremur er bráðnauðsynlegt, að skýli verði reist á Öldubrjótnum til athvarfs fyrir þá, sem þar vinna.

Ég mun fylgjast vel með því, sem gerist í þessum málum.

Sigurður Jónsson, framkvæmdastjóri við S.R. var fljótur að láta kippa baðleysinu í SR 46 í lag og eru verkamenn þar honum þakklátir fyrir. Ég hef átt þess kost á að sjá böðin og búningsherbergið í SR'46 og er það hreinasta fyrirmynd.

Enn er mörgu ábótavant i hinum verksmiðjunum i þessum málum, og er tími kominn til þess að böðum og búningsherbergjum þeim, er byggð voru uppi á vélahúsþakinu í S.R.N., verði komið sem fyrst í nothæft ástand. Vænta verkamenn þar, að þetta gerist sem fyrst.

------------------------------------------------------------

Bæjarbúi skrifar. Kæri Þórður!

Það má ekki minna vera en þeim, sem stóðu fyrir uppljómun Hvanneyrarskálarinnar á gamlaárskvöld séu færðar þakkir fyrir þetta frumlega en skemmtilega uppátæki. Það var fögur og tilkomumikil sjón, er kveikt hafði verið á blysunum, sem vörðuðu skálarbrúnina, og er flugeldarnir, sem þaðan var skotið, slógu bláfögrum blæ á hlíðina fyrir neðan.

Þessi kvöldstund var eftirminnileg. Vil ég, Þórður minn, biðja þig fyrir kveðju til þeirra, sem stóðu fyrir þessu og mæli ég þar ábyggi­lega fyrir munn bæjarbúa.

Bæjarbúi.

Verkamenn þeir, sem stóðu fyrir þessu voru aðallega úr SRN og voru undir stjórn Guðmundar Einarssonar

-------------------------------------------------------------

Neisti 1. mars 1948

Þórður Þögli

Æði langt er síðan að mér barst í hendur bréf verksmiðjumannsins, sem er mjög athyglisvert, en það hefur ekki getað birst fyrr vegna rúmleysis í blaðinu og verð ég að biðja hann afsökunar á því. Bréf verksmiðjumannsins er á þessa leið : .

Þórður minn !

Ég hefi fylgst með því, að þú tekur mörg mál til meðferðar og veitir þeim afgreiðslu í dálkum þínum. Nú er eitt mál, sem mig langar til að hreyfa og vona ég, að fleiri leggi orð í belg um það málefni: þetta er um vaktatíma verkamanna í ríkisverksmiðjunum.

Ég vil sem sé að breytt verði til, þannig að teknar verði upp 12 tíma vaktir við alla verksmiðjuvinnu í stað þeirra tveggja 6 tíma vakta, sem nú eru.

Skal ég reyna að rökstyðja mál mitt nokkru nánar, en áður en að því kemur vil ég láta þá skoðun í ljós, að ég teldi eðlilegast að aðeins væri um 8 tíma vaktir að ræða, enda hefur það verið baráttumál okkar verkamanna um langt skeið að fá viðurkenndan átta tíma vinnudag.

Hitt skal ég viðurkenna, að með jafnstuttum vinnslutíma eins og oftast er á hverju ári mun ekki hægt fyrir verkamenn að framfleyta fjölskyldum sínum með átta tíma vinnu.

Þetta var nú útúrdúr og skal ég nú koma að vaktabreytingunni. Það sem mér finnst sérstaklega mæla með vaktabreytingunni er þetta.

Verkamennirnir fá miklu lengri samfelldan tíma til hvíldar og nauðsynlegra heimilisstarfa, sem óhjákvæmilega hvíla á hverjum fjölskylduföður, sem stundar algenga verkamannavinnu.

Verkamenn þurfa ekki að skipta um klæðnað nema einu sinni á sólarhring í stað tvisvar nú. Verkamenn þurfa ekki að eyða nema hálfum þeim tíma, er þeir nú þurfa til gangs í vinnu og úr.

En allt þetta gefur verkamanninum lengri og betri tíma til hvíldar og heimilisstarfa. Ég held, að 6 tíma vaktirnar séu gömul arfleið frá þeim tíma þegar öll störf eða flest, voru miklu erfiðari en þau er nú.

En það hljóta allir að viðurkenna, að með aukinni tækni og vélanotkun hefur erfiði verkamanna minnkað. Er það ekki sambærilegt við það, sem áður var. Ég veit, að nokkrir örðugleikar kunna að skapast vegna matartíma, en ég held, að það megi lagast ef verkamenn hafa með sér smurt brauð eða kaldan mat. Ég vil að minnsta kosti heldur fá eina góða heita máltíð á sólarhring og njóta hennar, en borða tvær og njóta hvorugrar vegna þreytu.

Verksmiðjumaður.

------------------------------------------

Ég skora eindregið á verkamenn síldarverksmiðjanna að skrifa mér nokkrar línur um þessa tillögu verksmiðjumannsins, því að mínu áliti er núverandi vaktarskipting í síldarverksmiðjunum óviðunnandi.

--------------------------------------------------

Neisti 13. mars 1948

Þórður þögli

Bréf verksmiðjumannsins, er ég birti síðast í dálkum mínum hefur komið af stað miklum umræðum meðal verkamanna í SR. Það virðast flestir sammála því, að núver­andi vaktarfyrirkomulag sé óviðunnandi og þurfi að breytast. Hinsvegar eru ekki allir á eitt sáttir um það, hvort betra sé að koma á 8 eða 12 tíma vöktum.

Þeir, sem eru á móti 12 tíma vöktum benda alveg réttilega á það, að kyndarar hafa það erfitt verk með höndum, að það sé alveg nóg fyrir þá að standa í 8 tíma. En með bættum vinnuskilyrðum, svo sem með olíukyndingu í stað kola, ætti að skapast skilyrði fyrir betri vinnu. - Ennfremur eru vinnuskilyrði þorra þeirra manna, sem taka á móti mjöli í SR, það slæm að 12 tíma vaktir væru of erfiðar fyrir þá.

En þessu gætu verksmiðjurnar hæglega kippt í lag með betri útbúnaði til þess að taka á móti mjölinu, enda réttmæt krafa.

Á sumum vinnustöðvunum inni í verksmiðjum er svo mikill hiti að það væri ekki gott fyrir mennina þar að standa í 12 tíma samfleytt, en þessu gætu forráðamenn verksmiðjanna kippt í lag með því að koma þar upp betri loftræstingu, enda ber þeim skylda til þess.

Um 8 tíma vaktirnar er það að segja, að það sem verkamenn hafa helst við þær að athuga, er hinn breytilegi tími, sem menn eru að fara af vakt og koma.

Hvort vakta fyrirkomulagið verður betra fyrir verkamenn, skal ósagt látið að sinni, en ég skora á stjórn Verkamannafélagsins að taka mál þetta til umræðu í Þrótti sem fyrst og helst að láta fara fram almenna atkvæðagreiðslu um það, hvort teknar skuli upp 8 eða 12 tíma vaktir.