Árið 1949 Rauðka - Síldarverksmiðja Siglufjarðarkaupstaðar

Siglfirðingur 24. mars 1949

Afskipti Framsóknarflokksins af Rauðkumálum hafa verið með þeim eindæmum frá byrjun, að ég hélt að Einherji sæi þann kost vænstan að minnast aldrei á þessi mál, en úr því að svo er ekki, vil ég taka þetta fram:

Það er á valdi bæjarstjórnar, en alls ekki stjórnar Rauðku, hvort reikningar verksmiðjunnar eru birtir eða ekki.

Bæjarfulltrúum Siglufjarðarkaupstaðar er heimilt hvenær sem þeir óska þess, að athuga reikninga verksmiðjunnar, en mér er ekki kunnugt um að einn einasti bæjarfulltrúi, aðrir en meðlimir stjórnarinnar hafi nokkurn tíma þau 4 ár sem ég hef verið formaður þessarar stjórnar, farið þess á leit að fá að sjá þessa reikninga.

Frá því að bærinn hóf rekstur verksmiðjunnar árið 1942, mun meirihluti bæjarstjórnar hafa litið svo á, af ýmsum ástæðum, sem ég hirði ekki að rekja að sinni, að ekki bæri að birta reikningana opinberlega.

Aage Schiöth lyfsali - Ljósm. Kristfinnur

Aage Schiöth lyfsali - Ljósm. Kristfinnur

Hinsvegar hafði ég litið svo á, sem stjórnarformaður, að mér bæri skylda til að gefa almenningi kort á að fylgjast með rekstrinum í aðaldráttum. Þetta hefi ég gert á þann hátt, að ég hef á hverju hausti, að aflokinni síldarvertíð, ritað greinar um rekstursafkomuna, bæði í víðlesnu blaði Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og málgagni Sjálfstæðisflokksins hér á Siglufirði.

A. Schiöth.

Siglfirðingur 22. október 1949

Vilja kratarnir láta selja Rauðku á uppboði?

Eitt af lánum þeim sem tekið var til endurbyggingar og stækkunar Rauðku, var 500 þúsund króna lán í Sparisjóði Siglufjarðar. Þetta lán hefur verið greitt niður í 450 þúsund krónur og þurfti að ganga frá framlengingarvíxli í þessari viku. Með því að enginn bæjarstjóri er starfandi varð að halda bæjarstjórnarfund og samþykkja umboð til útgáfu á víxlinum. Skömmu eftir að fundur var settur þeyttir brunalúður og hurfu tveir fulltrúar Alþýðuflokksins af fundi um stundarsakir.

Með því að nægilega margir fulltrúar voru á fundi var gengið til atkvæða um þessa sjálfsögðu tillögu og hún samþykkt með öllum greiddum atkvæðum, nema Alþýðuflokksfulltrúans Gísla Sigurðssonar, hann sat hjá við þessa atkvæðagreiðslu.

Öllum hlýtur að vera ljóst hverja afleiðingu það hefði haft ef hinir fulltrúarnir hefðu hagað sama hátt. Víxill þessi hefði bæst við óreiðuskuldir þær sem eru og leiðin var opin, að ganga að verksmiðjunni. það er löngu vitað að margir ríkisrekstrarpostular Alþýðuflokks sem undir er að sækja um framtíð þessarar verksmiðju hafa látið það álit í ljósi, að verksmiðjan ætti hvergi heima annarsstaðar að vera en í höndum ríkisins !!

Erlendur Þorsteinsson, sem á framboðsfundinum í fyrrakvöld, hrópaði hæst um aukna þjóðnýtingu, er einn þeirra manna sem hafa barist fyrir þessu. Rúm blaðsins leyfir ekki að þessi mál verði hér rædd ýtarlegar, en þau verða tekin upp að afstöðnum alþingiskosningunum, og mun þá verða hægt að upplýsa ýmislegt um þessi mál, er bæjarbúum er ennþá hulið.