Árið 1942 - Eiga kommúnistar að leggja Síldarverksmiðjur ríkisins í rústir?

Siglfirðingur, 17. október 1942

Mikið af þeim rógi, sem “Neisti" hefur s.l. sumar haldið uppi um Síldarverksmiðjur ríkisins af skiljanlegum ástæðum, telur vesalings “Mjölnir" það upp í blaði því, sem út kom í gær. Sannast þar, að margt er líkt með skyldum.

“Mjölnir” reynir að gera fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í verksmiðjustjórninni tortryggilega og heldur því fram, að þeir standi fyrir skemmdarverkum í rekstri Síldarverksmiðja ríkisins samkvæmt skipun Ólafs Thors.

Er hér um svo viðurstyggilegan róg að ræða, að hann missir marks. Einmitt í ráðherratíð Ólafs Thors hafa Síldarverksmiðjur ríkisins verið auknar sem svarar 7.500 mála sólarhringsafköstum, þrátt fyrir heimsófrið og mikla viðskipta og flutningsörðugleika.

Eru Síldarverksmiðjur ríkisins einu verksmiðjurnar í landinu, sem aukið hafa afköst sín síðan að stríðið skall á, og má það heita einkennileg ”skemmdarstarfsemi". Enda hefur síldveiðiflotinn sótts svo eftir að skipta við ríkisverksmiðjurnar s.l. 5 ár, að einkaverksmiðjur hefur oft vantað skip til síldveiða.

Jón L Þórðarson - Ljósm. Kristfinnur

Jón L Þórðarson - Ljósm. Kristfinnur

Árin 1936 og 19337 voru kratar í meirihluta í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins. Á þeim árum byggðu þeir hina frægu nýju þró, sem betur er þekkt undir nafninu “Síbería".

Afköst verksmiðjanna voru ekkert aukin á þeim árum, ekkert aðhafst. nema “Síbería" byggð. Árið 1937 var stórtap á rekstrinum, og hrökkluðust þá kratar frá stjórn verksmiðjanna og skildu eftir því nær tóma sjóði þeirra.

Eftir að kratar létu af stjórn verksmiðjanna 1937, hafa afköst verksmiðjanna verið aukin um 10.000 mál á sólarhring, og þar að auki hefur fjárhagur verksmiðjanna batnað stórkostlega.

Sjóðeignir verksmiðjanna, ásamt afbogunum og afskriftum, voru fram til ársins 1937 og að því ári meðtöldu og eru nú sem hér segir:

Hér sjást best ,skemmdarverkin", sem unnin hafa verið hjá Síldarverksmiðjum ríkisins á undanförnum fimm árum.

Hefðu kommúnistar verið í stjórn verksmiðjanna árin 1936 og 1937, myndi ástand verksmiðjanna hafa reynst mun verra en það þó var hjá krötunum.

Róginum um Síldarverksmiðjur ríkisins, sem “Mjölnir" tekur upp eftir ,Neista", hefur nýlega verið svarað rækilega í dagblöðum í Reykjavík og víðar, og er óþarfi að fara frekar inn á það hér.

Hvers vegna skyldi “Mjölnir” alltaf í grein sinni, er hann lastar stjórn Síldarverksmiðja ríkisins fyrir allskonar sleifarlag á rekstrinum, margtyggja á því, að Thorsarafjölskyldan græði, Ólafur Thors græði o.s.frv.

Hefðu þeir ekki í stað þess alveg eins getað sagt, að Rauðka græði. Þeim hefur líklega þótt hitt heppilegra fyrir háttvísa kjósendur svona rétt fyrir kjördaginn.

Áki hefur ef til vill líka munað eftir því, að hann sem bæjarstjóri hefði stundum látið falla orð í þá átt, að verðið á bræðslusíldinni væri of hátt, og jafnvel glannalega hátt ákveðið af Síldarverksmiðjum ríkisins, og hefur formaður stjórnar Rauðku, hr. Erlendur Þorsteinsson, tekið undir þetta með honum.

Kommúnistar hafa einu sinni verið í stjórn ríkisfyrirtækis hér á Siglufirði. það var Síldareinkasalan sáluga. Vilji siglfirskir kjósendur að þeir einnig komist í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, og leggi þar allt í rúst, þá ljá þeir þeim lið sitt á kosningadaginn og kjósa Áka Jakobsson.

Vilji þeir aftur á móti, að heilbrigð þróun þessa fyrirtækis haldi áfram, og byggð verði á næsta ári ný 10.000 mála verksmiðja hér á Siglufirði, sem nú þegar er hafinn undirbúningur að, þá fylkja þeir sér um Sjálfstæðisflokkinn og kjósa Sigurð Kristjánsson.

Jón L Þórðarson