Tengt Siglufirði
Mjölnir 19. Janúar 1949
Mesta áhugamál Siglfirðinga, nú sem stendur, er það, að lýsisherzlustöðin verði byggð hér á Siglufirði og að sem fyrst verði byrjað á því verki. Bæjarstjórnin hefur einróma samþykkt áskorun í því efni. Sama er að segja um verkalýðsfélögin og öll blöðin hér, sem næstum aldrei eru sammála um neitt, virðast standa saman um þetta mál.
Manna á meðal í bænum er þetta mál mikið rætt og allir eru á einu máli, að hér sé hyggilegast að byggja verksmiðjuna frá þjóðhagslegu sjónarmiði séð, að hér myndi hún einnig bæta úr hinu tilfinnanlega vetraratvinnuleysi. Ekki ein einasta rödd, hefur látið til sín heyra hér, um að verksmiðjan væri betur komin annarstaðar. En viljinn einn fær litlu til leiðar komið. Það verður að vinna að framgangi þessa stórmáls og það ötullega.
Eins og rétt og sjálfsagt var, tók bæjarstjórn upp forustu í málinu og hefur þegar gert ráðstafanir til að semja rökstutt álit um að lýsisherzlustöðina sé skynsamlegast að byggja hér. Það er sjálfsagt mikið verk að safna öllum gögnum, sem til stuðnings mega verða í þessu máli, og sjálfsagt er því að treysta, að álitið verði vel rökstutt þegar það kemur.
En hvað gerir svo stjórn S. R. og ríkisstjórnin við hið væntanlega vel rökstudda álit? Það er hreint ekki ósennilegt, að ef til vill þurfi eitthvað meira en rökstuðninginn einan í máli þessu. Ef svo væri nú, þá kemur næst, hvað hægt væri að gera. Eins og áður er tekið fram er alger einhugur ríkjandi um þetta mál í bænum. Allir pólitísku flokkarnir í landinu eiga hér flokksdeildir. Geta nú helztu forustumenn allra flokksdeildanna hér, ekki tekið þetta mál upp við miðstjórnir og þingflokka sína og í gegn um flokksstjórnina tryggt því sigur?
Ef forustumenn flokksdeildanna hér tæku málið upp við miðstjórnir flokkanna af dugnaði og einlægum hug, er vísast að þeim yrði mikið ágengt. Þeir mættu þá gjarnan hafa í huga fordæmi, sem tveir bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gáfu hér um árið, þegar Siglfirðingar börðust, svo að segja sem einn maður, fyrir byggingu Rauðku. En þá hótuðu þeir Aage Schiöth og Jón Gíslason sem báðir voru bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins að segja sig úr flokknum og trúnaðarstöðum fyrir hann, ef flokksstjórnin gengi í berhögg við hagsmuni Siglufjarðar. Þegar flokksstjórnin gerði það, framkvæmdu þeir hótun sína.
Báðir mennirnir höfðu mikin sóma af því, að sýna með þessu, svart á hvítu, að þeir gátu verið meiri Siglfirðingar en flokksmenn. En eru ekki einhverjir af forustumönnum Sjálfstæðisflokksins á Siglufirði í dag, gæddir jafn mikilli karlmensku og umhyggju fyrir bænum sínum og þeir Jón Gíslason og Schiöth sýndu í Rauðku-málinu um árið?
Og eru ekki forustumenn hinna flokkanna það líka? Vonandi er að svo sé. Almenningur í Siglufirði ætti að fá skýr og greinileg svör um það hjá forustumönnum allra flokksdeildanna hér, hvort þeir ætli sér að taka máið upp af festu við flokksstjórnir sínar, og ennfremur hver afstaða flokksstjórnanna er og þá foringjanna hér ef flokksstjórnin ætlar, þvert ofan í rök og skynsemi, að byggja lýsisherzlustöðina utan Siglufjarðar, þar sem stofnkostnaður yrði hærri og reksturskostnaður langtum meiri.
-------------------------------------------------------------------
Siglfirðingur 20. janúar 1949
Lýsisherslustöðin og Mjölnismenn.
Leiðari “Mjölnis” í gær, lofar þá sjálfstæðismennina Aage Schiöth og Jón Gíslason fyrir þeirra starf í þágu Rauðku, og segir, að þeir hafi sýnt sig vera “meiri bæjar menn en flokksmenn”. Þetta hól er réttmætt, en væri hægt að endurtaka þau um nokkurn kommúnista ?
Því miður ekki.
“Siglfirðingur” hefur ávallt tekið ákveðna afstöðu með byggingu Lýsisherslustöðvar hér á Siglufirði og hvergi nema hér. - Sjálfstæðismenn hér hafa ekki reynst þessu hagsmunamáli lélegri málsvarar en kommúnistar.
En á hitt ber að líta, að kommúnistar eru áhrifalausir á Alþingi og þótt Áki Jakobsson hafi eitt sinn haft aðstöðu til að koma fram, áhugamálum Siglfirðinga, þá eru áhrif hans nú minni en engin og seta hans fyrir Siglfirðinga í þingsölum verri engin.
Gaspur kommúnista í þessu máli getur aldrei orðið nema gaspur eitt. Hinsvegar ber fulltrúum stjórnarflokkanna hér að beita áhrifum sínum til þess að þetta mál verði útkljáð bæjarfélaginu og þjóðfélaginu í heild í vil, þ.e. lýsisherslustöðin verði reist hér og aðeins hér!
--------------------------------------------------------------
Siglfirðingur 27. janúar 1949
Lýsisherslustöðin og ráðherratíð Áka
Hvað var gert meðan þingmaður kjördæmisins var atvinnumálaráðherra og nægur erlendur gjaldeyrir til, til að fá byggða lýsisherslustöð á Siglufirði ?
Kommúnistablaðið “Mjölnir” hefur undanfarið rætt byggingu væntanlegrar lýsisherslustöðvar og lagt áherslu á, eins og reyndar öll Siglfirsku blöðin, að heppilegast og réttlátast væri, að slík stöð yrði reist hér. -
Menn eru sammála að okkar gjaldeyrissnauða land, eigi mikið undir því komið, að flytja afurðir sínar út í verðmætustu formi. Lýsisherslustöð myndi ekki einungis verða stórt sport í rétta átt í því sambandi, heldur og auka atvinnuna, og þess er ekki síst þörf hér á Siglufirði.
Hinn mikli bægslagangur kommúnistablaða, í sambandi við þetta mál vekur fólk til umhugsunar um þeirra skerf fyrr og síðar til byggingar stöðvarinnar.
Hvað gerði hr. Áki Jakobsson, enn verandi þingmaður Siglfirðinga, meðan hans var aðstæðan og ráðherratignin til að knýja fram þetta hagsmunamál bæjarfélagsins og þjóðarinnar í heild?
Spyr sá sem ekki veit. Vitað er, að slík nýsköpun hefði verið margfalt þýðingarmeiri, en t.d. kaupin á Svíþjóðarbátunum o.fl. Hr. Áki Jakobsson, þingmaður Siglfirðinga, átti í sinni ráðherratíð að vinna ötullegast að því að lýsisherslustöð yrði reist hér, vitandi það, að hálft árið ganga verkamenn hér svo til algerlega atvinnulausir og vitandi það, að slík verksmiðja myndi stórum auka verðmæti síldarafurða, þeirra, er út eru fluttar, og vitnandi það, að slík verkamiðja væri best niðursett hér í hans eigin kjördæmi.
En hr. Áki Jakobsson, þingmaður, hefur að líkindum í vímu gjaldeyrismilljónanna, gleymt lýsisherslustöðinni - og Siglufirði.
Nú eru gjaldeyrisörðugleikar, nú hefur hr. Áki misst stöðuna og samviskuna með það að þykjast duglegustu forvígismenn þessara mála.
En litið þýðir að fást um þessa gleymsku ráðherrans, fyrrverandi Eins og komið er verðum við Siglfirðingar að treysta á samtakamátt okkar í þessu máli, og leiðandi menn stjórnarflokkanna hér, verða að gera sitt til að vinna því fylgi, að lýsisherslustöðin verði reist hér, strax og aðstæður leyfa.
Aðstaða og áhrif hr. Áka, og þingmanna kommúnista, er ekki slík í hinu háa alþingi, að nokkurs sé að vænta frá þeim þessu viðvíkjandi.
Lýsisherslustöðin er takmark, sem við Siglfirðingar verðum að vinna að af drengskap en festu, því afkoma bæjarbúa er ekki svo lítið undir því komið, að takist að auka vetraratvinnuna í bænum. -
Offors og upphrópanir eru ekki líklegar til árangurs, en ef málið er sótt með rökum og festu þá er sigurinn frekast vís.