Árið 1942 - Kommúnistar fjandskapast við ríkisverksmiðjurnar

Einherji, 20. júlí 1942

Aðalbomba kommúnista við bæjarstjórnarkosningarnar í vetur var sú, að ógna bæjarbúum með einhverjum voða, sem þeim væri búinn af "valdi'' ríkisverksmiðjanna hér í bænum.

Þóroddur sagði í einni kosningaræðunni, að ef svo hörmulega tækist til, að A-listamenn töpuðu völdum, mundi bæjarstjórnin ekki verða annað en leppstjórn, en ríkisverksmiðjustjórnin hin raunverulega stjórn bæjarins.

Hvernig slíkt mætti ske, rökstuddi hann auðvitað ekki frekar en aðrar álíka viturlegar fullyrðingar sínar. -

Áki Jakobsson gekk þó alveg sérstaklega fram fyrir skjöldu í árásunum á verksmiðjurnar.

Á fundinum, sem hann boðaði til, til þess að ræða rafmagnsmál bæjarins við bæjarfógetann, greip bann á flóttanum til þess úrræðis, að ráðast hatramlega á verksmiðjurnar og starfsmenn þeirra og sagði meðal annars, að, "þar gengi allt með því mesta sleifarlagi, sem dæmi væri til í nokkurri verksmiðju, nokkurs staðar á landinu" -- "og hugsið ykkur þann voða, ef A-listinn tapaði meirihlutaðstöðu í bænum, yrði Jón Gunnarsson tafarlaust gerður að formanni vatnsveitunefndar''.

Það var sem honum hrysi hugur við að segja berum orðum hversu skelfilegar afleiðingar slíkt athæfi mundi hafa, en helst mátti geta sér til, að vart mundi um neitt smávægilegra að ræða, en að bæjarbúar ættu þá á hættu, að farast af vatnsskorti.

Með fáráðalega sterkum litum útmáluðu þessir menn yfirleitt í ræðum sínum, að bænum stafaði einungis háski af verksmiðjunum en hvergi gagn.

Og ekki bar á öðru en að bandamenn kommúnista - jafnaðarmennirnir - legðu þegjandi blessun sína og samþykki yfir því. Hvergi biluðu þeir í samvinnunni né hreyfðu andmælum og hefði þess þó annars mátt vænta, þar sem allmargir forkólfar þeirra eru í helstu föstu trúnaðarstöðum í verksmiðjunum.

En þeir létu sér vel líka að vera sjálfum brigslað um sleifarlag í störfum og að fyrirtæki þeirra væri rógborið. Þótti slíkt bera vott um hvorutveggja: litla sjálfsvirðingu og lítinn þegnskap.

Ekki kom þó, þessi "slóra bomba" A-listanum að tilætluðum notum og ýmsum A-listamönnum hefir áreiðanlega verið ljóst, að hreifa henni ekki framar.

En viti menn! Mjölnir reynir 9. þ.m. að setja hana af stað að nýju og auðvitað eru það hinir illu, Framsóknarmenn, sem koma í veg fyrir að bærinn hafi nokkrar tekjur af verksmiðjunum!

Það má segja, að kommúnistar eru ekki þakklátir um of, svo drjúgur tekjustofn sem verksmiðjurnar hafa þú verið þeim, valdatímabil þeirra.

Fjögur undanfarin ár hafa hreinar tekjur, bæjarins af verksmiðjunum verið sem hér segir:

  • Árið 1938 kr.  91.038,33
  • ---.- 1939 kr.  80.313,25
  • ----. 1940 kr. 111.071,90
  • ---- .1941 kr.  85.664,80

Alls kr. 372.088.26. eða tæpar 100 þúsund kr. ári. þar af er stærsti liðurinn viðskiptagjaldið, sem löggilt var fyrir forgöngu Framsóknarmanna, rétt áður en Áki Jakobsson tók hér við bæjarstjórn.

Framsóknarmenn vildu auk þess heldur að það væri hærra en það varð, en komu því ekki fram vegna andstöðu annarra flokka í undirbúningsnefnd verksmiðjulagabreytinganna 1938 og á þingi.

En sú saga, hefir áður verið rakin hér í blaðinu, en auðvelt er að rifja hana upp hvenær sem er með tilvitnunum í þingtíðindi og gerðabækur.