Árið 1946 - Tillögur Jóns Kjartanssonar - Athyglisverðar tillögur

Einherji 22. júní 1946

Þegar Jón Kjartansson létt af störfum sem verkstjóri hjá Síldarverksmiðjum ríkisins árið 1943, ritaði hann stjórn verksmiðjanna bréf hvar í fólust, ásamt árnaðaróskum til fyrirtækisins, merkar tillögur, sem haft gætu batnandi áhrif á hag og aðstöðu starfsmanna síldarverksmiðjanna.

Með því að Einherja var kunnugt um þessar tillögur, fór blaðið fram á það við Jón Kjartansson að birta afrit af þessu bréf í og fer það hér á eftir

Siglufirði í des 1943

Stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, SIGLUFIRÐI.

Eins og hinni heiðruðu verksmiðjustjórn er kunnugt sagði ég upp starfi mínu í verksmiðjunum í haust frá næstu áramótum að telja.

Jón Kjartansson -Ljósm. Kristfinnur

Jón Kjartansson -Ljósm. Kristfinnur

Ég hefi nú starfað þar frá 1931, fyrst sem sendill og síðar sem verkstjóri. Það getur ekki hjá því farið, að á svo löngum og breytilegum starfsferli við sama fyrirtækið festist athyglin við ýmislegt, sem betur mætti fara og breytinga þyrfti við, og mikil hefir líka þróunin verið á þessum tíma.

Hver sá verkstjóri, sem vill hag fyrirtækisins, sem hann vinnur við og metur hina miklu þýðingu þess, að allir starfsmennirnir vilji hann líka og gangi því glaðir og áhugasamir til vinnu, verður að gera sér far um að skilja hvað helst megi til þess verða að vekja þann samhug og velvilja verkamannanna, sem fyrirtækinu er nauðsynlegt. Þeir þurfa að finna að stjórn og yfirmenn líti á sjálfa sig, verkamennina og fyrirtækið sem eina heild með sameiginlega hagsmuni.

Til allra starfsmanna, verkamanna jafnt sem stjórnar og yfirmanna, er sjálfsagt að gera strangar kröfur um skyldurækni í störfum og umhyggju fyrir hag fyrirtækisins, en þá þurfa verkamennirnir einnig að finna, að þeirra hagur sé ekki fyrir borð borinn að neinu leyti, og að þeim andi hlýju og umhyggju í smáatriðum, sem oft eru meira metin, en það, sem í augnablikinu kann að sýnast stærra. Það er á þessum grundvelli, sem ég vil leyfa mér að bera fram við verksmiðjustjórnina nokkrar tillögur til velviljaðrar athugunar. Ég hefi að vísu á undanförnum árum rætt flestar þeirra við framkvæmdastjóra Jón Gunnarsson og formann verksmiðjustjórnar, Þormóð Eyjólfsson, er báðir hafa tekið máli mínu vel.

Úr framkvæmdum hefir þó orðið minna en skyldi, og veit ég, að þar mun mestu um valda, að mest allur sá starfskraftur, sem verksmiðjurnar hafa haft ráð á vorin og sumrin hefir þurft að nota til stækkunar og breytingar á verksmiðjum, bryggjum og þróm.

Það skal tekið fram, að það er í samráði við formann verksmiðjustjórnar, að ég legg þessar tillögur skriflega fram, en þær eru í aðalatriðum þessar:

Horfið verði að því hið fyrsta að byggja við inngang verksmiðjulóðarinnar byggingu, þar sem í verði herbergi fyrir verkamennina til að hafa fataskipti, er þeir koma í eða fara úr vinnu; hverjir 4 eða 5 menn verði saman um klefa, hvar í verði handlaug og sturtur og fataskápar.

Öllum er ljóst, sem til þekkja verksmiðjuvinnu, að hún er óþokkaleg og verður stundum daunn af verkamönnum, er þeir koma af vinnustað og halda heim. Þetta leiðir til þess, að heimili þeirra gjalda þessa og slæmt loft verður í híbýlum.

Þetta eykur á óánægju meðal heimilismanna, og hefir áhrif á bæjarbraginn, þó í smáum stíl sé. Komist í framkvæmd þessi uppástunga mín, geta verkamennirnir, er þeir koma til vinnu, komið þokkalega klæddir, lokað sín hreinu föt inni í aflæstum klæðaskáp, íklæðst verksmiðjufötunum, baðað sig og klæðst hreinum fötum.

Við þetta skapast þrennt. Verksmiðjan eignast hreinlegri og ánægðari verkamenn. Verksmiðjumannaheimilin fá á sig nýjan blæ, og vera kann, að önnur atvinnufyrirtæki í bænum taki upp líkan sið og hefði þessi nýbreytni þá einnig áhrif á bæjarbrag almennt.

Önnur uppástunga mín varðar hina yngstu starfsmenn fyrirtækisins, og fjallar um líkamsrækt og fræðslustarfsemi. Á s.l. sumri var verksmiðjumönnum gefin kostur á að iðka sund ókeypis, tvisvar í viku í Sundlaug Siglufjarðar.

Því miður var þátttaka ekki almenn, aðeins 20 af starfsmönnunum notuðu sér þetta, en þessir menn voru mjög þakklátir, ekki vegna þess, að þeim með þessu væri sparaður útgjaldaliður, heldur þökkuðu þeir þá velvild, sem á bak við þessa ákvörðun lá, og auk þess var það þeim hentugt að hafa tryggingu fyrir að komast í sund á vissum tímum.

Í trausti þess, að verksmiðjumenn hagnýti sér þetta betur næsta sumar, mælist ég til, að þessu verði haldið áfram. Í kjölfar þessara sundiðkana hefir mér dottið í hug, að verksmiðjurnar biðu þeim verksmiðjumönnum, er vildu að njóta tilsagnar í fimleikum á vetrum, t.d. tvisvar í viku.

Takist að skapa þessa umræddu æfingatíma í sundi og íþróttum, á sumrin og veturna og þátttakan verði almenn meðal ungra starfsmanna verksmiðjanna, sem skipta tugum, tel ég, að báðir aðiljar, verksmiðjurnar og verkamenn hagnist nokkuð.

Verksmiðjurnar eignast hraustari og ánægðari starfskrafta, og þetta eykur líkamlega og andlega hreysti verkamannanna.

Ekki væri óhugsandi, er stundir líða, að koma í framkvæmd fræðsluhringum fyrir starfsmenn S.R., þar sem þeim væri kennd meðferð hinna ýmsu véla t.d. fræddir um skilvindur, o.s.frv.

Einnig ætti þá að flytja fyrirlestra um verksmiðjuiðuiðnað, þýðingu vöruvöndunar o.fl. Ég læt hér staðar numið varðandi þennan lið, en vel gæti ég trúað, að vel yrði þegin slík fræðslustarfsemi, og því betur, sem hún væri víðtækari.

Óhjákvæmilegt er, að ríkisverksmiðjurnar taki á næstu árum afstöðu til vinnugetu gamalla starfsmanna verksmiðjanna.

Á ég þar við, að þar sem innan fárra ára verði margir verkamannanna á sjötugsaldri og þar yfir, hljóta verksmiðjurnar að ráða það við sig, hvort þessir menn skulu vinna til dauðadags eða þeim sagt upp við visst aldursskeið.

Til þessa dags hefir fyrri reglan gilt. Ég tel þó að hún sé frá sjónarmiði verkamannanna skárri, þá sé hvort tveggja slæmt án frekara skipulags um ellitryggingar. Það er illt fyrir fyrirtæki að hafa mikið af öldruðum mönnum, t.d. á áttræðisaldri, en við slíku má búast hjá stóru fyrirtæki eins og S.R. innan fárra ára. Það er öllum ljóst, að slíkir menn, þrátt fyrir virðingarverðan vilja, geta ekki skilað fullum afköstum. Það særir þá sjálfa sú meðvitund, en neyðin og öryggisleysið um afkomuna rekur þá áfram.

Því fleiri gamla menn sem fyrirtækið hefur, því fleiri fullvinnandi menn þarf að ráða í viðbót svo að vinnuafköst haldist. Við þetta skapast aukinn starfsmannafjöldi og aukin útgjöld. Með tilliti til framangreinds vildi ég benda á, hvort ekki væri athugandi um stofnun ellitryggingarsjóðs við verksmiðjurnar, þar sem verksmiðjurnar í góðærum legðu fram fjárupphæð í sjóðinn, en verkamenn þeir, sem tryggingar vildu verða aðnjótandi, legðu fram vissar prósentur af tekjum sínum á ári. Þeir einir, sem í sjóðinn legðu, yrðu tryggingar aðnjótandi, öllum yrði gefinn kostur á að velja og hafna.

Færi verkamaður frá fyrirtækinu, gæti hann fengið greidda þá upphæð, er hann hafði greitt í sjóðinn. Síðan yrði ákveðið aldurshámark allra verkamanna og þeir notið hvíldar síðustu ár ævinnar með styrk úr sjóð þessum og þeim ellitryggingum, sem þjóðfélagið lætur af mörkum á hverjum tíma.

Óheppilegt væri þó að láta þetta umtalaða aldurshámark ná til þeirra manna, sem þegar eru orðnir gráir fyrir hærum, því enginn sjóður er til taks. Það, sem ég á við, er, að vinnukaupandi og vinnuseljandi byggi upp þetta fyrirkomulag og þegar það er reiðubúið að úthluta styrkjum, þá komi aldurstakmarkið til framkvæmda.

Eitt af því, sem er mikill Þrándur í götu hér í Siglufirði, er skortur á vetraratvinnu. Þá sjaldan að þurft hefir að taka menn í vinnu til S.R. á haustin og veturna, koma ótal fyrir einn og vilja fá vinnu.

Vinnuskipting verður erfið og eðlilegt að vinnukaupandi vilji taka duglegustu mennina. Við þetta skapast megn óánægja og stundum illt skraf.

Væru ekki möguleikar á því, að verksmiðjurnar, sem stærsti atvinnuveitandi í bænum stuðlaði að því að þessir menn tækju sér fyrir hendur sjálfstæða atvinnu á veturna, t.d. við sjósókn.

Mér er ljóst, að framkvæmdastjóri hefir í fjölmenni, þar sem verksmiðjumenn hafa verið samankomnir, einmitt bent þeim á þessar leiðir, og stutt þá er það hafa viljað með útvegun á viðleguplássi. Hefir þetta því miður ekki orðið almennt, en þó er það trú mín, að þar sem fjöldi þessara manna eiga trillur, mundi áhugi þeirra smá saman vakna, ef þeir fengju leigt pláss fyrir beitingu og annað varðandi útgerðina, aðstoð með innkaup á salti (ef með þarf) og olíu, og fylgst með hagkvæmustu sölumöguleikum fyrir þá.

Að lokum vil ég benda á það, að í ár komu til framkvæmda ný lög um orlof verkamönnum til handa. Andi laganna er sá, að verkamenn geti eytt nokkru fé í ferðalög, og geti með þessum tekjuauka víkkað sjóndeildarhringinn.

Ég teldi mjög heppilegt, að fyrirtæki sem S.R. skipulegði á vorin eða haustin, hópferðir um landið til ánægju og kynningar fyrir starfsmenn sína.

Hér á ég ekki við, að verksmiðjurnar fari að leggja fé út, heldur aðeins sjái um, að það fé, sem greitt er í fyrrgreindum tilgangi verði notað sem lög standa til. Frjálst val yrði vissulega meðal verkamanna um þátttöku í ferðum þessum, en ég er viss um, að þeir yrðu fæstir sem af þessum ferðum vildu missa.

Keppt yrði að því að heimsækja sögulega staði og ríka af náttúrufegurð. Með þessum framkvæmdum yrði girt fyrir það að nokkru, að orlofsféð yrði eyðslufé hér i bænum.

Kostnaðarlaust gætu þannig verksmiðjurnar stuðlað að ánægjulegum ferðalögum starfsmanna sinna og endurheimt þá mun glaðari og árvakrari, en þeir voru, er þeir lögðu upp í ferðalagið.

Vel má vera, að verksmiðjustjórn finnist hér mikið sagt og margt draumórakennt, en það sem hér er sagt, er ritað eingöngu af velvilja til þess fyrirtækis, sem ég hefi lengi starfað við og fengið að nokkru leyti mitt uppeldi hjá. Það er einnig fram komið vegna þess vinarþels, sem ég ber til verkamanna verksmiðjanna, sem ég hef svo lengi starfað með.

Síðan ég varð verkstjóri hef ég reynt í starfi mínu að skilja kröfur bæði yfirmanna minna og undirmanna og reynt eftir fremsta megni að efla samhug þeirra. Það er í framhaldi af þessari viðleitni minni, að þetta bréf er til orðið.

Ég kveð yður svo með virðingu og þakklæti, og vona, að þeir mörgu glæsilegu draumar, sem tengdir voru við þetta fyrirtæki, er það var stofnað 1930, megi allir rætast.

Virðingarfyllst

Jón Kjartansson
-------------------------------

Bréfið ber glöggt merki þess skilnings og vinnuþels til verkamannanna, sem jafnan gætti svo mjög í fari Jóns Kjartanssonar meðan hann var verkstjóri S.R. En tillögurnar eru ekki einhliða, ekki einvörðungu miðaðar við hag vinnuþiggjanda, heldur gagnkvæman hag beggja aðila. -

Það er sárt til þess að vita, að ekkert af þessum ábendingum Jóns, sem í 13 ár vann hjá S.R. og er því gagnkunnugur þeim málum, er hann drepur þarna á, skuli hafa verið tekið til greina.

ÞAÐ ER RÉTT AÐ BENDA VERKAMÖNNUM Á, AÐ ÞESSAR TILLÖGUR JÓNS ERU EKKI TIL ORÐNAR Í NEINUM KOSNINGAHITA, HELDUR ERU ÞÆR SETTAR FRAM FYRIR ÞREMUR ÁRUM AF MANNI, SEM VILDI VERKAMÖNNUM, OG ÞVÍ FYRIRTÆKI, ER HANN VANN HJÁ, ALLT HIÐ BESTA.

Það er trú Einherja, að margur verkamaðurinn muni eftir lestur þessara tillagna Jóns, spyrja sjálfan sig, mundi ekki Jón líklegur til að vinna málum verkamanna lið ef hann hefði aðstöðu til. Því geta verkamenn best svarað 30. júní nk.