Árið 1943 - Saklaus drengur !

Neisti, 18. september 1943

Saklausi, góði drengurinn

Í 28. tölublaði Mjölnis harmar Þóroddur mjög vonsku þeirra manna, sem í Neista skrifa, að vera að kenna honum Þóroddi, góða dregnum, sannsögla og hrekklausa um mistök og rangar aðferðir til þess að fá fram réttmætar kröfur kyndaranna.

Ég gerði ekkert í þessu segir Þóroddur. Bara framkvæmdi það sem mér var skipað. Það var stjórn Þróttar og trúnaðarmannaráð (þar á meðal Alþýðuflokksmenn, Kristján Sigurðsson og Gunnlaugur Hjálmarsson) sem létu mig framkvæma þetta.

Mesta sakleysisgríman fellur þó, þegar hann sjálfur leiðir rökin fram í dagsljósið.

Bréf Þóroddar var skrifað 27. júlí, en það er ekki fyrr en 5. júlí, að haldinn er fundur í trúnaðarmannaráði um kröfur í nefndu bréfi. Þóroddur eða félagar hans vildu kannski upplýsa hvenær var boðað til stjórnarfundar til þess að samþykkja bréfið frá 27. júlí. Þóroddur getur aldrei komist fram hjá þeirri staðreynd, að það var hann og enginn annar, sem átti frumkvæðið að því, að horfið var frá upprunalegum kröfum kyndaranna um kaup til þeirra samkvæmt samningum verksmiðjunnar. þ.e. 50 og 100 prósent álag á dagkaup þeirra samkvæmt mánaðarkaupi. Jafnvel þó að stjórn og trúnaðarmannaráð Þróttar hafi lagt blessun sina yfir bréfið og framkomu hans, breytir það engu hér um.

Þá hefur Þóroddur tekið að sér að verja framkvæmdastjóra Jón Gunnarsson og hans sök í málinu. Kallar hann skrif Neista þar um "æsingaskrif og hlægilega fjarstæðu". Þessi ummæli Þóroddar lætur Neisti sér í léttu rúmi liggja og óskar framkvæmdastjóranum til hamingju með málsvarann.

Má vera að sækist sér um líkir. Almannamál mun hitt, að í umræddri grein hafi einungis verið skýrt frá staðreyndum eins og þær voru, hispurslaust og blátt áfram. Þóroddur hefur aldrei virt sannleikann um of svo að ekki var við öðru að búast.

Þó að hann af skiljanlegum flokkslegum ástæðum vilji ekki móðga Jón Gunnarsson, en kjósi heldur að leika hlutverk styrkþegans, mætti hann þó athuga eftirfarandi staðreyndir: Jón Gunnarsson en ekki verksmiðjustjórnin ræður alla verkamenn verksmiðjunnar.

Framkvæmdastjórinn en ekki verksmiðjustjórnin fyrirskipaði að greiða kyndurum það eftirvinnukaup, sem þeim var greitt og sinnti að engu kvörtunum þeirra, það var upplýst, að verksmiðjustjórnin vissi ekkert um óánægju kyndaranna fyrr en 27. júlí og heldur ekki um kvartanir þeirra og að hún þá bauð að greiða samkvæmt kröfu þeirra.

Þess vegna er það ósannindi, að verksmiðjustjórnin hafi staðið fyrir þessum árásum á kjör kyndaranna. Hinsvegar er Það sök verksmiðjustjórnarinnar að hafa ekki strax gripið í taumana og tekið fram fyrir hendur framkvæmdastjórans í þessari ósvinnu, þegar er hún varð hennar vör.

Enginn skyldi nefna snöru í hengds manns húsi. Þess vegna er það furðu bíræfið af Þóroddi að um fyrirlitningu í garð Finns Jónsonar vegna afskipta hans af umræddri deilu.

Finnur Jónsson vildi að kyndararnir færu löglega leið til þess að fá kröfur sinar fram. það vildi Þóroddur líka. Finnur Jónsson fór ekkert dult með þessa skoðun sína og tjáði kyndurum, að hann teldi það varhugavert fyrir félagssamtök verkamanna, að smá skæruhernaðinum yrði haldið áfarm.

Þóroddur hefur síðar lýst yfir hinu sama, en hann gætti þess vandlega, meðan deilan stóð yfir, að láta þessa skoðun sína ekki koma fram.

Til þessa hefur sá þótt vinur, er til vamms segir, en ekki hinn sem talar blítt í eyru allra en hyggur þeim mun flárra.

Neista kemur það ekki á óvart, þó að hóroddur Guðmundsson og Mjölnir gerist málsvarar framkvæmdastjórans. Allt frá því núverandi framkvæmdastjóri var ráðinn að nýju við verksmiðjurnar hefur Mjölnir á allan hátt varast að átelja hann í þeim deilum, sem orðið hafa milli verksmiðjanna og annarra aðila í bænum, og sem blaðið hefur oftast tekið aðstöðu til á móti verksmiðjunum.

Nú er það vitað, að ráðning hans var með þeim hætti, að honum voru veitt meiri völd en fyrrverandi framkvæmdastjórum, og mikið af því valdi, sem áður var í höndum verksmiðjustjórnar.

Ýmsir árekstrar hljóta því að verða, þeim mun meiri hans sök, sem framkvæmdavaldið færist meir í hans hendur. Hinsvegar hafa kommúnistar réttilega litið framkvæmdastjórann sem ágætan og öruggan liðsmann á réttum stað, mann sem ekki mætti þaðan missa, enda hafa þeir, a.m.k. í baráttu sinni við að knésetja Alþýðuflokkinn, notið öruggs liðsinnis, sem tæplega hefir verið betur af hendi leyst Þótt framkvæmdastjórinn hefði að nafninu til verið flokksbundinn kommúnisti.

Þegar litið er á þessar staðreyndir, er það enginn tilviljun, að Þóroddur setur upp saklausa andlitið, þegar hann vill verja gerðir sínar og framkvæmdastjórans í kyndaradeilunni svokölluðu.