Árið 1945- Rauðka 2 - Rauðku-úrskurður félagsmálaráðherra

Einherji 25. apríl 1945

Félagsmálaráðherra sendi hinn 17. apríl, eftirfarandi bréf til bæjarstjórans á Siglufirði:

Til bæjarstjórans á Siglufirði.

Með símskeyti, dags. 5. apríl 1945, hafa fjórir bæjarfulltrúar í bæjarstjórn Siglufjarðar kært yfir því, að 4. s.m. hafi verið kosinn forseti og varaforseti bæjarstjórnar Siglufjarðarkaupstaðar, án þess að leitað væri afbrigða frá fundarsköpun, svo og ýmsar nefndir, sem bæjarstjórn kýs og kjósa átti í febrúarmánuði.

Telja þeir kosningar þessar hafa verið ólöglegar af þeim ástæðum. Þá hafa kærendurnir sérstaklega mótmælt kosningu í stjórn síldarverksmiðjunnar Rauðku, sem er eign Siglufjarðarkaupstaðar, en þessi kosning fór fram á sama fundi bæjarstjórnarinnar. Verður þetta atriði rætt síðar í þessu bréfi.

Það er upplýst í þessu máli, að bæjarstjórnarfundurinn 4. þ.m. hefur verið boðaður á réttan hátt og í tæka tíð. Kosningar þær innan bæjarstjórnarinnar, sem fram fóru á fundinum, áttu að fara fram í febrúar, en höfðu dregist, að því er talið er, vegna fjarveru bæjarfulltrúa þangað til á fundinum 4. þ.m.

Í fundarboðinu var gjört ráð fyrir, að þessar kosningar færu fram á umræddum fundi og mátti það vera öllum bæjarfulltrúum ljóst, að ekki var rétt að láta þessar kosningar tefjast lengur. Það hefði því verið með öllu ástæðulaust að neita um afbrigði til þess að þær færu fram á fundinum.

Ráðuneytið telur því rétt, að téðar kosningar forseta og fastra nefnda, sem getið var í fundarboðinu svo og aðrar kosningar sem samkomulag hefur orðið um, standi óhaggaðar.

Um kosninguna í stjórn síldarverksmiðjunnar Rauðku, skal tekið fram, það sem hér fer á eftir:

Í fundarboði til bæjarstjórnarfundarins 4. apríl er á dagskrá, kosning forseta og fastra nefnda. Stjórn verksmiðjunnar er í samþykktinni um stjórn bæjarmála í Siglufjarðarkaupstað ekki talin til fastra nefnda, og bar því tvímælalaust að setja í fundarboðið að á dagskrá fundarins yrði kosning verksmiðjustjórnarinnar, ef rétt hefði verið að láta þá kosningu fara fram.

Þetta hefur ekki verið gjört, og er því kosning hennar á þessum fundi þegar af þessari ástæðu ógild, þar sem henni hefur verið mótmælt og afbrigða frá fundarsköpum ekki verið leitað.

Um kosningu þá, sem fram fór á stjórn síldarverksmiðjunnar Rauðku 17. janúar þ.á. skal það tekið fram, sem hér segir:

Með þingsályktun, dags. 24. nóvember 1944 var ríkisstjórninni heimilað að ábyrgjast allt að 1½ miljón króna gegn 3. veðrétti í síldarverksmiðjunni Rauðku og það gjört að skilyrði, að stjórn hennar yrði, auk fulltrúa ríkisstjórnarinnar, skipuð mönnum, kosnum hlutfallskosningu af bæjarstjórn Siglufjarðar.

Til þess, að unnt væri að koma verksmiðjunni upp, varð að fá þetta lán og varð því að kjósa stjórn hennar hlutfallskosningu eins og til var skilið, ef lánið átti að fást, en um það mun ekki hafa verið að ræða án ábyrgðar ríkissjóðs.

Var bæjarstjórninni þetta ljóst, svo sem sjá má af fundargerð hennar 29. desember f.á., en stjórn verksmiðjunnar þurfti að taka 2 milljóna kr. lán í janúar og var mjög eðlilegt, og í rauninni sjálfsagt, að skipa henni nýja stjórn í þeim mánuði svo sem fyrir var mælt í reglugerðum hennar, sem bæjarstjórn samþykkti 26. júní 1944 og ráðuneytið staðfesti 6. júlí sama ár eftir ósk bæjarstjórnarinnar.

Eftir þeirri reglugerð var þó ekki hægt að fara um tilnefningu manna í bæjarstjórn á stjórnarmönnum, vegna skilyrðis téðrar þingsályktunar 24. nóvember f.á. um hlutfallskosningu. Varð því úr, að bæjarstjórn kaus stjórn verksmiðjunnar hlutfallskosningu á fundinum 17. janúar þ.á., en til þess að leggja frekari áherslu á það, að skilyrðum þingsályktunarinnar væri framfylgt, samþykkti bæjarstjórn áður breytingu í þessa átt á reglugerð Rauðku.

Kosning verksmiðjustjórnarinnar fór fram með atkvæðum allra bæjarstjórnarmanna á löglegum fundi, og á þann hátt sem til var skilið í þingsályktuninni, samber 31. grein laga nr. 81/1936.

Hvort sem sú kosning telst hafa farið fram eftir reglugerðinni frá 26. júní 1944 með þeirri óhjákvæmilegu breytingu, sem leiddi af téðri þingsályktun, eða reglugerðinni 17. janúar 1945, sem ráðuneytið staðfesti 7. febrúar þ.á. samkvæmt ósk bæjarstjórnarinnar, verður ekki séð að bæjarstjórn hafi verið óheimilt að kjósa síldarverksmiðjustjórnina 17. janúar, eins og gjört var.

Ráðuneytið sér því eftir atvikum ekki ástæðu til að hafa að engu einróma samþykktir bæjarstjórnarinnar á fundinum 17. janúar þ.á. með því einnig, að engin mótmæli komu fram þá á fundinum, og eigi fyrr en 4. apríl.

Samkvæmt því, sem að framan segir, úrskurðast því:

Kosningar forseta og fastra nefnda bæjarstjórnar Siglufjarðar sem fram fóru á bæjarstjórnarfundi 4. þ.m., svo og aðrar kosningar, sem fram fóru á fundinum og samkomulag hefur orðið um, skulu standa óhaggaðar.

Úrskurður forseta bæjarstjórnar um kosningu á stjórn síldarverksmiðjunnar Rauðku, sem fram fór á fundinum, er úr gildi felldur svo og kosning sú á síldarverksmiðjustjórninni, sem fram fór á þeim fundi.

Ráðuneytið sér eftir atvikum ekki ástæðu til að fella úr gildi kosningu þá, sem fram fór á stjórn verksmiðjunnar á bæjarstjórnarfundi 17. janúar þ.á.

Þetta gefst yður hér með, herra bæjarstjóri, til vitundar til birtingar fyrir bæjarstjórninni.