Árið 1942 - Missögn leiðrétt - Erlendur Þorsteinsson

Neisti, 24. janúar 1942

A framboðsfundi s.l. þriðjudag minntist Óli Hertervig bæjarfulltrúi á lýsissölu verksmiðjunnar "Rauðku" 1938, þar sem mjög rangt var sagt frá því máli.

Taldi Hertervig sig einan hafa framkvæmt lýsissöluna og fór mörgum orðum um dugnað sinn í sambandi við það mál.

Ég geri tæplega ráð fyrir að nokkur maður sé svo grunnhygginn; að hann ætli sér þá dul, að ljúga upp á sig ágætum á kostnað meðstarfsmanna sinna, þar sem vitað er - eins og í þessu máli - að gögn eru fyrir hendi, sem sýna hið rétta í málinu.

Þykir mér líklegra, að Hertervig hafi hér misminnt og ekki hirt um að gæta að því, hvað rétt væri.

Til þess að taka af allan vafa um þessi efni, birtast hér með afrit af tveimur fundargerðum verksmiðjustjórnar "Rauðku".

Erlendur Þorsteinsson. Lósmynd: Kristfinnur

Erlendur Þorsteinsson. Lósmynd: Kristfinnur

Ár 1938, fimmtudaginn 22. september, hélt stjórn síldarverksmiðjunnar "Rauðku" fund á skrifstofu firmans.

Mættir voru Erlendur Þorsteinsson formaður, Sveinn Þorsteinsson og Ole Hertervig.

Ennfremur mætti á fundinum verksmiðjustjóri Snorri Stefánsson, Óskar Jónsson gjaldkeri og Áki Jakobsson bæjarstjóri.

Fyrir tekið:

Formaður skýrði frá því, að skilaboð hefðu komið frá Midnatsol, að Midnatsol teldi gegnumfæranlegt boð í síldarolíuframleiðsluna fyrir £ 12-0-0 cif. mínus 2% umboðslaun og 2/6 d. disconto.

Ennfremur að 25% af andvirði vörunnar væri í Íslenskum gjaldeyri.

Jafnframt skýrði formaður frá því, að firmað H.Ben.& Co. Reykjavík hefði hringt til Aarhus Oliemöllefabrikker og taldi firmað ekki óhugsandi, að hægt væri að kaupa 800-1000 tonns til afskipunar síðar.

Ætlaði forstjóri firmans H.Ben.& Co. að síma út til Aarhus og óska eftir tilboði í síldarolíuframleiðslu "Rauðku". Samþykkt var, að bíða með að taka ákvörðun um sölu á olíunni, þar til fregnir koma frá H.Ben. & Co.

Fleira ekki fyrir tekið.

Fundi slitið.

Erlendur Þorsteinsson (sign.)

Óli Hertervig (sign.)

Sveinn Þorsteinsson (sign.)

**********************

Ár 1938, fimmtudaginn 29. september hélt stjórn "Rauðku" fund.

Fyrir tekið:

Sala á síldarolíu.

Tilboð lá fyrir frá Bernhard Petersen Reykjavík í símskeyti svohljóðandi:

"urgent rauðka Siglufirði aarhus samþykkir £12-0-0 pr. 1016 kg. cif aarhus basis 3 prc maximum 6 prc fa 5 shillings afsláttur per prosent yfir 3 prc oktober afskipun kaupandi stríðsvátryggir sjálfur hraðsvar. bernhardo."

Þetta símskeyti var borið undir E.Þ. og Sv.Þ., sem staddir voru á Akureyri. Svohljóðandi svarskeyti kom frá þeim :

samþykkjum tilboð aarhus £ 12-0-0 tonn 1016 kg basis 3 prc max 6 prc. 5 sh. fyrir procent magn allt eitt lýsi tvö ef hægt er sama basis kaupandi stríðsvátryggi sinn kostnað stop leggjum til ingvari fastboðið soya 22 sh. tonn lestunarlími 60 stundir.

Erlendur Þorsteinsson

Sveinn Þorsteinsson

------------------

Óskar Jónsson, Snorri Stefánsson, Aki Jakobsson og Ó. Hertervig ræddu framkomin skeyti og samþykktu að senda eftirfarandi símskeyti:

Bernhardo Reykjavik. "samþykkjum sölu tilt aarhus 750/800 smálestir síldarolía fyrir £12-0-0 pr. 1016 kg. cif aarhus basis 3 prc mas 6 prc oktoherafskipun." rauðka.

------------------------

Ennfremur komu sömu menn sér saman um að festa tankskip fyrir 25 sh. per tonn frá skipamiðlun Faaberg & Jakobsson Reykjavík.

Enda mæli bankastjóri h.f. Útvegsbankans Reykjavík mjög eindregið með því, að þetta skip væri tekið.

Afskipun í byrjun október.

Ó.H. átti viðtöl við, E.Þ. pt. Grenivík og tjáði hann sig samþykkan þessu.

Fleira ekki fyrirtekið.

Upplesið. Fundi slitið.

Ó. Hertervig (sign.)

Snorri Stefánsson (sign.)

Áki Jakobsson (sign.)

Óskar Jónsson (sign.)

Að framanrituðum fundargerðum er augljóst hvernig í þessu liggur. Tilboð í síldarolíuna er útvegað 7 dögum áður en það er samþykkt ekki af Ó.Hertervig, heldur mér og meirihluta stjórnarinnar.

Samþykki okkar Sveins liggur fyrir áður en Hertervig tekur afstöðu til málsins.

Það sem hann talar um við mig er ekki olíusalan, heldur leigan á skipinu undir olíuna, en það vildum við Sveinn láta leigja af Ingvari Guðjónssyni fyrir 3 shillingum minna pr. tonn.

Hinsvegar gengum við inn á að leigja umrætt skip, sérstaklega vegna eftirgangsmuna bankans, sem þótti þetta tryggara.

Síldarolíusöluna þarf Ó.Hertervig ekki að þakka sér, hann gerði ekki annað en samþykkja gerðir okkar Sveins, sem samkvæmt samþykktum bæjarstjórnar vegna aðgerða Schiöths var bindandi fyrir verksmiðjuna.

Siglufirði, 22. janúar 1942.

Erlendur Þorsteinsson.