Tunnuverksmiðjan á Siglufirði brann til kaldra kola í nótt

Vísir 9. janúar 1964

Tjónið metið á marga tugi milljóna króna.

Siglufirði í morgun. Tugmilljóna króna tjón varð af eldsvoða á Siglufirði í nótt, er tunnuverksmiðja ríkisins brann til kaldra kola með öllum vélum og öllu efni, sem í húsinu var geymt, en verðmæti efnis og véla út af fyrir sig er talið nema tugmilljónum króna. Húsið sjálft var hið mesta stórhýsi, 2000 fermetrar að stærð með tveimur vinnuhæðum, auk mikils rispláss. Það var járnklætt stálgrindahús, en nú er þar rúst eins og járnhrúga.

Hvergi sér heillega tægju eftir af einu eða neinu, hinir þykkustu járnbitar bráðnaðir og orðnir að engu og vélarnar orðnar að rusli. Allt timbur verksmiðjunnar var geymt þarna inni, auk véla. Ennfremur geymdi Síldarútvegs nefnd þar birgðir af síldarkryddi og síldarsykri sem ætlaðar voru til næsta sumars.

Aftur á móti eyðilögðust ekki neinar birgðir af tunnum nema þær sem smíðaðar voru í gær, sennilega 200-300 talsins. Tunnurnar eru yfirleitt fluttar jafnharðan til geymslu annars staðar. Lán var það, að rétt ókomnar voru miklar timburbirgðir til verksmiðjunnar, eða um 400 standardar, sem eru á leiðinni þangað með m.s. Kötlu. Ef þær birgðir hefðu verið komnar í hús á Siglufirði hefði tjónið orðið enn tilfinnanlegra.

Ekki var í morgun vitað neitt um eldsupptök, en eldsins varð vart seint í gærkveldi og slökkvi liði staðarins strax gert aðvart. En eldurinn var þá svo magnaður orðinn að ekki var viðlit að reyna að slökkva. Allt starf slökkviliðsmanna beindist því að því að bjarga nærliggjandi hús um, en það var fyrst og fremst hið mikla mjölgeymsluhús Síldarverksmiðjanna, er stendur við hliðina á tunnuverksmiðjunni og er eitt af mestu stórhýsum landsins.

Í öðru lagi eru nokkur íbúðarhús, sem standa nálægt tunnuverksmiðjunni og voru í mikilli hættu, enda hitnuðu þau mjög og sprungu í þeim rúður. Þykir það ganga furðu næst að unnt skyldi að verja húsin og þykir framganga slökkviliðsins hafa verið frábær. Einhverjar skemmdir munu hafa orðið á húsunum og í þeim, m.a. af vatni og reyk, en ekki hafa þær verið kannaðar ennþá. Það hjálpaði einnig mikið að veður var stillt, aðeins hægur sunnanandvari. Fyrir bragðið lagði reykinn allan til hafs, en ekki yfir bæinn, því að tunnuverksmiðjan stendur nyrzt á eyrinni. Bálið var gífurlegt í alla nóttog var það enn í morgun, enda þótt húsið væri fallið og logaði í rústunum.

Búizt er við, að í þeim logi langt fram eftir degi, áður en búið verður að slökkva til fulls. Sprengingar urðu í húsinu, í nótt, en ekki er vitað til þær hafi valdið slysum á mönnum. Þessi mikli eldsvoði hefur mikla þýðingu fyrir afkomu fólks því þarna unnu að staðaldri 44 menn, meiri hlutinn fjölskyldufeður, sem nú standa uppi atvinnulausir, en vinnulaun voru greidd þar um 100 þús. kr. vikulega. Í einu horni tunnuverksmiðjunnar var spennistöð rafveitunnar.

Var straumur frá henni strax rofinn og fyrir bragðið myrkvaðist öll lágeyrin í kaupstaðnum og er sem stendur rafmagnslaus með öllu. Slökkviliðið gerði allt sem f þess valdi stóð til að reyna að bjarga spennistöðinni og rétt um hádegið f dag var ekki útséð um, hvort það myndi takast eða ekki.

--------------------------------------------- 

Þjóðviljinn 9  janúar 1964

Eldur í Tunnuverksmiðju Siglufjarðar SIGLUFIRÐI 8/1 — Laust fyrir klukkan hálf tíu í kvöld kom upp eldur í Tunnuverksmiðju Siglufjarðar. Kviknaði í út frá katli, sem notaður er til þess að brenna fræsi og öðrum timburúrgöngum. Timburloft er beint fyrir ofan ketilinn og læsti eldurinn sig upp í loftið og komst upp á næstu hæð. Eldurinn varð fljótt lega slökktur og urðu litlar skemmdir.

--------------------------------------------- 

Alþýðublaðið 10 janúar 1964

TJÓNIÐ Á SIGLUFIRÐI METIÐ Á 14-15 MILJÓNIR

Reykjavík 9. jan. — HP Tunnuverksmiðja ríkisins á Siglufirði brann til kaldra kola í miklum bruna í nótt. Eldsins varð vart kl. 21.20 í gærkvöldi, Laust fyrir kl. 11 taldi slökkviliðið sig hafa ráðið niðurlögum eldsins, en rúmum tveim klukkustundum síðar tók hann sig upp aftur, og jókst bálið síðan hröðum skrefum fram eftir nóttu, unz bruninn náði hámarki um kl. 9 í morgun.

Sleitulaust hefur verið unnið að slökkvistarfi í allan dag, og var því enn ekki lokið, þegar blaðið átti síðast tal við fréttaritara sinn um kl. 9 í kvöld. Kalla átti út aðra vakt kl. 12 á miðnætti, ef. því yrði þá ekki enn lokið. Tunnuverksmiðjan er nú rústir einar og ruslhrúga. Þetta er í þriðja sinn, sem tunnuverksmiðja brennur á Siglufirði. Tjónið er metið á 14-15 milljónir króna eða þar um bil, en við þennan bruna hafa yfir 40 Siglfirðingar misst aðalvetrarvinnu sína á einni nóttu. Fréttaritara blaðsins á Siglufirði, Jóhanni Möller, sagðist svo frá, þegar blaðið átti tal við hann um brunann í kvöld:

„Klukkan 21.20 í gærkvöldi var slökkviliðið á Siglufirði kallað út og um hálftíuleitið var það komið að húsi Tunnuverk smiðju ríkisins á staðnum. Þetta er stór bygging, um 2000 fermetrar að stærð. Rétt norðan við húsið er hin stóra mjölskemma SR, eitt stærsta hús á landinu, og gengur hún almennt undir nafninu Ákavítið. Að vestan er Alþýðuhúsið, en austan við tunnuverksmiðjuna er byggingavörudeild , kaupfélagsins, hús Þorvaldar Sigurðssonar, Grundargata 22 og Grundargata 20, en fyrir sunnan er opið svæði, þó að hús séu á næstu grösum.

Þegar slökkviliðið kom á staðinn, var allmikill reykur uppi í vinnusölum verksmiðjunnar, en rúmlega 2 m. hár steinveggur skilur vinnusalina, sem eru á tveimur hæðum með stóru risi yfir, frá aðalbyggingunni, en þar voru geymdar tunnur, efni í botna og í norðausturhorni hússins tunnustafir. Slökkviliðsmenn og nokkrir af starfsmönnum tunnuverksmiðjunnar fóru þegar inn í vinnusalina, en þá var lítill-eða enginn eldur uppi, aðeins dökkur og mikill. reykur.

Kl. 22.45 taldi slökkviliðið sig hafa ráðið niðurlögum eldsins, og voru þá sex slökkviliðsmenn settir á vakt, er gæta skyldu hússins. Kl. liðlega eitt urðu þessir menn varir við, að eldur var kominn upp í botna norðan við steinvegginn, og var þá slökkviliðið kallað út að nýju. Eldur virtist þá hvergi annars staðar í byggingunni en á þessum stað. Hóf slökkviliðið þegar aðgerðir, og var slöngum beint að eldinum, en þegar eldsins varð vart fyrst um kvöldið, var allt raf magn tekið af verksmiðjunni, en spennistöð rafveitunnar var í einu horni hennar.

Héldu slökkviliðsmenn um tíma, að þeim tækist að hefta útbreiðslu eldsins, en svo reyndist" þó ekki, því að kl. rúmlega sjö í morgun var mikill eldur kominn upp á þessum stað í húsinu og breiddist fljótt út um verksmiðjubygginguna, og náði eldsvoðinn hámarki um 9-leytið í morgun. Þá var húsið allt orðið alelda, og eldtungurnar stóðu hátt í loft upp, en nokkrar gassprengingar urðu um sama leyti.

Vindur var á SV og töluverður strekkingur, en lægði um tíma, meðan eldurinn var mestur, og varð það lán í óláni, að hægt var að bjarga húsinu Grundargötu 22. Fólkið, sem þar bjó, hafði yfirgefið húsið strax um morguninn, en slökkvi liðið neglt steinasbestplötur fyrir alla glugga og hurðir á vestanverðu húsinu, og slíkt hið sama var gert við byggingavörudeild kaupfélagsins. Um 7-leytið í morgun hringdi slökkviliðsstjórinn til Akureyrar og bað slökkviliðið þar að lána reykgrímur til Siglufjarðar og senda þær þangað með flugvél, en veður var þá svo óhagstætt nyrðra, að það var ekki talið fært.

Austan við brunastaðinn varð fljótt mikið vatnsrennsli, og þar sem húsið Grundargata 20 stendur nokkuð lágt, rann þetta vatn inn í húsið, og varð fólkið að flýja þaðan. Slökkviliðið hefur verið að störf um í allan dag og er enn. Þykir það hafa gengið vel fram, einkum við að bjarga nærliggjandi húsum eftir að ljóst varð, að ekki yrði hægt að slökkva eldinn í tunnuverksmiðjunni.

Þarna munu hafa unnið um 40 menn, aðallega heimilisfeður, og má því nærri geta, hvert áfall þessi stórbruni er fyrir atvinnulífið á Siglufirði. Tunnuverksmiðjan var reist árið 1949-50 og tók til starfa veturinn 1950. Húsið var járnklætt stál grindahús, en það er nú gjörsamlega brunnið til kaldra kola, stendur ekki steinn yfir steini, vélar ónýtt rusl og annað eftir því. Þetta er þriðji stórbruninn sem orðið hefur í tunnuverksmiðju á Siglufirði.

Vorið 1917 reisti hér tunnuverksmiðju útlendur maður að nafni Söbstad en hún brann nokkrum árum síðar. Þar var næst reist tunnuverk smiðja við Vetrarbraut, þar sem nú er lagerhúsnæði SR og brann sú verksmiðja 1934. Bruninn í nótt var því þriðji tunnuverksmiðjubruninn." 

Alþýðublaðið átti í dag tal við Erlend Þorsteinsson, formann Síldarútvegsnefndar og stjórnar Tunnuverksmiðju ríkisins. Þó að stjórnin hafi ekki enn rætt þau viðhorf, sem skapazt hafa við brunann á Siglufirði, eða ákveðið, hvernig bregðazt skuli við honum, sagði hann, að sér þætti líklegt, að undinn yrði bráður bugur að því að reisa nýja tunnuverksmiðju og geymsluhús á Siglufirði, þó að vafasamt væri, að það yrði hægt svo fljótt, að það gæti skapað Siglfirðingum at vinnu næsta vetur, en búið var að panta milli 900-1000 standarda af tunnuefni, sem verksmiðjurnar á Siglufirði og Akureyri áttu að vinna úr veturinn 1964-65.

Erlendur sagði, að nýlega væri búið að byggja geymsluhús fyrir tunnur á Seyðisfirði og Raufarhöfn, og það hefði verið ákveðið að byggja nýja tunnuverksmiðju á Siglufirði, en gera gamla húsnæðið, sem brann í nótt, að geymslu. Hann sagði ennfremur, að eftir því sem hann hefði komizt næst, hefði húsið verið tryggt fyrir tæpar 7 milljónir, vélar fyrir 1.5 milljónir, en gizkað væri á, að rekstursvörur, tunnuefni, járn o.fl. hefði verið tryggt fyrir 3-4 milljónir og tilbúnar tunnur, sykur, saltpétur, krydd ofl., sem Síldarútvegsnefnd geymi í húsinu til næsta sumars, fyrir ca. 3 milljónir.

Má því ætla, að tjónið nemi 14-15 milljónum króna. Þess má geta, að m.s. Kalla er nú á leið til landsins með 400 standarda af tunnuefni, sem nægja mun í um 50.000 tunnur og átti að vinna úr því á Siglufirði. Aðeins tvær tunnuverksmiðjur hafa verið til á landinu til þessa önnur á Siglufirði, en hin á Akureyri:

Árlega hefur framleiðslan í báðum verk smiðjunum numið 120-140.000 tunnum, og hafa nær tveir þriðju hlutar framleiðslunnar verið unnir á Siglufirði. Þó að ekki sé neitt ákveðið um það enn, sagði Erlendur, að sumum hefði komið sá möguleiki í hug til að bæta Siglfirðing um upp atvinnumissinn að flytja þá til Akureyrar, meðan ekki rætist úr á Siglufirði og láta vinna á tveimur vöktum í Tunnuverksmiðju ríkisins á Akureyri. Þess skal að lokum getið, að orsakir eldsvoðans á Siglufirði eru ókunnar.

------------------------------------------  

Tíminn 10 janúar 1964 BJ-Siglufirði, FB-Reykjavík, 9. janúar

TUGMILJÓNA TJÓN VARÐ ER TUNNUVERKSMIÐJAN Á SIGLUFIRÐI BRANN TIL KALDRA KOLA. 40 HEIMILISFEÐUR HAFA MISST VETRARVINNU SÍNA.

Rúmlega 40 heimilisfeður misstu atvinnu sína, þegar kviknað í Tunnuverksmiðju ríkisins á Siglufirði í gærkvöldi. Þegar siðast fréttist logaði eldurinn enn, og var þá tæpur sólarhringur frá því hans varð fyrst vart. Tjón af völdum brunans mun skipta tugum miljóna, en lokatölur um það hafa ekki fengizt enn. Þetta er í þriðja sinn sem tunnuverksmiðja brennur í Siglufirði.

Eldsins varð fyrst vart á tíunda tímanum í gærkvöldi, en þá lagði reyndar aðeins reyk út af neðri hæð hússins, og var talið líklegt, að kviknað hefði í út frá fræsofni, sem þar var staðsettur Slökkvilið var kallað út, og lauk það störfum um kl. 23. Sex eða sjö menn voru settir á vakt í verksmiðjunni og áttu þeir að hreinsa til í húsinu.

Um kl. 1,30 voru þeir að hreinsa vatn af gólfi og safna saman drasli þegar þeir tóku allt í einu eftir því að eldur stóð út úr timburhlaða í einu horninu. Þarna var geymt tölu vert af botnaefni, og var nú einna líkast því, sem sprenging yrði í hlaðanum, en mennirnir höfðu áður verið að störf um í kringum hann og einskis orðið varir. Slökkviliðið var nú kallað út í annað sinn, en kl. 4 um nóttina kom þriðja brunakallið, og þá fengnir aukamenn til hjálpar.

Smátt og smátt magnaðist eldurinn og milli klukkan 7 og 8 í morgun var húsið alelda stafna í milli. Við hlið tunnu verksmiðjunnar stendur hin geysimikla mjölskemma Síldarverksmiðjanna og tókst að verja hana fyrir eldinum. Fyrir utan verksmiðjuna og neðan hana stendur íbúðarhúsið Vatnsendi og við hliðina á því byggingavöruverslun kaupfélagsins á Siglufirði. Þessi hús voru í töluverðri hættu um tíma, en slökkviliðinu tókst einnig að varna því, að eldurinn næði til þeirra.

Miklar skemmdir urðuðu á báðum húsunum, rúður brotnuðu, og vatn fór inn í íbúðina Vatnsenda og olli tjóni, en auk þess sviðnuðu þakplötur á báðum húsunum. Um hádegisbilið í dag var tunnuverk smiðjan fallin, en þrátt fyrir það hafði enn ekki tekizt að ráða niðurlögum eldsins með öllu á sjöunda tímanum í kvöld. Í morgun urðu allmiklar sprengingar í eldinum. Og telja þeir sem fylgdust með, að þær hafi orðið í saltpéturskútum sem Síldarútvegsnefnd geymdi í verksmiðjunni.

Saltpéturinn var geymdur í trékútum, og þegar sprengingin varð í þeim, þeyttust þeir upp úr þakinu með heljar miklum drunum og látum, í suðvestur horni tunnuverksmiðjunnar var spennustöð rafveitunnar, og mun hún ekki hafa skemmt. Rafmagn var tekið af þeim hluta bæjarins, sem tilheyrir stöðinni, en það er megin hluti eyrarinnar neðan Túngötu, og voru menn þar rafmagnslausir frá því í morgun fram til klukkan 4 í dag. Þá var talið óhætt að hleypa raf magninu á aftur.

Tunnuverksmiðja ríkisins er byggð árið 1949, og er hún starf rækt af Síldarútvegsnefnd. Byggingu hennar var lokið árið 1950 og þá um veturinn tók hún til starfa Verksmiðjan var til húsa í stálgrindahúsi, 50 metra löngu og 36 metra breiðu, eða 1800 ferm að stærð. Húsið var 16 m hátt frá jörð í ristopp. Það var tvær hæðir, og vinnusalir voru á báðum hæðum. í haust hófst vinnsla í verksmiðjunni um miðjan nóvember. og unnu þar rösklega 40 menn, allt heimilisfeður. Var vinnu þannig hagað, að unnið var annan daginn frá kl. 7 til 4 en hinn daginn til 7, og mun vikulega hafa verið greidd þarna vinnulaun, sem nema um 100 þúsund krónum, og er því greinilegt, að hagur Siglfirðinga versnar mjög, svo ekki sé meira sagt við það að verksmiðjan verður ekki starfrækt á næstunni því segja má, að hún hafi verið eina fyrirtækið, sem veitti nokkurn veginn örugga atvinnu á vetrum.

Auk þeirra, sem unnu þarna fasta vinnu, voru margir aðrir t. d. bílstjórar sem höfðu ígripavinnu í verksmiðjunni. Tunnuverksmiðjan á Siglufirði var önnur tveggja tunnuverksmiðja hér á landi, hin er staðsett á Akureyri. Verksmiðjan á Siglufirði framleiddi árlega milli 65 og 70 þúsund tunnur, en framleiðsla hinnar verksmiðjunnar er mun minni. Verksmiðjuhúsið sjálft var vátryggt á 7 milljónir króna, en vélar vátryggðar á 1½ milljón.

Í húsinu var töluvert af efni, en ekki hefur enn verið reiknað út, hvert verðmæti þeirra hefur verið í verksmiðjunni voru aðeins um 450 tunnur, eða framleiðsla frá því á hádegi í 2ær, en tunnum hefur alltaf verið ekið burtu jafn óðum, og þær geymdar annars staðar. Tunnuefni var fremur lítið þarna, reiknað með, að það hafi aðeins verið í um 10.000 tunnur en verksmiðjan átti von á efni með Kötlu, og hefði tjónið orðið miklu meira, ef þær birgðir hefðu verið komnar. Auk þess sem nú hefur verið talið, átti Síldarútvegsnefnd rokkuð af tunnum í húsinu, en hún geymdi þarna einnig krydd salt, og ýmislegt til síldarsöltunar, og brann þetta allt.

Mjög líklegt er talið, að allar vélar verksmiðjunnar séu gerónýtar, en ekki hefur verið hægt að ganga úr skugga um það enn þá. Heildartjónið mun skipta tugum milljóna, því nú stöðvast framleiðsla verksmiðjunnar, og fjöldi manns missir atvinnu sína Þetta mun vera í þriðja sinn, sem tunnuverksmiðja brennur á Siglufirði. Síðast brann þar verksmiðja fyrir einum þrjátíu árum, og logaði þá í rústunum í tvo sólarhringa, áður en tókst að slökkva eldinn algjörlega.

------------------------------------------ 

Vísir 10 janúar 1964

STÆRSTA ATVINNUSTÖÐIN Á SIGLUFIRÐI RJÚKANDI RÚST

Fólk flúði næstu hús — Samtöl Vísis við sjónarvotta.

Sjaldan er ein báran stök, segir máltækið. Það hefir, því miður, sannazt á Siglufirði. Þar var nær dauður bær s.l. sumar, vegna þess að síldin var öll fyrir austan, og undanfarin dægur hefir eldsvoði jafnað við jörðu stærstu vetrarvinnustöð þeirra, — Tunnuverksmiðju ríkisins

Hjá Tunnuverksmiðjunni hafa 45 heimilisfeður haft fasta atvinnu, og margir lausavinnu að auki, og nú sér þetta fólk fram á algert atvinnuleysi um miðjan vetur. Að vísu mun nú í ráði að Niðurlagningarverksmiðja SR á Siglufirði taki brátt til starfa að nýju, en þar vinna tiltölulega fáir. Nokkrar fjölskyldur urðu að flytja úr húsunum sem næst voru Tunnuverksmiðjunni, en ekki urðu þó miklar skemmdir á þeim húsum.

Vísir átti í morgun tal við fólk, sem flutti úr þessum húsum, og ýmsa aðra Siglfirðinga. Skólabörnum og unglingum var haldið inni í skólanum í gær til þess að börnin væru ekki að tefja fyrir björgunarstarfinu ,sem var langt og strangt. Vonir standa til að ný tunnuverksmiðja verði reist næsta sumar. En eins og sakir standa má heita atvinnuleysi á Siglufirði, eins og raunar er oft þar á þessum tíma árs, og hefir Tunnuverksmiðjan einmitt bætt úr árstíðabundnum atvinnuskorti f bænum.

En nú er hún brunnin til kaldra kola og rýkur enn úr rústunum. Hefur misst atvinnuna Vísir náði í morgun tali af Birni Hafliðasyni, sem er einn hinna 45 föstu starfsmanna verksmiðjunnar, sem misst hafa atvinnu sína. Björn hefir starfað við verksmiðjuna frá upphafi en á sumrin er hann lögregluþjónn. Verksmiðjan hefir ekki verið starfrækt yfir sumarið. Björn sagði að þeir sæju nú allir fram á algert atvinnuleysi um miðjan vetur.

Tunnuverksmiðjan mun hafa greitt í laun vikulega töluvert á annað hundrað þúsund krónur, enda vinna margir í lausavinnu á hennar vegum, svo sem að tunnuflutningum. En Björn bjóst við því að fljótlega yrði reist ný tunnuverksmiðja á Siglufirði og byggði það m.a. á því, að ákveðið hafi verið að endurbyggja og stækka Tunnuverksmiðjuna á Siglufirði næsta sumar. Má því ætla að byggingarþörfin sé þaðan af meiri núna, þegar gamla verksmiðjan er brunnin.

Helga Þorvaldsdóttir, Grundargötu 22 bjó þar með foreldrum sínum, en faðir hennar er Þorvaldur Sigurðsson. Þau yfirgáfu hús sitt um kl. 8,30 í gærmorgun og fluttu til bróður Þorvalds að Hverfisgötu 32. Þar hafði Vísir tal af Helgu í morgun. Hún sagði að þeim hefði ekki komið dúr á auga í fyrrinótt í Grundargötu 22, enda stendur það hús næst Tunnuverksmiðjunni í þeirri götu.

Helga sagði að búslóð þeirra hefði einnig að mestu verið flutt úr húsinu og það væri skemmt af hita og vatni að vestanverðu, einkum þakið og yrði vart flutt í það aftur án þess að gera við það. Helga Þorvaldsdóttir sagði að fólk hefði einnig flutt úr tveimur næstu húsum, Grundargerði 20, en þar býr Jón Gunnlaugsson, sem var á sjó, og kona og barn hennar, og einnig úr húsi við hliðina á því, sem tilheyrir Norðurgötu.

Þar býr Ari Jónsson. Úr þremur fyrrnefndum húsum fluttu menn meira og minna af húsmunum af ótta við að eldurinn kynni að komast í þessi hús, sem þó tókst að verja. Úr Grundargötu 20 flutti fólk ekki síður vegna þess hve lágt það stendur og var vatn frá dælum slökkviliðsins tekið að renna inn í húsið.

Hinn kunni skíðakappi Jónas Ásgeirssón kvaðst hafa farið út að Tunnuverksmiðju af forvitni er hann heyrði brunakallið á miðvikudagskvöldið. En eftir hálftíma hefði verið sagt að búið væri að ráða niðurlögum eldsins, og fór Jónas þá að sofa. Um kl. 1,30 um nóttina vaknaði hann við sírenuvæl, en gaf því þá engan sérstakan gaum.

Klukkan 7,30 í gærmorgun vaknaði ég og sá þá mér til skelfingar að Tunnuverksmiðjan var alelda. Varð ég þá mjög undrandi þar sem sagt hafði verið kvöldið áður að búið hefði verið að slökkva eldinn. Jónas sagði að börnum og unglingum hefði verið haldið í skólum á Siglufirði í gær, mest til þess, að hann hélt, að halda þeim frá eldinum, þar sem þau hefðu getað tafið fyrir björgunarstarfi. Aftur á móti mun hafa orðið minna úr kennslunni, mörgum orðið tíðlitið út um skólagluggana og jafnvel gefið frí frá kennslu eitthvað, en ekki leyfi til að fara út.

Pétur Gautur Kristjánsson bæjarfógetafulltrúi býr f næsta húsi fyrir sunnan Tunnuverksmiðjuna ásamt konu og 3 börnum. Pétur var fremur sagnafár, kvaðst heldur vilja yfirheyra fólk sjálfur en að láta yfirheyra marga. Hann lét mest af því að allt hefði verið með kyrr um kjörum og rólegt hjá sér og sínum meðan bruninn stóð yfir í hálfan annar sólarhring. Hefðu þau ekki brugðið neinni venju, meira að segja kynt og kveikt ljós, þótt hvorugt hefði í raun inni þurft að gera vegna hitans og birtunnar frá eldhafinu.

Jú Pétur brá einni venju sinni, sagði hann, og kíkti öðru hvoru út um gluggann: 

„Annars var ég ósköp rólegur og við öll. Við vorum heppin með áttina. Það var sunnanátt og við sunnan við verksmiðjuhúsið svo að við vor um aldrei í hættu.

Allt efnismagnið í verksmiðjunni var í húsinu sunnanverðu en nær tómt í norðurhluta hússins. Það hjálpaði mikið við að verja stóru mjölskemmuna, sem er næsta hús norðan við Tunnuverksiðjuna ásamt lýsisgeymum. Þarna voru sem sagt mjög mikil mannvirki í næsta nágrenni, mjölskemman og geymarnir og afar mikilvægt að vel tókst að verja þau skemmdum".------------------------------------------

Morgunblaðið 10 janúar 1964

Tunnuverksmiðjan á Siglufirði brann til ösku: Tjón í húsi, vélum og timbri um 13 millj. kr. 40 Siglfirðingar atvinnulausir

Í G Æ R brann Tunnuverksmiðja ríkisins á Siglufirði til kaldra kola. Kviknaði í timburgólfi meðfram skorsteini og var eldur lengi falinn í timburstafla, áður en hann blossaði upp. Barðist slökkviliðið á Siglufirði í alla fyrrinótt og gærdag við eldinn, lengi með súrefnisgrímur vegna reyks, en undir kvöld var búið að slökkva að mestu, nema hvað glóð var enn í timbrinu. Var þá allt brunnið sem brunnið gat í verksmiðjunni.

Gífurlegt tjón hefur orðið í bruna þessum. Gizkaði Einar Haukur Ásgrímsson, tæknilegur framkvæmdastjóri verksmiðjunnar, á það í símtali við blaðið í gær, að tjón vær um 13 millj. kr. Þó varð það lán í óláni að skip með 400 stand. af tunnuefni til verksmiðjunnar, er á leiðinni og var ókomið til Siglufjarðar. Haukur sagði, að miklir erfiðleikar yrðu líka af því að 40 menn, sem unnið hafa í tunnuverksmiðjunni, missa nú vinnuna, því lítil atvinna er á Siglufirði nú í vetur.

Aftur á móti hefði bruninn ekki áhrif á síldarsöltun, því hægt væri að fá tunnur frá Noregi. Húsið sem brann var 2000 ferm. að stærð, 8—10 m. hátt hús, byggt um 1950. — Á landinu eru tvær tunnuverksmiðjur, á Siglufirði og Akureyri og er framleiðsla þeirra 70—80 þús. tunnur á ári, hvorrar um sig.

ELDUR Í TIMBURHLAÐA VIÐ SKORSTEININN FRÉTTAMENN blaðsins á Siglufirði símuðu eftirfarandi frásögn ef brunanum, upptökum hans og baráttu slökkviliðsins við eldinn: Um klukkan hálf tíu á miðvikudagskvöld var slökkviliðið á Siglufirði kvatt út vegna elds í Tunnuverksmiðjunni. Sá eldur var í vélahúsi verksmiðjunnar, nánar til tekið við skorstein í húsinu. Skorsteinn þessi, sem er við ketil þar sem brennt- er spónum og öðru, er hlaðinn úr múrsteini, múrhúðaður, og að auki er hann einangraður með vikurplötum. Talið er að kviknað hafi í út frá skorsteini þessum.

Eldurinn var umhverfis skorsteininn, en þar var ekkert úrgangsefna, aðeins timbur á milli lofta, en Tunnuverksmiðjan er tvílyft, byggð inni í stóru járngrindahúsi. Slökkviliðinu tókst að ráða niðurlögum eldsins við skorsteininn. Er enginn reykur var sjáanlegur lengur, hélt slökkviliðið af staðnum, en sex menn voru skildir eftir á bruna vakt, og voru þeir á stöðugu varðbergi um kvöldið og nóttina, bæði í verksmiðjuhúsinu og lagernum, þar sem geymt var tunnu efni og eitthvað af tunnum. Slöngur voru og til taks.

Á milli verksmiðjunnar sjálfrar og lagersins er 15 cm. þykkur vikurveggur, múrhúðaður beggja megin. Við þann vegg er umræddur skorsteinn, að innanverðu í verksmiðjunni, en hinu megin veggjar var mikill stafli af tunnubotnaefni. Þarna á milli efnisstaflans og veggjarins er talið að eldurinn hafi kotmið upp í annað sinn.

ELDURINN BLOSSAÐI UPP AFTUR 

Um klukkan tvö í nótt, fimm mínútum áður en eldsins varð vart aftur, gengu menn framhjá þessum tunnubotnastafla og urðu einskis varir, hvorki elds né reyks. Á sama augnabliki og eldsins varð vart hringdi Stefán Friðriksson, lögregluþjónn, til vaktmannanna í verksmiðjunni til þess að spyrja frétta. Fyrir svör um varð Björn Hafliðason bruma vörður, og hvað hann ekkert vera að frétta, allt væri í stakasta lagi.

En áður en samtali þeirra Stefáns og Björns lauk var hrópað að eldur væri laus. Spratt eldurinn þá upp á augna bliki, en vaktmönnum tókst að bæla mesta eldinn. Brunaliðið kom strax á vettvang aftur, enda fréttin fljót að berast þar sem lögreglan var í símanum er eldsins varð vart. 

Eftir að vaktmönnum hafði tekizt að bæla eldinn, sást hann ekki en vitað var hvar hann var.

Geysilegt reykjarhaf myndaðist í húsinu, og sást ekki handaskil. Í alla nótt, frá því að eldurinn kom upp, og þar til kl. 6 í morgun, er slökkviliðsmenn urðu að flýja verksmiðjuna, var barizt látlaust við þennan eld, sem þá varð ekki séður vegna aðstæðna. Eins og fyrr getur var vitað að hann var inni í fyrrgreindri timburstæðu, en hún var fimm metra há og í henni um 40 standarðar af timbri. Var eiginlega sama hvar sprautað var þar sem stæðan var svo þétt við vegginn. Í verksmiðjunni voru alls um 100 standarðar af tunnuefni, að því er verkstjórinn,

Ástvaldur Einarsson, segir. Slökkviliðsmenn voru búnir súrefnisgrímum inni í reykhafinu, enda grímulausum mönnum ekki vært þar inni stundinni lengur. 10 — 12 menn voru inni í einu og gekk því ört á súrefnisbirgðirnar, enda fór svo að um kl. sex var súrefnið á þrotum. Var þá ekki um annað að ræða en að yfirgefa húsið og loka því. Gerðar voru ráðstafanir til þess að fá flugvél frá Akureyri með súrefni, og reyna að varpa hylkjunum niður í fallhlíf. Til þessa kom þó ekki, enda mikill hliðarvindur á flugbrautina á Akureyri

GEYSILEGT ELDHAF

Magnaðist nú eldurinn inni í húsinu en var þó ekki sjáanlegur fyrst um sinn. Kl. 10 mínútur yfir níu var Steingrímur Kristinsson, annar tveggja fréttaritara Mbl. á Siglufirði, staddur uppi á lýsistank Síldarverksmiðja ríkisins rétt hjá Tunnuverksmiðjunni, og fylgdist þaðan með því sem gerðist. Sá hann þá hvar eldurinn kom upp með skorsteininum, og þakið allt verða síðan alelda áður en varði. Logaði mjög skarpt í öllu húsinu, og varð af geysilegt eldhaf.

Er eldurinn var kominn inn undir sökkul hússins urðu margar miklar sprengingar í því. Telja menn þær stafa af því, að steinsteypan hafi snögghitnað og sprungið, einnig af því að tómir síldarkútar (áttungar o. s. frv.), svo og saltpéturskútar hafi sprungið í loft upp. Kemur ein orsökin til greina- eða trúlega allar. Síldarútvegsnefnd átti salt péturskútana og einnig geymdi hún þar sykur og krydd, sem allt eyðilagðist.

Á einni klukkustund eftir að eldurinn braut upp þakið, var það gjörsamlega fallið. Stálbitar í lofti ýmist bráðnuðu eða svignuðu og undust í hinum gífurlega hita. Féll húsið allt, þak og veggir, niður að gluggum. Er húsið sjálft gjörsamlega ónýtt, og vélar allar taldar ónýtar líka af eldi og hita, en eldurinn var þó aðallega í timbrinu í lagernum. Er beint tjón því gífurlega mikið, og skiptir vafalaust mörgum milljónum, enda inni um 100 standarðar af tunnuefni, eins og fyrr getur, auk véla og hússins sjálfs.

Óbeint tjón er einnig geysilegt. Í verksmiðjunni unnu um 40 manns, og er nú fyrirsjáanlegt að þeir verði flestir eða allir atvinnulausir. Er það mikið áfall fyrir bæjarfélagið í heild. Fleiri hús í hættu. Á meðan eldurinn var mestur, voru þrjú hús í talsverðri hættu, einkum tvö. Hinu megin götunnar er hin mikla síldarmjölsgeymsla SR, hið svonefnda „Ákavíti". Óttuðust menn um hríð að hitinn frá bálinu mundi eyðileggja síldarmjöl það, sem geymt var við þann vegg, er vissi að brunanum.

Ekki varð þó svo, og er því einkum þakkað, að nokkur vindur stóð um sundið milli mjölgeymslunnar og brennandi verksmiðjunnar, og kældi veggi. Austan tunnuverksmiðjunnar standa tvö hús, og var mjög óttast um að í þeim kviknað Gluggar sviðnuðu og rúður sprungu í báðum þessum húsum, og rauk úr þaki þeirra beggja. Slökkviliðinu tókst þó að verja húsin, einkum með því að negla stórar asbestplötur fyrir glugga þeirra.

Ef Grána gamla brynni

Eftir Tunnuverksmiðjubrunann í gær setti óhug að Sigfirðingum, að því er ljósmyndari blaðsins Steingrímur Kristinsson tjáði blaðinu. Varð mörgum hugsað til þess hvað gerðist ef eldur yrði laus í Gránu, gömlu síldarverksmiðjunni sem er stórt fjögurra hæða timburhús. Við hliðina á henni eru tveir tankar, annar með jarðolíu og hinn með lýsi og aðeins 1½ meter á milli. Í suðaustan roki mundi sennilega líka brenna vélaverkstæði Rauðku, sem er fyrir norðan og mjölhús Rauðku fyrir vestan, í 4—5 m fjarlægð og Slippurinn, sem er hinum megin við götuna, einnig söltunarstöð og íbúðarhús. Í gömlu Gránu hefur Bæjarútgerðin geymslu og þurrkhús, og taka tryggingarfélög það ekki í tryggingu nema fyrir margfalt iðgjald.

------------------------------------------ 

Morgunblaðið 10 janúar 1964

Ferðasaga myndanna frá Siglufirði

MYNDIR þær af bruna Tunnu verksmiðjunnar á Siglufirði, sem birtast í blaðinu í dag, eiga sér sögu — raunar ferða sögu. Okkur hér á Mbl. þótti hún skemmtileg og látum hana fylgja myndunum til gamans. Steingrímur Kristinsson, ljósmyndari á Siglufirði var á ferli á brunastaðnum í gærmorgun og aðfaranótt miðviku dags og tók myndir (Skemmdi reyndar 5000 kr. myndavél, eir ól slitnaði, þegar hann var staddur uppi á olíutanki). —

Hann sendi svo myndirnar í snarheitum með mótorbáti af stað áleiðis til Haganesvíkur, þar sem Björn í Bæ, fréttaritari blaðsins á Höfðaströndinni ætlaði að taka þær og aka með þær til Sauðárkróks, en fréttaritarinn þar, Guðjón Sigurðsson, að flytja þær með hraði í Varmahlíð í veg fyrir Akureyrarbíl. Þetta var sem sagt vel skipulagt og átti að duga. En ekki var reiknað með höfuðskepnunum. Björn í Bæ sagði svo frá er hann kom til Sauðárkróks:

Við fórum af stað kl. 1,30 áleiðis til Haganesvíkur, til að ná í filmurnar. Það var sunnan rok og munaði litlu að bíllinn fyki á leiðinni út af veginum. Þegar báturinn kom til Haganesvíkur var ófært að komast í land. Við tókum það ráð að fá vörubíl og bát og keyrðum með bátinn inn í svokallaða Ósvík. Þar stóð veðrið beint að landi og kvikulaust, en þó treystu bátsverjar sér ekki að komast í land vegna roksins.

Tók um við þá streng og bundum bátinn í strenginn og létum hann fara undan veðrinu fram að mótorbátnum. En þegar til kom, reyndist þessi ferja okkar svo lek að bátsverjar þorðu ekki að láta böggulinn í hann og bundu því gúmmíbát sinn einnig í strenginn og þannig náðum við bögglinum loksins í land. Þá var kl. 4 og ók Björn með filmuna til Sauðárkróks og Guðjón í Varmahlíð.

Þar beið vörubíll frá Stefni á Akureyri, sem var á leið suður og fréttaritarinn á Akureyri, Sverrir Pálsson, hafði beðið liðsinnis. Og loks óku tveir blaðamenn á léttum bíl norður í Hrútafjörð á móti filmunum, því þá var hver mínúta dýrmæt orðin. Ólafur K. Magnússon, ljósmyndari framkallaði, og myndamótamenn biðu til að taka myndamót og hér birtast þær. 

Mbl. 11 janúar 1964

BÆTT FRÉTTA

ÞJÓNUSTA

Ferðasaga myndanna frá Siglufirði, sem  í gær var sögð hér í blaðinu, er enn eitt dæmið um hina bættu fréttaþjónustu, sem íslenskum blaðalesendum er látin í té. Í fyrradag tókst Morgunblaðinu að ná suður myndum af brunanum mikla á Siglufirði, þótt það kostaði að vísu mikið erfiði. Blaðið taldi rétt að gera þessa tilraun, bæði vegna þess að það á þjónustuhlutverki að gegna við lesendur sína og ekki síður af hinu að gaman var að rjúfa einangrun Siglufjarðar.

Blaðalesendur gera sér ekki ætíð grein fyrir því mikla og margþætta starfi, sem liggur að baki útkomu hvers einasta tölublaði dagblaðs 

Íslenskum almenningi mundi áreiðanlega bregða í brún, ef nútíma fréttaþjónusta legðist niður og yrði með því sniði sem hún var fyrir fáum áratugum.  Þótt menn skammi oft blöðin vilja þeir fá blaðið sitt og mundi líka það illa, ef blaðamenn hættu að einbeita kröftum sínum að því að afla frétta, þótt oft kosti það mikið erfiði og útsjónasemi. 

(Athugasemd SK árið 2017; Aukakostnaður fram yfir "venjulegt", vegna  þessara umræddu  myndbirtinga,  mun hafa farið yfir kr. 30.000,- sem var mjög mikið á þessum tíma)    Og í dag 2017, eru tímar breyttir, flutningur mynda í miklum gæðum, milli t.d. Siglufjarðar og Reykjavíkur, jafnvel Ástralíu, tekur nú aðeins örfár sekúndur, og kostar "örfáar krónur og eina til tvær mínútur" 

===============

Ath. sk: Vegna ábendingar minnar, vegna mistaka Mbl., þá var þess ekki getið varðandi myndirnar, að  Ingvar Björnsson rafviki á Siglufirði tók eina af myndunum (raunar þá bestu af þeim sem birtar voru, mín skoðun) í blaðinu, af Tunnuverksmiðju brunanum á Siglufirði í Mbl. 10 jan. -  Forsíðumyndina og fleiri ég, sk.  Því miður, þá finn ég ekki "orginalmynd" Ingvars og birti því aðeins myndina frá blaðinu. Hún er neðst á síðunni hér.

Athugasemdin var birt í Morgunblaðinu daginn eftir. 

*************

Svo má geta þess að í öllum fréttum hér ofar er talað um það að þessi tunnuverksmiðjubruni á Siglufirði, sé sá þriðji í röðinni. ÞAÐ ER RANGT þessi bruni er sá fjórði í röðinni á Siglufirði. Lesa má um þá sem á undan urðu hér á tenglinum fyrir neðan  

  1. tunnuverksmiðjubruninn á Siglufirði http://www.sk2102.com/437441859
  2. tunnuverksmiðjubruninn á Siglufirði http://www.sk2102.com/437191898
  3. tunnuverksmiðjubruninn á Siglufirði http://www.sk2102.com/437192691

--------------------------------------------- 

Morgunblaðið 14. janúar 1964

Kviknaði í dreng á Siglufirði

er hann kveikti í saltpéturs og sykurblöndu

FRÉTTARITARI Morgunblaðsins símaði til blaðsins í gærmorgun og sagði frá því, að 3 strákar, 10-12 ára að aldri hefðu verið að grúska í rústum tunnuverksmiðjunnar, og fundið þar saltpétur og sykur, eins og notað er við síldarsöltun.

Einn drengurinn fór með slatta heim til sín og þurrkaði draslið.  Setti hann síðan kaffibolla af þessum saman við tvo hnefa af saltpétri, fór með þessa blöndu út á pappaspjald og breiddi segldúk yfir og bar eld að.

 Afleiðingarnar: Það kviknaði snarlega í þessu með miklum látum og læsti þetta sig í föt drengsins, brann gat á peysu hans - og buxur hans brunnu til kaldra kola, en það bjargaði líkama drengsins, að hann var klæddur í svellþykkar "föðurlands" prjónabuxur úr íslenskri ull innanundir.

Fréttaritarinn átti viðtal við drengina síðar og sagðist einn 12 ára hafa lært það af fullorðnum mönnum í síldarsöltun að hægt væri að fá mikinn blossa og jafnvel sprengingu, ef kveikt væri í blöndu af þessu tvennu og má af þessu sjá að það læra börn af því sem fyrir þeim er haft.

Því má bæta bið sagði fréttaritarinn, að Morgunblaðið með myndum af bruna Tunnuverksmiðjunnar, seldist upp á korteri, þegar það kom þangað á sunnudag.

Magnús Eggertsson rannsóknarlögreglumaður úr Reykjavík, kom til Siglufjarðar í fyrradag og hefur rannsakað brunarústirnar ásamt Einari Ingimundarsyni. Réttarhöld hefjast í dag.  --- Steingrímur.

------------------------------------------------    

Mjög mikið var skrifað um þennan eldsvoða í öllum dagblöðunum í R.v.k. og fleirum, en ekki endurtekið hér. Morgunblaðið fékk dögunum á eftir fleiri myndir sem birtar voru í tenglum við þennan bruna og birti ég þær ásamt mörgum fleiri mynda sem ég hafði tekið tengdum þessum bruna og eru sumar hér á síðunni og aðrar hérna á tenglinum. Tengill til myndasyrpu

Athugasemd mín (S.K.) árið 2017 "Standard" ; "Petrograd-Standard" (timbur) er sama og 165 cubic fet sem er það sama og 4,672 m³. (Heimild: Fjölvís vasabók 2001). 400 standara af tunnuefni er því sama og 1868 rúmmetrar"