Nokkrar stuttar frásagnir af bruna á Siglufirði

Vísir 8 janúar 1951

Vélbátur skemmist af eldi. 

Í fyrradag kom upp eldur í vélbátnum „MillÝ", þar sem hann lá við bryggju á Siglufirði, og skemmdist hann verulega, áður en slökkviliðinu tækist að kæfa eldinn. Það er víst, að kviknað hafi út frá olíuofni, sem var í káetu bátsins, en menn höfðu verið að vinna í bátnum daginn áður.

Læstist eldurinn brátt um káetuna og stýrishús og brann allt innan úr þeim, en hins vegar tókst að afstýra því, að eldurinn kæmist fram fyrir vél. Enginn maður var um borð, er eldsins varð vart. Skemmdir urðu miklar, eins og fyrr segir, en þær hafa enn ekki verið metnar. Framkvæmdastjóri v.b „Milly" og einn af eigendum hans er Þóroddur Guðmundsson, V.b. Millý er 50 lestir.

-----------------------------------------------------

Tíminn 9 janúar 1951

Bátur í Siglufirði skemmist af eldi 

Seint á laugardagskvöldið kom eldur upp í vélbátnum Millý í Siglufirði. Lá hann við bryggju, og höfðu menn verið við vinnu í honum um daginn. Slökkviliðið kom á vettvang, og var þá mikill eldur i káetu og stýrishúsi og brann þar allt.

Líklegt er að kviknað hafi í útfrá ofni í káetu, en báturinn var mannlaus, er eldurinn kom upp er eldurinn kom upp. Millý var smíðaður í Englandi 1883, eign hlutafélagsins Millý í Siglufirði.

-----------------------------------------------------

Siglfirðingur 11. janúar 1951

Kviknar í “Milly"

Fyrir skömmu kom upp eldur  í m.b. Milly og urðu allmiklar  skemmdir á skipinu. Blaðinu er  ekki kunnugt um eldsupptök, en  skipið mun nú komið í "slipp" til  viðgerðar hjá Slippfélaginu hér á  Siglufirði. Eigandi skipsins er  Þóroddur Guðmundsson útgerðarmaður.

------------------------------------------------------ 

Vísir 14 febrúar 1951

Í gær í gœr kom upp eldur í húsinu nr. 41 á Siglufirði og breiddist svo skjótt út, að íbúar þess komust nauðulega út. Svo vildi til, að allt heimilisfólkið nema unglingstelpa, lá í influenzu, og komst það með naumindum út fáklætt, eins og fyrr segir. 

Tveir menn, þeir Ásgeir Gunnarsson og Bergur Magnússon, bjuggu þar ásamt fjölskyldum sínum, og mun eldurinn hafa kviknað út frá olíukyntri miðstöð í íbúð Ásgeirs. Skemmdir urðu miklar á báðum íbúðunum.

------------------------------------------------------ 

Morgunblaðið 14 febrúar 1951

Fólk, sem lá í inflúenzu, bjargaðist fáklætt úr brennandi húsinu  

SIGLUFIRÐI, 13. febrúar. — Um hádegi í dag kom upp eldur í húsinu Suðurgötu 41 hjer á Siglufirði. Er það timburhús, ein hæð og ris. Fólk, sem lá í inflúenzu, bjargaðist fáklætt út úr húsinu.

Húsið Suðurgata 41 er eign þeirra Ásgeirs Gunnarssonar og Bergs Magnússonar, sem báðir áttu heima í því ásamt fjölskyldum sínum. 

LÁ í INFLUENZU 

Eldurinn kviknaði út frá olíukyntri miðstöð í íbúð Ásgeirs. Allt heimilisfólkið lá í inflúenzu nema telpa, sem var á fótum og varð eldsins vör. Ekki hafði fólkið tíma til að klæðast, eða hafa nein föt með sjer og bjargaðist það út fáklætt. 

ELDURINN SLÖKKTUR 

Slökkviliðið kom fljótt á vettvang og tókst að ráða niðurlögum eldsins á tiltölulega skömm um tíma. Var þá íbúð Ásgeirs öll brunnin að innan og var engu bjargað úr henni. Einnig skemmdist íbúð Bergs mikið, en þar var nokkru af innanstokksmunum bjargað. Hús og innanstokksmunir munu nafa verið vátryggðir. 

Gæðaskólanum á Siglufirði lokað

 SIGLUFIRÐI, 13. febrúar. — Inflúenza er nú orðin allútbreidd á Siglufirði. Einnig hafa orðið nokkur brögð að öðrum sjúkdómum hjer. Í dag varð að grípa til þess ráðs að loka Gagn fræðaskólanum, þar sem fjarvistri nemenda voru orðnar miklar 

------------------------------------------------------

Morgunblaðið 31 mars 1951

Tunnuverksmiðja skemmist af eldi

ÓTTAST er, að allmiklar skemmdir hafi orðið á Tunnuverksmiðju ríkisins á Siglufirði, er eldur kom upp í Tunnuverksmiðju ríkisins um kl. 5,30 í gærkveldi. — 

Fyrir nokkrum vikum flutti verksmiðjan í það hús, sem hún nú er í.

Verksmiðjuhúsið, sem er  stálgrindarhús, mun ekki hafa skemmst, en raflagnir, bæði fyrir ljós og vjelar, munu hafa stórskemmst bæði af eldi og vatni. Eins er talið, að vjelar hafi orðið fyrir vatnsskemmdum, en í gærkveldi var ekki búið að rannsaka það, enda allt í myrkri, svo að aðstaðan til þess var

ekki góð. Efni mun hafa sloppið því nær óskemmt. Eldurinn var allmikill, er

slökkvilið bæjarins kom á vettvang. Um 30 manns hafði atvinnum við verksmiðjuna. 

------------------------------------------------------

Þjóðviljinn 1 apríl 1951

Tunnuverksmiðjan á Siglufirði skemmist af eldi

Um klukkan hálfsex í fyrradag kom upp eldur í tunnuverksmiðjunni á Siglufirði. Vinnu var lokið en verið var að taka til í verksmiðjunni. Ekki er vitað með vissu um upptök eldsins, en búizt var við að kviknað hafi í út frá upphitunartækjum.

Slökkviliðinu tókst von bráðar að slökkva eldinn, en skemmdir urðu talsverðar, bæði af eldi og vatni, en enn er ekki vitað hversu miklar þær eru. Mikill snjór er á Siglufirði, en veður hefur verið gott undanfarna daga, en í gærkvöld var aftur að ganga til norðaustanáttar og leit úr fyrir snjó komu. 

------------------------------------------------------

Tíminn 1 apríl 1951

Tunnuverksmiðjan í Siglufirði skemmd af eldi 

Síðdegis i fyrradag kom upp eldur í tunnuverksmiðjunni í Siglufirði, en slökkviliði Siglufjarðar tókst að vinna bug á eldinum á rösklega hálfri annarri klukkustund. Sviðnaði allmikið loft verksmiðjunnar, og raflagnir byggingarinnar ónýttust.

Einn maður, Ástvaldur Kristjánsson verkstjóri, brenndist talsvert á höndum og í andliti. Mikið af efni í tunnur var geymt í verksmiðjunni, er var nýlega tekin til starfa, og hefði orðið þarna stórfellt tjón, ef slökkviliðinu hefði ekki tekizt að kæfa eldinn í tæka tíð. Verið er að rannsaka upptök eldsins, sem kom upp í spónum frá tunnuefni, ef til vill út frá hitakerfi. 

------------------------------------------------------ 

Morgunblaðið 1 apríl 1951

Efni í 30,000 tn. var í verksmiðjunni 

í SKEYTI frá frjettaritara Mbl.á Siglufirði, um brunann t tunnuverksmiðju ríkisins í fyrrakvöld segir, að er eldurinn kom upp í verksmiðjunni hafi þar verið full unnið efni í 30 þúsund tunnur, botnar og stafir. 

Botnsefnið blotnaði af vatni, en mun ekki skemmast neitt við það. Raflagnir allar i verksmiðjunni eyðilögðust, eins loftið yfir vinnusalnum, er brann mikið. Í vinnusalnum er stór múrofn, sem brennir öllum úrgangi, fræsinu, og hitanum frá honum blásið út um vinnuplássið til hitunar því. Út frá blásaranum er talið að eldurinn hafi kviknað.

------------------------------------------------------

Þjóðviljinn 7 september 1951 Frá fréttaritara Þjóðv. Siglufirði

Kviknar í bát

Í gær kom upp eldur í mb. Ernu er hún var skammt frá Sauðanesi, á suðurleið frá Siglufirði. Var sendur bátur til hjálpar en áhöfnin var búin að slökkva áður en hann næði til Ernu. Veður hefur verið slæmt í Siglufirði í hálfa aðra viku. og skipin legið inni. í gær létti til og héldu mörg Íslenzku skipin suður en útlendu skipin út á mið.

------------------------------------------------------

Mjölnir 1. apríl 1953 Bæjarpósturinn

Hvað yrði ef eldsvoða bæri að  höndum:

Í vikunni, sem leið hlóð  niður miklum snjó hér í bænum. Eru  því víða gríðarstórir skaflar, jafnt á  götum sem annarsstaðar. Lítið hefur  verið gert að því að ryðja snjó af  götum síðan upp stytti, nema þá fjölförnustu götum í miðju bæjarins.  víðast eru göturnar ófærar bílum og  hefur mörgum dottið í hug að erfitt  myndi reynast að koma til hjálpar  ef eldsvoða bæri að á þeim svæðum,  sem götur eru ófærar.

En máski er eins með ófærðina  og hálkuna að dómi bæjarverkstjóra að það borgi sig alls ekki að útrýma  henni.

------------------------------------------------

Morgunblaðið 2 júlí 1953

Maður á Siglufirði brennir niður hús sín — Kvaðst sjálfur raða hvað hann gerði við þau. 

Vildi selja þau á 150 þús. en fékk 15 þús. kr. tilboð 

ÞRÍR REYKJASTRÓKAR

Um klukkan sex í gærmorgun, er árrisulustu bæjarbúar á Siglufirði, fóru á stjá, veittu þeir því eftirtekt, að þrjár reykjarstróka lagði í loft upp frá húsum þeim, sem maður að nafni Nörregaard á, og standa í Skútulandi. Er það að austan-verðu við fjarðarbotninn. Menn brugðu skjótt við og var farið á vettvang. — 

Þegar komið var að vegamótum við Hól, stóð Nörregaard þar við veginn með töskur sínar, en íbúðarhús hans, sem stendur þar spottakorn frá, nokkuð stórt hús, hænsnahús hans hans og geymsla, stóðu í björtu báli, og meira að segja móhraukur nokkur, sem stóð þar nálægt.

ÉG RÆÐ SJÁLFUR

Nörregaard kvaðst hafa ætla að bíða langferðabílanna suður. Er hann var spurður um eldsupptök- Þá kvaðst hann sig ráða hvað hann gerði við eignir sínar, Þær hafði hann reynt að selja fyrir 150 þús. kr. Honum voru boðnar í þær 15 kr. Því boði hafnaði hann og kvaðst þá heldur mundu brenna húsin.  Þá hafði maður nokkur boðið honum 100 krónur fyrir móhraukinn, en fyrir hann vildi Nörregaard fá 200 krónur.  

HÚSIN BRUNNU 

Slökkviliðið á Siglufirði kom á vettvang, en fékk ekki við eldinn í húsunum ráðið, og brunnu þau öll. Lögreglan tók Nörregaard, sem er um sextugt og sem fyrr segir, var hann sendur hingað til Reykjavíkur í gær til rannsóknar. Maður þessi var hér í Reykjavík í vetur og tók þá lögreglan hann ofurölvi í Hafnarstræti og var hann þá með á sér um 90 þús. kr. í peningum. Hingað til landsins kom Nörregaard árið 1928 með manni, sem nefndur var var sandpumpu-Christiansen. 

-------------------------------------------------

Mjölnir 9 júlí 1953

Bruninn á Grandanum 

Sá atburður gerðist aðfaranótt 1. júlí, að danskur maður, Aage Nörregaard, sem búið hefur hér fyrir handan fjörðinn í nokkur ár og allir bæjarbúar kannast við, kveikti sjálfur í húsum sínum. Sást reykurinn úr bænum og fór brunaliðið og lögreglan á vettvang. Er komið var að vegamótunum fyrir framan bæinn stóð Nörregaard þar með farangur,

Kvaðst hann hafa ætlað að bíða þar eftir áætlunarbílnum til Reykjavíkur. Játaði hann síðar fyrir rétti, að hann hefði kveikt sjálfur í húsum sínum. Ætti hann þau skuldlaus og réði sjálfur hvað hann gerði við eigur sínar. 

Nörregaard, sem mun hafa verið búinn að ákveða að flytja til ættlands síns, hafði reynt að selja hús sín og aðrar eignir handan fjarðarins, en ekki fengið þau verðtilboð, sem hann þóttist geta unað við. Nörregaard hefur átt heima hér í bænum í um eða yfir 20 ár. Undanfarin ár hefur hann búið fyrir handan fjörð og stundað þar aðallega garðrækt og hænsnarækt. Hefur hann yfirleitt verið vel látinn. — 

Hann var sendur suður til geðrannsóknar daginn eftir íkveikjuna og hefur blaðið ekkert frétt af máli hans síðan.

------------------------------------------------------ 

Tíminn 28 október 1953

Reykhús brennur á Siglufirði

Í fyrrinótt brann til kaldra kola reykhús í Siglufirði og munaði minnstu að eldurinn ylli meira tjóni, þar sem þéttskipað er timburhúsum allt í kringum brunastaðinn. Reykhúsið, sem kennt er við svonefnda Gústabræður, var fremur lítil timburbygging og var þar verið að reykja allmikið magn af kjöti, þegar brunann bar að höndum um klukkan hálfsex í gærmorgun.

Var eldurinn á svipstundu svo magnaður, að við ekkert varð ráðið og brann húsið og allt sem í því var til ösku að kalla. Bæði húsið og það sem í því var, var allt óvátryggt og hafa eigendur því orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni. Húsið stó‘ í miðbænum í Siglufirði við Lækjargötu. Logn var þegar húsið brann, svo næstu hús sluppu við tjón af eldinum.

------------------------------------------------------ 

Mjölnir 28 október 1953

Eldsvoði. 

Aðfaranótt s.l. þriðjudags brann lítið reykhús, sem þeir Þórarinssynir áttu og stóð að húsabaki á lóð þeirra við Lækjargötu. Var það alelda þegar eftir var tekið um morguninn og ógerningur að bjarga nokkru af kjötinu, sem í því var. Mikið af kjöti var í húsinu, eign þeirra bræðra, ca. 10 þús. kr. virði og var það og húsið óvátryggt. Er þetta tilfinnanlegur skaði og mikill fyrir þessar fjölskyldur. 

------------------------------------------------------ 

Tíminn 17 desember 1953

Stórbruni á Siglufirði í nótt - Frá fréttaritara Tímans í Siglufirði.

Mikill eldsvoði varð í Siglufirði í nótt. 

Brann stórhýsi, sem tilheyrir síldarverksmiðjunni S.R. 30 og er mjöl skemma hennar. Húsið var úr bárujárni á timburgrind og timburloftum og þiljum, sem kominn var í mikill grútur eftir margra ára notkun og því eldfimt mjög. Það voru skipverjar á togaranum Hafliða, sem fyrst urðu eldsins varir um klukkan hálf tólf, en togarinn var þá að koma af veiðum.

Slökkviliðið fór þegar á vettvang, en þá logaði í skemmunni stafna á milli og sums staðar upp úr þakinu. Eftir um það bil klukkustundar viðureign tókst að dempa eldinn að mun. Járnplöturnar á þakinu voru þá sumar orðnar logandi rauðar af bálinu, sem undir þeim var kynt. Ekki var talin nein hætt a á því, að eldurinn breiddist út.

Mjölgeymsluhúsið stendur annars í verksmiðjuþyrpingunni og ekki nema nokkra metra frá S. R. 46. En sú bygging er úr steinsteypu. Í mjölskemmunni sem brann var ekki mjöl. Hins vegar voru þar geymdar ýmsar vörur, sem síldarverksmiðjurnar áttu viðvíkjandi rekstrinum.

------------------------------------------------------

Siglfirðingur 17. desember 1953

Eldur kom upp í S.R. hér í  bæ í gærkveldi.

Laust eftir kl. 11 í gærkvöldi  kom upp eldur í einni af byggingum Síldarverksmiðja ríkisins.

Upptök eldsins munu ókunn, en  álitið er, að hann hafi átt upptök  sín í kaffistofu áfastri við gamla  mjölhús S.R.30.

Brann kaffistofan svo að segja  á svipstundu, en eldurinn læsti sig inn í loftið á mjölhúsinu, brann það talsvert að innan og  járn á þaki og ofarlega á hliðum  eyðilagðist. Á lofti mjölhússins,  var geymt ýmiskonar varningur,  m.a. mikið af korki. Þar var og  einnig mikið af fræsi. Í þessu lék  eldurinn sér, og var erfiðleikum  bundið að slökkva í korkinum, en  tókst þó.

Niðri í mjölhúsinu voru geymdar smurningsolíur í járntunnum  og ýmsir varahlutir véla. Ekki  náði eldurinn þangað. Eins og  fyrr segir munu upptök eldsins  ókunn, og enn hefur ekki verið  að öllu athugað um tjón af völdum eldsins. 

-----------------------------------------------

Mjölnir 30. desember 1953 - Bæjarpósturinn

Bruninn í S.N.'30. - Undanfarið  hefur staðið yfir rannsókn vegna  brunans í gömlu mjölskemmu S.R.'30  þann 16, þ.m. Hefur sannast, að  unglingar hafa um alllangt skeið getað komist inn í kaffistofu skemmunnar og m.a, farið þangað til að  reykja á laun.

Hafa nokkrir unglingar játað að hafa farið inn í kaffistofuna daginn, sem bruninn varð.  og a.m.k. tveir þeirra reyktu þar. Eru taldar líkur á að kviknað hafi  í skemmunni vegna ógætnilegrar meðferðar unglinga með eld í kaffistofunni. Rannsókn málsins var ekki lokið í  gær, þegar blaðið hafði tal af lögreglunni.