Brunar 1969-1975 á og tengt Siglufirði

Tíminn 3 janúar 1969 Hluti af samantekt frétta frá áramótum.......

Á Siglufirði sprakk flugeldur inni í húsi rétt um áramótin. Voru börn að fikta við flugeldinn þegar hann sprakk. Kviknaði í herberginu, en slys urðu ekki á fólki. Slökkviliðinu tókst að slökkva áður en eldurinn náði að breiðast út í húsinu...................

-------------------------------------------------

Morgunnblaðið 29 september 1970 - Siglufirði, 28. september

Innbrotafaraldur,  og íkveikja á Siglufirði 

AÐ MORGNI þriðjudagsins 22. síðastliðins varð maður var við talsverðan reyk koma úr  mannlausu húsi hér í bæ og gerði hann umsvifalaust slökkviliðsmanni, sem hann hafði séð á  gangi í nágrenninu viðvart og innan nokkurra mínútna hafði slökkviliðsmönnum tekist að ráða  niðurlögum eldsins með slökkvitækjum.  

Eldurinn var ekki mikill, aðeins ný kviknaður, en það sem þeim er að komu virtist undarlegt,  var að brjótast þurfti inn í húsið gegnum tvílæstar dyr, þar sem neglt var rækilega fyrir alla  glugga í hinu yfirgefna húsi . Húsið er eims konar braggi. Ekkert rafmagn var á húsinu og  ummerki þannig að talið er að um íkveikju sé að ræða. Ef það reynist rétt, þá mun brennuvargurinn hafa sloppið. Samkvæmt upplýsingum bæjarfógeta,, Elíasar Í. Elíassonar er  málið í rannsókn

Nokkuð hefur borið á innbrotum og öðrum afbrotum að undanförnu hér, m.a. var brotist  inn í Áfengisverslun ríkisins fyrir nokkru, en þar voru menn staðnir að verki. Tvö til þrjú innbrot  eru enn óupplýst, þar á meðal innbrotið í afgreiðslu Morgunblaðsins í fyrri viku. Nokkuð hefur  og borið á ölvun unglinga hér í bæ, m. a. síðastliðið 1augardagskvöld. Þá munu ærsl hafa. verið  á götum úti, m. a. brotnar tvær rúður og kveikt bál í rusli og bensíni á götum.          SK

-------------------------------------------------- 

Morgunblaðið 29 október 1970 - Siglufirði, 27. október.  

Eldur í báti á reginhafi.

ELDUR kom upp í vb. Tjaldi frá Siglufirði, er hann var að sigla til veiða í gærmorgun  Skipverjum tókst að hefta útbreiðslu eldsins, og sigla til hafnar aftur, þar sem slökkviliðið beið  og slökkti eldinn.  

Tjaldur hafði siglt í rúma klukkustund, þegar menn í stýrishúsi skipsins sáu háseta, sem  sofa átti fram í káetu koma upp. Hann gerði vart við sig, en fór síðan niður aftur til svefns.  Kom síðar í ljós, ati hann hafði aðeins farið upp til að fá sér frískt loft, þar sem honum þótti  óþægilega heitt niðri í káetunni. Þegar þessi maður kom niður aftur  gaus skyndilega upp eldur bak við kabyssuna, og flýtti maðurinn sér þá hið skjótasta út, og  gerði aðvart. 

Skipverjar hófu strax slökkvi starf. Tæmdu þeir úr öllum slökkvitækjum á eldinn, en dældu  einnig sjó á eldinn, auk þess sem þeir byrgðu öll op til að kæfa eldinn. Þessu næst höfðu þeir  talsamband við nálægan bát og báðu hann að vera til taks, ef á þyrfti að halda.

Eins var haft  samband við land, og beðið um að slökkvilið væri til taks, er báturinn kæmi að. Var þessu næst  siglt á fullri ferð til lands, og beið slökkviliðið við bryggjuna, og slökkti eldinn að fullu, en hann  var þá orðinn lítill. 

Tjaldur, sem er um 70 tonna bátur, var minna skemmdur, en búast mátti við. Beðið er  matsmanns, og enn ekki ljóst, hversu mikil viðgerð verður að fara fram.           - S.K.

----------------------------------------------

 Morgunblaðið 7 febrúar 1974

Sex rollur brunnu inni 

Siglufirði. 6. febrúar. RÉTT um hádegisbil var slökkviliðið kvatt út og var þá kviknað i fjárhúsi i útjaðri bæjarins. Strax og komið var að fjárhúsinu tókst að bjarga einni rollu af sjö, sem vora þar inni. Hinar brunnu inni og fjárhúsið e r gjörónýtt.

Talsvert af heyi í hlöðu skemmdist. Eldsupptök eru ókunn, en gizkað vr á að kviknað hafi i út frá rafmagni. Erfiðleikum var háð að slökkva eldinn vegna þess að þrír næstu brunahanar voru óvirkir. Var hinn 30 ára gamli slökkviliðsbíll því í stanzlausum ferðum að sækja vatn. Slökkvibúnaður hér í Siglufirði er mjög bágborinn og stafar það af peningaskorti. — Steingrímur.----------------------------------------------

Tíminn 7 febrúar 1974  - GSal-Reykjavík

FJARHÚS BRENNUR— Laust eftir hádegi i gær, kom upp eldur i fjárhúsi á Siglufirði. Sex kindur af sjö drápust i eldinum, auk nokkurra hænsna og eitthvað tjón varð af heybruna. Fjárhúsið var meðal yztu húsa i bænum og hafði eigandinn stundað smábúskap um tíma.

----------------------------------------------

Mjölnir 22 febrúar 1974

Brunavarnir í Siglufirði

Mikil umræða hefur verið hér í bænum undanfarið um brunavarnir, og má án efa rekja það til þess, er fjárhús Sigurðar Jakobssonar brann fyrir skömmu. Þá kom m. a. í ljós að brunahanar í næsta nágrenni við staðinn voru óvirkir þ. á. m. brunahani við Sjúkrahús Siglufjarðar.

Slökkviliðsbifreið sú afgömul, sem hér er til staðar er án efa þarfasta þing við sumar aðstæður, en almennt notagildi hennar er því miður alltof takmarkað. Bæjarfulltrúar AB gerðu þessi mál að umtalsefni á síðasta bæjarstjórnarfundi og bentu m. a. á, að strax þyrfti að setja upp nýja og örugga brunahana við Sjúkrahúsið og skólana, en stefna að öðru leyti að því að endurnýja alla brunahana í bæn um á næstunni.

Engar tillögur voru fluttar um málið, önnur en sú að bæjarverkfræðingi var falið að kanna alla brunahana í bænum við fyrstu hentugleika. Nýir brunahanar af bestir gerð munu kosta um 100.000 kr. hver uppsettir, þannig að hér e r um töluverðan kostnað að ræða, en í þessu máli má ekki og á ekki að spara.

Hvað bílakost slökkviliðsins viðkemur beindu bæjarfulltrúar AB því til bæjarstjóra og bæjaráðs, hvort ekki væri rétt að stefna að því að bærinn eignaðist liprara tæki til þessara þarfa t. d. sérbyggða jeppabifreið, en slík tæki hafa gefist vel. Bæjarbúar eiga kröfu á því að brunavarnirnar séu ávallt í besta lagi, og enginn Siglfirðingur sér eftir peningum til þeirra þarfa.

----------------------------------------------------------

SPRENGING varð f olíukynditæki hússins númer 31 við Hverfisgötu á Siglufirði um hádegisbilið f gær. Feikn af reyk og sóti bárust um allt húsið en eldur, sem kviknaði við sprenginguna, náðist ekki að breiðast út og slökknaði hann af sjálfsdáðum.

Húsmóðirin Halldóra Jónsdóttir var ein heima þegar atburðurinn gerðist og svaf hún í herbergi á neðri hæð hússins. Hún vaknaði við reykinn og gat komizt út og gert slökkviliði viðvart. Þykir mesta mildi að hún skyldi hafa vaknað áður en reykurinn gat gert henni mein. Þykkt sótlag er um allt húsið, sem er tvær hæðir, og er jafnvel talið, að innbú allt sé ónýtt og tjónið skipti jafnvel milljónum.

Húsið þarf að þrífa upp og mála hátt sem lágt. Morgunblaðið náði sem snöggvast tali af Halldóru Jónsdóttur f gærkvöldi, en hún bjó í húsinu ásamt manni sinum Jóhannesi Þórðarsyni yfirlögregluþjóni, en hann dvelur um þessar mundir á sjúkrahúsi og er Halldóra því ein heima. „Ég vaknaði ekki við sjálfa sprenginguna, en hins vegar vaknaði ég við reykinn," sagði Halldóra. „Ég dreif mig strax út og gerði viðvart um atburðinn.

Annars vil ég sem minnst tala um þetta óhapp. Ég hef fengið nokkra sérfróða menn til að lita á vegsummerkin og telja þeir tjónið mjög mikið." Jón Dýrfjörð vélvirkja- og pípulagningameistari var staddur á heimili Halldóru þegar Mbl. hringdi þangað.

Hann sagði, að skýring á sprengingunni væri líklega sú að spennufall hefði verið í bænum í gærmorgun. Hefði þá olía líklega komizt inn í eldhólf kyndingarinnar og kviknað í henni þegar spennan jókst að nýju. Lítill eldur hafi myndazt, og hafi hann að mestu verið slokknaður þegar slökkviliðið kom á staðinn.

Væri mesta mildi að Halldóra skyldi hafa vaknað þegar reykurinn breiddist út. Jón kvað tjónið á íbúðinni gífurlegt, og skipti það eflaust milljónum króna. Innbú væri líklega ónýtt, teppi, húsgögn, fatnaður og annað og íbúðina þyrfti að taka í gegn hátt og lágt, þrífa og mála. Þá væri olíukyndingin mikið skemmd. Þykkt sótlag væri á öllu í íbúðinni.

-------------------------------------------------- 

Morgunblaðið 17 janúar 1975

Eldur hjá Þormóði ramma Siglufirði, 15. janúar. 

RÉTT fyrir klukkan 16 í dag kviknaði i kaffistofu og skrifstofubyggingu Þormóðs ramma á hafnarbryggjunni. Talið er að kviknað hafi í út frá ljóskastara. Skemmdir urðu töluverðar, en þar sem staddir voru margir menn á bryggjunni, þá gátu þeir með slökkvitækjum slökkt eldinn. Veður hér hefur skánað mikið og er orðið allsæmilegt. — MJ.

--------------------------------------------------

Morgunblaðið 28 maí 1975 - Siglufirði 27. mal

Sprenging í barnaheimili.

Í MORGUN kviknaði í miðstöðvarklefa i barnaheimilinu á Siglufirði. Eldurinn var fljótlega slökktur, en víða um húsið fór reykur og olíusót. Sprenging varð í klefanum, en ekkert henti börnin sem voru á barnaheimilinu. Barnaheimilið verður lokað í nokkra daga á meðan lokið verður við hreinsun. — m.j.