Verzlun og veitingasalur á Siglufirði eyðilagðist af eldi

Alþýðublaðið 9 janúar 1953  -- Frá fréttaritara Alþýðublaðsins SIGLUFIRÐI í gær.

GEYSIMIKIÐ TJÓN hlauzt af eldi, er upp kom í kvikmyndahúsi Siglfirðinga, Bíókaffi, í nótt. Mestar skemmdir urðu þó ekki í sýningarsal hússins, heldur í verzluninni Bræðrá, veitingasal þess og húsgagnaverkstæði. 

Kl. 12,30 í nótt var slökkvilið staðarins kvatt á vettvang og kom það strax. Tók það þegar til við að slökkva eldinn, og gekk það greiðlega, því að logn var á. Þó var því ekki forðað að  miklar skemmdir yrðu á bæði húsinu sjálfu og ýmsu er í því var.

Verslunin Bræðrá varð fyrir mjög miklu tjóni, bæði að völdum elds og vatns, og skemmdist hún mikið og allar vörur hennar, Eigandinn verslunarinnar er Sigfús Þorgrímsson. Veitingasalurinn Bíókaffi varð einnig fyrir miklum skemmdum, og komst eldurinn í þakið og logaði þar upp úr. Húsgagnaverkstæði, sem var hér til húsa, varð fyrir miklum skemmdum, bæði vörur þess og vörubirgðir.

Sýningarsalur kvikmyndahússins slapp þó best. Samt urðu þar nokkrar skemmdir, einkum af völdum reyks og vatns. Hús þetta stendur á horni Aðalgötu og Lækjargötu, var eitt stærsta hús hér. Það er eldfimt mjög og er það hin mesta mildi að ekki hlauzt stórbruni af. Húsið er eign Hinriks Thorarensens-bræðra. Ekki er enn vitað hvað íkveikjunni olli, en verið er að rannsaka málið. 

-----------------------------------------------------

Tíminn 9 janúar 1953 - Frá fréttaritara Tímans á Siglufirði

Stórt hús á Siglufirði skemmist mjög í eldi. 

Vörur eyðilögðust, kvikmyndir og sýningarvélar í hættu, húsgögn skemmdust

Um klukkan 12,30 varð elds vart í svonefndu Bíókaffi, gamalli stórbyggingu við Aðalgötu 30, eða á horni Aðalgötu og Lækjargötu á Siglufirði. Skemmdist húsið mikið af eldi og vatni, en slökkviliðinu tókst að slökkva eldinn á tveimur klukkustundum og bjarga húsinu frá eyðileggingu 

Í húsinu var margháttaður rekstur, verzlun, sælgætis og tóbakssala, sýningarstofa fyrir húsgögn og kvikmyndasýningar. Ekki er talið víst hvar eldurinn kviknaði, en þó telja menn það líklegast, að það hafi verið í smáherbergi innan af sölubúð verslunarinnar Bræðrá, sem hafði húsnæði á neðri hæð aðalhússins. 

Mikið vörutjón

Í versluninni Bræðrá, sem er í eign Vigfúsar Þorgrímssonar, urðu mestu skemmdirnar. Munu vörurnar, sem voru bæði matvara og vefnaðarvara hafa eyðilagst að miklu leiti, en þær voru vátryggðar fyrir um 200 þúsund kr. Hjá  Samvinnutryggingum. 

Sælgætisvörur fyrir nokkur þúsund

Yfir versluninni Bræðrá var sælgætis og tóbakssala í sambandi við kvikmyndahúsið, og eyðilögðust þar vörur fyrir þúsundir kr. og voru þær óvátryggðar. Voru þar litlar vörubirgðir. 

Kvikmyndavélar óskemmdar.

Í viðbyggingunni var kvikmyndasalur Siglufjarðarbíós, en sýningarklefi í aðalhúsinu uppi. Kvikmyndasalurinn skemmdist ekki teljandi, aðeins lítilsháttar af vatni og reyk, en sýningarklefinn skemmdist nokkuð af eldi.

Kvikmyndavélar eru þó taldar óskemmdar. Allmörgum kvikmyndum, sem þarna voru í geymslu, tókst að bjarga út áður en þær yrðu eldinum að bráð, og var það mildi, því að kvikmyndafilmur eru mjög eldfimar.  

Húsgögn í hættu.

Við hlið verzlunarinnar Bræðrá var húsnæði, sem Haukur Jónasson notaði fyrir sýningarstofu húsgagna, en hann er húsgagnabólstrari. Skemmdust stólar og fleiri húsgögn eitthvað af vatni og reyk. Voru þau vátryggð.

Hjörleifur Magnússon, settur bæjarfógeti, hafði rannsókn málsins með hönd um og sagði hann eldsupptök ókunn í gær. Þak hússins var rifið til þess að komast að eldinum. Skemmdir á húsinu eru miklar, þótt ekki sé það eyðilagt. Hús þetta var að mestu steinbygging allgömul og innréttuð að mestu með trjáviði.

------------------------------------------------  

Siglufirði árið 2017 - Neðanritað er skráð af undirrituðum. (unnið frá dagbókarfærslu sk frá 1953)

Að gefnu tilefni, vegna fréttarinnar hér ofar og sem endurtekið var í fleiri blöðum víðar. 

Það er að sýningaklefinn hafi skemmst nokkuð af eldi. 

Það var þvæla; Hvorki eldur né vatn komst inn í klefann. Um það get ég borið því þar var ég staddur inni í húsinu eftir að eldurinn hafði magnast til muna. 

Í framhaldi skýri ég hér frá, ástæðum þess að ég var þarna á þessum tíma:

Faðir minn Kristinn Guðmundsson sem hafði verið sýningarmaður í Nýja Bíó á Siglufirði allt frá unglings aldri og var það á þessum tíma einnig, og ég frá 14 ára aldri sem afleysingamaður hans og þekkti því vel þessi húsakynni. 

Faðir minn, nýkominn heim eftir kvöldsýningu, var strax látinn vita af brunanum og ég þá 18 ára (þá enn búsettur hjá foreldrum mínum) fórum strax á vettvang.  

Þar hitti Oddur Thorarensen okkur og bað pabba hálf grátandi að fara með slökkviliðsmanni upp í sýningaklefa og filmugeymslu til að reyna að bjarga filmusafninu, sem var alls um 9-10 (um 40-50kg. hver pakki) kvikmyndir og aðeins þrjár þeirra væru fast tryggðar (tryggingasamkomulag) – 

Faðir minn þvertók fyrir það að hann gæti gert það, hann hreinlega treysti sér ekki til þess, minnugur eldsvoðanum sem hann lenti í þarna í árið 1936 og skaðbrenndist.

Ég sagði Oddi að ég skyldi fara upp og sjá um málið. Pabbi maldaði í móinn en þekkti mig nóg til þess að hann hætti því fljótlega.

Eldhafið var í húsinu að vestanverðu en sýningarklefi og filmugeymsla í austanverðu húsinu. Ég taldi, miðað við verstu aðstæður þá tæki það slökkviliðið að minnsta kosti 30-40 mínútur að hindra að eldurinn bærist í austurendann, jafnvel tækist þeim að slökkva eldinn og koma í veg fyrir að eldurinn næði svæðinu, sem og þeim tókst.

Inngangur til sýningarklefans var norðan við húsið, í sundi á milli lóðar Apóteksins og bíósalarins, þar gengið upp tröppur inni í húsinu til efri hæðar.

Þegar ég mætti þar, voru nokkrir slökkviliðsmenn þar fyrir. Sett var á mig reykgríma og um mig bundinn öryggislína sem svo var tengd við slökkviliðsmann sem var Helgi Sveinsson, og svo til mannanna sem við innganginn voru.

Helgi hélt um slakann á öryggislínunni sem tengdi okkur og fylgdi mér fast eftir.

Strax og upp undir skörina kom, mætti okkur kolsvartur reykur svo þéttur að vasaljósin sem við vorum með gerðu ekkert gagn, svo ég stakk mínu í vasann, enda gengið þessa leið þúsund sinnum. Við gengum að glugga filmugeymslunnar og ég opnaði hann og byrjaði að flytja filmustafla, um 40-50 kg. hver kvikmynd, út um gluggann þar sem menn voru á vörubílspalli þétt við húsið og tóku á móti.

Ég hafði gleymt Helga í ákafanum, enda sá ég hann aldrei fyrir reyknum eftir að upp var komið. En heyrði svo í honum allt í einu hann sagði að við þyrftum að forða okkur strax.

Ég áttaði mig ekki á því hvers vegna við ættum að forða okkur, þar sem ég skynjaði engin merki um eld. 

En vissi þó að ef eldur kæmist nálægt okkur þá væri voðinn vís vegna hinna eldfimu filma sem ég var að handleika. (þessar filmur voru úr nitrit efni, sem samsvaraði því sem notað var í skotfæri á stríðsárunum) 

En áður en ég vissi af, skall ég á gólfið og dróst einn til tvo metra eftir gólfinu í átt til dyra. Ekki áttaði ég mig strax á því hvað skeð hefði.

En í ljós kom að reykgríma sú er Helgi var með var ekki í lagi og hafði hann ekki fengið nægilegt súrefni og flýtti sér í ofboð út, en hafði ekki skynjað tröppuskörina og rúllaði niður stigann og tók mig með í fallinu, sem  betur fór, dró úr fallhraða Helga niður brattann stigann. 

Sem betur fór meiddist hvorugu okkar, Helgi var þó nokkra stund að jafna sig á súrefnisskortinum. Ég kallaði niður til strákanna og bað þá að aftengja öryggislínuna, frá Helga, þar sem ég ætlaði að halda áfram þar sem frá væri horfið, ég þyrfti enga aðstoð, eða öllu heldur, ég einn vissi hvar filmurnar væru og ég rataði þó ekkert sæist fyrir reyknum, því óþarfi að senda annan mér til aðstoðar. 

Það verk gekk mjög fljótt og vel fyrir sig, þar sem mennirnir á bílpallinum unnu sitt verk eins og þeirra var vani. Þegar öllum filmunum í filmugeymslunni hafði verið bjargað, sagði ég strákunum að ég ætlaði til sýningarklefans, en þar væru filmurúllur frá síðustu sýningu.

Það gerði ég, og í leiðinn þreifaði ég fyrir mér í klefanum sjálfum og náði þar nokkrum gagnabókum sem þar voru varðveittar (sumar þeirra eru varðveittar í dag hjá mér og einnig í Bókasafninu.)  

Af eldinum sem kviknað hafði í bakherbergi verslunarplássins Bræðrá er það að segja, að þetta var barnalega framkvæmd íkveikja. Vegsummerki voru það augljós eð engan sérfræðing þurfti til að sjá það. Það átti að líta svo út að kviknað hefði út frá rafmagni. En það sást greinilega á brunarústunum að svo var ekki.

Naglfast skápborð var við norðurvegginn, þar var um það bil fyrir miðju, rafmagnstengill í um 25sm. ofan við borðflötinn og utaná liggjandi rafmagnsrör sem lá til lofts, til efri hæðar. 

Hluti borðplötunnar neðan við rafmagnstengilinn var talsvert meira brunninn sitthvoru megin, svo og neðan við tengilinn, svo auðvitað einnig ofan hans upp til lofts, brenndi gat á loftið/gólfið og eldurinn þá einnig eftir það, upp á BÍó Cafe sem var á hæðinni fyrir ofan og sem var rekinn af Thorarensen en ekki Bræðrá eins og mátti skilja á blaðafréttum, sem voru mjög brenglaðar og nokkuð langt frá hinu raunverulega.

Þannig að eldfimum vökva hefur verð skvett á tengilinn og upp úr, en eðli málsins samkvæmt, þá rennur vökvi niður og eldurinn að mestu upp. Vökvinn hefur því breiðst um borðflötinn neðan tengils og því brunnið skarpt og meira á þeim stöðum sem vökvinn hafði snert.  

Enda viðurkenndi sá sem olli verknaðinum. 

Hvað hinnar meintu skemmdir í sýningarklefanum snertir, þá þurfti þar ekki annað en þrif á sýningarvélunum, góða hreingerningu og nýja málningu á veggi og loft auk skápsins, þar sem áðurnefnd gögn voru geymd í ásamt fleiru.

Steingrímur Kristinsson  - sýningarmaður í 50 ár