Tengt Siglufirði
Siglfirðingur 21. maí 1932
Eldsvoði.
Húsið "Haugasund" brann til kaldra kola í gærmorgun.
Í gærmorgun, um sjöleitið, varð vart elds í húsinu "Haugasund" (Suðurgata 2) hér í bænum. Eldurinn kom upp með þeim hætti, að annar eigandi hússins, Gunnar Bílddal, sem bjó í vesturenda þess, Hafði verið að hita asfalt (stálbik) á olíuvél, til að gera að gólfi í húsinu.
Hafði hann gengið frá vélinni og niður á náðhús, en þegar hann kom upp aftur stóð allt herbergið í björtu báli, og var eldurinn þegar svo magnaður, að við ekkert varð ráðið. Slökkvilið var þegar til kvatt, en þegar það hafði komið brunaslöngum fyrir, logaði húsið allt innan
Veður var blækyrrt, og var því auðvelt verk fyrir slökkviliðið að verja næstu hús. Kjötbúðina og kaupfélagið, enda sakaði þau ekkert. Húsið brann að mestu á tæpri klukkustund. Það féll þó aldrei með öllu, og hangir austurendi þess uppi enn. Slökkviliðið gekk mjög vasklega að verki, eins og svo oft áður, og tókst því að slökkva eldinn að fullu á rúmum klukkutíma.
"Haugasund" var all stórt tveggja hæða hús og stóð þar sem mætast Aðalgata og Suðurgata, á horninu vestan við Lækjargötu. Það var byggt fyrir þá Magnús Þórðarson og Guðbrand Samúelsson veturinn 1919, úr timbri og járnklætt. Núverandi eigendur þess voru þeir H. Thorarensen læknir og Gunnar Bílddal kaupmaður. Bjuggu þeir báðir í húsinu, Bíldal niðri í vesturendanum, en Thorarensen uppi í austurendanum.
Úr íbúð Bílddals bjargaðist eitthvað lítils háttar af innanstokksmunum, en Thorarensen, sem var nýfluttur í húsið og bjó þar einn uppi í austurendanum, bjargaðist slippur og mátti varla tæpara standa.
Tvær sölubúðir voru í húsinu og höfðu eigendurnir þar verslanir, hvor í sínum enda. Úr þeim bjargaðist sama og ekkert.
Húsið var vátryggt í Brunabótafélagi Íslands, vörur Thorarensen munu og hafa verið vátryggðar, en innanstokksmunir ekki. - Húsmunir Bílddals og búðarvarningur mun og hafa verið óvátryggt. Bíða þeir því báðir all-tilfinnanlegt tjón.
----------------------------------------------------------------
Morgunblaðið 21 maí 1932 - Siglufirði, FB. 20. maí
Húsbruni á Siglufirði.
Húsið Suðurgata 2, „Haugasund", brann til kaldra kola í morgun. Eldurinn kviknaði frá olíuvjel, sem var notuð við aðgerð á gólfi uppi í vesturendanum. Magnaðist eldurinn svo fljótt, áð húsið varð alelda á svipstundu, en fólk bjargaðist án þess slys yrði af. Sárlitlu af húsmunum var bjargað. Haugasund var tveggja hæða timburhús allstórt.
Áttu þeir það Thorarensen læknir og Gunnar Bíldal. Í húsinu voru tvær sölubúðir og brunnu allar vörubirgðir, sem þar voru. Húsið var trygt í Brunabótafjelagi Íslands. Vörur Thorarensens, sem átti austurenda, munu hafa verið vátrygðar, en Gunnars, sem verslaði í vestari búiðinni, munu hafa verið óvátrygðar. Innbú beggja húseigenda, sem bjuggu í húsinu, voru óvátrygð. — Blíðalogn var og tókst hæglega að verja nálæg hús, án þess þau yrði fyrir skemdum.
Viðbót síðar.
Upptök eldsins voru sem hjer segir. — Íbúð á efri hæð hússins, í vesturendanum, var laus, en átti að leigjast ljósmyndasmið. Þar er ljósmyndastofa ásamt myrkraherbergi. Gólfið í því herbergi var óþjétt, en var búist við óþægindum af því, er herbergið yrði tekið í notkun, vegna þess, hve vatn yrði þar mikið notað.
Húseigandinn, Gunnar Bílddal, hugsaði sjer að þjetta gólfið með biki, og hafði hann sett það til suðu á olíuvjel, en gengið frá vjelinni síðan, niður í búðina á neðri hæð. — Er hann kom upp aftur, að vörmu spori, var herbergið alelda. Hefir bikið sennilega soðið upp úr og kviknað í öllu saman. Eldurinn magnaðist svo fljótt, að eigi voru tiltök að reyna að bjarga neinu úr húsinu. Kona Gunnars er veik, og hefir verið rúmföst um tíma.
Tókst að bjarga henni úr eldinum, án þess hana sakaði. Tæpar mun hafa staðið fyrir Hinrik Thorarensen lækni að komast klakklaust úr eldinum. Hann var sofandi, er kviknaði í húsinu. Hann komst út í nærklæðum einum. — Hann náði alls engu úr íbúð sinni.
Kona hans og börn eru hjer í Reykjavík, hann var nýkominn norður.